Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 210 . mál.


271. Tillaga til þingsályktunar



um opinberan stuðning við starfsþjálfun í fyrirtækjum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Stefán Guðmundsson, Ólafur Örn Haraldsson,


Magnús Stefánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu um starfsþjálfun er hvetji til aukinnar þátttöku fyrirtækja í verknámi framhaldsskólanema.

Greinargerð.


    Starfsþjálfun er snar þáttur í námi margra nemenda framhaldsskóla. Mikilvægur liður í námi flestra iðnnema er fólginn í starfsþjálfun á ábyrgð starfandi meistara í iðngreinum. Á undanförnum árum hefur gætt aukinna erfiðleika nemenda við að komast á samning eða í starfsþjálfun innan fyrirtækja. Staða þeirra nemenda er mjög óljós, enda geta þeir ekki hlotið starfsréttindi fyrr en að lokinni starfsþjálfun. Hér er um alvarlegan galla á menntakerfi okkar að ræða.
    Í frumvarpi til laga um framhaldsskóla er gert ráð fyrir verulegri áherslu á starfsnám, ekki síst nýjar starfsmenntabrautir sem ekki hafa verið í framhaldsskólum til þessa. Nokkrir framhaldsskólar búa sig nú undir rekstur slíkra brauta. Þar er m.a. gert ráð fyrir starfsþjálfun að hluta á vinnustöðum. Mikilvægt er að fyrirtæki sjái sér hag í og verði umbunað fyrir að taka nemendur í starfsþjálfun. Það má t.d. gera með beinum styrkjum eða skattaívilnun.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að ríkisstjórnin móti skýrar tillögur á þessu sviði, en segja má að málið falli undir þrjú ráðuneyti, þ.e. menntamála-, iðnaðar- og fjármálaráðuneyti. Vænst er tillagna til lausnar málinu fyrir þinglok árið 1996 þannig að um haustið geti skólar og fyrirtæki lagað sig að breytingunum.