Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 218 . mál.


297. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Háskólann á Akureyri, nr. 51/1992, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    15. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald, 24.000 kr. Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Háskólanefnd er heimilt með samningi að ráðstafa allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli Háskólans á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri sem háskólanefnd staðfestir. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.
    Háskólanefnd er heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðrum prófum en tilgreint er í 1. mgr. ef hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning til náms við háskólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um inntökuskilyrði.
    Inntaka nemenda er í höndum háskólanefndar og getur hún að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir háskólans. Setja skal í reglugerð ákvæði er mæla fyrir um árlega skráningu nemenda.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur framgreindrar breytingar sem til er lögð er að treysta lagagrundvöll undir töku skrásetningargjalds af stúdentum við Háskólann á Akureyri en samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis, máli nr. 836/1993, dags. 19. maí 1995, er skrásetningargjald við Háskóla Íslands þjónustugjald og ekki nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella þar undir og hvernig megi ráðstafa gjaldinu. Forsvarsmenn Háskólans á Akureyri telja að ef grannt væri skoðað yrði komist að svipaðri niðurstöðu varðandi samsvarandi ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalds við Háskólann á Akureyri enda eru lög háskólanna hvað þetta atriði varðar býsna áþekk.
    Háskólinn á Akureyri leggur því áherslu á að sé það vilji stjórnvalda að háskólinn afli sértekna með þeim hætti að innheimta gjöld af nemendum verði löggjafinn að tryggja að lagaákvæði sem heimili slíka gjaldtöku séu skýr og ótvíræð. Hið sama gildir um ráðstöfun þeirra til annarra aðila en háskólans sjálfs. Hér er því lagt til að upphæð gjaldsins verði tilgreind en komi til árlegrar endurskoðunar við setningu fjárlaga. Jafnframt verði kveðið á um heimild til ráðstöfunar hluta hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gjaldaheimildin, sem háskólinn hefur, er í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, en hún hljóðar svo:
    „Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla, sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald.“
    Samsvarandi gjaldaheimild við Háskóla Íslands er of þröng að áliti umboðsmanns Alþingis, þar sem líta verði á skrásetningargjaldið sem þjónustugjald sem þurfi að eiga sér beina stoð í lögum. Óheimilt er að taka hærra þjónustugjald en almennt nemur kostnaði við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni, í þessu tilviki skrásetningu. Að óbreyttu nægir því hugtakið skrásetningargjald ekki til að fella megi undir það ýmsa kostnaðarliði sem mæta þarf í rekstri háskólans í tengslum við margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, upplýsingar um námsferil stúdenta, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, vottorð, prófskírteini, aðgang að þjónustu skrifstofu háskólans, deildarskrifstofum, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans. Heimildin í tillögunni til að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila er nauðsynleg til að mæta viðbótarkostnaði vegna aukinnar vinnu við innheimtu og óvissu sem skapast við endanlegt skipulag og framkvæmd kennslu komandi háskólaárs. Upphæð 15% álagsins á grunngjaldið miðast við áætlaða meðaltalsupphæð sem standa á undir hinum aukna kostnaði sem af þeim stúdentum hlýst sem ekki sinna skráningu á auglýstum tímabilum.
    Í frumvarpinu er kveðið á um ráðstöfun skrásetningargjaldsins til háskólans, Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri en ráðstöfun hluta skrásetningargjaldsins til þessara aðila styðst ekki við lög að óbreyttu samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis. Skrásetningargjaldið er eitt og óskipt gjald og skilgreint sem sértekjur en háskólinn þarf sérstaka heimild til að ráðstafa tekjum til annarra aðila en háskólans sjálfs. Með setningu þessara laga er því lögfest heimildarákvæði um ráðstöfun hluta gjaldsins til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri samkvæmt samningi á milli þessara aðila og háskólans um þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna. Félagsstofnun stúdenta á Akureyri er sjálfseignarstofnun og starfar á grundvelli sérstakrar skipulagsskrár frá 26. október 1988 (sjá fskj. I). Með frumvarpi þessu fylgja drög að samningi milli Háskólans á Akureyri og Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri (sjá fskj. II).

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Skipulagsskrá Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri.



1. gr.

    Stofnunin er sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð.

2. gr.

    Tilgangur stofnunarinnar er að eiga og reka námsmannaíbúðir og annast aðra þjónustu við námsmenn, svo sem rekstur bóksölu, kaffistofu o.s.frv.

3. gr.

    Aðild að stofnuninni eiga:
    Háskólinn á Akureyri og allir skrásettir stúdenta innan hans.
    Skjöldur, félag áhugamanna um eflingu Háskólans á Akureyri.
    Sveitarfélög og aðrir, sbr. 4. gr.

4. gr.

    Aðilar að stofnuninni skipa fulltrúaráð. Fulltrúaráð skal þannig skipað:
    Háskólanefnd Háskólans á Akureyri tilnefnir tvo fulltrúa.
    Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri tilnefnir tvo fulltrúa.
    Skjöldur, félag áhugamanna um eflingu Háskólans á Akureyri tilnefnir einn fulltrúa.
    Eftirtöldum sveitarfélögum er heimilt að tilnefna a.m.k. einn fulltrúa hvert: Akureyri, Blönduós, Dalvík, Húsavík, Ólafsfjörður, Sauðárkrókur og Siglufjörður.
    Fulltrúaráði er heimilt að veita fleiri sveitarfélögum eða öðrum aðilum aðild að fulltrúaráðinu enda hafi þeir lagt fé til stofnunarinnar.

5. gr.

    Fulltrúaráð skal vera stjórn stofnunarinnar til ráðgjafar og aðstoða hana við fjáröflun.

6. gr.

    Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm mönnum og er kjörtímabil þeirra tvö ár. Stjórnina skal skipa svo sem hér segir: Fulltrúaráðið tilnefnir tvo menn og tvo til vara úr hópi þeirra sem eiga aðild skv. c-, d- og e-lið 4. gr. Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri tilnefnir tvo menn og tvo til vara. Háskólinn á Akureyri tilnefnir einn mann og einn varamann.

7. gr.

    Starfsár stjórnar og rekstrarár er almanaksár. Stjórnin skal skila árlegri starfsskýrslu.

8. gr.

    Stjórnin skiptir með sér verkum, kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera er bera skal ábyrgð á fjárreiðum. Formaður boðar til funda. Sérhver stjórnarmaður getur krafist fundar í stjórn stofnunarinnar. Fundir teljast löglegir ef fjórir stjórnarmanna sitja fund. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

9. gr.


    Gjaldkeri skal eigi síðar en 30. júní ár hvert senda Ríkisendurskoðun reikninga stofnunarinnar fyrir síðastliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.

10. gr.

    Frá og með 1. janúar 1989 skal formaður stofnunarinnar tilkynna sjóðaskrá hverjir skipa stjórn hverju sinni.

11. gr.

    Tekjur stofnunarinnar eru:
    Tekjur af rekstri stofnunarinnar.
    Gjafir sem stofnuninni kunna að berast.
    Hluti af árlegum innritunargjöldum námsmanna eftir nánari ákvæðum í reglugerð um Háskólann á Akureyri.
    Framlag úr ríkissjóði eftir því sem Alþingi ákveður hverju sinni.

12. gr.

    Tekjur stofnunarinnar renna allar til hennar sjálfrar.

13. gr.

    Stjórn stofnunarinnar ráðstafar tekjum hennar í samræmi við 2. gr. skipulagsskrár þessarar.

14. gr.

    Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

15. gr.

    Verði stofnunin lögð niður renna eignir hennar allar til Háskólans á Akureyri.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þegar tilnefnt er í stjórn í fyrsta sinn skal annar fulltrúi stúdenta í stjórn stofnunarinnar vera skipaður til eins árs en hinn til tveggja. Sami háttur skal hafður á um fyrstu tilnefningu fulltrúaráðs á stjórnarmönnum.



Samþykkt á stofnfundi 26. október 1988.





Fylgiskjal II.


Drög að samningi Háskólans á Akureyri


og Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri.


    Háskólinn á Akureyri og Félagsstofnun stúdenta á Akureyri gera með sér svofelldan samning í samræmi við 15. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, sbr. lög nr. xx/1995.

I.


    Félagsstofnun stúdenta á Akureyri tekur að sér, sjálf eða í samvinnu við aðra, að eiga og reka námsmannaíbúðir og annast hvers konar þjónustu við námsmenn, svo sem rekstur bóksölu, kaffistofu o.fl., sbr. 2. gr. skipulagsskrár um stofnunina.

II.


    Háskólinn á Akureyri greiðir Félagsstofnun stúdenta á Akureyri sem svarar 13% af upphæð skrásetningargjalds hvers nemenda ár hvert, sbr. ákvæði 15. gr. laga nr. 15/1992, um Háskólann á Akureyri, og lög nr. xx/1995.

III.


    Samningur þessi skal endurskoðaður í mars ár hvert áður en innheimtu skrásetningargjalds kemur.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum


um Háskólann á Akureyri, nr. 51/1992.


    Frumvarpið felur í sér styrkari lagastoð fyrir innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalda Hákólans á Akureyri. Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs.