Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 1 . mál.


354. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið fyrir næsta ár til meðferðar undanfarna tvo mánuði. Umfjöllun nefndarinnar hefur einkum beinst að útgjaldahlið frumvarpsins og hafa fjölmargir mætt á fund nefndarinnar og gert grein fyrir erindi sínu, einstaklingar, fulltrúar félagasamtaka, sveitarstjórnarmenn, embættismenn ráðuneyta og stjórnendur stofnana ríkisins.
    Ekki tókst að leiða til lykta útgjaldaþátt frumvarpsins og verður að fresta til 3. umræðu að afgreiða tillögur nefndarinnar um fjárveitingar til heilbrigðisþjónustunnar. Að auki er nokkrum málum frestað og má þar nefna framlög til Sólheima í Grímsnesi, svo og B-hluta stofnanir og 6. gr. Umfjöllum um tekjuhlið bíður 3. umræðu svo sem venja er.
    Með endemum er að stjórnarliðið hafi ekki getað afgreitt rekstur heilbrigðisstofnana frá nefndinni til 2. umræðu fjárlaga. Að vísu hefur undanfarin ár ekki tekist að afgreiða fjárveitingar til sjúkrahúsanna í Reykjavík fyrr en við 3. umræðu, en svo slæmt hefur ástandið ekki verið fyrr en nú að allur heilbrigðiskafli frumvarpsins frestast. 1. minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega þessa málsmeðferð.

Þjóðhagshorfur.
    Í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að dragi úr hagvexti frá yfirstandandi ári og að landsframleiðsla aukist um 2% í stað 3,2% á þessu ári. Eins og á þessu ári er talið að þjóðarútgjöld aukist meira en landsframleiðslan og þjóðartekjur og því muni afgangur á viðskiptajöfnuði minnka.
    Í áætlun þjóðhagsstofnunar er einnig gert ráð fyrir 2,5% verðbólgu á næsta ári og að nokkur aukning verði á kaupmætti ráðstöfunartekna á mann eða um 1,8%. Ljóst er að þessar forsendur þarf að endurskoða, laun muni hækka meira en gert var ráð fyrir og nú er ljóst að ráðist verður í stækkun álversins í Straumsvík og eru þær framkvæmdir taldar auka landsframleiðsluna um a.m.k. ½% sem aftur mun hafa áhrif á fjárlagagerðina, einkum á tekjur ríkissjóðs. Þá virðast forsendur Þjóðhagsstofnunar um aflabrögð á næsta ári ætla að standast í meginatriðum og enn er gert ráð fyrir að afurðaverð erlendis haldist hátt. Því er ljóst að tekjur frumvarpsins eru verulega vanáætlaðar. Það mun skýrast frekar við 3. umræðu.
    Almennt má segja um þróun efnahagsmála undanfarin ár að ótrúleg umskipti hafa orðið til hins betra eftir að verkalýðshreyfingin beitti sér fyrir tímamótakjarasamningum í febrúar 1990. Grundvöllur þeirra samninga var að nauðsynlegur trúnaður myndaðist milli forustumanna verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekanda og þáverandi ríkisstjórnar. Með umræddum kjarasamningum tókst að ná verðbólgunni niður og koma á forsendum fyrir efnahagslegum stöðugleika sem birtist í stöðugu gengi, viðskiptajöfnuði við útlönd og minni verðbólgu. Í efnahagshorfum eru nokkrir veikleikar sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.

1. Misrétti í launamálum — lág laun.
    Meðal launþega gætir vaxandi óþolinmæði og gremju með kjör sín. Það er öllum ljóst að þjóðarsáttarsamningarnir byggðust á því að verkalýðshreyfingin féllst á að verkafólk axlaði að mestu byrðarnar af því að koma stöðugleikanum á. Ákveðið var að frysta að mestu þáverandi ástand í launamálum með því óréttlæti sem í því er, enda talið öðrum markmiðum mikilvægara að ná tökum á íslensku efnahagslífi. Það hefur tekist og er komið að því að stjórnvöld styðji við bakið á verkalýðshreyfingunni og mæti kröfum hennar um réttlátari skiptingu teknanna láglaunafóki til hagsbóta og jafnframt að treysta það öryggisnet sem velferðarkerfið á að vera sjúkum, öldruðum og láglaunafólki. Áform ríkisstjórnarinnar eru til þess fallin að vekja upp efasemdir um að stjórnvöld ætli að standa við sinn þátt þjóðarsáttarsamninganna og hafa þegar valdið talsverðum óróa meðal launafólks. Stjórnarstefnan hefur svipt burt þeim trúnaði sem ríkti milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda og er þannig orðin sjálfstætt efnahagsvandamál.

2. Atvinnuleysi.
    Lítil sem engin merki sjást um að atvinnuleysi sé á undanhaldi. Gert er ráð fyrir að það verði svipað á næsta ári og á þessu eða um 4,8%. Reyndar standa vonir til þess að framkvæmdir við stækkun álvers geti minnkað það eitthvað, að öðru leyti er ekki að finna í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar alvarleg áform um að takast eigi á við atvinnuleysið. Sem dæmi um hversu alvarlega horfir er sú staðreynd að um 15% atvinnulausra hafa verið án atvinnu lengur en eitt ár og að atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16–24 ára er um 13%. Hin metnaðarlausa atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er alvarleg ögrun við stöðugleika í efnahagsmálum af þeirri einföldu staðreynd að verkalýðshreyfingin mun aldrei sætta sig við aðgerðaleysi og tómlæti gagnvart atvinnulausu fólki.

3. Skortur á atvinnuuppbyggingarstefnu.
    Lítil fjármunamyndun er alvarleg meinsemd í efnahagsstjórn. Á árunum 1992–1994 varð um fjórðungssamdráttur á þessu sviði og þrátt fyrir lítils háttar aukningu síðan er Ísland í hópi þeirra þjóða sem hafa hvað lægst hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu eða 15,5%. Að jafnaði er náið samband á milli fjármunamyndunar og atvinnustigs. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að stuðla að fjárfestingu og nýsköpun í atvinnulífinu og skapa þannig störf fyrir hið unga fólk sem streymir inn á vinnumarkaðinn. Skortur á slíkri stefnu er ávísun á viðvarandi atvinnuleysi.Varanlegum stoðum verður ekki skotið undir hagvöxt í framtíðinni nema hlutfall fjármunamyndunar hækki. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að lækka viðhalds- og fjárfestingarframlög að raunvirði um 3 milljarðar kr. og verða þau þá hin lægstu í tíu ár. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að skerða þessi framlög enn frekar með frekari skerðingu í vegamálum. Með samdrætti af þessari stærðargráðu í viðhalds- og fjárfestingu er stuðlað að auknu atvinnuleysi, almennum samdrætti og alið á viðhorfum svartsýni og vonleysi. Þessi stefna er sannkölluð samdráttarstefna.

4. Eyðsluhagvöxtur.
    Verulegum áhyggjum veldur hversu hagvöxtur á þessu ári stendur ótraustum fótum. Meginaflið á bak við hagvöxt ársins um 3,2% er aukin einkaneysla sem skýrir um 80% af hagvextinum. Þegar nánar er athugað kemur í ljós að mikill hluti þessarar auknu einkaneyslu stafar af auknum innflutningi. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næsta ári, þ.e. hagvexti verði að mestu haldið uppi af eyðslu. Er hér um mikla breytingu að ræða frá síðasta ári þegar hagvöxtur byggðist fyrst og fremst á auknum útflutningi. Þá veldur það frekari áhyggjum að heimilin, sem halda uppi þessum hagvexti, eru talin auka neysluútgjöld sín bæði í ár og á næsta ári meira en sem nemur aukningu kaupmáttar. Það þýðir að annaðhvort er gengið á sparnað eða safnað skuldum. Hvorugur kosturinn getur talist góður þar sem sparnaður heimilanna er afar lítill fyrir á alþjóðlegum mælikvarða og skuldsetning þegar mikil. Það er enn fremur slæmt að vaxandi innflutningur takmarkar mjög áhrif þessarar auknu einkaneyslu á atvinnustig, þ.e. eyðslan skapar færri störf en efni standa til. Fjárlagafrumvarpið hefur ekki áhrif á þessa slæmu þróun að öðru leyti en því að stuðla frekar að henni.

5. Skuldasöfnun.
a. Opinberir aðilar.
    Einn veikleikinn enn í efnahagslífinu er hin gríðarlega skuldasöfnun sem orðið hefur undanfarin ár og er enn í gangi. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að á tímum sæmilegs hagvaxtar skuli halli ríkissjóðs vera svo mikill sem raun ber vitni. Það er óhjákvæmilegt í sæmilegri uppsveiflu eins og nú er að ríkissjóður verði rekinn án halla og jafnvel með afgangi þannig að unnt sé að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Viðvarandi halli á ríkissjóði með tilheyrandi skuldasöfnun er alvarlegasta atlagan sem gerð er að velferðarkerfinu.
    Undanfarin ár hafa sveitarfélögin verið rekin með miklum halla. Hann er talinn hafa verið 5 milljarðar kr. árið 1993, 7 milljarðar kr. 1994, ætlaður 3 milljarðar kr. á þessu ári og svipað á því næsta. Þetta þýðir um 18 milljarða kr. halla á fjórum árum að viðbættum vaxtakostnaði af þeirri skuld. Hér er um gríðarlega upphæð að ræða sem sést best af því að hún er þrisvar sinnum hærri en sveitarfélögin höfðu á þessu árabili til fjárfestingar og afborgunar lána, miðað við eðlilegan rekstur þeirra.
    Nú er talið að samanlagðar skuldir ríkis og sveitarfélaga nemi um 260 milljörðum kr. og fari vaxandi enda gert ráð fyrir að tekjur hins opinbera dugi ekki fyrir útgjöldum og því enginn afgangur til þess að greiða niður skuldir. Skuldir hins opinbera hafa tvöfaldast á átta árum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eða úr 28% árið 1987 í 55% á þessu ári.
    Slíkur búskapur endurspeglar ekki hygginna manna ráð og er algerlega óviðunandi efnahagsstefna, jafnvel að metnum öllum skynsamlegum skýringum um aflasamdrátt og efnahagslægð sem orsaka tímabundna niðursveiflu. Afleiðingar skuldasöfnunarinnar eru gífurlegir vextir sem hið opinbera verður að greiða með skattfé. Alvarlegast er þó þegar gríðarlegar fjárhæðir hverfa úr landi til greiðslu á vöxtum til erlendra skuldareigenda. Þeir peningar verða ekki notaðir til starfsemi og uppbyggingar innan lands.
    Í skýrslu Seðlabankans um peninga, gengi og greiðslujöfnuð frá því í nóvember sl. kemur fram að vaxtajöfnuður við útlönd á sex ára tímabili 1989–1994 var samtals neikvæður um 85.900 millj. kr. þar sem lagðar eru saman fjárhæðir á verðlagi hvers árs. Þetta eru risavaxnar upphæðir sem greiða þarf til útlanda í leigu fyrir lánsfé. Í skýrslu Seðlabankans er varað alvarlega við áframhaldandi halla á opinberum rekstri og bent á að „langvarandi opinber skuldasöfnun getur enn fremur leitt til þess að traust glatist skyndilega og snögg hækkun verði á vöxtum við það að fjárfestar endurmeta áhættuálag í vöxtum“.
    Áætlað er að vaxtajöfnuðurinn við útlönd verði neikvæður þetta árið um 16 milljarða kr. og um 15,4 milljarða kr. næsta ár. Hreinar vaxtagreiðslur til útlanda nema nú um 9–10% af útflutningstekjum og um 3,5% af vergri landsframleiðslu.

b. Heimilin.
    Sömu sögu er að segja af heimilunum. Skuldir þeirra hafa vaxið með miklum hraða. Á árunum 1980–1993 sexfölduðust skuldir heimilanna miðað við fast verðlag sem svarar til þess að skuldir hafi aukist um 15% á ári. Þó ber að hafa í huga að endurfjármögnun íbúðalánakerfisins þýðir að lánamöguleikar hafa aukist vegna kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis og skýra nokkurn hluta skuldaaukningarinnar. Fyrirliggjandi upplýsingar um aukna einkaneyslu benda til að heimili séu enn að auka skuldsetningu sína umfram vöxt vegna íbúðalána. Að öllu samanlögðu er nauðsynlegt að vara við þeim hættum sem felast í skuldasöfnun undanfarinna ára. Áframhald á þeirri braut af hálfu opinberra aðila og heimila er ein alvarlegasta ógnin við stöðugleika í íslensku efnahagslífi.
    Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar varar við framangreindum veikleikum í efnahagslífinu og telur ástæðu til þess að hafa verulegar áhyggjur af stjórn efnahagsmála í ljósi stjórnarstefnunnar sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Þrátt fyrir nauðsyn á aðhaldi og sparnaði í ríkisrekstrinum er grundvallaratriði að standa vörð um meginstoðir velferðarkerfisins og varðveita hina samfélagslegu ábyrgð.
    Verður nú vikið að einstökum málaflokkum sem 1. minni hluti telur rétt að taka til umfjöllunar hér.

Samgöngumál.
    
Samgöngumál fá hrikalega útreið hjá stjórnarflokkunum í frumvarpinu og breytingartillögum stjórnarliðsins.
    Framlag til vita- og hafnamála lækka um 91,5 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum.
    Niðurskurður í vegamálum á næsta ári nemur alls 1.015 millj. kr. frá núgildandi vegáætlun sem samþykkt var í febrúar sl. Þar af eru stofnframkvæmdir skornar niður um 940 millj. kr. sem þýðir um fjórðungssamdrátt í áformuðum framkvæmdum næsta árs.
    Enn verri útreið fær flugmálaáætlun, en þar er ætlunin að skerða framkvæmdir um helming eða um 190 millj. kr. og er áætlun næsta árs hreinlega í rúst ef þessi áform ná fram að ganga.
         Samanlagt er niðurskurður í þessum þremur veigamiklu málaflokkum samgöngumála um 1.300 millj. kr., bara á einu ári.
    Engar hliðstæður eru um þvílíkt skilningsleysi á bættum samgöngum í þjóðfélagi samtímans og auk þess sem niðurskurður af þessari stærðargráðu fækkar atvinnutækifærum sem nemur hundruðum.

Ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónusta hefur sífellt aukið hlut sinn í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Erlendum ferðamönnum fjölgar ár frá ári, og Íslendingar hafa stóraukið ferðalög um eigið land. Tekjur af greininni fara sífellt vaxandi, og aðeins sjávarútvegur skilar meiri gjaldeyristekjum en ferðaþjónustan. Enn eru fjölmargir möguleikar vannýttir til fjölgunar starfa og þróunar í ferðaþjónustu, og þar hefur ríkisvaldið skyldum að gegna. Það þarf að efla menntun og rannsóknir í greininni til þess að unnt sé að standa skynsamlega að uppbyggingu og þróun. Það þarf að auka upplýsingaþjónustu, almenna landkynningu og markaðsöflun. Og ekki síst þarf að treysta undirstöðuna undir íslenskri ferðaþjónustu, vernda sérstæða náttúru landsins og lítt mengað umhverfi, bæta aðstæður á ferðamannastöðum og lagfæra spjöll. Það er því ekki vansalaust að meiri hluti Alþingis hefur aldrei treyst sér til að standa við ákvæði laga um tekjur til að standa undir þeim verkefnum sem Ferðamálaráði eru falin. Sá lögbundni tekjustofn, þ.e. 10% af sölu Fríhafnarinnar, mundi skila 200 millj. kr. á næsta ári. Nú hefur ríkisstjórnin lagt til að það ákvæði verði fellt úr lögunum en framlagið ákveðið í fjárlögum hverju sinni. Fjárlaganefnd hefur náð samstöðu um aukið framlag til ferðamála á næsta ári og þótt hér sé ekki um háar upphæðir að ræða er þessi niðurstaða vonandi til marks um aukinn skilning á mikilvægi greinarinnar.

Mennta- og menningarmál.
    Framtíð þjóðarinnar og samkeppnisstaða hennar á alþjóðavettvangi byggist að miklu leyti á góðri menntun landsmanna og öflugu rannsóknar- og vísindastarfi. Frumvarpið ber ekki vott um framsækna stefnu í þessum efnum og þrátt fyrir auknar fjárveitingar til nokkurra málaflokka í meðförum fjárlaganefndar er enn margt sem er athugasemda vert.
    Enn er ekki séð fyrir endann á kostnaðarþættinum varðandi flutning grunnskólans til sveitarfélaga þrátt fyrir að lögum um grunnskólann, nr. 66/1995, sé ætlað að taka gildi 1. ágúst 1996. Má þar nefna réttindamál kennara og ýmis mál sem tengjast markmiðinu um einsetningu skólanna innan sex ára frá gildistöku laganna.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir niðurskurði á framlögum til innlendra rannsókna og menntunar þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að framlög hafi verið aukin til þessa málaflokks. Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna stendur nú í stað frá árinu 1995 eftir að það hefur verið hækkað um 5 millj. kr. í meðförum fjárlaganefndar, en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir að framlög til sjóðsins yrðu skert úr 15 millj. kr. í 10 millj. kr. 1. minni hluti vekur athygli á tillögum stúdentaráðs Háskóla Íslands en samkvæmt þeim er fjárþörf sjóðsins 25 millj. kr. eigi hann að standa undir hlutverki sínu. Rannsóknarnámssjóður fær úthlutað 20 millj. kr. í frumvarpinu í stað 25 millj. kr. árið áður og Vísindasjóður Rannsóknarráðs er skorinn niður um 10 millj. kr. á milli ára, eða úr 25 millj. kr. í 15 millj. kr. Rannsóknarráð Íslands hefur bent á að niðurskurður til sjóðanna grafi undan trúverðugleika þeirrar stefnu sem lá til grundvallar að stofnun Rannsóknarráðs Íslands og að með niðurskurðinum yrðu send mjög alvarleg, neikvæð skilaboð til ungs hæfileikafólks og þar með dregið úr áhuga þess og möguleikum á að hasla sér völl hér á landi. 1. minni hluti fjárlaganefndar varar við þeirri þróun að skera niður framlög til innlendra rannsókna og bendir á að grundvöllur þess að Íslendingar geti verið samkeppnishæfir í alþjóðlegu rannsóknastarfi er sá að hlúð sé að innlendum rannsóknum og vísindum.
    Fyrsti minni hluti bendir á skerðingar á framlögum til Kvikmyndasjóðs, en sjóðnum eru ætlaðar 92,3 millj. kr. í stað 101,6 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 1995. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skerða enn framlög til sjóðsins þrátt fyrir að í kvikmyndaiðnaðinum felist mikill vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi, ekki síst á seinni árum. Miðað við þau framlög sem sjóðnum eru nú ætluð getur hann ekki staðið að kynningu og markaðssetningu íslenskra kvikmynda erlendis sem er þó nauðsynlegt eigi að styðja við íslenskan kvikmyndaiðnað.
    Þá bendir 1. minni hluti á óskir um viðbótarframlag til Háskóla Íslands, en alls er farið fram á aukningu allt að 130 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir á fjárlögum. Í samtölum fjárlaganefndar við forsvarsmenn Háskóla Íslands kom fram að fjárlagatillögur skólans eru byggðar á áliti fjármálanefndar Háskólaráðs sem hefur unnið að því síðustu 18 mánuði að bera saman kostnað við reglubundið nám í Háskóla Íslands og hliðstæða þætti í skólum erlendis. Nefndin lét gera sérstakt reiknilíkan sem er ætlað að leggja mat á lágmarksfjárþörf skólans til þess að hann geti sinnt því hlutverki sem honum er ætlað samkvæmt reglugerð en samkvæmt þeim samanburði vantar verulega upp á að kennslan verði sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þá vill 1. minni hluti vekja athygli á því að fleiri skólastofnanir telja sig vart geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi vegna skorts á fjármagni þrátt fyrir að fyllsta aðhalds hafi verið gætt og má þar nefna Tækniskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands og Stýrimannaskólann svo að dæmi séu tekin.

Félagsmál.
    Þrátt fyrir að 1. minni hluti telji nauðsynlegt að ná niður ríkisútgjöldum til að minnka fjárlagahallann telur hann að fjárlagafrumvarpið feli í sér árásir á velferðarkerfið sem ekki verður við unað. Öryggisnet þeirra sem þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda er orðið gisið og stefna, er felur í sér yfirbragð ölmusu, setur mark sitt á tillögur frumvarpsins. Áform ríkisstjórnarinnar um að svipta þá sem njóta greiðslna úr sameiginlegum sjóðum velferðarkerfisins réttinum til hækkana í samræmi við almenna launaþróun, fela í raun í sér afnám sjálfsagðra réttinda og 1. minni hluti telur slíkar árásir á þá sem síst geta vörnum við komið með öllu óþolandi.
    Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði skertur verulega, þrátt fyrir að sjóðurinn hafi í síauknum mæli tekið á sig rekstur sem léttir á þjónustu stofnana. Hingað til hefur erfðafjárskattur runnið óskertur í sjóðinn lögum samkvæmt, en nú stendur til að taka 133 millj. kr. af framlagi sjóðsins til rekstrar stofnana fatlaðra. 1. minni hluti varar eindregið við því að haldið sé inn á þessa braut, jafnvel þótt umrætt fé renni til stofnana fatlaðra.
    Með tilkomu barnaverndarstofu hafa miklar breytingar í átt til hins betra orðið í málefnum barna og ungmenna. 1. minni hluti tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti minni hluta félagasmálanefndar um fjárlagafrumvarpið þar sem varað er sérstaklega við þeim vanda sem að þjóðinni steðjar vegna vímuefnanotkunar unglinga. Lögð er á það áhersla í áliti minni hluta félagsmálanefndar að Alþingi verði að bregðast sérstaklega við þróuninni í þessum málum með auknum forvörnum, aðstoð við unglinga og harðari refsingum við smygli og sölu fíkniefna.
    Í fjárlagafrumvarpinu er boðaður verulegur niðurskurður til bygginga nýrra íbúða á vegum Byggingasjóðs verkamanna og er samdrátturinn skýrður með því að húsnæði standi autt í 25 sveitarfélögum. Vakin er athygli á því að ýmislegt bendir til að raunin sé allt önnur, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hundruð fjölskyldna bíða eftir félagslegu húsnæði. Varað er við að nota ástandið á einum stað sem röksemd fyrir niðurskurði á öðrum stöðum, en slíkar alhæfingar bitna verst á þeim sem mest þurfa á félagslegu húsnæði að halda. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þarfa hvers sveitarfélags fyrir sig og fjármuni þarf að veita þar sem þörfin er. Þá vekur 1. minni hluti athygli á þeim áformum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu, að ríkið hætti þátttöku í kostnaði við greiðslu húsaleigubóta. Varar 1. minni hluti við slíkum áformum án undangenginna samninga við sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra og vekur athygli á ábendingum sem fram hafa komið frá borgarstjóranum í Reykjavík um að þar hafi húsaleigubótakerfið reynst vel og mikilvægt sé að gefa því tækifæri til að þróast í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.
    Spá Þjóðhagsstofnunar gerir ráð fyrir 4,8% atvinnuleysi á næsta ári sem er svipað og verið hefur. Þetta hefur í för með sér aukna útgjaldaþörf til atvinnuleysismála, en hluta þess vanda ætlar ríkisstjórnin að leysa með því að hækka tryggingagjald um 0,5%. 1. minni hluti telur mikilvægt að tryggja fjármögnun á námskeiðum fyrir atvinnulausa og telur að auka þurfi skilning á mikilvægi þess að skapa atvinnulausu fólki tækifæri til menntunar og vinnu. Í frumvarpi til fjárlaga má sjá áform um að leysa hluta vandans með því að bjóða atvinnulausum í auknum mæli vinnu og svipta þá bótum ef þeir þiggja ekki þá vinnu sem er í boði. Minnt er á að orsök atvinnuleysisvandans er ekki að finna í því að fólk vilji ekki vinna og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við málefni atvinnulausra eru því brenndar marki fordóma gagnvart atvinnulausum og afneitun á atvinnuleysi sem raunverulegu hagstjórnarvandamáli. Þá bendir 1. minni hluti á að skert er framlag til Félagsmálaskóla alþýðu frá því sem var á fjárlögum 1995 sem verður að teljast óeðlilegt með tilliti til mikillar þarfar á aukinni starfsmenntun í atvinnulífinu og þjónustu við atvinnulausa.
    Þá fordæmir 1. minni hluti þá aðgerð að afnema tengsl greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði og almannatryggingakerfinu við almenna launaþróun í landinu. Í gildandi lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er tenging við kjarasamninga fiskverkafólks sem felur í sér að bæturnar hækka í samræmi við almennar launahækkanir í þeirri starfsgrein. Með því að falla frá þessari tengingu er verið að snúa til kerfis sem minnir á ölmusu en slíkar hugmyndir höfðu sem betur fer verið aflagðar hér á landi. Ríkisstjórnin hyggst nú taka slíkt skref til fortíðarinnar og gerir það í nafni þess að það falli undir heildarstefnu um afnám sjálfvirkni og verðlagsuppfærslna. 1. minni hluti telur tengingu við laun vera grundvallarréttindamál fyrir þá sem þurfa á greiðslum úr tryggingakerfinu að halda og gildir sá skilningur allt að einu þótt ríkisstjórnin hafi samið um greiðslurnar nú um áramót í tengslum við aðgerðir á vinnumarkaði. Eftir stendur að atvinnulausum er ekki tryggð þessi tenging í framtíðinni en það telur 1. minni hluti vera mikla afturför og minnir á að atvinnulausir eru formlega séð á vinnumarkaði og því er sjálfsagt að greiðslur til þeirra fylgi almennri launaþróun. Þá bendir 1. minni hluti á að það var almenn krafa verkalýðshreyfingarinnar að fallið yrði frá þessum áformum og það að ekki hefur verið fallist á þær kröfur mun leiða til harðari átaka við frágang kjarasamninga í framtíðinni þar sem verkalýðshreyfingin mun eftir sem áður leitast við að tryggja þessum félagsmönnum sínum sambærilegar launabreytingar og öðrum.

Heilbrigðismál.
    Fjárlaganefnd hefur fengið fjölda fólks á sinn fund vegna reksturs og stjórnunar heilbrigðiskerfisins. Hallatölur frá fyrri árum hljóða upp á a.m.k. 700 millj. kr. og samkvæmt framlögðum tillögum þeirra aðila sem lagt hafa fram erindi fyrir nefndina vantar a.m.k. 2–2,5 milljarða kr. á það sem stjórnendur meta að þurfi til að veita nauðsynlega þjónustu. 1. minni hluti vill vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi heilbrigðismál.
    Ljóst er samkvæmt heimildum forsvarsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur að sameining Borgarspítala og Landakotsspítala hefur skilað verulegum ávinningi nú þegar þótt formlega verði sameining ekki fyrr en um næstu áramót. Bentu þeir þó á að fyrirhuguð hagræðing næðist ekki að fullu nema ný skrifstofuaðstaða fengist og jafnframt skapaðist þá meira rými í spítalanum í Fossvogi. Þá lýstu forsvarsmenn sjúkrahússins áhyggjum sínum af lækkun framlaga til reksturs um 225 millj. kr. frá árinu 1995 og telja að leita verði leiða til að ná niður rekstrarhalla þessa árs, en hann er áætlaður 105 millj. kr. Þá kom einnig fram að nauðsyn er á að huga frekar að viðhaldi búnaðar og tækja.
    Varðandi sjúkrahúsin á landsbyggðinni vekur 1. minni hluti athygli á því sem fram kom í máli ýmissa forsvarsmanna þeirra, að innlögðum sjúklingum hefur fjölgað nokkuð á meðan ferliverkum hefur fækkað til muna. Þetta hefur í för með sér stóraukinn kostnað fyrir sjúkrahúsin á landsbyggðinni.
    Þá vekur 1. minni hluti sérstaka athygli á málefnum glasafrjóvgunardeildar Landspítalans, en fram kom á fundum með fulltrúum frá deildinni að um 650 pör eru þar á biðlista. Þá kom einnig fram að meðalaldur kvenna á biðlista fer hækkandi í samræmi við lengd biðlistans og hefur hann hækkað um tvö ár síðan á árinu 1991. Þá vöktu fulltrúar deildarinnar athygli á því hversu húsnæði deildarinnar er þröngt og vinnuálag mikið. Þá er mikil óánægja með þá ráðstöfun sem fyrirhuguð, er að láta aukna gjaldtöku vegna glasafrjóvgunarmeðferða ekki nýtast til að byggja upp deildina sjálfa heldur eru framlög til kvensjúkdómadeildar skorin niður sem nemur fyrirhugaðri hækkun. Þá vekur 1. minni hluti athygli á ummælum fulltrúa kvennadeildar Landspítalans sem taldi aukið vinnuálag auka verulega líkur á mistökum sem auk annars tjóns hefði í för með sér mikinn skaðabótakostnað fyrir ríkið. Einnig bentu fulltrúar kvennadeildarinnar á ófremdarástand er ríkir í menntun ljósmæðra en kennsla í faginu hefur ekki farið fram í tvö ár.
    Þær upplýsingar liggja fyrir frá geðdeild Landspítalans að 125 millj. kr. vanti upp á að hægt sé að halda öllum geðdeildum spítalans opnum. Gífurlegt óhagræði getur hlotist af slíkum fjárskorti, enda ekki hægt að ljúka við verkefni sem ráðist hefur verið í og þau nýtast því ekki að fullu. Þá vekur 1. minni hluti athygli á því að göngudeildarmeðferð fyrir börn og unglinga er mjög áfátt.
    Fyrsti minni hluti vill vekja athygli á skerðingum í frumvarpinu sem bitna á öldruðum og öryrkjum. Mikil óánægja ríkir með að lífeyrisgreiðslur skuli ekki hækka til samræmis við launaþróun í landinu. Tekur 1. minni hluti eindregið undir þau sjónarmið og vísar til rökstuðnings varðandi tengingu greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði við launaþróun.
    Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir hafa farið fram á framlag af fjárlögum sem nemur 2 millj. kr. til að setja á stofn skrifstofu. Samtökin voru stofnuð árið 1992 en sams konar samtök hafa verið starfandi um allan heim í áratugi. Að íslensku samtökunum standa bæði einstaklingar og félög en meginmarkmið samtakanna er að stuðla að heilbrigðu kynlífi og tímabærum barneignum. 1. minni hluti styður að fé sé veitt til þessarar starfsemi, enda hafa samtökin samfélagslegu hlutverki að gegna sem ekki er sinnt annars staðar.
    Fyrsti minni hluti telur brýna nauðsyn á stefnumörkun í heilbrigðismálum í stað handahófskennds niðurskurðar við fjárlagagerð ár hvert og telur sýnt að lengra verði ekki gengið á þessari braut. 1. minni hluti lýsir andstöðu við aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og telur að ekki megi víkja frá þeim meginþætti í heilbrigðislöggjöf okkar að fólki skuli ekki mismunað eftir efnahag.

Löggæsla — vímuefnanotkun og ofbeldi.
    Hvergi sér þess stað í þessu frumvarpi að ríkisstjórnin hyggist á einhvern hátt bregðast við vaxandi ofbeldi og eiturlyfjaneyslu í þjóðfélaginu sem er öllum hugsandi mönnum mikið áhyggjuefni. Ástand löggæslumála hefur farið versnandi um allt land á undanförnum árum og er víða talið undir öryggismörkum þar sem tæpast er hægt að halda uppi lágmarksþjónustu. Þótt framlag til embættis lögreglustjórans í Reykjavík sé hækkað er skýrt tekið fram að það sé vegna rauntalna síðustu ára en ekki aukinnar starfsemi.
    Engin viðleitni er í þá átt að efla starf fíkniefnalögreglunnar og á þau mál er yfirleitt ekki minnst í frumvarpinu. Öllum ætti þó að vera ljóst að þar er við gríðarlegan vanda að etja sem taka verður á með skipulegum hætti.

Bótagreiðslur til þolenda afbrota.
    Ljótasti bletturinn á þessu frumvarpi er lítilsvirðing ríkisstjórnarinnar gagnvart nýsettum lögum um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem taka eiga gildi 1. janúar nk. Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp þessa efnis samhljóða frá sér snemma á þessu ári og frumvarpið varð að lögum rétt fyrir síðustu kosningar með samþykki allra sem þátt tóku í afgreiðslu málsins. Með þessari lagasetningu var náð mikilvægum áfanga í baráttunni fyrir bættri meðferð brotaþola og fyrir breyttum viðhorfum í þeim efnum. Það er alkunna að flestum brotaþolum hefur reynst afar erfitt að sækja bætur í greipar þeirra sem tjóninu valda. Einkum hafa brotaþolar vegna nauðgunar eða annars kynferðislegs ofbeldis verið í erfiðri stöðu. Með einróma samþykkt þessara umbóta fengu þolendur ofbeldisbrota þau mikilvægu skilaboð að samfélaginu væri ekki sama um örlög þeirra. Margra ára barátta ýmissa kvennahópa virtist í höfn. Mörgum brá því illa í brún þegar ljóst var að ekki var gert ráð fyrir þessum greiðslum í frumvarpi til fjárlaga 1996 og boðuð tillaga ríkisstjórnarinnar um frestun gildistöku þeirra um eitt ár. Jafnframt átti afturvirkni þeirra að færast til um eitt ár, og um leið voru þeir sviptir voninni sem þegar höfðu fengið úrskurðaðar miskabætur vegna brota sem framin höfðu verið eftir 1. janúar 1993. Vegna harðra viðbragða utan sem innan þings var hafist handa við að leita leiða til að falla frá frestun gildistöku laganna, og nú hefur ríkisstjórnin lagt til að gildistöku laganna verði frestað um hálft ár í stað eins árs og að jafnframt verði bótafjárhæðir stórlega lækkaðar. Þetta er gjörsamlega óviðunandi niðurstaða sem 1. minni hluti getur engan veginn fallist á og leggur þunga áherslu á að Alþingi tryggi nægjanlegt framlag á fjárlögum 1996 til þess að staðið verði við lögin að fullu. Meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli er öll með eindæmum. Hún er hneyksli sem Alþingi getur ekki þolað.

Landhelgisgæslan.
    Landhelgisgæslan á í töluverðum rekstrarvanda sem stafar fyrst og fremst af rekstri nýju þyrlunnar, TF-LÍF. Þó hefur sá kostnaður orðið nokkru lægri en ráð var fyrir gert. Landhelgisgæslan telur sig vanta rúmar 78 millj. kr. til rekstursins. Ekki var orðið við þeirri beiðni og virðist því blasa við að gera þurfi róttækar ráðstafanir til að ná endum saman. Sú leið kynni að verða valin að selja þyrluna TF-SIF sem væntanlega gæfi um 20 millj. kr. Það hefði þann ókost í för með sér að þá yrði ekki lengur hægt að nota TF-SIF í smærri verkefni þar sem hún hentar jafnvel betur en TF-LÍF og er í mörgum tilvikum mun ódýrari kostur. Auk þess er TF-LÍF frá vegna skoðana í 5–6 vikur á ári og er þá ekki reiknað með stoppum vegna bilana. Tilkoma stóru þyrlunnar hefur gjörbreytt aðstæðum til björgunarstarfa og gert Landhelgisgæslunni kleift að vinna þrekvirki við erfiðustu skilyrði. Er skemmst að minnast atburðanna á Flateyri í október sl. en einnig fjölmargra ferða eftir sjúkum og slösuðum sjómönnum langt á haf út í slæmum veðrum. Á rekstrarvanda gæslunnar verður að finnast varanleg lausn því að Íslendingar hafa ekki efni á að vera án þessarar þjónustu. Skip gæslunnar eru rekin þannig að nær allt árið er eitt skip bundið við bryggju. Áhafnir verða að taka sitt frí þegar skipin eru bundin því ekki eru áhafnir til afleysinga hjá gæslunni. Þar við bætist að floti gæslunnar er orðinn mjög gamall og þótt honum sé vel við haldið er nauðsynlegt að hugsa fyrir endurnýjun á næstu árum.

Hafrannsóknir.
    Fyrsti minni hluti tekur undir sjónarmið um hafrannsóknir sem fram koma í áliti sjávarútvegsnefndar um fjárlagafrumvarpið. Þar er lagt til að reynt verði að koma til móts við óskir Hafrannsóknastofnunar um fjárveitingu til að hleypa af stokkunum sérstöku „haustralli“ og „þorsknetaralli“ í því skyni að efla stofnrannsóknir. Þá er einnig lagt til að rannsóknir stofnunarinnar á djúpslóð vegna síaukinna úthafs- og djúpvatnsveiða verði efldar. Þá bendir 1. minni hluti á að fulltrúar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sjávarútvegsráðuneytisins hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að vinna meira að rannsóknum á nýtingu vannýttra tegunda og tekur 1. minni hluti nefndarinnar undir það. Þá tekur 1. minni hluti undir ábendingar frá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneyti varðandi nauðsyn áframhaldandi rannsókna á klaki og eldi lúðu, enda geta miklir möguleikar legið þar í framtíðinni. 1. minni hluti vekur þannig athygli á mikilvægi rannsókna til þess að efla undirstöður sjávarútvegsins.

Umhverfismál.
    Mörg og stór verkefni bíða úrlausnar á sviði umhverfismála. Ef Íslendingar ætla að fylgjast með þróuninni í þeim efnum og standa við alþjóðasamninga er ljóst að aukið fé þarf til þessara mála á næstu árum.
    Fyrsti minni hluti tekur undir með umhverfisnefnd sem í áliti sínu til fjárlaganefndar bendir á að Náttúruverndarráð skorti rekstrarfé til að geta rækt nægilega vel það hlutverk sem því er ætlað með lögum. Ráðið fór þó aðeins fram á 3–5 millj. kr. til viðbótar til nokkurra verkefna sem verið er að vinna að eða ætlunin að hefja vinnu við á næsta ári. Er þar m.a. um að ræða merkingar á friðlýstum svæðum, verndaráætlanir fyrir Jökulsárgljúfur og Skaftafell, rannsóknir og umbætur á hverasvæðinu við Geysi og skipulagningu friðlýsts svæðis á Búðum. Ekki var orðið við þessari hóflegu beiðni ráðsins um aukið framlag.
    Ekki treysti meiri hlutinn sér heldur til að taka á rekstrarvanda Hollustuverndar ríkisins sem m.a. með tilkomu samninga um EES og GATT hefur orðið að taka að sér fjölda nýrra verkefna án þess að fá til þess aukið rekstrarfé. Ákveðið hefur verið að veita 1,5 millj. kr. til að finna leiðir til að leysa vanda Hollustuverndar, en augljóst er að með því er aðeins verið að fresta afgreiðslu málsins til næstu fjáraukalaga.
    Í áliti umhverfisnefndar er einnig greint frá viðtali við veðurstofustjóra. Hann benti m.a. á þá staðreynd að Veðurstofan hefur ekki ráð á að taka rausnarlegum tilboðum til stofnunarinnar um fjármögnun og uppsetningu jarðskjálftamæla víðs vegar um landið þar sem hún hefur ekki fé til að reka þá og annast. Þá benti veðurstofustjóri einnig á að vegna aukinnar eftirspurnar væru veðurspár orðnar markaðsvara sem skilað gæti verulega auknum sértekjum til stofnunarinnar í framtíðinni en vegna skorts á stofnfjármagni væri ekki hægt að nýta þessa markaðsmöguleika. Var það mat hans að til þessa verkefnis þyrfti að leggja u.þ.b. 10 millj. kr. árlega næstu 2–3 ár. Þróunarmöguleikum Veðurstofu eru þannig skorður settar og væri þarft að leita leiða til að gera henni kleift að efla rannsóknir og þjónustu.
    
Lokaorð.
    
Fjárlög markast af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er. 1. minni hluti getur ekki tekið ábygð á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 13. des. 1995.



Kristinn H. Gunnarsson,

Kristín Halldórsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir.


frsm.