Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 1 . mál.


355. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1996 er á margan hátt sérkennilegt. Það er sérkennilegt m.a. fyrir þá sök að það fer á skjön við tíðarandann sem undanfarið hefur einkennst af vaxandi áhyggjum af sífelldum hallarekstri ríkissjóðs. Kröfur um heilbrigðan ríkisrekstur, sem ekki felur í sér stöðuga umframeyðslu, hafa orðið háværari með hverju nýju fjárlagafrumvarpi. Ungt fólk hlýtur að horfa með ótta til þess tíma þegar það þarf að greiða upp skuldir þeirrar kynslóðar sem stofnaði til þeirra, jafnvel á veltitímum góðæris og mikils hagvaxtar. Þegar þær kynslóðir, sem nú stjórna fjármálum þjóðarinnar, tóku við búi af fyrri kynslóð voru yfirteknar skuldir aðeins lítið brot af því sem næsta kynslóð fær í arf.
    Sá halli, sem við hefur verið að glíma, hefur verið innbyggður í rekstrarkerfi ríkissjóðs. Hann hefur í reynd leitt til áframhaldandi samfelldrar skuldasöfnunar sem haft hefur bæði verðbólguáhrif og leitt til vaxtahækkana. Það má líkja þessu ástandi við sjálfaukandi vaxta- og skuldagildru.
    Skuldastaða ríkissjóðs og ríkisstofnana hefur farið hríðversnandi undanfarin ár. Á meðalverðlagi hafa skuldir ríkissjóðs aukist úr 11,7 milljörðum kr. árið 1985 í 126,7 milljarða kr. árið 1994 sem munu vera um 1.000%. Á sama tíma hafa skuldir sveitarfélaganna aukist úr 7,4 milljörðum kr. í 36,8 milljarða kr. Þau eru rétt um hálfdrættingar í hundraðshluta. Ef skoðaðar eru skuldir heimilanna hafa þær aukist um tæp 700% en skuldir fyrirtækjanna aðeins um 260%.
    Þessar tölur eru settar fram til að sýna þá mjög svo slaklegu fjármálastjórn sem einkennt hefur fjármál hins opinbera. Það sker sig algjörlega úr.
    Nú er svo komið að áætlað er að vextir og afborganir af skuldum ríkisins nemi á næsta ári 34,2 milljörðum kr. Það jafngildir öllum útgjöldum menntamálaráðuneytis, öllum útgjöldum félagsmálaráðuneytis og öllum útgjöldum dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
    Þótt allir geri sér grein fyrir því að þessar skuldir verða ekki greiddar á næstunni er um hrikalegar tölur að ræða. Vaxtagreiðslurnar einar saman eru nokkuð hærri en allar greiðslur til allra framhaldsskóla, grunnskóla og sérskóla.
    Það er þessi bakgrunnur sem knýr þingmenn Alþýðuflokksins til að leggja fram breytingartillögur við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið er miða að hallalausum fjárlögum. Það má ekki að fresta því enn í kæruleysi að taka á halla ríkissjóðs. Breytingartillögur þingmanna Alþýðuflokksins eru birtar á sérstöku þingskjali, en yfirlit yfir þær er birt á fylgiskjali með þessu áliti. Alþýðuflokkurinn lagði sig fram í síðustu ríkisstjórn um að ná halla ríkissjóðs sem mest niður. Þótt margt hafi þar verið vel gert tókst það ekki nema að hluta. Ástæður þess að það tókst ekki sem skyldi voru að þjóðin var að ganga í gegnum sjö ára samdráttarskeið og talið var erfitt að dýpka þá lægð enn frekar með meiri samdrætti í ríkisútgjöldum.
    Nú hefur grunnurinn verið lagður að nýju framfaraskeiði og því er rétt að nota hann til að ná tökum á ríkisbúskapnum.

Þjóðhagshorfur.
    Í Þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að dragi úr hagvexti frá yfirstandandi ári og að landsframleiðsla aukist um 2% í stað 3,2% á þessu ári. Eins og á þessu ári er talið að þjóðarútgjöld aukist meira en landsframleiðslan og þjóðartekjur og afgangur á viðskiptajöfnuði muni því minnka.
    Í áætlun Þjóðhagsstofnunar er einnig gert ráð fyrir 2,5% verðbólgu á næsta ári og að nokkur aukning verði á kaupmætti ráðstöfunartekna á mann eða um 1,8%. Ljóst er að þessar forsendur þarf að endurskoða, laun muni hækka meira en gert var ráð fyrir og nú er ljóst að ráðist verður í stækkun álversins í Straumsvík og eru þær framkvæmdir taldar auka landsframleiðsluna sem aftur mun hafa áhrif á fjárlagagerðina, einkum á tekjur ríkissjóðs. Þá virðast forsendur Þjóðhagsstofnunar um aflabrögð á næsta ári ætla að standast í meginatriðum og enn er gert ráð fyrir að afurðaverð erlendis haldist hátt og afli aukist.
    Almennt má segja um þróun efnahagsmála undanfarin ár að ótrúleg umskipti hafa orðið til hins betra eftir að verkalýðshreyfingin og ríkisstjórnin beittu sér fyrir tímamótakjarasamningum í febrúar 1990. Grundvöllur þeirra samninga var að nauðsynlegur trúnaður myndaðist milli forustumanna verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og þáverandi ríkisstjórnar. Með umræddum kjarasamningum tókst að ná verðbólgunni niður og koma á forsendum fyrir efnahagslegum stöðugleika sem birtist í stöðugu gengi, viðskiptajöfnuði við útlönd og minni verðbólgu.

Tekjuhlið.
    Eins og fram kemur í áætlunum um breyttar forsendur í ríkisbúskapnum eru lagðar fram áætlanir um að aukin umsvif og breyttar forsendur geti skilað a.m.k. 800 millj. kr. tekjuauka í ríkissjóð. Þá er ljóst að framkvæmdir við nýtt álver muni leiða til um 800 millj. kr. aukningu á tekjum ríkissjóðs.
    Þingmenn Alþýðuflokks gera þar að auki tillögu um að dregið verði verulega úr starfsemi Lánasýslu ríkisins. Bæði er það að nýjar lántökur ríkissjóðs munu dragast saman ef tillögurnar verða samþykktar, svo og hitt að hægt er að sameina þessa starfsemi sambærilegri vinnu sem fram fer í Seðlabanka Íslands. Þannig má draga úr skerðingu á áhættufé ríkisábyrgða og auka þar með tekjur ríkissjóðs.
    Þá eru gerðar tillögur um að sett verði lög um fjármagnstekjuskatt strax á þessu þingi og að hann komi til framkvæmda 1. september 1996. Hér er gengið út frá því að núverandi tekjuskattskerfi verði beitt á fjármagnstekjurnar með ákveðnu frítekjumarki en síðan verði lagt á samkvæmt sérstöku skatthlutfalli sem er 30%. Þetta gæti gefið tæplega 1.300 millj. kr. yfir heilt ár í tekjur. Eins og hér sést er ekki unnið út frá þeirri reglu að setja flatan staðgreiðsluskatt á fjármagnstekjur. Unnið er út frá því að nýr fjármagnstekjuskattur falli sem best að gildandi tekjuskattskerfi en ekki þurfi að búa til nýtt kerfi fyrir hann.     Að lokum er lagt til að auka tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. með því að breyta um aðferð við að ívilna hlutabréfakaupum almennings. Nú háttar svo til að hægt er að kaupa hlut í félögum án þess að vera beinn eigandi að hlut þar. Það er gert með því að kaupa bréf í einhverjum hlutabréfasjóði sem veitir ekki réttindi til setu á aðalfundi. Þetta er gert til að geta búið til tilefni til skattfrádráttar án þess að áhættan sé mikil. Síðan eru bréfin seld eftir þrjú ár og ný keypt.
    Hér er lagt til að aðeins þau hlutabréf, sem keypt eru í beinu hlutabréfaútboði fyrirtækja sem gerð eru til að styrkja eiginfjárstöðuna, séu gild til að fá skattfrádrátt. Þá er jafnframt rétt að endurskoða þá upphæð sem fæst í skattfrádrátt hverju sinni.

Gjaldahlið.
    Lagðar eru fram allmargar tillögur um sparnað á gjaldahlið eða alls 1.510 millj. kr. Lækkun á framlagi til Byggðastofnunar eða heimildarákvæðum fjármálaráðherra og til ráðstöfunar ríkisstjórnarinni þarfnast ekki nánari útskýringa. Þar er um hreinar skerðingar að ræða. Það sama gildir um þær skerðingar sem lagt er til að gerðar verði á fjárlagalið landbúnaðarráðuneytis.
    Með nýjum búvörusamningi voru fjárveitingar til búvöruframleiðslunnar auknar stórlega þannig að á næsta ári aukast þessar fjárveitingar rétt um 250 millj. kr. Við gerð rammafjárlaga hefur það verið regla að mæta aukningu á einum fjárlagalið innan ráðuneytis með því að skera niður annars staðar.
    Þeirri reglu er fylgt hér en eilítið bætt við sparnaðinn í samræmi við yfirlýsta stefnu um að draga úr stuðningi við landbúnaðinn og búa hann þannig undir breytta tíma.
    Gerð er tillaga um að dregið verði úr starfsemi Námsgagnastofnunar. Hún starfar að hluta í samkeppni við útgáfur á frjálsum markaði og er það óeðlilegt. Þá er mun eðlilegra að bókaforlög á almennum markaði sjái í meiri mæli um gerð námsefnis en verið hefur. Þau sjá nánast um allt námsefni á framhaldsskólastiginu og eru fullfær um að takast á við meiri verkefni á grunnskólastiginu. Þó er áfram þörf fyrir öfluga starfsemi hjá Námsgagnastofnun en til þess verður nægileg fjárveiting eftir.
    Á fjárlagalið félagsmálaráðuneytis er lagt til að aukin verði þátttaka aðila utan ríkisins til að létta undir með greiðslum vegna ábyrgðasjóðs launa. Ræða þarf bæði við fulltrúa vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar til að finna réttan farveg fyrir þessi útgjöld.
    Lagt er til að sparað verði í ferðakostnaði og risnureikningi aðalskrifstofa ráðuneytanna. Hér er um mjög stóran lið að ræða þar sem auðvelt ætti að vera að spara undir venjulegum kringumstæðum.
    Að lokum er lagt til að tekin verði upp kostnaðarþátttaka sjávarútvegsins vegna margvíslegrar þjónustu sem ríkið veitir greininni. Rannsókna- og eftirlitsstofnanir sem ríkið rekur í þágu sjávarútvegsins munu fá í beina fjárveitingu á næsta ári 971 millj. kr., þar af er rekstrarkostnaður 844,8 millj. kr.
    Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um svokallaða kostun sem aðferð við að ná niður halla ríkissjóðs og sporna við sjálfvirkum hækkunum. Þessari aðferð hefur að litlu leyti verið beitt í heilbrigðisstofnunum og í meira mæli í öðrum þjónustustofnunum almennings. Árangur þessarar aðferðar er þess eðlis að eðlilegt er að beita henni á fleiri sviðum. Núverandi fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að beita eigi kostunaraðferðinni sem víðast og einnig í sjávarútvegi.
    Hér er því lagt til að Fiskistofa innheimti veiðileyfagjald til að standa straum af kostnaði við rekstur sinn, svo og Hafrannsóknastofnunar. Afgangurinn renni í ríkissjóð til að mæta kostnaði við aðrar stofnanir sjávarútvegsins.
    Hér er lagt til að innheimt verði 1,65 kr./kg af lönduðum fiski umreiknuðum í þorskígildi. Ekki mun fjarri láta að þau hafi verið tæplega 490 þúsund tonn á síðasta ári. Þannig fæst umrædd upphæð.
    Þær tillögur, sem gerðar eru um hækkanir á gjaldahlið, nema 645 millj. kr. Lagt er til að framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði aukið um 32 millj. kr. Ísland hefur margsinnis á undanförnum árum skuldbundið sig til að auka framlag til þróunarmála. Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu þess efnis.
    Framlag Íslands nemur aðeins rúmlega 0,1% af VLF og er það langlægsta hlutfall, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur um alla norðanverða Evrópu. Þessi hækkun er í samræmi við samþykkt sem stjórn ÞSSÍ gerði á sl. ári og kynnt var í ríkisstjórn. Samþykkt stjórnar ÞSSÍ miðaðist við að ná 0,7% framlagi af VLF á árinu 2002 en til þess þyrfti að hækka framlögin um 15% á ári.
    Á þessu ári voru samþykkt lög frá Alþingi um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þessa í fjárlögum er nauðsynlegt að bæta þar um. Ekki kemur annað til álita en að Alþingi tryggi framgang þessara laga. Þolendur afbrota eru sá hópur þjóðfélagsþegna sem ekki getur með nokkru móti spornað við afleiðingum afbrotanna. Samfélaginu ber því að standa við bakið á þeim. Því er lagt til að framlag til bóta til þolenda afbrota verði ákveðið 60 millj. kr. á fjárlögum fyrir næsta ár.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að spara í lífeyristryggingum við að tekjutengja þær fjármagnstekjum. Þetta á að spara ríkissjóði 250 millj. kr. á árinu. Hér er lagt til að fjármagnstekjutengingin taki ekki gildi fyrr en um leið og fjármagnstekjuskattur verður lagður á. Samkvæmt tillögum hér að framan er lagt til að það gerist 1. september 1996. Við þetta aukast útgjöld til lífeyristrygginga um 190 millj. kr.
    Á sviði menntamálaráðuneytisins er lagt til að framlag til Kvikmyndasjóðs verði aukið um 13 millj. kr. Er þetta gert til að framlag til sjóðsins verði sem næst óbreytt að raungildi á komandi ári. Fáar fjárfestingar skila betri arði en framlög til kvikmynda. Það er því lagt til að hér verði gerð á bragarbót.
    Alþýðuflokkurinn hefur vakið máls á þeirri miklu tekjutengingu með tilheyrandi háum jaðarsköttum sem innleiddir hafa verið í skattakerfið. Þótt flokkurinn sé ekki alfarið á móti tekjutengingu er hann þeirrar skoðunar að of langt hafi verið gengið. Beri nú að vinda ofan af því með viðeigandi ráðstöfunum. Því er lagt til að til viðbótar þeim 500 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að veita til að auka barnabótaaukann skuli veittar 350 millj. kr. þar til viðbótar. Þá hækkar barnabótaaukinn um 20% í stað þess að hækka um 12,6% eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Með því móti hefur jaðarskatturinn verið lækkaður umtalsvert. Fyrir fjölskyldu með fjögur börn og liðlegar meðaltekjur ætti skerðingin með þessari viðbót að vera orðin lítil með þriðja barni en engin með fjórða barni.
    Svipaðar aðgerðir eru nauðsynlegar við vaxtabæturnar. Þar er þó rétt að breyta aðferðinni og taka upp hlutfallslegar bætur af höfuðstól húsnæðisskuldar og afnema skerðinguna. Ekki er gert ráð fyrir að bótaþökum verði breytt. Til að halda óbreyttum útgjöldum ríkissjóðs þarf bótahlutfallið að vera 2,1%.
    Þingflokkur Alþýðuflokksins mun leggja þetta fram sem sérstakt mál á yfirstandandi þingi.

Sala eigna.
    Lagt er til að framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum í eigu ríkisins, sem ekki eru í einokunarstöðu á markaðnum, svo sem Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, verði breytt í almenningshlutafélög og hluti þeirra seldur almenningi samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Auðvelt ætti að vera að selja hlutabréf fyrir u.þ.b. 700 millj. kr. á næsta ári.

Hallalaus fjárlög.
    Samhliða þessu nefndaráliti flytja þingmenn Alþýðuflokksins tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem miða að hallalausum fjárlögum. Þingflokkur Alþýðuflokksins lítur svo á að það sé skylda Alþingis að afgreiða fjárlög næsta árs án halla. Þannig spornar löggjafarsamkoman best gegn hugsanlegri þenslu og dregur úr skuldum ríkissjóðs, en það er forgangsmál.

Alþingi, 14. des. 1995.



Gísli S. Einarsson.




Fylgiskjal.


Yfirlit yfir breytingartillögur þingmanna Alþýðuflokksins


við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1996.



    Tekjuhlið breytist þannig:
         
    
    Almenn hækkun vegna álframkvæmda .     800,0 m.kr.
         
    
    Hækkun vegna aukinna umsvifa í efnahagslífi og breyttra
                  forsenda í veiðum     
800.0 m.kr.

         
    
    Áhættugjald ríkisábyrgða, framlag til Lánasýslu ríkisins fellt
                  niður að hluta og starfsemin flutt til Seðlabanka Íslands     
100.0 m.kr.

         
    
    Fjármagnstekjuskattur lagður á frá 1. september 1996      420.0 m.kr.
         
    
    Ívilnunum vegna hlutabréfakaupa fækkað      200.0 m.kr.

    Samtals hækkun tekna
2.320.0 m.kr.


    Lækkun útgjalda einstakra ráðuneyta.

         
    
     Forsætisráðuneyti
                  Byggðastofnun (lækkun framlags)     
100.0 m.kr.


         
    
     Fjármálaráðuneyti
                  Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum (þak)     
50.0 m.kr.

                  Ríkisstjórnarákvarðanir (lækkun)     
50.0 m.kr.


         
    
     Sjávarútvegsráðuneyti
                  Sértekjur Fiskistofu (veiðileyfagjald) 1,65 kr./kg af lönduðum afla
                  umreiknuðum í þorskígildi (landaður afli u.þ.b. 485.000 þorskígildis-
                  tonn). Gjaldið renni til Fiskistofu. Afgangur í ríkissjóð     
800.0 m.kr.


         
    
    Menntamálaráðuneyti
                  Námsgagnastofnun (starfsemi stofnunarinnar dregin saman,
                  samkeppnisdeildum lokað, verkefni boðin út)     
60.0 m.kr.


         
    
     Félagsmálaráðuneyti
                  Ábyrgðasjóður launa (aukin verði þátttaka atvinnulífsins
                  í fjármögnun sjóðsins)     
100.0 m.kr.


         
    
     Landbúnaðarráðuneyti
                   Hagþjónusta bænda (lögð niður)     
10.0 m.kr.

                   Bændasamtökin (stuðningi hætt í áföngum)     
100.0 m.kr.

                  Framleiðnisjóður (framlag lækkað)     
200.0 m.kr.


         
    
     Aðalskrifstofa ráðuneyta (kröfur um sparnað í ferðum og risnu)      40.0 m.kr.

     Samtals lækkun útgjalda
1.510.0 m.kr.


    Hækkun útgjaldaliða einstakra ráðuneyta.

         
    
     Utanríkisráðuneyti
                  Þróunarsamvinnustofnun Íslands     
32.0 m.kr.


         
    
     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti
                  Bætur til þolenda afbrota     
60.0 m.kr.


         
    
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti
                  Tekjutenging lífeyrisgreiðslna við fjármagnstekjur verði
                  lækkuð frá frumvarpi     
190.0 m.kr.


         
    
     Menntamálaráðuneyti
                  Framlög til Kvikmyndasjóðs     
13.0 m.kr.


         
    
     Fjármálaráðuneyti
                  Skerðing barnabótaauka lækkuð (tekjutengingin).
                  Barnabótaauki hækki um 20% í stað 12,6%     
350.0 m.kr.


    Samtals hækkun útgjalda     
645.0 m.kr.


    Sala eigna.
                  Lagt er til að framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum í eigu ríkisins, sem ekki eru með einokunarstöðu, svo sem Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands, verði breytt í almenningshlutafélög og hluti þeirra seldur almenningi samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Hafin verði sala á hlutabréfum upp úr miðju næsta ári og stefnt að því að selja fyrir u.þ.b. 700.0 m.kr. á árinu.

    Samantekið.
         
    
    Hækkun tekna 2.320.0 m.kr.
         
    
    Hækkun útgjalda   645.0 m.kr.
         
    
    Lækkun útgjalda 1.510.0 m.kr.
         
    
    Sala eigna   700.0 m.kr.

        Samtals lækkun útgjalda og hækkun tekna
3.885.0 m.kr.

        Halli samkvæmt fjárlagafrumvarpi
3.880.0 m.kr.


    Tillögur þingflokks Alþýðuflokksins skila hallalausum fjárlögum fyrir árið 1996.