Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 166 . mál.


208. Tillaga til þingsályktunar



um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Kristján Pálsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gera nú þegar þær breytingar á verslunarrekstri sem fram fer í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem geri einstaklingum og fyrirtækjum kleift að setja upp og reka tollfrjálsar verslanir fyrir ferðamenn, en jafnframt dragi hið opinbera sig út úr rekstri tollfrjálsra verslana þar.

Greinargerð.


     Eitt af grundvallaratriðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er jöfnun samkeppnisskilyrða. Til að svo megi verða þurfa einstaklingar og fyrirtæki, jafnt hér á landi sem annars staðar, að eiga jafnan rétt á að bjóða fram þjónustu sína, hvort sem um er að ræða viðskipti innan lands eða milli landa. Ein stærsta verslun landsins, með veltu upp á 1.980 millj. kr., er rekin af hinu opinbera í Leifsstöð. Flutningsmenn tillögunnar telja óeðlilegt að hið opinbera sinni þessari starfsemi. Nú þegar er rætt um einkavæðingu flughafnarinnar. Meira skiptir að hið opinbera dragi sig alfarið út úr öllum verslunarrekstri á Keflavíkurflugvelli og fái hann í hendur einkaaðilum. Þetta gæti gerst með því að skipta núverandi húsnæði fríhafnarinnar í einingar sem unnt væri að leigja út til einkaaðila til ákveðins tíma í senn og sæju þeir sjálfir um atvinnustarfsemina. Ekki þyrfti að koma til neinnar lagabreytingar af þessum sökum þar sem 79. gr. tollalaga, nr. 55/1987, heimilar nú þegar rekstur tollfrjálsra verslana í flugstöðvum.
    Á síðasta ári fóru u.þ.b. 840 þúsund ferðamenn um flugstöðina í Keflavík og er þá hvort tveggja talið, ferðamenn sem áttu þar stutta viðdvöl (transit) og ferðamenn sem dvöldust lengur hér, auk íslenskra ferðamanna. Almennt er talið að ferðamenn verji u.þ.b. 25% af ferðafé sínu til verslunar, og er þá ekki meðtalinn matur og drykkur. Því er ljóst að það skiptir verslunina í landinu verulegu máli að fá aðgang að þessu viðskiptasviði. Nú eru þær vörur, sem eru á boðstólum í fríhöfninni í Leifsstöð, seldar ferðamönnum á mun lægra verði en kaupmenn geta almennt boðið þar sem af þeim eru hvorki innheimtir tollar, vörugjöld né virðisaukaskattur. Hið opinbera innheimtir sömu gjöld og það sleppir sjálft af þeim vörum sem seldar eru í fríhöfninni í Leifsstöð af annarri verslun í landinu. Allir sjá hversu gífurlegt óréttlæti og mismunun hér er um að ræða. Það getur aldrei talist hlutverk hins opinbera að stunda verslun í samkeppni við einkaaðila. Mun eðlilegra hlýtur að teljast að hið opinbera skapi einstaklingum færi á að stunda slíka atvinnustarfsemi í innbyrðis samkeppni.