Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 45 . mál.


275. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994, sbr. lög nr. 143/1994.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Með frumvarpi þessu er leitað eftir staðfestingu Alþingis á niðurstöðutölum fjárlaga ársins 1994. Samkvæmt því hafa innheimtar tekjur orðið 2,8 milljörðum kr. hærri en fjárlög og aukafjárlög 1994 gerðu ráð fyrir. Þá voru gjaldaheimildir samkvæmt fjárlögum og aukafjárlögum 2,8 milljörðum kr. hærri en gjöldin urðu í raun, og endanlegur halli á rekstri ríkissjóðs varð því 7,4 milljarðar kr. árið 1994 eða 2,3 milljörðum kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir og heilum 5,6 milljörðum kr. lægri en reiknað var með við afgreiðslu fyrri fjáraukalaga ársins 1994. Sú niðurstaða gefur ekki tilefni til hárra einkunna fyrir áætlanagerð.
    Fjárlaganefnd óskaði eftir áliti Ríkisendurskoðunar, og í greinargerð hennar er m.a. bent á að gjaldaheimildir hafi hækkað frá fjárlögum um 7,5 milljarða kr. eða um 6,6%. Á móti þeirri hækkun hafa gjaldaheimildir hins vegar verið lækkaðar um 4,3 milljarða kr. eða um 3,8%. Heildarbreytingar á gjaldahlið nema því um 10% sem verða að teljast mjög mikil frávik, og sýnir þetta enn einu sinni hversu erfiðlega gengur að setja raunhæf fjárlög. Alvarlegra er þó að ríkisstjórnin ákveður og framkvæmir flestar þessar breytingar án þess að bera þær undir Alþingi fyrr en eftir á. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að á þessu verði breyting og leitað verði fyrir fram eftir samþykki Alþingis til fjárveitinga umfram heimildir fjárlaga. Gera þarf fjárlaganefnd kleift að fylgjast betur með framkvæmd fjárlaga og fjalla um allar hugsanlegar breytingar jafnóðum og tilefni gefast.
    Minni hlutinn tekur undir það sem Ríkisendurskoðun segir í áliti sínu að telja verði „að framsetning frumvarpsins sé ekki nægilega skýr þannig að fyrir liggi hvað afgreiðsla frumvarpsins í raun felur í sér, einkum er varðar afgreiðslu fjárheimilda einstakra stofnana og viðfangsefna“. Er í rauninni hálfgerð gestaþraut að þræða sig í gegnum einstaka liði og átta sig á niðurstöðum heildardæmisins þar sem ýmist er verið að sækja um heimildir vegna umframgjalda eða til niðurfellingar heimilda vegna ónotaðra fjárveitinga.
    Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar felur samþykkt frumvarpsins í sér eftirfarandi breytingar á gjaldahlið (í millj. kr.):


Viðbótargjaldaheimild á árinu 1994     
180
,0
Gjaldaheimildir falla niður í árslok 1994     
(1.481
,5)
Gjaldaheimildir vegna stofnframkvæmda árið 1994 fluttar til ársins 1995     
(1.193
,1)
Gjaldaheimildir vegna tilfærslu árið 1994 fluttar til ársins 1995     
(362
,6)
Gjaldaheimildir vegna reksturs árið 1994 fluttar til ársins 1995     
(577
,9)
Heimild til lækkunar gjaldaheimilda 1995     
616
,5
Til lækkunar     
(2.818
,6)


    Með frumvarpinu er verið að leita staðfestingar Alþingis á þegar orðnum greiðslubreytingum og hefði þurft að afgreiða það miklu fyrr. Minni hlutinn gerir ekki frekari athugasemdir við einstakar greinar þess en mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 1995.



Kristín Halldórsdóttir,

Bryndís Hlöðversdóttir.

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.