Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 154 . mál.


184. Frumvarp til lagaum tæknifrjóvgun.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)Skilgreiningar.


1. gr.

     Tæknifrjóvgun: Getnaður sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun.
     Tæknisæðing: Aðgerð þegar sæði er komið fyrir í eða nærri kynfærum konu á annan hátt en með samförum.
     Glasafrjóvgun: Aðgerð þegar eggfruma, sem numin hefur verið úr líkama konu, er frjóvguð með sæðisfrumu utan líkamans.
     Kynfrumur: Eggfrumur og sæðisfrumur.
    Fósturvísir: Frjóvgað egg á öllum þroskastigum þess, allt frá því að það er frjóvgað og þar til það kemst á fósturstig.
     Gjafi: Einstaklingur sem leggur öðrum til kynfrumur.
     Staðgöngumæðrun: Tæknifrjóvgun framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu.

Almenn ákvæði.


2. gr.

    Tæknifrjóvgun má eingöngu framkvæma á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur til þess leyfi ráðherra og undir eftirliti sérfræðinga í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.

3. gr.

    Tæknifrjóvgun má því aðeins framkvæma að:
    konan, sem undirgengst aðgerðina, sé samvistum við karlmann, í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem staðið hafa samfellt í þrjú ár hið skemmsta og að þau hafi bæði samþykkt aðgerðina skriflega og við votta,
    aldur parsins megi teljast eðlilegur, m.a. með tilliti til velferðar barnsins á uppvaxtarárum,
    andleg og líkamleg heilsa og félagslegar aðstæður parsins séu góðar og
    aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar.
    Áður en tæknifrjóvgun fer fram og samþykki skv. a-lið 1. mgr. er veitt skal gefa parinu upplýsingar um meðferðina og þau læknisfræðilegu og lögfræðilegu áhrif sem hún kann að hafa.
    Læknir ákveður hvort tæknifrjóvgun fer fram. Synjun má kæra til landlæknis sem sendir kæruna tafarlaust til meðferðar sérstakrar nefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti þrír fulltrúar og jafnmargir til vara, einn lögfræðingur, einn læknir og einn félagsráðgjafi. Ákvörðun nefndarinnar er endanleg.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um heimild til að leita umsagnar barnaverndarnefndar um félagslegar aðstæður parsins.

4. gr.

    Læknir, sem annast meðferð, skal velja viðeigandi gjafa.
    Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að tryggja gjafa nafnleynd.
    Hvorki má veita gjafa upplýsingar um parið sem fær gjafakynfrumur né um barnið.

Tæknisæðing með gjafasæði.


5. gr.

    Tæknisæðingu með gjafasæði má því aðeins framkvæma að frjósemi karlmannsins sé skert, hann haldinn alvarlegum erfðasjúkdómi eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæli með notkun gjafasæðis.

Glasafrjóvgun.


6. gr.

    Glasafrjóvgun má því aðeins framkvæma að notaðar séu kynfrumur parsins. Þó skal heimilt að nota gjafakynfrumur ef frjósemi karlsins eða konunnar er skert, annað þeirra haldið alvarlegum erfðasjúkdómi eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumna.
    Gjöf fósturvísa er óheimil.
    Staðgöngumæðrun er óheimil.

Geymsla kynfrumna og fósturvísa.


7. gr.

    Geymsla kynfrumna og fósturvísa er eingöngu heimil á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur leyfi ráðherra til að framkvæma tæknifrjóvgun, sbr. 2. gr.

8. gr.

    Kynfrumur má því aðeins geyma að tilgangurinn sé:
    eigin notkun síðar,
    gjöf í rannsóknarskyni eða
    gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun.
    Sá sem leggur kynfrumur til skal veita skriflegt samþykki fyrir geymslunni í samræmi við tilgang hennar, enda hafi honum áður verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á kynfrumurnar og hin almennu skilyrði sem sett eru fyrir geymslu kynfrumna í lögum þessum og reglum samkvæmt þeim.

9. gr.

    Fósturvísa má geyma í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í konu þeirri sem lagði eggfrumurnar til eða eiginkonu eða sambýliskonu karlmannsins sem lagði til sæðisfrumur. Geymsla fósturvísa í öðrum tilgangi er óheimil.
    Geymsla fósturvísa er háð því skilyrði að karlmaður sá og kona, sem leggja kynfrumurnar til, veiti skriflegt samþykki fyrir geymslunni í samræmi við tilgang hennar, enda hafi þeim áður verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á fósturvísana og hin almennu skilyrði sem sett eru fyrir geymslu kynfrumna og fósturvísa í lögum þessum og reglum samkvæmt þeim.
    Fósturvísa má eingöngu nota í samræmi við samþykki þeirra sem lögðu kynfrumurnar til.

10. gr.

    Ráðherra skal setja reglur um hve lengi má geyma kynfrumur og fósturvísa í samræmi við bestu læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma.
    Að hámarksgeymslutíma liðnum skal eyða ónotuðum kynfrumum og fósturvísum.
    Nú er hámarksgeymslutími kynfrumna ekki liðinn en sá sem lagði til kynfrumur andast og skal þá eyða ónotuðum kynfrumum nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun.
    Nú er hámarksgeymslutími fósturvísa ekki liðinn en karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, slíta hjúskap eða sambúð og skal þá eyða fósturvísunum. Sama gildir ef annað þeirra andast nema um gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun hafi verið að ræða.

Rannsóknir á fósturvísum.


11. gr.

    Hvers konar rannsóknir, tilraunir og aðgerðir á fósturvísum skulu vera óheimilar.
    Þó skal heimilt að gera rannsóknir á fósturvísum:
    ef þær eru liður í glasafrjóvgunarmeðferð,
    ef þær miða að framförum í meðferð vegna ófrjósemi,
    ef þær eru ætlaðar til aukins skilnings á orsökum meðfæddra sjúkdóma og fósturláta eða
    ef þeim er ætlað að greina arfgenga sjúkdóma í fósturvísunum sjálfum.

12. gr.

    Óheimilt er:
    að rækta eða framleiða fósturvísa eingöngu í þeim tilgangi að gera á þeim rannsóknir,
    að rækta fósturvísa lengur en í 14 daga utan líkamans eða eftir að frumrákin kemur fram,
    að koma mannlegum fósturvísum fyrir í dýrum og
    að framkvæma einræktun.

Lokaákvæði.


13. gr.

    Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.
    Fyrir hlutdeild í broti skal refsa á sama hátt.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lagafrumvarpi þessu eru settar fram tillögur um hvaða lagaákvæði skuli gilda hér á landi um tæknifrjóvgun, þ.e. tæknisæðingu og glasafrjóvgun. Tæknisæðing hefur verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1980 og glasafrjóvgun frá 1991. Um báðar meðferðirnar voru í upphafi settar reglur um framkvæmd án þess að löggjöf um efnið væri til að dreifa. Tillögurnar taka í öllum megindráttum mið af þeim reglum sem verið hafa í gildi um framkvæmd tæknifrjóvgunar. Þá er gert ráð fyrir að eggfrumugjöf verði leyfð. Jafnframt eru gerðar tillögur að reglum um geymslu kynfrumna og fósturvísa og um rannsóknir á fósturvísum.
    Í tengslum við tæknifrjóvgun er einkum álitaefni hvort heimila skuli gjöf kynfrumna, einkum eggfrumna. Nefnd sú sem samdi frumvarpið (tæknifrjóvgunarnefnd) var sammála um að gjöf sæðisfrumna skyldi leyfð, hvort heldur er við tæknisæðingu eða glasafrjóvgun, enda hefur slík framkvæmd verið hér á landi við tæknisæðingu á annan áratug. Meira álitaefni væri hins vegar hvort heimila ætti eggfrumugjöf. Nefndin taldi ekki ástæðu til að taka beina afstöðu til þess álitaefnis. Hins vegar gekk nefndin þannig frá málinu að hvor kosturinn sem er gæti verið valinn og samdi því tvær útgáfur af frumvarpi, aðra þar sem eggfrumugjöf var bönnuð og hina þar sem hún var leyfð.
    Tæknifrjóvgunarnefnd skilaði tillögum sínum í nóvember 1994. Voru tillögurnar fljótlega sendar ýmsum aðilum til kynningar og fróðleiks. Umsagnir bárust frá Barnaverndarráði, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Jafnréttisráði, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landspítalanum (forstöðulækni kvennadeildar og sérfræðingum á glasafrjóvgunardeild), Ljósmæðrafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og umboðsmanni barna.
    Frumvarp þetta er byggt á þeirri frumvarpsgerð tæknifrjóvgunarnefndar þar sem gert var ráð fyrir því að eggfrumugjöf væri heimil. Með hliðsjón af framkomnum umsögnum hafa nokkrar minni háttar breytingar verið gerðar á athugasemdum við frumvarpið eins og það kom upphaflega frá nefndinni.

I. Inngangur.
    Árið 1986 samþykkti Alþingi þingsályktun um skipun nefndar til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögur um hvernig réttarstaða aðila yrði tryggð. Í samræmi við þingsályktunina skipaði dómsmálaráðherra nefnd þessa í júlí 1986 og tóku sæti í nefndinni Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, formaður, Jón Hilmar Alfreðsson yfirlæknir, tilnefndur af læknadeild Háskólans, Ásta Kr. Ragnarsdóttir forstöðumaður námsráðgjafar HÍ, tilnefnd af Barnaverndarráði, og hæstaréttarlögmennirnir Ólafur Axelsson og Þórður S. Gunnarsson, tilnefndir af Lögmannafélagi Íslands. Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu var ritari nefndarinnar. Í september 1992 tilnefndi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að ósk dómsmálaráðuneytisins Dögg Pálsdóttur skrifstofustjóra í nefndina.
    Í árslok 1989 samþykkti Alþingi þingsályktun er fól í sér að fyrir Alþingi skyldi lagt frumvarp til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli. Þessari ályktun var vísað til nefndarinnar.
    Nefndin hefur kynnt sér og fylgst með þróun mála er varða tæknifrjóvgun hér á landi og í nágrannalöndunum. Nefndin hefur og kynnt sér lagasetningu um efnið erlendis, einkum á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þá tóku fulltrúar nefndarinnar þátt í starfi sérfræðinganefndar Evrópuráðsins á sviði tæknifrjóvgunar, en sú nefnd skilaði tillögum til ráðherranefndar Evrópuráðsins 1987.

II. Skilgreiningar.
    Á síðustu árum hafa komið fram ýmsar tæknilegar aðgerðir til getnaðar og þungunar. Þar sem árangur þeirra hefur verið talsverður hafa þær náð umtalsverðri útbreiðslu. Samheiti þessara aðgerða er tæknifrjóvgun. Við tæknifrjóvgun er um að ræða tvær meginaðgerðir, tæknisæðingu og glasafrjóvgun. Við tæknisæðingu verður frjóvgun í líkama konunnar en við glasafrjóvgun verður frjóvgunin í frumuræktunarglasi.
    Tæknisæðing verður við það að sæði er komið fyrir, á annan hátt en með samförum, í eða nærri kynfærum konunnar. Ýmist er notað sæði eiginmanns eða sambýlismanns konunnar eða gjafasæði.
    Glasafrjóvgun verður við það þegar eggfruma er frjóvguð með sæðisfrumu í frumuræktunarglasi. Ýmsir möguleikar varðandi uppruna kynfrumnanna koma til greina við glasafrjóvgun. Unnt er að nota eggfrumu frá konunni sem síðan gengur með og elur barnið en sæði annaðhvort frá eiginmanni eða sambýlismanni konunnar eða frá sæðisgjafa. Einnig er hugsanlegt að egg sé fengið frá annarri konu en þeirri sem gengur með og elur barnið en sæðið annaðhvort frá eiginmanni eða sambýlismanni konunnar sem gengur með eða frá sæðisgjafa.

III. Tæknifrjóvgun á Íslandi.
1. Tæknisæðing.
    Á áttunda áratugnum fór það mjög í vöxt að konur leituðu til útlanda til meðferðar vegna barnleysis sem stafaði af ófrjósemi eiginmanns eða sambýlismanns. Notkun á frystu gjafasæði sem meðferð í slíkum tilvikum var þá orðin viðtekin og algeng. Kvensjúkdómalæknar beittu sér fyrir því að meðferðin var tekin upp hér á landi. Tæknisæðing með frystu gjafasæði hófst skipulega hér álandi í byrjun árs 1980 og hefur frá upphafi eingöngu verið framkvæmd á kvennadeild Landspítalans. Af ýmsum ástæðum, m.a. vegna kostnaðar og fámennis, var talið æskilegt að afla sæðis frá erlendum sæðisbanka og hefur það verið gert frá upphafi.
    Meðferðin hefur í engu verið frábrugðin því sem gerist annars staðar. Forrannsókn kvenna er í höndum kvensjúkdómalækna, en sérfræðingar í ófrjósemi karla hafa annast þann þátt forrannsóknar. Ástæða fyrir meðferð hefur verið ófrjósemi eiginmanns, en tilskilið hefur verið að konan sé metin frjósöm. Aðrar ástæður koma sjaldan til álita, en þær eru:
    eiginmaður ber arfgengan sjúkdóm,
    misræmi í ónæmisþáttum milli hjóna eða
    taugasjúkdómar (lömun) eiginmanns.
    Vegna langs biðlista og takmarkaðra aðfanga sæðis hefur þurft að takmarka fjölda meðferðartilrauna sem hver kona hefur átt kost á. Einnig hefur meðferðin verið takmörkuð við hjón sem ekki eiga barn saman.
    Við árslok 1993 höfðu 217 konur gengist undir tæknisæðingu. Alls urðu 106 konur þungaðar en af þeim misstu sex konur fóstur. Þannig hafa 100 konur fætt alls 103 börn. Þessi árangur stenst vel samanburð við önnur Norðurlönd. Á það má benda að engin frjósemismeðferð er jafnárangursrík og jafnkostnaðarlítil og tæknisæðing. Meðgöngur og fæðingar hafa verið eðlilegar og börnin heilbrigð. Foreldrar virðast hafa verið ánægðir og margir látið í ljós ósk um að eignast annað barn með þessum hætti, en ekki hefur reynst unnt að verða við þeim óskum, einkum vegna langs biðlista.
    Í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið voru í upphafi settar þær reglur um tæknisæðingu með gjafasæði að meðferðin skyldi eingöngu heimil giftum konum, að fengnu samþykki konunnar og eiginmanns hennar. Hjónin hafa skrifað undir vottorð þess efnis að þau samþykki að gangast undir meðferðina, geri sér ljósar hættur henni samfara og feli lækni að velja sæðisgjafa. Jafnframt heitir eiginmaðurinn því að ganga barninu í föður stað á allan hátt. Þessi vottorð eru undirrituð í viðurvist læknis og varðveitt í sérstakri sjúkraskrá sem samin er um þessa meðferð og sérstaklega varðveitt.
    Eftir að barnalögum var breytt árið 1992 varð sú breyting á að ógift par hefur getað fengið meðferð að fullnægðum öðrum skilyrðum.
    Hér á landi hefur eingöngu verið notað sæði innflutt frá Danmörku en þar í landi ríkir nafnleynd um sæðisgjafa. Notað hefur verið sæði frá sæðisbanka í Kaupmannahöfn sem þjónar yfir 20 sjúkrahúsum í Danmörku. Sæðisbanki þessi hefur einnig þjónað stofnunum í Noregi og Færeyjum sem framkvæma tæknisæðingu.
    Á síðari árum hefur færst í vöxt að framkvæma tæknisæðingu með sæði frá eiginmanni eða sambýlismanni. Þetta er gert þegar um er að ræða skerta frjósemi sæðisins. Er sæðið þá meðhöndlað sérstaklega fyrir sæðinguna þannig að t.d. hreyfanleiki þess verði virkari. Þá er sæðisfrumunum komið fyrir, ekki efst í leggöngum eða leghálsi eins og venja var, heldur lengst inni í legholinu. Samhliða eru konunni gefin frjósemisörvandi lyf. Þessi meðferð þykir lofa góðu sem ráð við skertri frjósemi karla og ætti að einhverju leyti að geta dregið úr þörf fyrir gjafasæði. Þessi nýjung hefur síðan orðið til þess að tæknisæðing með gjafasæði er nú í vaxandi mæli framkvæmd með sama hætti, þ.e. aðgerðin er orðin mun flóknari en áður, og þykir það skila betri árangri.

2. Glasafrjóvgun.
    Glasafrjóvgun var fyrst framkvæmd með árangri í Englandi 1978. Meðferðin felst í frjóvgun á eggfrumu með sæðisfrumu utan líkama í þar til gerðu umhverfi þar sem þættir eins og ætisvökvi, hitastig, sýrustig og loftþrýstingur skipta máli. Meðferðina má greina í þrennt:
    eggþroskun með hormónagjöf og eggheimtu,
    frjóvgun utan líkamans sem tekur yfirleitt um tvo sólarhringa,
    fósturfærslu, en þá er fósturvísi eða fósturvísum, sem aðeins eru nokkrar frumur, komið upp í leg konunnar til að festast þar og þroskast áfram.
    Á árinu 1987 hófust skipulegar utanferðir Íslendinga vegna glasafrjóvgunar, einkum til Englands. Á því ári voru settar reglur um greiðslu læknishjálpar við glasafrjóvgun erlendis.
    Á árunum 1987–1991 munu u.þ.b. 260 pör hafa farið til glasafrjóvgunarmeðferðar í Englandi, einnar tilraunar eða fleiri, og af þeim eignuðust 65 barn eða börn vegna meðferðarinnar, eða fjórða hvert par.
    Glasafrjóvgun hófst á kvennadeild Landspítalans í október 1991, en þá hafði stjórnarnefnd Ríkisspítala samþykkt reglur fyrir starfsemina. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið staðfesti þessar reglur í ársbyrjun 1992. Samkvæmt reglunum skal par sem gengst undir meðferð hafa verið í hjúskap eða óvígðri sambúð a.m.k. þrjú ár áður en meðferð hefst. Konan skal ekki vera eldri en 42 ára. Ef parið á barn saman fyrir fær það ekki aðgang að meðferðinni. Notkun gjafakynfrumna, þ.e. bæði sæðisfrumna og eggfrumna, hefur verið óheimil samkvæmt þessum reglum. Auk þess hefur frysting fósturvísa verið óheimil. Nú hefur verið óskað eftir heimild af hálfu kvennadeildarinnar til að framkvæma glasafrjóvgun með gjafasæði. Því erindi hefur verið vísað til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Nokkur óvissa var um árangur við upphaf glasafrjóvgunar hér á landi því vitað er að brugðið getur til beggja vona og ræður þá stundum einber óheppni ef illa tekst til. Svo varð þó ekki og hefur árangur glasafrjóvgunardeildar Landspítalans verið góður alveg frá byrjun. Um mitt ár 1994 höfðu yfir 600 glasafrjóvgunaraðgerðir verið framkvæmdar á deildinni. Yfir 200 börn höfðu fæðst en auk þess má telja að um 70–80 konur gangi með barn á hverjum tíma.

IV. Barnalög.
    Með gildistöku barnalaga, nr. 20 22. maí 1992, 1. júlí 1992 voru lögfestar reglur um feðrun barna sem getin eru með gjafasæði.
    Samkvæmt 3. gr. laganna telst eiginmaður eða sambúðarmaður, sem samþykkt hefur skriflega og við votta að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu sinni með sæði úr öðrum manni, faðir barns sem þannig er getið. Með 55. gr. laganna er tryggt að maður, sem samþykkt hefur tæknifrjóvgun á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu með þessum hætti, geti því aðeins fengið faðerni barnsins vefengt að ljóst sé að það sé ekki getið við tæknifrjóvgun.

V. Almannatryggingar og tæknifrjóvgun.
    Tæknisæðing hefur frá upphafi verið framkvæmd með þeim hætti að kostnaður við hana hefur talist til reksturskostnaðar Ríkisspítala. Framan af var meðferðin innt af hendi án sérstakrar greiðsluhlutdeildar aðila. Á síðari árum hafa komið til greiðslur í samræmi við almennar reglur um greiðsluhlutdeild sjúkratryggðra vegna göngudeildarmeðferðar og rannsókna.
    Með reglugerð um greiðslu læknishjálpar við glasafrjóvgun erlendis, nr. 218 15. maí 1987, var ákveðið að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins væri heimilt að greiða kostnað vegna glasafrjóvgunar íslenskra kvenna erlendis eftir þeim reglum sem gilda um greiðslu almannatrygginga fyrir nauðsynlega læknishjálp erlendis. Skilyrði greiðslu var að við glasafrjóvgun væri egg konu frjóvgað með sæði manns hennar og að læknisfræðilegar ástæður hömluðu frjóvgun með venjulegum hætti. Ákvæði reglugerðarinnar voru afturvirk og var þannig heimilt að greiða kostnað sem til hafði verið stofnað eftir 1. júní 1986.
    Í framhaldi af setningu þessarar reglugerðar setti siglinganefnd, sem starfar samkvæmt lögum um almannatryggingar, verklagsreglur um val á fólki til glasafrjóvgunarmeðferðar erlendis. Þar var sett sem skilyrði að parið hefði verið samvistum, gift eða í sambúð, í a.m.k. tvö ár samfleytt, konan væri ekki eldri en 38 ára og að meðferðin færi fram á Bourn Hall Clinic í Englandi. Kysi parið að leita meðferðar annars staðar var það heimilt en aldrei var greitt meira fyrir meðferð en sem nam kostnaði samkvæmt samningi við Bourn Hall Clinic. Barnlaus hjón gengu að öðru jöfnu fyrir. Sjúkratryggingarnar greiddu meðferðina á Bourn Hall Clinic en parið stóð sjálft straum af ferðakostnaði og uppihaldskostnaði utan sjúkrahússins auk aðstoðar túlks væri hún nauðsynleg. Að hámarki var greitt fyrir þrjár meðferðartilraunir hjá hverju pari.
    Eftir að starfsemi glasafrjóvgunardeildar kvennadeildar Landspítalans hófst í árslok 1991 voru í reglugerð um greiðslu sjúkratryggðra fyrir læknishjálp sett ákvæði um greiðslu fyrir glasafrjóvgunarmeðferð, sbr. nú reglugerð nr. 14 12. janúar 1993. Samkvæmt reglugerðinni skal greiða 105 þús. kr. fyrir fyrstu glasafrjóvgunartilraun. Þurfi fleiri tilraunir skal greiða 60 þús. kr. fyrir hverja, þó aldrei fleiri en fjórar tilraunir samtals. Fyrir tilraunir umfram fjórar greiða sjúkratryggðir fullt verð, 200 þús. kr.

VI. Framkvæmd og löggjöf um tæknifrjóvgun í nokkrum nágrannalöndum.
    Ör þróun hefur verið á sviði tæknifrjóvgunar á síðustu 15 árum. Nágrannalönd okkar hafa brugðist við með mismunandi hætti. Sum lönd settu fljótt ströng lagaákvæði um þessi efni en önnur ákváðu að bíða átekta og létu ólögbundnar reglur duga meðan séð yrði hvert stefndi. Hér á landi var síðari leiðin valin. Verður nú vikið að framkvæmd og löggjöf um tæknifrjóvgun í nokkrum nágrannalöndum.
    Í Svíþjóð voru sett lög um tæknisæðingu árið 1985. Á árinu 1988 voru sett lög um frjóvgun utan líkama. Meðferð er bundin við konu í hjúskap eða sambúð. Tæknisæðing með sæði annars en eiginmanns eða sambúðarmanns má aðeins fara fram á almennu sjúkrahúsi. Frjóvgun utan líkama skal að jafnaði fara fram á almennu sjúkrahúsi. Slík frjóvgun er einungis heimil með sæði eiginmanns eða sambúðarmanns. Barn, sem orðið hefur til með tæknisæðingu með gjafasæði, á rétt á að fá upplýsingar um sæðisgjafa þegar það hefur þroska til. Maki eða sambúðarmaður konu telst faðir barns hennar sem getið er með tæknisæðingu sem hann hefur samþykkt.
    Í Noregi voru fyrst sett lög um tæknifrjóvgun árið 1987. Þau tóku bæði til frjóvgunar í líkama konu og utan líkama. Einungis giftar konur áttu rétt á meðferð í þessu skyni. Tæknifrjóvgun mátti einungis fara fram á viðurkenndri stofnun. Frjóvgun utan líkama var bundin við kynfrumur parsins og frjóvguð egg mátti einungis flytja í þá konu sem eggin voru úr. Ákvæði voru um nafnleynd sæðisgjafa. Sæðisgjafanum mátti heldur ekki veita upplýsingar um par eða barn. Bannað var að frysta ófrjóvguð egg. Hins vegar var heimilt að frysta frjóvguð egg, eingöngu í þeim tilgangi að setja þau aftur í konuna. Frjóvguð egg mátti þó ekki geyma lengur en í 12 mánuði. Tilraunir á frjóvguðu eggi voru bannaðar. Eiginmaður taldist faðir barns sem getið var með tæknisæðingu sem hann hafði samþykkt að fram færi á eiginkonunni.
    Fyrri hluta árs 1993 var lögð fram í norska stórþinginu greinargerð nr. 25 (1992–93) um menn og líftækni. Greinargerðin hlaut ítarlega umfjöllun í þinginu og í framhaldi hennar var í apríl 1994 lagt fram og síðan samþykkt lagafrumvarp um læknisfræðilega notkun líftækni. Lögin gengu í gildi 1. september 1994. Þau eru mun víðtækari en lögin um tæknifrjóvgun frá 1987 því þau ná einnig til rannsókna. Nýju lögin veita bæði hjónum og sambýlisfólki aðgang að tæknifrjóvgun. Sæðisgjöf er heimil við tæknisæðingu. Gjöf eggfrumna og fósturvísa er bönnuð. Fósturvísa má eingöngu geyma til síðari nota konunnar sem lagði eggfrumurnar til. Geymsla fósturvísa er takmörkuð við þrjú ár. Geymsla eggfrumna er bönnuð. Rannsóknir á fósturvísum eru bannaðar. Á hinn bóginn er heimilt að skoða fósturvísa með tilliti til arfgengra sjúkdóma. Lögin hafa að geyma ítarlegar reglur um erfðafræðilega skoðun á fósturvísum og fóstrum. Jafnframt geyma lögin reglur um erfðafræðilega skoðun á börnum.
    Í Danmörku hafa ekki verið sett lög um tæknifrjóvgun. Tæknisæðing og glasafrjóvgun hafa þó verið framkvæmdar í Danmörku um alllangt skeið. Hins vegar voru á árinu 1987 samþykkt lög um þriggja ára bann við rannsóknum á frjóvguðum eggfrumum. Lögin tryggðu að glasafrjóvgun var áfram heimil en allar umframeggfrumur, hvort sem þær voru frjóvgaðar eða ekki, skyldi eyðileggja þegar búið væri að koma frjóvguðu eggi fyrir eða eftir að meðferð var hætt. Lögin leyfðu ekki frystingu fósturvísa sem ekki þurfti að nota. Á grundvelli sömu laga var sérstakt siðaráð sett á fót. Hlutverk þess var m.a. að gera tillögur til þingsins um fyrirkomulag tæknifrjóvgunar. Tillögur ráðsins skyldu byggðar á því að mannslíf hefjist við frjóvgun.
    Árið 1989 skilaði ráðið tillögum sínum. Meiri hluti ráðsmanna var fylgjandi því að glasafrjóvgunarmeðferð yrði fram haldið en engar ákveðnar tillögur voru gerðar um önnur álitaefni á þessu sviði. Til að tryggja opinbera umræðu um málið var lagasetningu um þetta efni frestað. Árið 1992 voru samþykktar breytingar á lögunum og á grundvelli þeirra breytinga voru settar reglur um frystingu og gjöf eggfrumna. Samkvæmt reglunum er frysting ófrjóvgaðra eggfrumna heimil, sem og frysting fósturvísa. Þá er gjöf fósturvísa óheimil en á hinn bóginn er heimilt að gefa eggfrumur. Enda þótt bæði notkun gjafasæðis og eggfrumugjöf sé heimil eru ekki í barnalögum sérstök ákvæði er taka til barna sem getin eru við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumum.
    Í Finnlandi er tæknifrjóvgun heimil. Þar hefur löggjöf um tæknifrjóvgun verið í undirbúningi. Starfshópur skilaði áliti árið 1988 og lagði til að lög skyldu sett um tæknisæðingu og frjóvgun utan líkamans og að meðferðin skyldi einungis heimil hjónum og fólki í sambúð. Lagafrumvarp um þetta efni hefur hins vegar ekki verið lagt fram.
    Í Bretlandi voru sett lög um tæknifrjóvgun árið 1990. Samkvæmt þeim var sérstök stofnun sett á laggirnar til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Samkvæmt lögunum þurfa stofnanir sem framkvæma tæknifrjóvgun, geyma kynfrumur og fósturvísa og framkvæma rannsóknir á fóstrum sérstakt leyfi eftirlitsstofnunarinnar.
    Börn, sem fæðast eftir tæknifrjóvgun með gjafakynfrumum, eiga rétt á því að fá tilteknar upplýsingar um kynforeldra sína, þó þannig að nafnleynd er virt. Samkvæmt lögunum má ekki geyma fósturvísa lengur en í fimm ár og kynfrumur ekki lengur en í 10 ár. Geymslutíminn getur þó orðið styttri samkvæmt ósk hlutaðeigandi. Strangar reglur gilda um rannsóknir á fósturvísum. Stofnanir, sem fengið hafa rannsóknaleyfi, mega gera rannsóknir á fósturvísum í þeim tilgangi að stuðla að framförum í meðferð við ófrjósemi, efla þekkingu á orsökum meðfæddra sjúkdóma og fósturláta, þróa árangursríkari aðgerðir til frjóvgunar og þróa tækni til að greina erfðasjúkdóma í fósturvísum áður en þeim er komið fyrir í konu.
    Samkvæmt lögum telst móðir ætíð sú kona sem gengur með barn án tillits til uppruna eggfrumnanna. Eiginmaður konu eða sambýlismaður telst ætíð faðir barnsins nema unnt sé að sanna að hann hafi ekki samþykkt meðferðina.
    Tæknifrjóvgun hefur verið til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 1986 samþykkti ráðið ályktun þess efnis að á Norðurlöndunum yrði leitast við að hafa reglur um þetta efni eins líkar og unnt væri.
    Á árunum 1985–1987 starfaði á vegum Evrópuráðsins sérfræðinganefnd (CAHBI) er fjallaði um tæknifrjóvgun, bæði tæknisæðingu og glasafrjóvgun, gjöf sæðis, eggfrumna eða fósturvísa og um meðferð fósturvísa við notkun þessarar tækni. Nefndin lauk störfum á árinu 1987 og skilaði ítarlegum tillögum að meginreglum um tæknifrjóvgun til ráðherranefndar Evrópuráðsins. Þessar meginreglur hafa hins vegar ekki hlotið staðfestingu ráðherranefndarinnar og eru því ekki bindandi fyrir aðildarríkin. Meginreglurnar hafa verið þýddar á íslensku, „Meginreglur er varða mannlega æxlun með tilgerðum ráðum“, og birtar í Læknablaðinu — Fréttabréfi lækna (5. tbl., 8. árg. 1990).

VII. Á að setja lög um tæknifrjóvgun?
    Tæknisæðing hefur verið framkvæmd skipulega hér á landi frá árinu 1980 án löggjafar um það efni. Eins og áður er vikið að lögfestu barnalögin frá 1992 reglur um faðerni barna sem getin eru með tæknifrjóvgun. Glasafrjóvgun hefur verið framkvæmd síðan í árslok 1991. Ekki hafa komið upp vandkvæði vegna faðernis eða móðernis barna þar sem reglur sem kvennadeild Landspítalans starfar eftir taka skýrt fram að eingöngu er heimilt að nota kynfrumur parsins sem hlut á að máli.
    Þegar litið er til framkvæmdarinnar hér á landi, svo og í nágrannaríkjum okkar þar sem tæknifrjóvgun er ýmist heimil án löggjafar eða á grundvelli löggjafar, þykir ekki fært að mæla gegn því að tæknifrjóvgun sem meðferð við ófrjósemi sé viðurkennd. Sýnist þá rétt að lög verði sett um efnið og skýrar línur markaðar um ýmis atriði er það varða, svo sem framkvæmdina sjálfa, skilyrði sem þeir sem fá heimild til meðferðar þurfa að uppfylla, réttarstöðu barns o.fl.
    Tilgangur tæknifrjóvgunar er einkum sá að hjálpa barnlausu pari að eignast barn. Í því sambandi þarf að gera þá kröfu að siðferðilegra sjónarmiða sé gætt í hvívetna. Við setningu laga um tæknifrjóvgun ber og að líta á málið frá hinum ýmsu sjónarhornum og kunna þámismunandi hagsmunir að rekast á. Meta verður hagsmuni barns þess sem til verður með þessum hætti, hagsmuni hins barnlausa pars og margvíslega þjóðfélagslega hagsmuni. Þyngst hljóta að vega hagsmunir barnsins og það að því verði tryggð þroskavænleg uppvaxtarskilyrði. Enn fremur verður að treysta hina þjóðfélagslegu hagsmuni, m.a. með því að koma í veg fyrir að kynfrumur verði nýttar í hagnaðarskyni og að tæknifrjóvgun verði beitt til að ná fram tilteknum eiginleikum hjá barni.

VIII. Ýmis álitamál.
1. Tæknisæðing með sæði eiginmanns eða sambýlismanns.
    Við tæknisæðingu með sæði eiginmanns eða sambýlismanns koma ekki upp álitamál um réttarstöðu aðila þar sem barn það, sem getið er með þessum hætti, er líffræðilega barn parsins. Ástæða fyrir slíkri meðferð er einkum skert frjósemi annars aðilans. Þá er meðferðinni stundum beitt þegar engar skýringar finnast á barnleysi pars.
    Líta verður svo á að tæknisæðing með sæði eiginmanns eða sambýlismanns sé almennt heimil án sérstakrar lagaheimildar.

2. Tæknisæðing með gjafasæði.
    Við tæknisæðingu með gjafasæði koma upp álitamál er varða réttarstöðu barns, móður, eiginmanns eða sambúðarmanns hennar og sæðisgjafans. Meðferðinni fylgja og ýmis siðferðileg álitamál. Veigamestu rökin fyrir tæknisæðingu með gjafasæði eru þau að þannig er unnt að bæta úr barnleysi pars sem ekki getur eignast barn vegna ófrjósemi mannsins eða af öðrum ástæðum. Þarf ekki að orðlengja mikilvægi þess fyrir barnlaust fólk að hægt sé að veita því hjálp sem bætt getur úr barnleysi þess. Enn fremur hefur verið bent á að bann gegn meðferð þessari getur komið illa við þau börn sem þegar hafa fæðst hér á landi eftir slíka meðferð. Loks má benda á að bann gegn tæknisæðingu með gjafasæði yrði í raun haldlítið þar sem þeir sem fjárhagslegt bolmagn hefðu ættu greiðan aðgang að slíkri meðferð erlendis.
    Rök gegn tæknisæðingu með gjafasæði eru hins vegar m.a. þau að barnið er ekki kynbarn eiginmanns eða sambýlismanns móður. Sú staðreynd getur orðið fólki erfið að horfast í augu við og skapað ýmsar tilfinningaflækjur í fjölskyldunni, þótt síðar verði. Hér vegur einnig þungt þörf barnsins til að þekkja uppruna sinn. Telja verður yfirgnæfandi líkur á að barn, sem getið er við tæknisæðingu með gjafasæði erlendis frá, eigi þess engan kost að afla sér vitneskju um kynföður. Sá möguleiki er þó fyrir hendi ef sæði er flutt inn frá sæðisbanka í landi þar sem ekki ríkir nafnleynd gagnvart sæðisgjafa, t.d. Svíþjóð. Enn fremur má benda á að sú hætta er til staðar, þótt lítil sé talin, að barn beri með sér arfgengan sjúkdóm frá kynföður. Fáar eða engar læknisfræðilegar og félagslegar rannsóknir hafa verið gerðar á börnum sem getin hafa verið með þessum hætti, enda erfitt um vik að framkvæma þær.
    Eins og áður hefur verið vikið að eru nú í barnalögum ákvæði er tryggja faðerni barna sem getin eru við tæknisæðingu með gjafasæði.

3. Glasafrjóvgun.

    Við glasafrjóvgun koma upp ýmis siðfræðileg álitamál. Er eðlilegt að grípa fram fyrir hendur náttúrunnar með þessum hætti? Hversu langt á að ganga varðandi heimild til notkunar gjafakynfrumna? Á að takmarka meðferðina við notkun kynfrumna parsins? Á að leyfa notkun gjafasæðis? Á að leyfa notkun gjafaeggfrumna? Á að leyfa gjöf fósturvísa?
    Glasafrjóvgun hefur verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1991. Fyrir þann tíma leituðu íslenskrar konur glasafrjóvgunarmeðferðar erlendis, aðallega í Englandi. Frá upphafi hefur meðferðin verið bundin við að kynfrumur parsins væru notaðar. Við setningu löggjafar um tæknifrjóvgun er því eðlilegt að glasafrjóvgun verði mælt heimil, að fullnægðum vissum skilyrðum og með ákveðnum takmörkunum.
    Meginskilyrði glasafrjóvgunarmeðferðar hlýtur að vera að henni sé eingöngu beitt í þeim tilgangi að bæta úr barnleysi pars að uppfylltum tilteknum læknisfræðilegum skilyrðum. Læknir þarf því að vera ábyrgur fyrir meðferðinni og þar með því að velja par til meðferðar.
    Annað skilyrði, sem telja verður að uppfylla þurfi, lýtur að aðbúnaði væntanlegs barns. Tryggja verður eins vel og kostur er að allar aðstæður séu barninu hagstæðar. Hér kemur til álita andleg og líkamleg heilsa væntanlegra foreldra og félagslegar aðstæður þeirra. Það er því hugsanlegt að á þessum forsendum þurfi að neita fólki um meðferð.
    Til að tryggja að barn alist upp við hefðbundnar fjöskylduaðstæður með móður og föður þykir rétt að takmarka þessa meðferð við hjón eða sambýlisfólk sem búið hefur saman í a.m.k. þrjú ár í hjúskap eða óvígðri sambúð. Samkvæmt því mundu einhleypar konur og sambýliskonur ekki eiga aðgang að þessari meðferð.
    Þá er lagt til að meginreglan verði sú að kynfrumur parsins verði notaðar við glasafrjóvgun. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að nota gjafakynfrumur ef frjósemi annaðhvort karlsins eða konunnar er skert, annað þeirra haldið alvarlegum erfðasjúkdómi eða svo hagar að aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumu. Skilyrðið verði þó ætíð að annað þeirra leggi til kynfrumur.
    Rökin fyrir því að heimila bæði sæðisgjöf eða eggfrumugjöf við glasafrjóvgunarmeðferð eru einkum þau að mismuna ekki pörum eftir því hvort þess á við skerta frjósemi að stríða. Einnig kemur til að sá möguleiki er fyrir hendi að íslenskar konur sæki þessa meðferð til annarra landa þar sem hún er heimil.
    Loks er gert ráð fyrir að fósturvísum megi eingöngu koma fyrir í legi þeirrar konu sem lagði til eggfrumur eða konu þess manns sem lagði til sæðisfrumurnar. Þannig er gert ráð fyrir að gjöf fósturvísa verði bönnuð.
    Að framan var vikið að ákvæðum barnalaga um tæknifrjóvgun og feðrunarreglum í því sambandi. Með því að hugtakið tæknifrjóvgun er samheiti fyrir tæknisæðingu og glasafrjóvgun gilda þær feðrunarreglur hvort sem notuð er aðferð tæknisæðingar eða glasafrjóvgun.
    Við eggfrumugjöf koma til álita reglur um ákvörðun móðernis. Erlendis hafa ekki, svo kunnugt sé, verið lögfestar móðernisreglur jafnvel þótt eggfrumugjöf sé heimil. Er þá á því byggt að sú almenna regla gildi að kona sem fæðir barn teljist ætíð móðir þess án tillits til uppruna eggfrumnanna.
    Af því meginskilyrði að glasafrjóvgunarmeðferð skuli beitt til að bæta úr barnleysi leiðir að ekki ber að heimila þessa meðferð í vísindalegum tilgangi. Því ber að hafna slíkri meðferð á siðfræðilegum forsendum.

4. Er tæknifrjóvgunarmeðferð réttur einstaklings?
    Ef ákveðið er að tæknifrjóvgun skuli heimil samkvæmt lögum kemur upp það álitaefni hvort meðferðin skuli vera réttur þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og ef svo er ekki hvernig staðið skuli að ákvörðun um framkvæmd og þá hvaða kröfur beri að gera til þeirra einstaklinga er hlut eiga að máli.
    Hafa ber í huga að einstaklingur á almennt ekki skilyrðislausan rétt á læknismeðferð eða innlögn ásjúkrahús. Nauðsyn læknismeðferðar eða innlagnar ásjúkrahús ákvarðast af lækni í ljósi ástands einstaklings. Í þessu sambandi ber einnig að líta til niðurröðunar forgangsverkefna innan heilbrigðisþjónustu, nýtingar sjúkrahúsa og þess að tæknifrjóvgunarmeðferð er ekki lífsnauðsynleg.
    Eðlilegt er að skipa reglum þannig að réttur konunnar eða parsins víki fyrir þeim hagsmunum er varða uppeldisaðstæður barnsins og þjóðfélagslegri stjórnun þessara mála og að ákvörðun um hvort tæknifrjóvgun skuli fara fram verði endanlega tekin af til þess bærum aðila.
    Í fljótu bragði mætti ætla að þversögn sé fólgin í því að gera kröfur til þeirra sem óska eftir að verða foreldrar við tæknifrjóvgun meðan engar kröfur eru gerðar til þeirra sem eignast barn með venjulegum hætti. Málið horfir hér þó á annan veg við þar sem gert er ráð fyrir að tæknifrjóvgun verði framkvæmd á heilbrigðisstofnun. Því er eðlilegt að barninu verði tryggð þroskavænleg uppeldiskjör eftir því sem unnt er. Er hér einkum litið til þess að barnið eigi kost á að alast upp í skjóli bæði móður og föður, við lagalega og félagslega trygg kjör og að öðru leyti heppilegar uppeldisaðstæður.

5. Hver tekur ákvörðun um að tæknifrjóvgun skuli heimiluð?
    Af þeirri niðurstöðu að tæknifrjóvgun skuli ekki vera skilyrðislaus réttur einstaklingsins leiðir að nauðsynlegt er að fela einhverjum, einstaklingi, stofnun eða nefnd, að taka ákvörðun um það hvort meðferð skuli heimiluð. Koma hér einkum tveir möguleikar til álita, þ.e. að lögfesta núverandi framkvæmd um að matið skuli vera í höndum þeirra lækna sem annast meðferð eða í valdi fjölskipaðrar nefndar.
    Ætla má að framkvæmd öll verði þyngri í vöfum ef ákvörðunarvald í þessum efnum verður fengið fjölskipaðri nefnd. Einnig má benda á að hér er um ákaflega persónuleg og viðkvæm mál að ræða sem rétt er að séu á fárra vitorði. Þó má e.t.v. ætla að nefnd hefði meiri möguleika til að velja hæfa foreldra.
    Að athuguðu máli þykir rétt að viðhalda núverandi framkvæmd og fela læknum þeim er meðferð annast að taka hverja beiðni til athugunar og ákvörðunar um hvort meðferð verði reynd. Þó er rétt að setja ákveðnar reglur sem læknir hefur til viðmiðunar til viðbótar við læknisfræðileg skilyrði. Ákvörðunarvald læknis nær til tæknifrjóvgunar almennt og skiptir í því sambandi ekki máli hvaða meðferð verður beitt.
    Þótt miðað sé við að læknir taki ákvörðun um það hvort tæknifrjóvgun fari fram þykir rétt að gera ráð fyrir að upp komi ágreiningur vegna synjunar. Er í því sambandi rétt að gera ráð fyrir sérstakri kærunefnd er fjalli um kærur.

6. Skilyrði tæknifrjóvgunarmeðferðar.
    Í ljósi þess sem að framan er rakið um að einstaklingur eigi ekki rétt eða kröfu til að gangast undir tæknifrjóvgun þykir eðlilegt að lögfesta nokkur skilyrði fyrir meðferð til viðbótar læknisfræðilegum skilyrðum.
    Meginskilyrði fyrir tæknifrjóvgun verður að aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltæknar. Við notkun gjafasæðis verði það skilyrði að maðurinn sé ófrjór eða haldinn alvarlegum erfðasjúkdómi eða að aðrar læknisfræðilegar ástæður mæli með notkun gjafasæðis. Til viðbótar hinum lögfestu skilyrðum verði settar nánari reglur um framkvæmd tæknifrjóvgunar.
    Hin lögfestu skilyrði lúta einkum að því að tryggja hagsmuni barnsins. Skal nú vikið að þeim skilyrðum sem talið er nauðsynlegt að lögfesta:
    Nauðsynlegt þykir að barn eigi þess kost að alast upp bæði með móður og föður. Einhleypar konur og samkynhneigðar verði þannig útilokaðar frá tæknifrjóvgunarmeðferð. Er það í samræmi við meginreglur sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun þar sem gert er ráð fyrir að einungis gagnkynhneigð pör geti gengist undir tæknifrjóvgunarmeðferð.
    Nauðsynlegt þykir að tryggja að samband verðandi foreldra byggi á traustum grunni. Því þykir rétt að ákveða að hjúskapur eða sambúð parsins hafi staðið a.m.k. þrjú ár samfellt áður en meðferð hefst.
    Nauðsynlegt þykir að verðandi foreldrar séu að mati læknis við góða líkamlega og andlega heilsu og geti boðið barni góð uppvaxtarskilyrði. Við mat á þessum atriðum mundi læknir styðjast við upplýsingar og mat annarra sérfræðinga, svo sem geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa, svo og barnaverndaryfirvalda eftir atvikum.
    Rétt þykir að settar verði reglur til viðmiðunar um aldur umsækjenda, bæði lágmarksaldur og hámarksaldur, en að þær reglur verði ekki lögfestar. Við setningu slíkra reglna væri rétt að hafa að nokkru hliðsjón af aldursmörkum er gilda við ættleiðingu barna. Verður þannig að telja eðlilegt að miða lágmarksaldur parsins við 25 ár þar sem ætla megi að viðkomandi hafi þá öðlast nauðsynlegan þroska til að gangast undir meðferð og ala upp barn. Hámarksaldur konu miðist við 42 ár, einkum með tilliti til þess að frjósemi hennar minnkar verulega með aldrinum, en mannsins við 50 ár. Reglum um hámarksaldur mannsins er ætlað að tryggja að barnið njóti föður í uppvextinum. Reglum um aldursmörk er ekki ætlað að binda hendur læknis heldur vera honum til leiðbeiningar við ákvörðun um hvort tæknifrjóvgun skuli heimiluð.
    Til greina kemur að áskilja ákveðinn biðtíma frá því umsókn er lögð fram og þar til meðferð hefst. Verður slík regla ekki talin nauðsynleg þar sem viðkomandi læknir hefur í hendi sér að fresta meðferð ef hann telur þess þörf.
    Rétt þykir að setja það skilyrði fyrir því að meðferð megi hefjast að fyrir liggi umsókn konunnar og samþykki karlsins. Umsókn og samþykki þurfa að vera skrifleg og samþykki karlmannsins þarf að gefa skýrt til kynna, ef um tæknifrjóvgun með gjafasæði er að ræða, að hann geri sér grein fyrir því að hann beri allar lagalegar skyldur kynföður gagnvart því barni sem til kann að verða. Nauðsynlegt er að setja nánari reglur um ráðgjöf til umsækjenda, um umsókn og samþykki mannsins, þar á meðal um afturköllun samþykkis.

7. Hvar má framkvæma meðferð?
    Nauðsynlegt þykir að tæknifrjóvgun sé framkvæmd af lækni, sérfræðingi í
kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, eða undir hans eftirliti og á hans ábyrgð.
    Í ljósi þess hversu flókin tæknisæðingarmeðferð er orðin, sbr. það sem að framan er rakið, þykir nauðsynlegt að áskilja að hún fari fram á heilbrigðisstofnun og undir eftirliti sérfræðinga.
    Ekki er síður mikilvægt að gera strangar kröfur um læknisfræðilega kunnáttu og tæknilegan útbúnað þeirra stofnana sem annast glasafrjóvgunarmeðferð. Það er þeim vel kunnugt sem að þessum málum starfa að barnlaus pör eru oft tilbúin til að kosta miklum fjármunum og fyrirhöfn til úrbóta. Því ber opinberum aðilum að koma í veg fyrir skottulækningastarfsemi á þessu sviði. Því er nauðsynlegt að glasafrjóvgun verði einnig eingöngu framkvæmd á heilbrigðisstofnun.

8. Hver velur kynfrumugjafa?
    Við val á kynfrumugjafa koma einkum tveir möguleikar til greina. Í fyrsta lagi að umsækjendur eigi valið, annaðhvort einir eða í samráði við lækni, eða að valið sé hjá þeim lækni sem framkvæmir meðferðina.
    Verði umsækjendum heimilt að velja kynfrumugjafa má telja líkur á að val þeirra beinist aðallega að því að fá fram sérstaka eiginleika hjá barni eða að því að ákveðinn einstaklingur, t.d. náinn ættingi parsins, leggi til kynfrumu. Báðar þessar ástæður fyrir vali umsækjanda ákynfrumugjafa verður að telja óæskilegar. Sú fyrri er óæskileg af þeim sökum að þar væri í raun um að ræða eins konar kynbótaræktun sem útiloka ber af siðfræðilegum ástæðum. Hina síðari ber að útiloka af þeim ástæðum að ætla má að staða barnsins í slíku fjölskyldumynstri gæti reynst því tilfinningalega erfið er fram liðu stundir og reyndar öllum þeim er málið snertir.
    Eðlilegast telst því að val á kynfrumugjafa verði í höndum þess læknis sem annast meðferð enda skuli hann kosta kapps um að verða við óskum umsækjenda um að kynfrumugjafi sé í útliti sem líkastur foreldrinu, svo sem að því er varðar líkamsbyggingu, hæð, augna- og háralit og blóðflokk.

9. Nauðsynleg ráðgjöf.
    Ákvörðun karls og konu um að leita eftir heimild til tæknifrjóvgunar er afdrifarík og líkur á að fjölmargar spurningar vakni hjá þeim sem hyggjast gangast undir slíka meðferð. Þá fylgir meðferðinni mikið sálrænt álag, ekki síst fyrir konuna.
    Æskilegt er því að umsækjendur eigi kost á faglegri ráðgjöf á þeirri heilbrigðisstofnun þar sem tæknifrjóvgunin fer fram. Ráðgjöf verði í höndum sálfræðinga, félagsráðgjafa eða annarra sérfræðinga. Æskilegt er að ráðgjafar megi leita frá þeim tíma sem aðilar undirbúa umsókn um tæknifrjóvgun. Ráðgjafar þessarar mætti einnig leita síðar vegna vandamála er upp kunna að koma vegna tæknifrjóvgunar.
    Rétt er að leggja áherslu á að ekki er rétt að skylda umsækjendur til að leita ráðgjafar; þeir eigi hins vegar kost á ráðgjöf ef þeir svo óska.

10. Um öflun kynfrumna og nafnleynd kynfrumugjafa.
    Við öflun kynfrumna, sem ætlaðar eru til gjafar, verður að gera þrjár meginkröfur. Í fyrsta lagi verður að krefjast þess að gjafinn sé heilbrigður og ekki haldinn arfgengum sjúkdómum. Því er auk almennrar læknisskoðunar nauðsynlegt að gera erfðafræðilega könnun og litningarannsókn. Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar berist með kynfrumunum. Sýklaræktun og mótefnamæling þarf því að fara fram. Í þriðja lagi þarf væntanlegur gjafi að vera vel frjósamur en það er metið við sérstaka rannsókn. Aðeins um fimmtungur þeirra sem gefa sig fram til sæðisgjafar reynist nothæfur sæðisgjafi.
    Fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga hefur það verið kostur að hafa notað innflutt sæði. Með því er hætta á skyldleika gjafa og þega hverfandi, sem og hætta á að vitneskja eða samband komist á, milli þessara aðila. Innflutningur sæðis er því áfram fýsilegur kostur, að því tilskildu að vinnslan fullnægi ströngustu kröfum og að um skyldar þjóðir sé að ræða með lítilli blöndun kynþátta.
    Innflutningur eggfrumna er á hinn bóginn háður verulegum annmörkum þar sem frysting þeirra er enn tæknilega illframkvæmanleg. Gjafaeggfrumna mun því þurfa að afla innanlands. Því fylgja svipaðir annmarkar vegna fámennis og um notkun innlends gjafasæðis og líkur aukast á því að vitneskja eða samband geti komist á á milli aðila. Heilbrigðisstofnanir, sem fá munu leyfi til að framkvæma glasafrjóvgunarmeðferð, verða því að gæta þess sérstaklega við eggfrumugjöf að nafnleynd verði virt.
    Nauðsynlegt þykir að heimila geymslu sæðisfrumna þegar viðkomandi á á hættu að missa frjósemi sína vegna sjúkdóms eða vegna nauðsynlegrar meðferðar við sjúkdómi. Frumurnar skulu aðeins vera til afnota fyrir eigandann og skulu eyðilagðar að honum látnum.
    Nafnleynd sæðisgjafa er viðkvæm og umdeild. Svipað á við um eggfrumugjafa. Eggfrumugjafir hafa ekki þekkst fram til síðustu ára en sæðisgjöf hefur viðgengist í talsverðum mæli um alllangt skeið. Börn, sem getin eru með gjafasæði í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu 20–30 árum, skipta tugum þúsunda.
    Í flestum löndum eru reglur á þann veg að sæðisgjafa er tryggð nafnleynd, auk þess sem hann fær enga vitneskju um sæðisþega. Undantekningu frá þessari reglu er þó að finna í Svíþjóð þar sem barn, sem getið er með gjafasæði, á rétt á upplýsingum um gjafann þegar það hefur aldur og þroska til. Þar sem eggfrumugjöf hefur tíðkast hafa gilt hliðstæðar reglur um nafnleynd. Ekkert liggur fyrir um að það fyrirkomulag að viðhafa nafnleynd hafi gefist illa. Raunar er afar lítið um kannanir á þessum börnum eftir að þau hafa komist á legg, af skiljanlegum ástæðum. Svo virðist sem bæði foreldrar og börn hafi leitt hjá sér þá miklu umræðu sem orðið hefur um þessi mál í flestum löndum.
    Sú skoðun hefur komið fram og vaxið fylgi á síðari árum að þessi börn hafi líkt og önnur börn náttúrulega þörf til að rekja og þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Á þessari skoðun byggist krafan um að það skuli viðurkennt sem mannréttindi að fá vitneskju um líffræðilega foreldra. Hugmyndinni um að æskilegt sé að þekkja hinar líffræðilegu rætur sínar hefur lítt verið andmælt en þó hafa komið fram gagnrýnisraddir varðandi það að skapa óvissu meðal barna og eftirvæntingu sem síðan reynist erfitt að fullnægja.
    Í meginreglum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun kemur fram að mannréttindasáttmáli Evrópu verður ekki túlkaður svo að hann styðji þessa kröfu en hann hafni henni ekki heldur.
    Ekki verður talið tímabært að setja í lög ákvæði er tryggi börnum, sem getin eru með gjafakynfrumum, rétt til vitneskju um líffræðilegt faðerni eða móðerni.

11. Geymsla kynfrumna og fósturvísa.
    Rétt þykir að lögfestar verði nokkrar reglur um geymslu kynfrumna og fósturvísa. Enn eru þó tæknilegir annmarkar á geymslu eggfrumna.
    Eðlilegt er að leyfa geymslu kynfrumna ef tilgangur geymslunnar er síðari eigin notkun, notkun í rannsóknarskyni eða gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun.
    Þá þykir rétt að leyfa geymslu fósturvísa ef tilgangur þeirrar geymslu er að koma þeim fyrir síðar í sömu konu og lagði eggfrumurnar til eða eiginkonu eða sambýliskonu þess karls sem lagði til sæðisfrumurnar. Geymslu fósturvísa í öðrum tilgangi þykir rétt að banna.
    Nauðsynlegt þykir að settar verði reglur um hámarksgeymslutíma kynfrumna og fósturvísa. Vegna örra framfara á þessu sviði þykir rétt að hámarksgeymslutíminn verði ákveðinn með reglugerð sem á hverjum tíma verði sett í samræmi við bestu læknisfræðilega þekkingu.
    Gert er ráð fyrir að að geymslutíma liðnum verði skylt að eyða bæði kynfrumum og fósturvísum. Við andlát eiganda kynfrumna skal eyða þeim nema tilgangur geymslunnar hafi verið kynfrumugjöf til notkunar við tæknifrjóvgun. Við skilnað þeirra sem lögðu til kynfrumur í fósturvísa skal eyða fósturvísunum þó svo að geymslutími sé ekki liðinn. Sama gildir við andlát annars þeirra, nema þegar tilgangur kynfrumugjafar var notkun við tæknifrjóvgun.

12. Rannsóknir á fósturvísum.
    Vandasöm siðfræðileg álitaefni koma upp í tengslum við hvort og þá hvaða rannsóknir megi framkvæma á fósturvísum. Reynslan sýnir að það virðist nánast allt vera mögulegt í þessu sambandi.
    Nauðsynlegt þykir að gera ráð fyrir lagaákvæðum um rannsóknir á fósturvísum og að byggt verði á þeirri grundvallarreglu að hvorki skuli heimilt að framkvæma rannsóknir eða tilraunir á fósturvísum, né heldur neins konar aðgerðir á þeim. Frá þessari meginreglu þykir þó eðlilegt að leyfa undantekningar ef rannsóknin miðar að velferð fósturvísisins sjálfs eða hún skaðar hann ekki á nokkurn hátt. Þá þykir einnig verjandi að leyfa tilteknar rannsóknir á fósturvísum sem fyrirsjáanlega eru ekki lífvænlegir. Slíkar rannsóknir skulu þá miða að framförum í ófrjósemislækningum eða vera ætlaðar til aukins skilnings á fósturlátum og meðfæddum sjúkdómum.
    Þá þykir rétt að banna vissar aðferðir við rannsókn. Er þar um að ræða ræktun og framleiðslu fósturvísa eingöngu í þeim tilgangi að gera á þeim rannsóknir og ræktun fósturvísa lengur en 14 daga utan líkamans eða eftir að frumrákin (primary streak) kemur fram. Með frumrák er þá átt við það er fyrsti vottur að sjálfu fóstrinu í hinu frjóvgaða eggi kemur fram þegar það er um það bil 14 daga gamalt. Þá þykir og rétt að banna það að koma mannlegum fósturvísum fyrir í dýrum og að framkvæma einræktun (cloning).
    Vandasamt er að setja í lög ákvæði um heimildir og bönn á þessu sviði, m.a. vegna þess að nýjungar eru oftar en ekki ófyrirséðar. Er þá æskilegt að gert sé ráð fyrir stýringu í þessum efnum með reglugerð.
    Að því er varðar allar læknisfræðilegar rannsóknir á mönnum, mennskum vef og frumum ber að hafa í huga að þær eru háðar eftirliti og samþykki fleiri aðila, svo sem yfirmanns stofnunar sem framkvæmir rannsókn, fjármagnandi aðila (vísindasjóða eða spítalastjórna), siðanefndar spítala og ekki síst hlutaðeigandi einstaklinga. Er sjálfsagt og eðlilegt að þessar almennu reglur um rannsóknarleyfi í hverju einstöku tilviki gildi einnig um rannsóknir á fósturvísum.
    Ekki er talin þörf á að settar verði sérstakar reglur um rannsóknir á kynfrumum, þ.e. eggfrumum eða sæðisfrumum. Er þá gert ráð fyrir að um þær gildi almennar reglur um læknisfræðilegar rannsóknir.

13. Staðgöngumæðrun.
    Með staðgöngumæðrun er átt við þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og láta það af hendi til hennar strax eftir fæðingu. Við staðgöngumæðrun er fósturvísum með kynfrumum parsins sem ætlar að fá barnið að fæðingu lokinni ýmist komið fyrir í staðgöngumóður eða staðgöngumóðirin leggur til eigin eggfrumu en sæðisfrumur koma frá eiginmanni eða sambýlismanni konunnar sem á að fá barnið eftir fæðingu.
    Margvísleg siðfræðileg álitamál koma upp við staðgöngumæðrun. Aðalálitaefnið er móðerni barnsins, einkum í þeim tilvikum þegar fósturvísum með kynfrumum parsins sem fá á barnið eftir fæðingu er komið fyrir í staðgöngumóðurinni.
    Í meginreglum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun er gert ráð fyrir að kona sem fæðir barn skuli ætíð teljast móðir þess, án tillits til uppruna eggfrumnanna.
    Rétt þykir að leggja til að staðgöngumæðrun verði óheimil.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Rétt þykir að skilgreina þau hugtök sem mest eru notuð í frumvarpinu.
    Merking hugtaksins tæknifrjóvgun var nokkuð á reiki framan af. Orðið var ýmist notað um getnað í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Á síðari árum hefur orðið á hinn bóginn fest í sessi sem samheiti yfir getnað í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Er því lagt til að hugtakið verið notað sem samheiti yfir þessar tvær aðferðir við getnað.
    Hugtakið tæknisæðing merkir aðgerð þegar sæði er komið fyrir í eða nærri kynfærum konu á annan hátt en með samförum.     
    Hugtakið glasafrjóvgun er notað um þá aðgerð þegar eggfruma, sem numin hefur verið úr líkama konu, er frjóvguð með sæðisfrumu utan líkamans.
    Með hugtakinu kynfrumur er átt við annars vegar eggfrumur og hins vegar sæðisfrumur.
    Hugtakið fósturvísir merkir frjóvgað egg á öllum þroskastigum þess, allt frá því að það er frjóvgað og þar til það kemst á fósturstig er það verður þriggja mánaða gamalt.
    Með hugtakinu gjafi er átt við einstakling sem leggur öðrum til sæðisfrumur.
    Með hugtakinu staðgöngumæðrun er átt við það þegar tæknifrjóvgun er gerð á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu.

Um 2. gr.


    Tæknifrjóvgun er nú eingöngu framkvæmd á kvennadeild Landspítalans. Eðlilegt þykir að áskilja að þessi meðferð verði eingöngu veitt á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur til þess leyfi og undir eftirliti sérfræðinga íkvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Það þýðir að þeir sem vilja setja á stofn starfsemi af þessu tagi verða að fá til þess sérstakt leyfi auk almenns leyfis í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.
    Gert er ráð fyrir að um greiðslu fyrir tæknifrjóvgun gildi reglur sem settar verða með reglugerð á hverjum tíma með stoð í almannatryggingalögum, enda verði aðgerðin ekki framkvæmd á einkastofnun sem aflað hefur tilskilinna leyfa. Í þeim tilvikum yrði greiðslan í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar sjálfrar.

Um 3. gr.


    Eðlilegt þykir að setja ýmis skilyrði fyrir tæknifrjóvgunarmeðferð, og er það í samræmi við það sem gert hefur verið við setningu löggjafar um tæknifrjóvgun í helstu nágrannalöndum okkar og þá framkvæmd sem hefur tíðkast eftir að meðferðin hófst hér á landi. Skilyrði þessi snúa að karli þeim og konu sem óska eftir tæknifrjóvgunarmeðferð og hafa þau það að markmiði að tryggja eftir því sem kostur er hagsmuni barns þess sem mun fæðast eftir getnað með tæknifrjóvgun.
    Í fyrsta lagi þykir rétt að setja skilyrði um að eingöngu gagnkynhneigð pör eigi aðgang að þessari meðferð. Byggist það á því viðhorfi að barn eigi að eiga þess kost að alast upp bæði með móður og föður.
    Í öðru lagi þykir eðlilegt að setja skilyrði um aldur parsins, hvors um sig, og um lengd sambúðar þess. Gert er ráð fyrir að aldursmörkin verði ekki lögákveðin heldur verði kveðið á um það efni í reglugerð og verði við þá ákvörðun tekið mið af velferð barnsins á uppvaxtarárum og sambærilegum reglum um aldursmörk við þær sem gilda við ættleiðingu. Nauðsynlegt er að samband parsins byggi á traustum grunni og því er það sett sem skilyrði að hjúskapurinn eða sambúðin hafi staðið a.m.k. í þrjú ár samfellt áður en meðferð hefst.
    Í þriðja lagi þykir rétt að setja skilyrði um góða andlega og líkamlega heilsu parsins og að félagslegar aðstæður þess séu með þeim hætti að ætla megi að barninu verði boðin góð uppvaxtarskilyrði. Við mat á þessum atriðum þarf læknir að styðjast við upplýsingar og mat annarra sérfræðinga, svo sem geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa svo og barnaverndaryfirvalda, ef þörf krefur.
    Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir að aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar.
    Loks þykir rétt að setja sem skilyrði að parið hafi samþykkt meðferðina skriflega og við votta að fengnum upplýsingum um aðgerðina og þau læknisfræðilegu og lögfræðilegu áhrif sem hún kann að hafa. Við setningu þessa skilyrðis eru ítrekuð skilyrði barnalaga um samþykki við tæknifrjóvgun með gjafasæði. Gert er ráð fyrir að samþykki þetta verði skriflegt á þar til gerðu eyðublaði.
    Gert er ráð fyrir að læknir taki ákvörðun um meðferð. Þá er lagt til að synjun megi kæra til landlæknis sem sendi kæruna tafarlaust til meðferðar þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar. Í nefndinni verði þrír menn og þrír til vara, læknir, lögfræðingur og félagsráðgjafi. Ákvörðun nefndarinnar verði endanleg.
    Með þessu eru sett sömu skilyrði fyrir allri tæknifrjóvgunarmeðferð, án tillits til þess hvort gjafakynfrumur eru notaðar eða ekki.

Um 4. gr.


    Nauðsynlegt þykir að tryggja að nafnleynd ríki milli gefenda kynfrumna og þiggjenda og er það í samræmi við reglur í öllum nágrannalöndum okkar ef Svíþjóð er undanskilin. Með nafnleynd er átt við að persónulegar upplýsingar um gefanda eða þiggjanda eru ekki veittar, svo sem nafn eða önnur deili sem vísað geta á hlutaðeigandi. Á hinn bóginn er heimilt að veita þiggjendum upplýsingar um útlitseinkenni gefanda, svo sem hæð, líkamsbyggingu og háralit. Rétt þykir að setja skilyrði um að læknir velji viðeigandi kynfrumugjafa. Þess skal gætt, sé þess kostur, að velja kynfrumugjafa með einkenni sem líkust útlitseinkennum verðandi foreldris.

Um 5. gr.


    Ástæða þykir til að fjalla sérstaklega um tæknisæðingu með gjafasæði. Um tæknisæðingu með sæði eiginmanns eða sambýlismanns gilda á hinn bóginn eingöngu hin almennu ákvæði 3. gr.
    Gert er ráð fyrir að tæknisæðingu með gjafasæði megi því aðeins framkvæma að frjósemi eiginmanns eða sambýlismanns sé skert, hann haldinn alvarlegum erfðasjúkdómi eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæli með notkun gjafasæðis, svo sem misræmi í ónæmisþáttum milli hjónanna eða lömun karlmannsins.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að við glasafrjóvgunarmeðferð verði meginreglan sú að kynfrumur parsins séu notaðar. Í undantekningartilvikum þykir þó rétt að heimila notkun gjafakynfrumna við glasafrjóvgun. Þessi undantekningartilvik eru hin sömu og eiga við um tæknisæðingu með gjafasæði, sbr. 5. gr., þ.e. þegar frjósemi karlsins eða konunnar er skert, annað þeirra haldið alvarlegum efðasjúkdómi eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfruma.
    Þó svo að notkun gjafakynfrumna verði heimil þykir rétt að setja það skilyrði að gjöf fósturvísa verði bönnuð. Það þýðir að nota verður kynfrumur frá karlinum eða konunni. Rétt þykir þó að taka það skýrt fram í lagatextanum að gjöf fósturvísa skuli bönnuð.
    Bann við gjöf fósturvísa hefur það og í för með sér að staðgöngumæðrun verður óheimil. Engu að síður þykir rétt að ítreka það bann með beinu lagaákvæði.

Um 7. gr.


    Þar sem lagt er til að notkun gjafakynfrumna verði heimiluð við tæknifrjóvgunarmeðferð er nauðsynlegt að setja reglur um geymslu gjafakynfrumna og fósturvísa. Í greininni er sett það skilyrði að einungis megi geyma gjafakynfrumur og fósturvísa á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur sérstakt leyfi skv. 2. gr.

Um 8. gr.


    Nauðsynlegt þykir að setja ákveðnar reglur um hvenær geyma megi gjafakynfrumur. Hér er gert ráð fyrir að geymsla þessara frumna verði heimil þegar tilgangurinn er eitt af þrennu, síðari eigin notkun, gjöf í rannsóknarskyni eða gjöf vegna tæknifrjóvgunar.
    Í greininni eru síðan sett nánari skilyrði um skriflegt samþykki gjafa fyrir geymslunni í samræmi við tilgang hennar. Gert er ráð fyrir að sérstök eyðublöð verði útbúin vegna þessa. Samþykkið skal þó ekki gefið fyrr en gjafanum hafa verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á kynfrumur og fósturvísa og hin almennu skilyrði sem sett verða fyrir geymslu kynfrumna.

Um 9. gr.


    Nauðsynlegt þykir að setja reglur um geymslu fósturvísa. Geymsla fósturvísa skal einungis heimil í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í konu þeirri sem lagði eggfrumurnar til eða eiginkonu eða sambýliskonu þess karlmanns sem lagði sæðisfrumurnar til. Geymsla fósturvísa í öðrum tilgangi verði óheimil og er það í samræmi við bann 6. gr. við gjöf á fósturvísum. Gert er ráð fyrir að karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, veiti skriflegt samþykki fyrir geymslunni, enda hafi þeim verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á fósturvísinn og hin almennu skilyrði sem sett verða fyrir geymslu fósturvísa.
    Lagt er til að fósturvísa megi aldrei nota nema í samræmi við samþykktan tilgang geymslunnar.

Um 10. gr.


    Hér er sagt fyrir um með hvaða hætti hámarksgeymslutími kynfrumna og fósturvísa skuli ákveðinn. Rétt þykir að það verði ákveðið með reglugerð í samræmi við bestu læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma. Að hámarksgeymslutíma liðnum verði ónotuðum kynfrumum og fósturvísum eytt.
    Þó svo að hámarksgeymslutími kynfrumna verði ekki liðinn er gert ráð fyrir að ónotuðum frumum verði eytt ef sá sem lagði þær til andast, nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun. Þá er gert ráð fyrir að ef hámarksgeymslutími fósturvísa er ekki liðinn skuli þeim eytt ef karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, slíta hjúskap eða sambúð. Sama gildi ef annað þeirra andast nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun.

Um 11. gr.


    Hér eru sett fram skilyrði fyrir rannsóknum á fósturvísum. Meginreglan skal vera sú að hvers konar rannsóknir, tilraunir og aðgerðir á fósturvísum skuli vera óheimilar. Þó þykir rétt að heimila rannsóknir áfósturvísum ef þær eru liður í glasafrjóvgunarmeðferð, miða að framförum í meðferð vegna ófrjósemi, þær eru ætlaðar til aukins skilnings á orsökum meðfæddra sjúkdóma og fósturláta eða þeim er ætlað að greina arfgenga sjúkdóma í fósturvísunum sjálfum.

Um 12. gr.


    Lagt er til að bannað verði að rækta eða framleiða fósturvísa eingöngu í þeim tilgangi að gera á þeim rannsóknir, að rækta fósturvísa lengur en í 14 daga utan líkamans eða eftir að frumrákin (primary streak) kemur fram, að koma mannlegum fósturvísum fyrir í dýrum og að framkvæma einræktun (cloning).
    Er þetta í samræmi við meginreglur sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun og löggjöf helstu nágrannalanda okkar.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Hér eru sett ákvæði um refsingu við brotum gegn ákvæðum laganna. Þá þykir rétt að lögfesta að hlutdeild sé einnig refsiverð.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um tæknifrjóvgun.


    Í frumvarpinu eru settar fram tillögur um lagaramma fyrir tæknifrjóvganir en tæknisæðing hefur verið gerð hér á landi frá árinu 1980 og glasafrjóvganir frá árinu 1991. Frumvarpið tekur á réttaráhrifum tæknifrjóvgunar og skilgreinir réttarstöðu aðila og á hvaða sviðum rannsóknir og tilraunir á fósturvísum skuli vera óheimilar. Frumvarpið á því ekki að hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs eða á umfang slíkra aðgerða miðað við það sem nú er.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisspítölum var heildarrekstrarkostnaður af glasafrjóvgunardeild 32 m.kr. árið 1994. Ef ákveðið verður að gera aðgerðir þar sem fram fer eggfrumugjöf verður viðbótarkostnaður einkum lyfjakostnaður og óhjákvæmilega verður kostnaður hjá eggfrumugjafa. Ekki er gert ráð fyrir að samband verði á milli eggþega og eggfrumugjafa fremur en við sæðisgjöf. Ef krafist yrði greiðslu við kynfrumugjöf er hægt að innheimta þann kostnað hjá kynfrumuþega, með milligöngu glasafrjóvgunardeildar.