Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 152 . mál.


182. Frumvarp til lagaum breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Lára Margrét Ragnarsdóttir, Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Guðni Ágústsson, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson,


Kristín Halldórsdóttir, Pétur H. Blöndal, Sigríður A. Þórðardóttir,


Valgerður Sverrisdóttir, Ögmundur Jónasson.1. gr.


    72. gr. a laganna orðast svo:
    Börn 14 ára og yngri skulu bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði við hjólreiðar.

2. gr.


    Á eftir 2. mgr. 100. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Eigi skal heldur refsa fyrir brot gegn 72. gr. a nema barn hafi ítrekað brotið gegn ákvæðinu og haldi því áfram þrátt fyrir skrifleg tilmæli lögreglu til þeirra sem fara með forsjá barnsins um að þeir sjái til þess að það fari að ákvæði laganna. Í þeim tilfellum er heimilt að sekta hlutaðeigandi forráðamann.

3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1996. Eigi skal þó refsa fyrir brot framin gegn 1. gr. fyrr en 1. júní 1998.

Greinargerð.


    Svipuð frumvörp voru áður flutt á 111., 113. og 117. löggjafarþingi en urðu þá eigi útrædd.
    Síðastliðin tíu ár hafa verið lagðar fram slysaskýrslur hér á landi er sýna að höfuðslys við hjólreiðar meðal barna og ungmenna eru mjög tíð og að slík slys hafa jafnan alvarlegar afleiðingar. Þessum slysum hefur þó fækkað aðeins á síðastliðnum árum samhliða því sem notkun sérhannaðra hjólreiðahjálma hefur aukist hratt. Samkvæmt könnun, er Umferðarráð stóð fyrir í júlí 1993, var hjálmanotkun við hjólreiðar í þéttbýli hérlendis þá um 20% en sambærileg könnun á þessu ári sýndi að þetta hlutfall var komið upp í 30%. Víða erlendis hafa verið gerðar athuganir er sýna að langflest börn, sem slasast alvarlega eða deyja vegna höfuðáverka er hlýst við hjólreiðar, hafa ekki borið hjálm á höfði. Sama niðurstaða kemur í ljós þegar skoðuð er slysaskráning á sjúkrahúsum hér á landi síðustu árin.
    Árið 1990 voru sett lög um skyldunotkun hjólreiðahjálma í Ástralíu og í kjölfarið fækkaði alvarlegum höfuðmeiðslum hjólreiðamanna um 60–70% þar í landi. Sömu sögu er að segja frá nokkrum fylkjum Bandaríkjanna þar sem slík lög hafa verið sett. Fá lönd í Evrópu hafa hins vegar enn sem komið er sett slík ákvæði í löggjöf sína en samtök um öryggi evrópskra neytenda (ECOSA) ákváðu á fundi í Stokkhólmi í apríl 1992 að stefna að því að árið 2010 yrði hjálmanotkun orðin sem útbreiddust í öllum löndum Evrópubandalagsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu.
    Skylda til bílbeltanotkunar var leidd í lög á Íslandi árið 1987, tíu árum eftir að fyrstu tillögur voru lagðar fram í því efni. Margir voru þá efins um ágæti þeirrar skyldu en í dag efast fáir enda hefur slysum af völdum árekstra fækkað um nálægt 50% og framrúðuslys eru nánast algerlega horfin. Stjórnvöld hljóta að leitast við að tryggja öryggi borgaranna eftir fremsta megni og lögleiðing bílbeltanotkunar var heillavænlegt spor í þá átt. Nú er tækifæri til að halda áfram á sömu braut og huga þá í upphafi sérstaklega að yngstu vegfarendunum.
    Á síðasta þingi var samþykkt sú viðbót við umferðarlögin að dómsmálaráðherra gæti sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar. Hér er hins vegar lagt til að gengið verði lengra og slík skylda lögleidd og því er gert ráð fyrir að framangreind breyting verði felld brott. Börn undir 15 ára aldri teljast ósakhæf og verður því ekki refsað. Þó er gert ráð fyrir að lögreglu sé heimilt að sekta forráðamenn barns sem brýtur ítrekað gegn ákvæðinu, þó aðeins að undangenginni áminningu um að forráðamenn, þ.e. þeir sem fara með forsjá barnsins samkvæmt lögræðislögum, sjái til þess að barnið fari að lögunum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að brot gegn lögunum sé refsivert að einhverju marki. Refsilaus lagatilmæli slæva réttarvitund almennings og síst er það vilji löggjafans að draga úr virðingu fyrir lögum hjá æsku landsins. Þó er ekki gert ráð fyrir að farið verði að sekta fyrir brot gegn lögunum fyrr en tveimur árum eftir gildistöku þeirra. Er þar farin svipuð leið og þegar bílbelti voru lögleidd á níunda áratugnum.
    Gert er ráð fyrir að lögin sjálf taki gildi 1. júní 1996.
    Loks skal bent á að þó að með þessu frumvarpi sé aðeins ætlað að lögleiða notkun hlífðarhjálma hjá ungum hjólreiðamönnum geta slíkir hjálmar bjargað miklu og komið í veg fyrir höfuðmeiðsl þeirra sem detta á hjólabrettum, hjólaskautum, línuskautum, skautum, skíðum og snjóþotum.
Fylgiskjal I.


Landlæknisembættið:


Fjöldi innlagðra barna 0–14 ára með höfuðáverka


á Borgarspítala 1987–1991.


(Rúm 50% slasast á reiðhjóli.)
Heilahristingur     
259

Heilamar, tættur heili     
17

Blæðingar     
18

Annar áverki     
3

Aðrir spítalar     
62

Alls          
359


Fylgiskjal II.


Umferðarráð:


Könnun á notkun hjálma við hjólreiðar í þéttbýli


í júlí 1993 og í júlí 1995.Fjöldi á

Þar af með


reiðhjóli

hjálm1993:
Reykjavík     
831
187 22 ,5%
Seltjarnarnes     
292
52 17 ,8%
Kópavogur     
259
50 19 ,3%
Garðabær     
290
84 29 ,0%
Mosfellsbær     
300
57 19 ,0%
Dalvík     
278
33 11 ,9%
Öll bæjarfélögin     
2.250
463 20 ,6%

1995:
Reykjavík     
394
184 46 ,7%
Seltjarnarnes     
386
105 27 ,2%
Hafnarfjörður     
532
160 30 ,1%
Akureyri     
1.059
290 27 ,4%
Dalvík     
316
56 17 ,7%
Öll bæjarfélögin     
2.687
795 29 ,6%