Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 165 . mál.


202. Frumvarp til laga



um breyting á vegalögum, nr. 45/1994.

Flm.: Svavar Gestsson.



1. gr.


    Á eftir orðinu „skógræktarsvæða“ í niðurlagi 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: vegi sem sérstaklega eru afmarkaðir fyrir umferð reiðhjóla.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samhljóða frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en var þá ekki afgreitt. Þá fylgdi því þessi stutta greinargerð:
    Notkun reiðhjóla hefur farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Hafa bæjarfélög brugðist við því með því að leggja sérstakar brautir fyrir umferð reiðhjóla. Þannig hefur orðið til nær samfellt net reiðhjólastíga hér á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorni landsins.
    Þessi mál hafa ekki verið flutt inn á vettvang Alþingis áður. Hér er lögð fram tillaga um að vegir, afmarkaðir fyrir reiðhjól, verði teknir inn í vegalög sem væri fyrsta skrefið. Í framhaldi af því þyrfti svo að verða til samfellt net reiðhjólastíga á stærri svæðum. Vonandi verður þessi tillaga til að vekja umræður sem síðan leiða til ákvarðana á Alþingi í þessum efnum.