Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 147 . mál.


391. Nefndarálit



um frv til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, verður að skoðast samhliða frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, svo og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald.
    Í frumvörpum þessum eru fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar á sviði skattamála settar fram. Þær miða að því að
    auka tekjur um 1,8 milljarða kr. með hækkun tryggingagjalds og frystingu persónuafsláttar,
    afnámi sjálfvirkni eða sjálfvirkrar tengingar skatta eða bóta við verð- eða launavísitölu og
    kveða á um skattfrelsi lífeyrisiðgjalds launafólks.
    Frumvarpið, sem er til umfjöllunar, snýr einkum að nauðsynlegum breytingum á tekju- og eignarskatti vegna þess ásetnings ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirkni á sviði skattamála. Þá fjallar það einnig um framlengingu 5% hátekjuskatts. Þar að auki eru smávægilegar breytingar á lögunum sem falla fremur undir snyrtingarvinnu en efnislegar breytingar.
    Það er jákvæðri framvindu efnahagsmála ekki til framdráttar að viðhalda sjálfvirkni í efnahagslífinu heldur verður að teljast eðlilegt að um það þurfi að taka sérstaka ákvörðun hverju sinni hvaða breytingum viðkomandi bóta- eða afsláttargreiðslur eiga að taka. Þetta breytir því ekki að mikilvægt er að kaupmætti bóta almannatrygginga sé viðhaldið. Þótt það snerti ekki þetta frumvarp beint telur 1. minni hluti að eðlilegt sé að viðhalda tengingu milli almennrar launaþróunar og breytinga á atvinnuleysisbótum, enda hafi þær verið miðaðar við tiltekið hlutfall launa.
    Stærsta skerðingarákvæði þessa frumvarps er frysting persónuafsláttar miðað við það sem var við álagningu tekjuskatts í ár. Þessi eina aðgerð er talin munu spara ríkissjóði 900 millj. kr. á ári.
    Í þessu frumvarpi er einnig sérstakt ákvæði um hækkun barnabótaauka, en hækkun hans er talin kosta 500 millj. kr. Alþýðuflokkurinn fagnar þessu en telur að ganga þurfi lengra þar sem aðstæður hafi breyst, auk þess sem þegar hafi verið gengið of langt í tekjutengingu í skattkerfinu. Alþýðuflokkurinn mun því flytja tillögu við 2. umræðu um fjárlög sem gengur lengra en þessi og vill að jaðarskattar verði lækkaðir meira með breytingum á gildandi reglum um barnabótaauka og vaxtabætur.
    Hvað viðvíkur svokölluðum hátekjuskatti eða sérstökum tekjuskatti gerir 1. minni hluti ekki athugasemdir við framlengingu hans. Um það höfðu menn verið ásáttir á tímum síðustu ríkisstjórnar að hann yrði í gildi a.m.k. svo lengi sem fjármagnstekjuskatturinn væri ekki orðinn að lögum. Þótt hærra þrepið í tekjuskatti skili ekki miklum fjármunum í ríkissjóð er það yfirlýsing um að „breiðu bökin“ eigi að borga meira í sameiginlegan sjóð en aðrir. Það eru mikilvæg og óhjákvæmileg skilaboð nú.
    Þótt þetta frumvarp afmarkist af tilteknum efnissviðum er rétt að fara nokkrum orðum um gagnrýni Alþýðuflokksins á veilur tekjuskattskerfisins. Þegar hefur verið greint frá því að flokksmenn eru ósáttir við þá miklu tekjutengingu sem er í skatta- og bótakerfinu, einkum hjá barnafólki og þeim sem eru að koma sér upp húsnæði. Jaðarskattar, sem geta farið í 64%, og í öðrum tilvikum hærra, eru ekki þolandi. Tekjutenging er réttlætanleg innan skynsamlegra marka, en þau mörk höfum við farið yfir. Alþýðuflokkurinn vill ekki aðeins draga úr skerðingu vegna barnabóta heldur einnig vaxtabóta. Hann telur að það þoli enga bið og að hægt sé að gera breytingar þar á án þess að það kosti mikil útgjöld í fyrstu umferð. Þingflokkurinn mun bera fram frumvarp til laga þar að lútandi á næstunni.
    Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að fyrirhugað sé að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári. Alþýðuflokkurinn hefur lengi barist fyrir því að koma á fjármagnstekjuskatti sem réttlætismáli. Það var þó ekki fyrr en í tengslum við ráðstafanir sem gerðar voru í desembermánuði sl. að tókst að fá sjálfstæðismenn til að samþykkja yfirlýsingu sem var bindandi og ótvíræð um að lög þess eðlis skyldu samþykkt á því þingi sem nú situr. Þá risu framsóknarmenn upp af bjarnarsvefni sínum í þessu máli og neituðu að skipa mann í nefndina. Eftir að þeim hafði verið tjáð af fyrrverandi ríkisstjórn að nefndin mundi engu að síður taka til starfa skiptu þeir um skoðun og drögnuðust með.
    Það hefur því ekki verið auðvelt verk að knýja á um þetta sanngirnismál. Því ber að fagna þegar nú virðist almenn samstaða um að hrinda þessu réttlætismáli í framkvæmd.

Alþingi, 14. des. 1995.



Jón Baldvin Hannibalsson.