Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 234 . mál.


316. Frumvarp til laga



um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Við 87. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 5. mgr. og orðast svo:
    Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 24. nóvember 1995 barst félagsmálaráðuneytinu erindi frá borgarstjóranum í Reykjavík þar sem greint er frá áskorun borgarráðs þess efnis að félagsmálaráðherra flytji á Alþingi frumvarp um breytingu á 87. gr. vatnalaga, nr. 15/1923. Sú breyting verði á þá leið að sveitarstjórnum verði heimilt að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur með sérstakri ályktun tekið undir þetta sjónarmið borgaryfirvalda.
    Í 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er heimild fyrir sveitarstjórn til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Telja verður eðlilegt að þess konar heimild sé einnig fyrir hendi varðandi holræsagjöld, en vafi getur leikið á því að lækkun eða niðurfelling þeirra gjalda sé heimil án sérstaks ákvæðis í lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að við 87. gr. laganna bætist ný málsgrein sem tilgreini að sveitarstjórn sé heimilt að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.
    

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á


vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er kveðið á um að sveitarstjórn verði heimilað að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Frumvarpinu fylgir ekki kostnaðarauki fyrir ríkissjóð.