Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 147 . mál.


395. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hvað varðar frumvarpið eru sama marki brennd og vinnan að ríkisfjármálum almennt. Málið er seint fram komið og síðan hafa verið að koma til nefndar breytingar á allra síðustu dögum.
    Annar minni hluti leggst gegn fyrirliggjandi frumvarpi náist ekki fram verulegar breytingar á efni þess. Í því er m.a. afnumin viðmiðun skatta, útgjalda og afsláttar- og bótagreiðslna við verðlag eða niðurstöður kjarasamninga. Hér er ráðist með harkalegum hætti á grunnatriði í félagslegu kerfi landsmanna með einhliða skerðingu sem nær til allra þátta samskipta ríkisvaldsins við þegnana. Þetta kemur landsmönnum í opna skjöldu, enda voru engar yfirlýsingar gefnar í þessa átt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar.
    Listinn yfir svikin kosningaloforð sjálfstæðis- og einkum framsóknarflokks fylla orðið margar blaðsíður og árásir á launþega ná hámarki í fyrirhuguðum fjárlögum næsta árs.
    Afnám viðmiðunar við verðlags- og launaþróun er af hálfu ríkisstjórnar ekki hugsað sem uppstokkun í ríkisfjármálum heldur sem aðferð til skattahækkana og skerðingar á réttindum þeirra sem minnst mega sín. Eini skatturinn, sem hefði verið sanngjarn og eðlilegur við núverandi aðstæður, er fjármagnstekjuskattur, en ekki bólar á neinu frumvarpi né tillögugerð af hálfu ríkisstjórnarinnar í því efni. Forgangsröð ríkisstjórnarflokkanna er ljós. Þeim sem betur mega sín er hlíft en gengið nærri þeim sem eru tekjulágir og þurfa á sterku heilbrigðis- og félagslegu kerfi að halda.
    Annar minni hluti styður framlengingu svokallaðs 5% hátekjuskatts en telur að skattleggja ætti raunverulegar hátekjur, þ.e. tekjur yfir til að mynda 800.000 kr. á mánuði, enn frekar. Brýnt er að lækka tekjuskatt á lágar og miðlungstekjur en ekki örlar á neinum kerfisbreytingum í þá átt af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Annar minni hluti styður það að framlag launþega í lífeyrissjóð verði undanþegið tekjuskatti. Hér var um tvísköttun að ræða og eðlilegt að fella hana niður.
    Meginþættir frumvarpsins endurspegla stefnu ríkisstjórnarninnar sem er fjandsamleg launafólki, tryggir ekki atvinnu og leiðir ekki til bættra lífskjara.
    Í tengslum við yfirlýsingu sína samfara framlengingu kjarasamninga leggur meiri hlutinn nú til ýmsar breytingar sem margar eru til bóta frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Annað stendur eftir sem 2. minni hluti getur ekki samþykkt.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins og þeirra breytingartillagna sem meiri hluti leggur fram eru eftirfarandi:

1.    Skattfrelsi lífeyrisiðgjalda.
    Annar minni hluti er hlynntur því að iðgjöld í lífeyrissjóði séu frádráttarbær frá skatti. Það kemur í veg fyrir margumrædda tvísköttun og hvetur til lífeyrissparnaðar. 2. minni hluti styður því þá breytingu og einnig að flýtt verði gildistöku þrepanna sem áformuð höfðu verið.
2.    Barnabótaauki og jaðarskattar.

    Jákvætt er að ríkisstjórnin er nú loksins að sýna lit í að draga úr óhóflegri tekjutengingu bóta í skattkerfinu með því að draga úr skerðingu barnabótaauka og setja þak á skerðinguna. Þetta hefur lengi verið baráttumál ýmissa í minni hlutanum og styðjum við að sjálfsögðu þessa breytingu þótt hún gangi of skammt og betra hefði verið að taka tekjutengingu í skattkerfinu í heild til skoðunar.

3.    Heimila á að taka upp afskriftar- eða fyrningarreglur á bílum og er það fagnaðarefni.

    Þessu máli var hreyft af fulltrúum stjórnarandstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili. Því ber að fagna að réttindamál af þessu tagi nái fram að ganga.

4.    Afnám sjálfvirkni er mikið lausnarorð hjá stjórnarliðum um þessar mundir en þegar betur er að gáð eru þar á ferðinni hrein málamyndarök.

    Þessa kerfisbreytingu átti að nota til að skerða þegar á 1. ári t.d. atvinnuleysisbætur og bætur til elli- og örorkulífeyrisþega. Skattleysismörk áttu nær ekkert að hækka þrátt fyrir tillögu um frádráttarbærni lífeyrisiðgjalda. Lægri persónuafsláttur átti með öðrum orðum að éta upp að mestu leyti ávinning af skattfrelsi lífeyrisiðgjaldagreiðslna.

5.    Afnám skattvísitölu er einn liðurinn enn í krossferð ríkisstjórnarinnar gegn vísitölu og nú á að hætta notkun hennar og ekki einu sinni reikna hana út.

    Á fínu máli kerfisins er talað um að afnema verðtryggingu, sjálfvirkni, tengingu, viðmiðun o.s.frv. Fyrst og fremst virðast þessar breytingar til þess hugsaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar að skerða réttindi launafólks. Ljóst er að þær draga úr því öryggi sem menn hafa búið við. 2. minni hluti er andvígur þessu ákvæði og mun greiða atkvæði gegn þessum breytingum og málinu í heild verði þessar grundvallarbreytingar gerðar sem stórlega skerða öryggi almennings og veikja velferðarkerfið.

6.     Skattaflsláttur ellilífeyrisþega.
    Skattaflsláttur ellilífeyrisþega er afnuminn með öllu í stað þess að til stóð að lækka hann í áföngum í takt við það að áhrif af skattfrelsi lífeyrisiðgjalda fara að koma fram. Frádrátturinn átti að nema 7,5% á næsta ári. Í því felst að sjálfsögðu veruleg skerðing á kjörum aldraðra að fella hann nú niður með öllu og er þar á ferðinni ein af mörgum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem vega að þeim hópi.

    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 15. des. 1995.



Steingrímur J. Sigfússon,

Ágúst Einarsson.


frsm.