Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 144 . mál.


171. Frumvarp til lagaum breyting á áfengislögum, nr. 82/1969, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde,


Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Bergvinsson.1. gr.


    Í stað „20 ára“ í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: 18 ára.

2. gr.


    Í stað „20 ára“ í 1. og 3. málsl. lokamálsgreinar 19. gr. laganna kemur: 18 ára.

3. gr.


    Í stað „20 ára“ í e-lið 34. gr. laganna kemur: 18 ára.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1996.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að aldursmörk til kaupa og neyslu á áfengi verði færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Í ljósi umræðna um vaxandi vímuefna- og áfengisnotkun ungmenna gæti slík breyting á áfengislögunum virst mótsagnakennd. Ástæða er hins vegar til að ætla að ákvæði áfengislöggjafarinnar um 20 ára aldursmörk séu í reynd óvirk því að þeim sem ætla sér að neyta áfengis og eru undir 20 ára aldri eru yfirleitt opnar leiðir til að ná sér í áfengi þegar þeim hentar. Engin vörn er því í umræddu ákvæði. Þvert á móti ýta þessi ákvæði, sem fólk virðir ekki, undir ólöglegan innflutning á áfengi, aukna neyslu á bruggi og landasölu og jafnvel fíkniefnaneyslu unglinga.
    Athyglisvert er að fram hefur komið hjá SÁÁ að undanfarin þrjú ár hafi ólögleg framleiðsla og sala á landa aukist verulega. Neytendur þessa ólöglega áfengis eru einkum unglingar. Á sama tíma og þessi umsvif virðast aukast dregur verulega úr kannabisneyslu og nokkuð úr amfetamínneyslu hjá þessum aldurshópi. Orðrétt segir um þetta efni í blaði SÁÁ:
    „Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um ólöglega framleiðslu og sölu á landa. Þessi sala hefur einkum beinst að unglingum. Á sama tíma og hægt er að ganga að því sem vísu að ólögleg áfengisneysla hafi aukist meðal unglinga sést að ólögleg kannabis- og amfetamínneysla hefur dregist saman meðal unga fólksins á Íslandi undanfarin tvö ár.“
    Af framansögðu er ljóst að þetta ákvæði áfengislaganna er lýsandi dæmi um lagafyrirmæli sem eru úrelt og fólk virðir ekki. Út frá siðferðissjónarmiði vaknar spurning um áhrif þess að ungt fólk alist upp við að það sé ekkert mál að brjóta lög. Af þessari reynslu má einnig draga þá ályktun að úr því að dregið hefur úr neyslu ólöglegra fíkniefna með aukinni landasölu megi ætla að ef aldursmörkin í áfengislögunum yrðu færð niður í 18 ár leiddi það til þess að draga mundi úr ólöglegri sölu og neyslu landa sem getur verið miklu skaðlegri og hættulegri ungu fólki en neysla t.d. á bjór eða öðru löglegu áfengi.
    Ákvæðið um 20 ára aldursmörk til neyslu og kaupa á áfengi hefur heldur ekki verið í takt við þá þróun sem orðið hefur varðandi önnur réttindi unga fólksins. Má þar nefna að lögræðislögunum var breytt 1979 og lögræðisaldur lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Rökin fyrir því voru m.a. þau að óeðlilegt væri með öllu að kosningaaldur yrði lækkaður án þess að lögræðisaldur yrði lækkaður að sama skapi. Að auki var bent á eftirfarandi í greinargerð með frumvarpinu um lækkun lögræðisaldurs frá árinu 1979: „Hitt er ótvírætt almenn skoðun á síðari árum og sérstaklega á síðustu áratugum að aukinni skólagöngu og menntun ásamt aukinni hagsæld hafi fylgt skjótari þroski æskulýðs þannig að eðlilegt sé að skjótari forráð eigin mála fylgi. Þetta hefur m.a. komið fram í því að fjölskyldustofnun verður á síðustu árum oft fyrr en almennt tíðkaðist til skamms tíma. Einnig hefur sjálfstæð tekjuöflun og eignaumsvif ungmenna aukist til muna. Er þess því að vænta að vart muni um það deilt að breytingar á þessu löggjafarsviði séu tímabærar. Með lögum frá 1972 var heimill aldur til hjúskaparstofnunar alfarið lækkaður í 18 ár. Þótt hjúskaparstofnun fylgi að lögum sjálfkrafa lögræði er sú ákvörðun aldursmarka enn ein staðfesting umræddrar þróunar.“
    Í greinargerðinni með frumvarpinu frá 1979 var einnig kveðið á um að aðrar breytingar mundu fylgja í kjölfarið þar sem lagaákvæðum um aldursskilyrði yrði breytt, t.d. hjúskaparlögum og ættleiðingarlögum.
    Í júní 1984 tóku gildi lög um kosningar til Alþingis þar sem kosningaaldur var lækkaður úr 20 ára í 18 ára aldur. Ákvæðið um 20 ára aldursmörk í áfengislögunum hefur hins vegar staðið óbreytt frá 1969. Flestir gera sér þó grein fyrir að það er hvorki í samræmi við önnur réttindi sem fela í sér mikla ábyrgð og skyldu og unga fólkið hefur fengið viðurkennd með lögum, eins og lækkun lögræðis- og kosningaaldurs, né felst í þessu ákvæði nokkur vörn gegn áfengisneyslu fólks undir tvítugu.
    Mikil þversögn felst í því að við 18 ára aldur getur fólk ráðið sjálft öllum persónulegum högum sínum, hefur jafnt sjálfræði sem fjárræði. Þannig getur 18 ára einstaklingur tekið bankalán, orðið sjálfskuldarábyrgðarmaður vegna þriðja aðila eða handhafi greiðslukorta. Honum er treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgir giftingu og uppeldi barna, að hafa kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis og sveitarstjórna en ekki að sjá fótum sínum forráð og bera ábyrgð á meðferð og neyslu áfengis eins og aðrir. 18 ára einstaklingur getur líka haft rétt til að kjósa um hvort opna skuli áfengisútsölu í tilteknu bæjarfélagi. Við 16 ára aldur ræður hann hvort hann flytur að heiman, heldur áfram skólagöngu o.s.frv.
    Að auki má benda á að flest lönd, sem við berum okkur saman við, hafa aldursmörkin í áfengislögum við 18 ára aldur.
    Hér er nokkur dæmi:
    Í Danmörku er miðað við 18 ára aldur, jafnt í búð sem á vínveitingastöðum (létt og sterk vín).
    Í Noregi er miðað við 18 ára aldur til kaupa á léttum bjór og léttvíni en 20 ára aldur til kaupa á sterkum vínum og sterkum bjór.
    Í Þýskalandi er 16 ára aldurstakmark fyrir léttan bjór og léttvín en 18 ár fyrir alla sterkari drykki. Sé barn hins vegar í fylgd með forráðamanni sínum má veita því bjór eða léttvín, óháð aldri.
    Í Bretlandi er 18 ára aldurstakmark (var 16 ár áður).
    Í Bandaríkjunum er 18 ára aldurstakmark.
    Í Frakklandi er 18 ára aldurstakmark.
    Ekkert liggur þó fyrir um að áfengisvandamál þessara aldurshópa séu meiri í þessum löndum en hér. Benda má á að mikil drykkja sumra unglinga á götum úti í Reykjavík um helgar hefur vakið undrun ferðamanna sem hingað koma og orðið tilefni til skrifa í erlendum blöðum.
    Margt bendir einmitt til þess að ein af orsökum svokallaðs „miðbæjarvandamáls unglinga“ um helgar megi rekja til þessa umrædda ákvæðis í áfengislögunum. Vínveitingastaðir mega í raun hleypa inn 18 ára og eldri en hins vegar má ekki selja þeim áfengi sem eru undir tvítugu. Til að losna við vandræði af þessum sökum setja allmargir þessara staða aldursmörkin við tvítugt. Jafnvel þekkist að miðað sé við 25 ára aldur. Þannig er ungu fólki undir tvítugu oft vísað frá skemmtistöðunum vegna þessara ákvæða í áfengislögunum, jafnvel þótt það ætli ekki inn þeirra erinda að kaupa sér áfengi. Styður það einmitt það umkvörtunarefni ungs fólks að það komist ekki inn á skemmtistaðina sem það telur veigamikla ástæðu fyrir því að unga fólkið safnast saman í miðbænum. Jafnvel eru sum kaffihús, sem hafa áfengisleyfi, lokuð þessum aldurshópi.
    Þegar litið er til þeirrar aldursviðmiðunar sem ungt fólk býr við varðandi réttindi og skyldur vaknar sú spurning hvort samhliða þessu frumvarpi væri ekki rétt að skoða aðrar aldursviðmiðanir til samræmis, þ.e. hvort hækka beri sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár, en í flestum nágrannalöndum okkar er sjálfræðisaldurinn 18 ár. Ástæða er einnig til að vekja athygli á því að ökuleyfisaldurinn er miðaður við 18 ára aldur annars staðar á Norðurlöndum en hér á landi er hann 17 ár.
    Varðandi sjálfræðisaldurinn er rétt að vitna í skýrslu samráðsnefndar um málefni barna og ungmenna sem gerð var af hálfu félagsmálaráðuneytisins og kom út í október 1992: „Það er álit samráðsnefndarinnar að fyrst á annað borð var farið að framkvæma víðtæka endurskoðun á barnaverndarlögunum hefði verið eðlilegt að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú á tímum dveljast langflestir unglingar á Íslandi í heimahúsum fram að og jafnvel fram yfir tvítugt og lúta þar almennum húsaga og handleiðslu foreldra sinna og sjálfræði þeirra hefur því einungis táknrænt gildi. Einu tilvikin, þar sem sjálfræðisaldurinn hefur einhverja verulega þýðingu, eru gagnvart unglingum í alvarlegum vanda. Þegar skjólstæðingurinn verður 16 ára og þar af leiðandi sjálfráða standa þeir sem starfa að meðferðarmálum unglinga oft frammi fyrir því að það meðferðarstarf sem hafið er ónýtist.“
    Með því að lækka áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár er verið að breyta lögum sem ekki er farið eftir og erfitt er að framfylgja.
    Lög, sem ekki er farið eftir, mörgum finnst óréttlát og óskynsamleg og örðugt er að framfylgja, eru ekki góð lög. Hvað sem lögunum líður hefur ungt fólk tiltölulega greiðan aðgang að áfengi. Núverandi fyrirkomulag, sérstaklega með hliðsjón af því að 18 ára ungmennum finnst það óréttlátt og óskynsamlegt, getur gert áfengið meira spennandi, þ.e. aukið aðdráttarafl þess.
    Erfitt er að sjá að áfengisvandinn liggi í því hvort 18, 19 eða 20 ára ungmenni hafa lagalega heimild til neyslu áfengis. Orsakir áfengisvandans eiga sér oftast dýpri rætur og tengjast meira því þjóðfélagslega umhverfi sem unga fólkinu er búið. Ástæða er fremur til að brjóta þann þátt til mergjar en að skella skuldinni á einhver óskilgreind unglingavandamál og skýla sér bak við úrelta löggjöf til að koma í veg fyrir óhóflega áfengisnotkun ungs fólks.
    Þessi breyting á áfengislögunum felur í sér traust til unga fólksins í því að það umgangist áfengi af skynsemi og að því sé sjálfu treyst til að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem ofnotkun þess fylgir. Slík viðhorfsbreyting löggjafans til unga fólksins gæti þýtt breytt viðhorf þeirra til umgengni við áfengið.
    Eftir slíka breytingu væri auðveldara að framfylgja áfengislögunum og einbeita sér frekar að þeim sem eru yngri en 18 ára. Þá væri þessu samfara hægt að koma af stað lögbundinni, markvissri og skynsamlegri áfengisstefnu, t.d. þar sem reynt yrði að draga úr áfengisneyslunni með öðrum aðferðum en aðeins boðum og bönnum. Slíkt hefur ekki gefist nægilega vel, enda eru óteljandi möguleikar til að komast fram hjá því.
    Móta þarf opinbera stefnu í áfengismálum þar sem markvisst verði unnið að því að fólk umgangist áfengi með öðru hugarfari en verið hefur og að fólk sé vel meðvitað um hættur samfara áfengisneyslunni þannig að það finni til meiri ábyrgðar á eigin gjörðum. Það er ekki nægilegt að leggja fram þá stefnumörkun í áfengismálum að draga eigi svo og svo mikið úr áfengisneyslu, heldur þarf að byggja upp markvissa og faglega baráttu gegn áfengisbölinu. Í því efni þarf einnig að efla allar forvarnir, en samhliða þessu frumvarpi verður lögð fram á Alþingi tillaga um að efla forvarnir í áfengismálum og auka framlög til forvarnarmála í því skyni.