Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 194 . mál.


242. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    4. tölul. 14. gr. laganna orðast svo:
4.    Að selja ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis. Einnig að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að 4. tölul. 14. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, verði breytt. Í greininni er kveðið á um að við Iðnlánasjóð skuli rekin tryggingardeild útflutningslána. Hér er lagt til að hlutverki tryggingalánadeildarinnar verði breytt þannig að starfssvið hennar víkki frá því sem nú er. Í frumvarpinu er lagt til að deildinni verði heimilt að tryggja verkábyrgðir sem íslenskum verktökum er nauðsynlegt að setja vegna verka sem þeir kynnu að hreppa í útboðum stórframkvæmda á EES-svæðinu, eða í öðrum ríkjum, enda fari slíkar framkvæmdir að umfangi yfir þau mörk sem gera þær útboðsskyldar á EES-svæðinu. Gert er ráð fyrir að starfsemi deildarinnar við veitingu ábyrgðartrygginga fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis verði óbreytt að öllu leyti, en viðmiðunarmörk 4. tölul. eiga aðeins við um veitingu verkábyrgða vegna framkvæmda innlendra aðila eins og þar er skýrt tekið er fram, sbr. nánar ákvæði 1. gr. frumvarpsins.
    Samkeppnisstaða íslenskra verktaka í útboði stórframkvæmda hér á landi er verulega skert gagnvart erlendum keppinautum sem njóta slíkra ábyrgða heima fyrir.
    Nú er útlit fyrir að á næstu missirum kunni að verða ráðist í nokkur stórverkefni á Íslandi sem innlendir aðilar eiga erfitt með að keppa um vegna þess að þeir geta ekki sett nauðsynlegar verktryggingar. Þess vegna er mikilvægt að veita tryggingalánadeild Iðlánasjóðs heimild til þess að tryggja almennt verkábyrgðir íslenskra aðila vegna verkefna sem fara yfir þau stærðarmörk sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins. Heimilt hefur verið hingað til að veita íslenskum aðilum verktryggingar vegna framkvæmda erlendis en eðlilegt þykir að slík heimild nái einnig til framkvæmda hér á landi.
    Lagt er til að miðað verði við framkvæmdir sem eru það umfangsmiklar að þær væru útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu ef um opinberar framkvæmdir væri að ræða (5 milljónir ECU), enda þótt einstök útboð innan heildarframkvæmdanna séu lægri. Hér er einungis verið að ræða um umfangsmiklar framkvæmdir þar sem reikna má með samkeppni frá erlendum aðilum. Til þess að standa sig í þeirri samkeppni er íslenskum aðilum nauðsynlegt að geta tryggt verkábyrgðir sínar.
    Iðgjöld sjóðsins hafa staðið að miklu leyti undir þeim kostnaði og áhættu sem af starfseminni hefur leitt. Ekki er ástæða til að breyting verði á því þrátt fyrir þessa viðbót við starfsemina.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga
um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.

    Í frumvarpinu er lagt til að Iðnlánastjóði verði heimilt að veita verkábyrgðir til innlendra aðila vegna framkvæmda sem að umfangi fara yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu. Núna eru viðmiðunarmörkin 5 milljónir ECU.
    Á því tímabili sem tryggingardeild útflutningslána hjá Iðnlánasjóði hefur starfað, skv. 14. gr. laga nr. 76/1987, hafa gjöld verið um 14% umfram tekjur. Til að endar næðu saman þyrftu því iðgjöld sem hlutfall af ábyrgðarramma deildarinnar að hækka úr 0,87% í 0,99%. Við núverandi aðstæður styrkir ríkið því hvert verkefni sem tryggingardeildin gengur í ábyrgð fyrir um 0,12% af ábyrgðarramma.
    Fyrirhuguð stækkun álversins í Straumsvík er talin munu kosta um 13,5 milljarða króna. Ætla má að allt að þriðjungur eða 4,5 milljarðar króna sé kostnaður sem gæti fallið í skaut innlendra aðila. Ef tryggingardeild útflutningslána hjá Iðnlánasjóði veitir verkábyrgðir, sem nemur ákveðnum hluta af kostnaðarþætti innlendra aðila vegna stækkunarinnar og að framhald verður á því sem undan er gengið í starfsemi deildarinnar, verður kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins á bilinu 3–5 m.kr.
    Vakin er athygli á því að í 15. gr. laga nr. 76/1987 um Iðnlánasjóð segir m.a.: „Stjórn Iðnlánasjóðs ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll tryggingardeildar útflutningslána en þau skulu háð samþykki iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miða við að þau standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs er nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma.“ Eðlilegt er að iðgjöld Iðnlánasjóðs verði hækkuð nægjanlega til þess að uppfylla þetta ákvæði laga um Iðnlánasjóð.