Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 252 . mál.


392. Frumvarp til laga



um spilliefnagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr.

    Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi endurnýtingu eða eyðingu þeirra.
    Til þess að standa straum af kostnaði við söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu eða eyðingu spilliefna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, er heimilt að leggja sérstakt gjald, spilliefnagjald, á vörur sem geta orðið að spilliefnum.
    

2. gr.

    Með vörum sem geta orðið að spilliefnum er í lögum þessum átt við vörur og efni, sbr. 6. gr., hrein eða þegar þau eru hluti af öðrum efnum eða vörum, auk umbúða þeirra, sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfi.
    

3. gr.

    Ráðherra skipar spilliefnanefnd til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti sex menn: einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af Samtökum iðnaðarins, einn af Alþýðusambandi Íslands og einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns.
    

4. gr.

    Spilliefnanefnd skal gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna. Nefndin skal hafa náið samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um skilgreiningu markmiða hvað einstök viðfangsefni varðar og um val á aðferðum til að ná settum markmiðum.
         Nefndinni er heimilt að staðfesta samninga milli fyrirtækja og atvinnugreina um ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun af völdum spilliefna í sambandi við söfnun þeirra og eyðingu ef sýnt þykir að það fyrirkomulag þjóni markmiðum laganna. Er viðkomandi vara þá undanþegin gjaldtöku samkvæmt lögum þessum.
    

II. KAFLI

Spilliefnagjald.

5. gr.

    Spilliefnagjald er gjald sem lagt er á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Spilliefnagjald skal standa undir óhjákvæmilegum kostnaði af söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna og lýtur stjórn spilliefnanefndar.
    Spilliefnagjaldinu skal skipt í flokka, sbr. 2. mgr. 6. gr., og skal hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður. Að fengnum tillögum spilliefnanefndar skal umhverfisráðherra kveða nánar á um skiptinguna í reglugerð.
    Spilliefnagjaldinu skal varið til greiðslu kostnaðar vegna móttöku spilliefna, meðhöndlunar, flutnings frá söfnunarstöðvum til eyðingarstöðva og eyðingar, enda hafi verið greitt sérstakt gjald af vörunum skv. 6. gr. Jafnframt skal því varið til greiðslu kostnaðar við framkvæmd laga þessara.
    Spilliefnanefnd semur við þar til bæran aðila um vörslu og ávöxtun gjaldsins. Ársreikningar skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í reglugerð, sem ráðherra setur, að fengnum tillögum spilliefnanefndar, skal kveða nánar á um hlutverk nefndarinnar, starfshætti og úthlutunarreglur.
    Spilliefnanefnd skal að jafnaði bjóða út framangreinda verkþætti til allt að fimm ára í senn. Á grundvelli útboðs skal nefndin semja um endurgjald vegna móttöku, söfnunar, flutnings og eyðingar og meðhöndlunar á spilliefnum. Þetta skal gert fyrir landið allt eða einstök landsvæði eða vegna framkvæmda einstakra verkþátta, eftir því sem henta þykir. Við gerð áætlana og samninga samkvæmt framanskráðu skal við það miðað að ná sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði. Þar sem útboð tekst ekki skal spilliefnanefnd gera tillögur um upphæð gjalda.
    

III. KAFLI

Gjaldskyldar vörur.

6. gr.

    Gjaldskylda nær til allra vara sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar hér á landi. Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, og gilda ákvæði þeirra jafnframt um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um tollflokkun vara.
    Spilliefnagjald skal lagt á neðangreinda vöruflokka:
    Olíuvörur:
         
    
    svartolía, allt að 0,1 kr. á hvert kg,
         
    
    önnur olía en brennsluolía, allt að 1,0 kr. á hvert kg.
    Lífræn leysiefni, klórbundin efnasambönd o.fl.:
         
    
    lífræn leysiefni, allt að 0,5 kr. á hvert kg,
         
    
    halógeneruð efnasambönd, allt að 900 kr. á hvert kg,
         
    
    ósoneyðandi efni, allt að 900 kr. á hvert kg,
         
    
    ísósyanöt, allt að 1,0 kr. á hvert kg.
    Málning og litarefni, allt að 2,0 kr. á hvert kg.
    Rafhlöður og rafgeymar:
         
    
    rafhlöður, allt að 200 kr. á hvert kg,
         
    
    rafgeymar, allt að 60 kr. á hvert kg.
    Ljósmyndavörur: framköllunarvökvar og fixerar, allt að 300 kr. á hvert kg.
    Ýmsar aðrar efnavörur (kemískar vörur), allt að 5,0 kr. á hvert kg.
    Ráðherra skal, að fenginni tillögu spilliefnanefndar, ákveða með reglugerð upphæð gjaldsins á vörur í vöruflokkum skv. 2. mgr. Nefndin skal miða tillögur sínar við áætlun um söfnun, endurnýtingu og eyðingu viðkomandi spilliefna á grundvelli útboða og verksamninga, svo og að tekjur og gjöld í hverjum flokki, sbr. 1. mgr., standist á. Að fengnum tillögum spilliefnanefndar er ráðherra heimilt í reglugerð að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu.
    

7. gr.

    Skylda til að greiða spilliefnagjald hvílir á þessum aðilum:
    Öllum þeim sem flytja til landsins vörur sem geta orðið að spilliefnum hvort sem þær eru til eigin nota eða endursölu.
                  Spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt ásamt aðflutningsgjöldum.
                  Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, veð, sektir, viðurlög og refsingar og aðra framkvæmd varðandi spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim
    Öllum innlendum aðilum sem framleiða vörur sem geta orðið að spilliefnum.
                  Spilliefnagjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda. Gjaldinu skal skilað mánaðarlega.
                  Aðilum, sem keypt hafa hráefni eða efnivöru til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af því spilliefnagjald, er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.
                  Að því leyti sem ekki er ákveðið í lögum þessum skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
    

8. gr.

    Fyrir spilliefni, sem verða til hjá einstaklingum og lögaðilum og ekki eru til komin vegna notkunar á vörum sem getið er í 6. gr., skal greiða gjald til móttökustöðva í samræmi við þann kostnað sem af eyðingunni hlýst.
    

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

    Ráðherra skal, að fengnum tillögum spilliefnanefndar, kveða á um í reglugerð með hvaða hætti spilliefnum skuli skilað til móttökustöðva, svo og um fyrirkomulag útboða skv. 5. gr. Í reglugerðinni skal birta skrá yfir vörur sem geta orðið að spilliefnum, tollskrárnúmer þeirra og heiti, sbr. 6. gr. Uppfylli umbúnaður og samsetning spilliefna ekki settar reglur er ráðherra heimilt, samkvæmt tillögum spilliefnanefndar, að ákveða með gjaldskrá sérstakt gjald í móttökustöðvum fyrir meðhöndlun eða undirbúning spilliefna fyrir endurnýtingu eða eyðingu þeirra.
    Jafnframt er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum spilliefnanefndar, að kveða á um greiðslur til aðila ef umbúnaður eða úrvinnsla spilliefna sem þeir skila er með þeim hætti að það spari kostnað á síðari stigum.

10. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál vegna slíkra brota skal farið að hætti opinberra mála.
    

11. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skal ákvæði 6. gr. um innheimtu gjalda eigi koma til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1996 og ákvæði 5. gr. um greiðslu kostnaðar eigi fyrr en 1. desember 1996.
    Heimilt er þó að fresta álagningu gjalda samkvæmt einstökum töluliðum 6. gr. eftir því sem spilliefnanefnd leggur til. Stefnt skal að því að álagningu gjalda verði komið á í áföngum og að fullu í síðasta lagi árið 2000. Spilliefnanefnd skal fyrir 15. júní 1996 skila tillögum að áætlun um framkvæmd álagningar á einstaka vöruflokka til umhverfisráðherra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp til laga um sérstakt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum er samið í umhverfisráðuneytinu. Það var fyrst lagt fram á 117. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Er það endurflutt hér nokkuð breytt. Við undirbúning frumvarpsins var m.a. haft samráð við þá aðila sem sjá um meðhöndlun spilliefna hér á landi, Samtök iðnaðarins, Vinnuveitendasamband Íslands, fjármálaráðuneytið og Hollustuvernd ríkisins. Jafnframt hefur verið athugað hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar. Frumvarpið er unnið í nánu samráði við atvinnulífið og óskir þess. Verði frumvarpið að lögum mun það færa mjög mikla ábyrgð til atvinnulífsins sem hefur mikilla hagsmuna að gæta að verkefni það sem frumvarpið fjallar um verði leyst vel og á sem hagkvæmastan hátt.
    Með frumvarpinu er verið að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, endurnýtingu og förgun spilliefna og leggja þannig grunn að skipulagðri söfnun spilliefna fyrir landið allt. Meðal meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum er að stefna að því að beita umhverfisgjöldum í ríkara mæli til að stuðla að aukinni endurnýtingu og bættri förgun úrgangs og að sérstök áhersla verði lögð á að allri losun umhverfisskaðlegra efna í almennar fráveitur verði hætt. Í frumvarpinu er leitast við að útfæra mengunarbótaregluna (Polluter Pays Principle) á þann hátt að það hvetji til betri söfnunar og meðferðar spilliefna. Í henni felst að þeir sem menga umhverfið eða spilla því greiði kostnað af aðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Núverandi fyrirkomulag er letjandi þótt það byggist einnig á mengunarbótareglunni.
    Markmið frumvarpsins kemur fram í 1. gr. þess. Það er einkum að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, endurnýtingu og förgun spilliefna og tryggja þannig að unnt verði að koma í veg fyrir umhverfismengun af völdum spilliefna og að einstaklingar og lögaðilar skili spilliefnum til viðurkenndra móttökustöðva. Markmiðið er enn fremur að stuðla að endurnýtingu og eyðingu spilliefna og tryggja örugga meðferð þeirra. Leiðin, sem valin er í frumvarpinu, á að tryggja að á hverjum tíma sé fyrir hendi fé til þess að standa straum af kostnaði við venjulega meðhöndlun, eyðingu og flutning spilliefna til móttöku- eða eyðingarstöðva. Stefnt er að því að einstaklingar og lögaðilar, sem skila spilliefnum til móttökustöðva, þurfi að jafnaði ekki að greiða fyrir þjónustuna, enda hafi sérstakt gjald verið lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Í frumvarpinu er lagt til að fjármunum verði varið til söfnunar, meðhöndlunar, eyðingar og endurnýtingar spilliefna eftir því sem nánar er kveðið á um þar.


(Mynd)




    Í frumvarpinu er valin sú leið að leggja á sérstakt gjald, spilliefnagjald, er standi undir kostnaði við söfnun, meðhöndlun og eyðingu eða endurnýtingu spilliefna að því marki sem nánar er kveðið á um þar Í samráði við Samtök iðnaðarins og Vinnuveitendasamband Íslands er lagt til að gjaldinu verði skipt í flokka og að sem flestir þættir, sem tengjast verkefninu, verði boðnir út til að ná fram ýtrustu hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að uppgjör fari fram, sbr. tollflokka, eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og að gjald verði lagt á einstaka tollflokka og síðan leiðrétt samkvæmt uppgjöri. Þannig er leitast við að miða gjaldið við raunverulegan kostnað við eyðingu eða endurnýtingu einstakra efna.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun söfnun spilliefna aukast umtalsvert. Bætt skil til móttökustöðva munu stuðla að frekari umhverfisvernd og tryggja örugga meðhöndlun þessara efna.
    
II. Framkvæmd sorphirðu.
    Samkvæmt 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, ásamt síðari breytingum, eru sorphreinsun og sorpeyðing verkefni sveitarfélaga. Í stórum dráttum hefur framkvæmdin hvað spilliefni varðar verið með þeim hætti að sorpmóttökustöðvar einstakra sveitarfélaga hafa tekið á móti þeim, og séð um meðhöndlun þeirra eða flutning til þeirra aðila sem hafa fullnægjandi aðstöðu til þess að taka á móti þeim. Vegna þeirrar mengunarhættu sem stafað getur af spilliefnum er meðhöndlun þeirra að jafnaði flókin og kostnaðarsöm. Kostnaðurinn er ýmist greiddur úr sjóðum einstakra sveitarfélaga eða sveitarfélög hafa farið þá leið að leggja á almennt sorphirðugjald eða innheimt gjöldin með sérstökum gjaldskrám sem einstök fyrirtæki hafa þurft að greiða eftir þegar efnunum er skilað. Þetta fyrirkomulag hefur því miður haft í för með sér að einungis litlum hluta spilliefna er skilað til móttökustöðva.

III. Almennar forsendur.
    Til þess að hægt sé að koma á skipulegri söfnun spilliefna þarf að tryggja nægilegt fjármagn til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir endurnýtingu eða eyðingu þeirra. Frumvarpinu, sem hér er lagt fram, er ætlað að stuðla að því.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim forsendum sem frumvarp þetta byggist á.
    Þegar kostnaður við endurnýtingu og eyðingu spilliefna er metinn verður m.a. að taka mið af kostnaði við eftirfarandi rekstrarþætti: flutning, meðferð, flokkun, pökkun o.fl. Hingað til hafa spilliefni, sem eytt hefur verið eða endurnýtt með viðunandi hætti, að mestu leyti verið flutt til útlanda til eyðingar. Hluta þeirra hefur þó verið eytt hér á landi en möguleikum til að eyða spilliefnum innanlands hefur fjölgað.
    Við mat á flutningskostnaði er miðað við að það kosti um 11 kr. á kg að flytja spilliefni frá höfuðborgarsvæðinu til móttökustöðvar í Danmörku. Gert er ráð fyrir að vannýtt flutningsgeta verði notuð til að flytja efnin milli landshluta. Við mat á eyðingarkostnaði voru m.a. hafðar til hliðsjónar gjaldskrár Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins bs. (Sorpu) og Kommunukemi sem er móttöku- og eyðingarstöð fyrir spilliefni í eigu sveitarfélaga í Danmörku. Einnig voru skoðaðar rekstrarkostnaðartölur frá Sorpu.
    Nú liggja fyrir upplýsingar um magn spilliefna sem skilað hefur verið til móttökustöðva hér á landi, allt frá árinu 1990. Hins vegar eru ekki til nákvæmar upplýsingar um það magn spilliefna sem fellur til hér á landi ár hvert.
    Árið 1991 fékk Sorpa danskt ráðgjafafyrirtæki til að meta magn spilliefna hér á landi. Með hliðsjón af niðurstöðum danska fyrirtækisins sem Sorpa kynnti á sínum tíma og mati Hollustuverndar ríkisins og umhverfisráðuneytisins er miðað við að hér á landi falli til um 4.500 tonn af spilliefnum frá atvinnurekstri og heimilum í landinu árlega ef einungis er tekinn með olíusori og fastur olíuúrgangur en ekki sá hluti olíuúrgangs sem er tiltölulega auðvelt að endurnýta, svo sem notuð smurolía.
    Gert er ráð fyrir því að uppsafnaður vandi sé ekki verulegur ef frá eru taldir ónýtir rafgeymar. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að hér á landi séu um 3.000 til 4.000 tonn af ónýtum rafgeymum. Spilliefnum hefur verið skilað til Sorpu og annarra móttökustöðva að undanförnu, en mikill hluti hefur farið á hauga eða í fráveitur. Stefnt er að því með frumvarpinu að koma eins og hægt er í veg fyrir mengun af völdum spilliefna. Fullyrða má að spilliefni séu einn alvarlegasti mengunarvaldur hér á landi í dag.
    Kostnaður við meðhöndlun og eyðingu spilliefna fer eftir tegundum. Efnin eru sett saman á ólíkan hátt og misjafnlega flókið er að eyða þeim. Þetta hefur í för með sér að eyðingarkostnaður er ekki alltaf sá sami. Enn fremur er misjafnt hversu hátt hlutfall af tiltekinni vöru verður að spilliefnum eins og fyrr hefur verið rakið. Við vinnslu frumvarpsins var reynt að meta hve hátt gjaldið, sem greiða þarf við innflutning, sbr. 7. gr., þarf að vera fyrir einstaka vöruflokka.
    Í tonnum talið er úrgangsolía eða olíuúrgangur stærsti flokkur spilliefna sem falla til hér á landi. Magn úrgangsolíu er áætlað á bilinu 1.500–2.500 tonn á ári, byggt á magni olíusora og annarrar úrgangsolíu sem ekki verður nýtt með öðru móti. Áætlað er að allt að 4.000–5.000 tonn á ári falli til af úrgangsolíu ef sú úrgangsolía, sem hingað til hefur verið notuð við ófullkomnar aðstæður í fiskimjölsverksmiðjur, ýmis kynditæki og þess háttar er talin með. Gert er ráð fyrir nýtingu úrgangsolíunnar hér á landi. Ef orkuinnihald úrgangsolíu er hátt þá er fyrst og fremst um að ræða kostnað við rekstur söfnunarkerfis, meðferð olíunnar og flutning hennar. Olíufélögin hafa hingað til séð um þennan þátt. Þess má geta að af þeim vörum sem falla undir gildissvið frumvarpsins er talið að olíuvörur séu um 99% af heildarmagni. Olíuúrgangur er talinn vera rúmlega 50% spilliefna sem falla til hér á landi. Gert er ráð fyrir að gjald sem greiða þarf við tollafgreiðslu olíuvara verði á bilinu 0,01 til 0,1 kr. á hvert kg og að þetta sérstaka gjald verði fyrst og fremst lagt á þær olíur sem mynda spilliefni, svo sem smurolíur og svartolíur.
    Gert er ráð fyrir að greiða þurfi 0,1 til 0,5 kr. á hvert kg. við tollafgreiðslu á lífrænum leysiefnum, að eyðing þeirra eigi sér stað innan lands og að um 0,1% af leysiefnum sem flutt eru til landsins verði að spilliefnum.
    Öðru máli gegnir um halógeneruð efnasambönd, klórbundin efni og ósoneyðandi efnasambönd. Eyðing og endurnýting þessara efna er tæknilega flókin, en markvisst er unnið að því að draga úr notkun þeirra til þess að koma í veg fyrir að þau fari út í andrúmsloftið. Stefnt er að því að kælimiðlum og þess háttar ósoneyðandi efnum verði skilað til móttökustöðva í því magni sem þau voru upphaflega. Jafnframt er við það miðað að senda þurfi þessi efni til annarra landa þar sem þau eru endurnýtt eða þeim eytt. Þetta getur þýtt það að leggja þurfi 300 til 900 kr. á hvert kg sem flutt verður til landsins.
    Einnig er gert ráð fyrir að ísósyanöt þurfi áfram að senda til annarra landa til eyðingar og við það miðað að um 1% af efnunum sem koma til landsins verði að spilliefnum. Gert er ráð fyrir að leggja þurfi 0,5 til 1,0 kr. á hvert kg við tollafgreiðslu þessara efna.
    Málning og litarefni verða að mestu leyti hluti af annarri framleiðslu eða eyðast við notkun. Þróunin hefur verið sú að þessar vörur innihalda minna af efnum sem skaðleg geta verið fyrir umhverfið en áður var. Stærsti hluti þessara efna er urðaður á sérstakan hátt á urðunarstöðum sem til þess hafa leyfi. Einungis litlum hluta, eða um 1%, sem er fyrst og fremst olíumálning og lakk, þarf að eyða sem spilliefnum. Einungis verður tekið gjald af þeim málningarvörum og litarefnum sem teljast til spilliefna og er gert ráð fyrir að það geti numið allt að 2 kr. á hvert kg.
    Gert er ráð fyrir að einungis verði tekið gjald af þeim rafhlöðum sem hafa mest mengandi áhrif á umhverfið og að það verði á bilinu 130 til 200 kr. á hvert kg. Hér undir falla m.a. hnapparafhlöður og endurhlaðanlegar rafhlöður. Rafhlöður eru flokkaðar sem spilliefni innihaldi þær meira en 0,025% af kvikasilfri eða kadmíum.
    Á því er byggt að 900 tonn af rafgeymum séu flutt til landsins árlega og um 600–650 tonn fari til þess að endurnýja þá rafgeyma sem fyrir eru. Líklegt er að 700 tonnum sé hent árlega. Gert er ráð fyrir að rafgeymar fái formeðhöndlun hér á landi og síðan verði þeir sendir úr landi til endurnýtingar. Miðað er við að það gjald sem leggja verði á rafgeyma við tollafgreiðslu þeirra verði á bilinu 30 til 60 kr. á hvert kg.
    Framköllunarvökvar og „fixerar“ blandast mikið í notkun og skila sér því oft í meira magni sem spilliefni en upphaflega varan. Þetta hefur í för með sér meiri kostnað við meðhöndlun. Gert er ráð fyrir að þessar vörur skili sér að öllu leyti til móttökustöðva og leggja verði á þær gjald sem er um 50 kr. á hvert kg opnist möguleikar innan lands til að eyða þessum efnum en allt að 300 kr. á hvert kg, miðað við 85% vatnsinnihald í úrganginum, ef áfram þarf að senda þessi spilliefni utan til eyðingar.
    Gert er ráð fyrir að um 1% af þeim vörum sem falla undir flokkinn ýmsar aðrar efnavörur verði að spilliefnum og það gjald sem lagt verður á þær verði á bilinu 0,1 til 2 kr. á hvert kg.
    Að lokum er rétt að taka fram að verði frumvarp þetta að lögum er þeim ekki ætlað að taka á uppsöfnuðum vanda, t.d. hvað rafgeyma varðar. Brýnt er að leysa þessi mál með samkomulagi þeirra aðila er málið varðar áður en frumvarpið verður að lögum eða einstakir þættir laganna koma til framkvæmda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni kemur fram markmið laganna. Meginmarkið þeirra er að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna sem hvetji til bættrar söfnunar spilliefna og dragi úr mengun af þeirra völdum. Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að það muni hafa í för með sér að nokkuð dragi úr notkun vara sem geta orðið að spilliefnum þar sem verð þeirra mundi hækka í innkaupum og gera aðra kosti aðgengilegri. Á þann hátt mun meginmarkmið frumvarpsins nást fram.
    Víða í nágrannalöndum okkar er unnið að því að útfæra svonefnda mengunarbótareglu (Polluter Pays Principle). Sambærileg eða svipuð vinna fer nú fram hér á landi. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakt gjald, spilliefnagjald, verði lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Reynslan hér hefur leitt í ljós að spilliefni skila sér ekki til móttökustöðva sem skyldi og virðist það m.a. helgast af þeirri staðreynd að kostnaðurinn af meðhöndlun og eyðingu efnanna er mikill og því er oft leitað annarra leiða. Óþarft er að fjölyrða um þá hættu fyrir heilsu manna og umhverfið sem fylgir því að geyma spilliefni eða farga þeim við óviðunandi aðstæður.
    Með innheimtu spilliefnagjalds er stefnt að því að á hverjum tíma sé til staðar nægilegt fé til þess að tryggja viðunandi meðhöndlun og eyðingu efnanna.
    

Um 2. gr.


    Í greininni er sett fram skilgreining á þeim vörum sem geta orðið að spilliefnum. Verði frumvarp þetta að lögum er þeim ætlað að gilda um vörur og efni sem geta orðið að spilliefnum, hrein eða þegar þau eru hluti af öðrum efnum eða varningi, sbr. ákvæði 6. gr. Enn fremur er þeim ætlað að gilda um umbúðir sem notaðar hafa verið utan um framangreindar vörur og komist í beina snertingu við þær. Flestar vörur sem frumvarpið gildir um eru þess eðlis að spilliefnin eru í annarri mynd en varan var upphaflega. Þetta á t.d. sérstaklega við um framköllunarvökva, en þegar notkun hans lýkur hefur umfang hans aukist verulega við vatnsblöndun. Mikill hluti þeirra vara sem frumvarpið gildir um verður hluti af tiltekinni framleiðslu eða notkun. Þetta hefur í för með sér að oft verður einungis lítill hluti þeirra að spilliefnum. Spilliefni eru skilgreind í mengunarvarnaregluerð sem sett er samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    

Um 3. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ráðherra skipi séstaka nefnd, svokallaða spilliefnanefnd. Lagt er til að nefndin verði auk fulltrúa ráðherra skipuð fulltrúum þeirra aðila sem málaflokkurinn snertir helst. Gerð er tillaga um að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa vegna lögboðinnar skyldu sveitarfélaga í sorpeyðingarmálum og Vinnuveitendasamband Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna sameiginlega vegna hagsmuna atvinnurekenda og iðnaðar í landinu og loks er lagt til að einn nefndarmaður verði tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands til að tryggja hagsmuni neytenda og starfsmanna.
    

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að spilliefnanefnd skuli gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, endurnýtingu og eyðingu einstakra spilliefna. Jafnframt er kveðið á um að nefndin skuli hafa náið samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um skilgreiningu markmiða hvað einstök viðfangsefni varðar og um val á aðferðum til að ná þeim. Loks er í greininni kveðið á um að nefndin hafi heimild til að staðfesta frjálsa samninga milli fyrirtækja og atvinnugreina um ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun af völdum spilliefna í sambandi við söfnun þeirra og eyðingu ef sýnt þykir að slíkt fyrirkomulag þjóni markmiðum laganna.
    

Um 5. gr.


    Til þess að greiða óhjákvæmilegan kostnað af söfnun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna og tryggja framkvæmdina er lagt til að lagt verði á sérstakt gjald, spilliefnagjald, sem spilliefnanefnd hefur umsjón með.
    Gjaldið skal lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Því skal skipt í flokka sem eru fjárhagslega sjálfstæðir.
    Í 3. mgr. er markaður sá rammi sem fjármununum skal varið til. Meðferð og eyðingu spilliefna fylgir óhjákvæmilega nokkur kostnaður og með vísan til 1. gr. þarf að vera tryggt að nægilegt fé sé tiltækt á hverjum tíma til að mæta honum. Jafnframt er endurnýting og eyðing spilliefna tæknilega flókin og krefst sérhæfðra vinnubragða. Meðal annars af þeim sökum hafa spilliefni verið flutt til annarra landa til eyðingar. Sérstaklega er tekið fram að spilliefnanefnd skuli bjóða út verkþætti starfseminnar og verði þannig tryggt að ýtrustu hagkvæmni verði náð.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli í reglugerð setja nánari ákvæði um hlutverk spilliefnanefndar, starfshætti og úthlutunarreglur.
    

Um 6. gr.


    Gjaldskylda nær til allra vara sem geta orðið að spilliefnum og er gjaldið ætlað til að standa straum af kostnaði við söfnun, meðhöndlun, eyðingu og endurnýtingu spilliefna. Í 1.–6. tölulið eru taldir upp gjaldskyldir vöruflokkar. Valin er sú leið í frumvarpinu að gera grein fyrir vöruflokkum, en þeir eru ásamt tollnúmerum eftirfarandi:
    Olíuvörur, m.a. tollskrárnúmer 2707, 2709, 2710 (ekki gasolía, bensín og þess háttar) og 3811.
    Lífræn leysiefni, klórbundin efnasambönd o.fl.:
         
    
    lífræn leysiefni, m.a. tollskrárnúmer 2901, 2902, 2912 og 3814,
         
    
    halógeneruð efnasambönd, m.a. tollskrárnúmer 3818,
         
    
    ósoneyðandi efni, m.a. tollskrárnúmer 2903 og 3823,
         
    
    ísósyanöt, m.a. tollskrárnúmer 2929.
    Málning og litarefni, m.a. tollskrárnúmer 3203–3215.
    Rafhlöður og rafgeymar, m.a. tollskrárnúmer 8506 og 8507.
    Ljósmyndavörur, framköllunarvökvar og fixerar, m.a. tollskrárnúmer 3707.
    Ýmsar aðrar efnavörur (kemískar vörur), m.a. tollskrárnúmer 3808, 3819, 3820 og 3823.
    Lagt er til í 2. mgr. að ráðherra ákveði upphæð gjalda í reglugerð samkvæmt tillögum spilliefnanefndar og niðurstöðum útboða fyrir móttöku vara í hverjum flokki spilliefna samkvæmt þessari grein, að því hámarki sem tilgreint er í greininni. Með þessu móti er leitast við að tryggja tvennt, annars vegar ýtrustu hagkvæmni og hins vegar að innheimt gjöld af vörum fari að mestum hluta til að standa undir kostnaði við meðhöndlun og förgun spilliefna sem eru tilkomin af notkun sömu vöru. Sérstaklega skal á það bent að óvissuþættir vegna meðhöndlunar og eyðingar spilliefna eru nokkrir og t.d. er ekki vitað með vissu hversu mikið magn spilliefna fellur til hér á landi. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra geti með reglugerð undanþegið einstakar vörutegundir skv. 1. mgr. Vegna þeirrar jákvæðu þróunar sem hefur orðið við framleiðslu ýmissa vara sem hingað til hafa innihaldið umhverfisspillandi efni má gera ráð fyrir að í framtíðinni verði ekki nauðsyn á að leggja gjald á eins margar vörutegundir og nú. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu.
    

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um á hvaða aðilum hvílir skylda til að greiða spilliefnagjald.
    

Um 8. gr.


    Við ýmiss konar framleiðslu hér á landi falla til spilliefni sem ekki verða til við notkun vara sem fluttar hafa verið til landsins eða framleiddar sem framleiðsluvörur. Hér má t.d. nefna ryk frá hreinsibúnaði iðnfyrirtækja og eiturefni sem hreinsuð hafa verið úr hráefnum sem notuð eru í matvælaiðnaði. Til móttökustöðva er einnig skilað spilliefnum sem flutt hafa verið inn sem vörur og 7. gr. frumvarpsins gildir ekki um eða af öðrum ástæðum eru ekki háðar aðflutningsgjöldum. Vegna þessara spilliefna þarf notandinn að greiða gjald til móttökustöðva eins og verið hefur til að standa straum af kostnaði við meðhöndlun, flutning og eyðingu þeirra.
    

Um 9. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ráðherra skuli að fengnum tillögum spilliefnanefndar setja ákvæði í reglugerð um með hvaða hætti spilliefnum skuli skilað til móttökustöðva, svo og um fyrirkomulag útboða skv. 5. gr. Jafnframt er kveðið á um að birta skuli með reglugerðinni skrá yfir vörur sem geta orðið að spilliefnum, tollskrárnúmer þeirra og heiti. Sé umbúnaður eða samsetning spilliefna ekki samkvæmt ákvæðum reglugerðar er kveðið á um að ráðherra sé heimilt með gjaldskrá að ákveða sérstakt gjald í móttökustöðvum fyrir meðhöndlun eða undirbúning spilliefna fyrir endurnýtingu eða eyðingu. Hér má t.d. nefna spilliefni blönduð öðrum úrgangi eða spilliefni sem eru vatnsblönduð að stórum hluta. Loks er kveðið á um að heimilt sé að kveða á um sérstakar endurgreiðslur ef umbúnaður eða úrvinnsla er með þeim hætti að það spari kostnað á síðari stigum. Spilliefnanefnd geri tillögur til ráðherra.
    

Um 10. gr.


    Í greininni er kveðið á um að brot gegn lögunum varði sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með öðrum lögum er m.a. átt við að refsing geti verið ákveðin samkvæmt lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni. Í þeim lögum er kveðið á um að fyrir ítrekuð eða stórfelld brot geti refsing orðið varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum.
    

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Rétt þykir að 6. gr. taki gildi áður en kemur til greiðslu kostnaðar við meðhöndlun og förgun spilliefna, en með því móti er reynt að tryggja að þegar lögin koma að fullu til framkvæmda verði fyrir hendi fjármagn til að standa straum af þeim kostnaði sem framkvæmdinni fylgir. Þetta er einnig eðlilegt í ljósi þess að einhver tími líður að jafnaði frá því að vörur eru fluttar til landsins þar til þær verða að spilliefnum. Þá er nauðsynlegt að einhver tími líði frá gildistöku laganna þar til innheimta gjalda getur hafist þar sem áður þarf að fara fram útboð á þjónustu sem ákvarða mun upphæð gjalda sem ákveðin verða með reglugerð.
    Þar sem óvissuþættir vegna kostnaðar við meðhöndlun og eyðingu spilliefna eru nokkrir þykir rétt að lögin komi til framkvæmda í áföngum. Til að mynda má hugsa sér að einungis 1. tölul., c-liður 2. tölul. og 4. tölul. 6. gr. taki gildi strax. Olíuefni, ósoneyðandi efni, rafhlöður og rafgeymar falla undir framangreinda vöruflokka. Nokkur reynsla er komin á söfnun og móttöku úrgangsolíu og rafgeyma. Ljóst er að til eru aðilar í landinu sem geta með stuttum fyrirvara gert tilboð í meðhöndlun, söfnun, endurvinnslu og eyðingu þessara spilliefna. Þær atvinnugreinar, sem nota ósoneyðandi efni, hafa nú þegar kynnt sér hvernig endurvinnslu þessara efna er háttað annars staðar á Norðurlöndum og hafa hug á að koma á skráningar- og söfnunarkerfi fyrir þessi efni hér á landi.


Fylgiskjal

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sérstakt gjald


á vörur sem geta orðið að spilliefnum.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lagt verði á sérstakt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum og rennur gjaldið í spilliefnasjóð. Fjármunum sjóðsins skal varið til greiðslu kostnaðar vegna móttöku, meðhöndlunar, flutnings spilliefna frá söfnunarstöðvum til eyðingarstöðva og eyðingar. Umhverfisráðherra skipar Spilliefnafnefnd til fjögurra ára og skal nefndin gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, endurnýtingu og eyðingu einstakra spilliefna. Ráðherra er heimilt að ráðstafa allt að 5% af tekjum sjóðsins til greiðslu þóknunar nefndarinnar og umsýslu sjóðsins.
    Ekki er ljóst hverjar verða tekjur Spilliefnasjóðs en það er mat fjármálaráðuneytis að þær geti að hámarki orðið um 410 m.kr. Byggir það mat á (1) ákvæðum 7. gr. um hámarksgjald á innflutt spilliefni, (2) yfirliti yfir tollskrárnúmer tiltekinna vöruflokka sem birt er í greinargerð með frumvarpinu og (3) á gögnum frá Hagstofu Íslands um innflutning á viðkomandi vörum á árinu 1994. Að öðru leyti ákvarðast gjaldtakan af þeim kostnaði sem til fellur hverju sinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þar sem gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum er ætlað að standa undir öllum kostnaði, þar með töldum kostnaði vegna spilliefnanefndar.