Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 147 . mál.


386. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Bolla Þór Bollason, Braga Gunnarsson, Indriða H. Þorláksson og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Steinþór Haraldsson frá embætti ríkisskattstjóra, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Birgi Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamanna, Rannveigu Sigurðardóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands og Guðmund Karlsson frá Samtökum aldraðra. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Samtökum aldraðra og Verslunarráði Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Skal nú gerð nánari grein fyrir einstökum breytingum.
1.    Lagt er til að ákvæði lokatöluliðar 31. gr. laganna, um sambærilegan frádrátt einstaklinga í rekstri vegna greiddra iðgjalda í lífeyrissjóði og launþegar hafa, verði lokatöluliðar A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna. Ákvæðið hefur enn ekki komist til framkvæmda en sambærileg regla er í bráðabirgðaákvæði þar sem frádrátturinn kemur til framkvæmda í áföngum. Á sínum tíma þegar lögin voru sett var gert ráð fyrir að hér væri um að ræða frádrátt sem ætti að jafnsetja einstaklinga í atvinnurekstri launþegum, þ.e. að því er varðar launþegahluta iðgjalds í lífeyrissjóði. Eðli máls samkvæmt á þessi frádráttur með réttu heima í 30. gr. og er því lagt til að lagfæring verði gerð á lögunum að þessu leyti. Þá er í 1. lið tillagnanna einnig lögð til breyting á fjárhæð í samræmi við aðrar fjárhæðarbreytingar í frumvarpinu.
2.    Í 2. lið tillagnanna er lögð til leiðrétting á fjárhæð sem misritaðist í frumvarpstexta.
3.    Lagðar eru til tvíþættar breytingar á 84. gr. laganna. Annars vegar er lögð til breyting á fjárhæð sem láðist að gera í upphaflegu frumvarpi og hins vegar er lagt til að fríeignamörkin verði látin virka við ákvörðun eignarskatts manna sem bera takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. Er þetta í samræmi við þær tillögur sem BHMR gerði í umsögn sinni um frumvarpið.
4.    Í 4. og 5. lið eru lagðar til breytingar til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um kjaramál frá 29. nóvember sl. sem felast í því að frádráttur vegna iðgjaldagreiðslna í lífeyrissjóði koma hraðar til framkvæmda en gert er ráð fyrir í gildandi lögum.
5.    Lagt er til að frádráttur þeirra sem eru 70 ára eða eldri falli brott frá og með næstu áramótum en verði þrepaður út eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Er þetta lagt til í samhengi við framangreindar breytingar í iðgjaldafrádrætti launþega.

Alþingi, 14. des. 1995.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.