Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 134 . mál.


396. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efni frumvarps þessa endurspeglar viðbrögð núverandi ríkisstjórnar við afleiðingum af kjarasamningum sem gerðir voru milli aðila vinnumarkaðarins í febrúarmánuði síðastliðnum. Ríkisstjórnin kom að þeim samningum með því að taka fyrsta skrefið í þá átt að heimila að framlag launþega í lífeyrissjóði verði undanþegið tekjuskatti.
    Þessi aðgerð greiddi mjög fyrir samningum sem síðan festu stöðugleikann og framfarasókn atvinnulífsins í sessi. Samningarnir styrktu íslenskan þjóðarbúskap og beindu hagstjórninni enn frekar inn á svið almennrar stjórnunar frekar en sértækra aðgerða. Þar yrði veigamesta viðfangsefnið að ná niður halla ríkissjóðs. Sá stöðugleiki, sem samningarnir leiddu af sér samfara aukningu hagvaxtar, styrktu tekjuöflun ríkissjóðs eins og komið hefur greinilega fram á þessu ári. Sú mikla tekjuaukning, sem fyrirsjáanleg er á næsta ári, er ekki hvað síst að þakka skynsamlegri hagstjórn á síðasta kjörtímabili. Þar áttu kjarasamningarnir sinn stóra þátt.
    Af því tilefni lýsti þáverandi ríkisstjórn því yfir að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda launþega mætti ekki verða til þess að auka halla ríkissjóðs, hann væri nægur fyrir. Í yfirlýsingu sinni sagði ríkisstjórnin að annaðhvort yrði þessu mætt með lækkun ríkisútgjalda eða með hækkun tekna ríkisins. Alþýðuflokkurinn var því fylgjandi að fyrst yrði látið reyna á sparnaðarleiðir, áður en skattar yrðu hækkaðir. Á það reyndi ekki þá því ný ríkisstjórn var mynduð að kosningum loknum.
    Nú liggur fyrir frumvarp til laga um hækkun tryggingagjalds sem fjármálaráðuneytið segir að muni skila um 900 m.kr. á næsta ári eða alls um einum milljarði króna. Ríkisstjórnin bregst við tekjutapinu með einhliða skattahækkun á atvinnuvegina, þrátt fyrir vaxandi tekjur ríkissjóðs af völdum stöðugleikans, án þess að gera tilraun til niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Þetta telur Alþýðuflokkurinn óaðgengilegt og leggst gegn því.
    Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er með þeim hætti að það byggir á tekjuhækkunum, sem lagður var grunnur að af fyrrverandi ríkisstjórn, og niðurskurði framkvæmda, en þar er jafnan tjaldað til fárra nátta. Engin alvarleg tilraun er gerð til að ná frekari tökum á ríkisútgjöldum.
    Þá telur Alþýðuflokkurinn hækkun tryggingagjaldsins óskynsamlega við þær aðstæður sem nú ríkja. Í fyrsta lagi er þetta í raun skattur á laun. Hann skerðir möguleika fyrirtækjanna til launahækkana sem síst er þörf á nú, jafnvel þótt kjarasamningar verði að mestu óbreyttir út árið. Engum blandast hugur um að næstu samningar verða mjög erfiðir og þar hljóta að koma til verulegar kjarabætur. Það er því í hæsta máta furðulegt að ríkisvaldið taki nú þetta hugsanlega svigrúm til eigin nota án þess að gera minnstu tilraun til að taka til í eigin útgjaldagarði sem er afar fjölskrúðugur.
    Þessi skattlagning dregur einnig úr samkeppnishæfni útflutningsgreina sem eiga í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á útflutningi í iðnaði, margs konar þjónustu og sölu á þekkingu til útlanda í kjölfar EES-samningsins. Með þessari skattlagningu er slegið á vaxtarbrodd þessa útflutnings sem hlýtur þó að vera burðarás hagvaxtar og framfara á komandi árum.
    Annað er það við þessa skattlagningu sem Alþýðuflokkurinn getur engan veginn samþykkt. Það er sú úrelta og skaðlega mismunun sem gerð er á milli einstakra atvinnugreina landsmanna. Það er engu líkara en atvinnuvegunum sé skipt í tvo flokka eingöngu eftir áhrifavaldi sérhagsmunahópa í röðum stjórnarflokkanna. Engin efnahagsleg rök eru hér að baki. Engin viðskiptaleg rök réttlæta þessa mismunun.
    Alþýðuflokkurinn vill taka höndum saman við aðra stjórnmálaflokka og afnema þetta.
Alþýðuflokkurinn er því andvígur frumvarpinu en vísar til breytingartillagna sinna um frumvarp til fjárlaga um aukið jafnvægi í ríkisrekstri.

Alþingi, 15. des. 1995.



Jón Baldvin Hannibalsson.