Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 119 . mál.


423. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sesselju Árnadóttur deildarstjóra frá félagsmálaráðuneyti. Þá komu til fundar við nefndina Eiríkur Bogason, framkvæmdastjóri Samorku, Guðmundur Þóroddsson, vatnsveitustjóri í Reykjavík, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Skriflegar athugasemdir bárust nefndinni frá Egilsstaðabæ, Reykjanesbæ, bæjarstjóranum á Akranesi, Hita- og vatnsveitu Akureyrar, Blönduósbæ, Bæjarveitum Vestmannaeyja, Hita- og vatnsveitu Sauðárkróks, bæjarverkfræðingi Kópavogsbæjar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, borgarlögmanni Reykjavíkurborgar, bæjarstjóranum á Selfossi, Húsavíkurkaupstað og Samorku.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að notað verði orðið sveitarfélag í stað sveitarstjórnar um eignarhald á vatnsveitum þar sem sveitarfélögin sjálf eru eigendur þeirra. Í öðru lagi að orðið dreifiæð komi í stað orðsins götuæð. Víða eru aðstæður þannig að vatnsveitulagnir frá aðalæð liggja ekki endilega um götur heldur baklóðir eða opin svæði. Orðið dreifiæð nær þá yfir götuæð og einnig vatnsæðar sem liggja um önnur svæði, þ.e. þær vatnsæðar sem eru ekki aðalæðar eða heimæðar. Í þriðja lagi er skýrt nánar hver sé eigandi heimæðar og hver beri ábyrgð á viðhaldi hennar. Er þetta breyting frá núverandi fyrirkomulagi þannig að vatnsveita sveitarfélags verður ekki sjálfkrafa eigandi allra heimæða um áramótin 1996/97, heldur verður fasteignareigandi að gera samning við sveitarstjórn um yfirtöku vatnsveitunnar á heimæð sem lögð var fyrir gildistöku laga nr. 81/1991.
    Með breytingum á 2. gr. frumvarpsins er í fyrsta lagi gert ráð fyrir þeim möguleika að heimæð húss tengist hvers konar dreifiæð eða jafnvel aðalæð, allt eftir því hvað vatnsveita sveitarfélagsins telur hentugast. Þá er í öðru lagi fellt niður ákvæði um að heimæðargjald skuli miðað við rúmmál fasteigna. Notkun á köldu vatni er ekki í samræmi við rúmmál fasteignar eins og er með notkun á heitu vatni. Því þykir eðlilegra að hafa til hliðsjónar raunkostnað og miða gjaldið við gerð, stærð og lengd heimæða. Jafnframt er gert ráð fyrir að gjaldið megi nema allt að meðalkostnaði við lagningu heimæða í sveitarfélaginu en með því er að nokkru leyti jafnað út kostnaði á fasteignareigendur. Aðstæður við lagningu heimæða geta verið mjög mismunandi vegna aðstæðna sem eru húseiganda óviðkomandi. Sem dæmi má nefna að sumar heimæðar þurfa að fara um klöpp en aðrar ekki. Í þriðja lagi er sveitarstjórnum veitt heimild til að gera kröfur um gerð, staðsetningu og frágang inntaksrýmis. Slík heimild er eðlileg í ljósi þess að vatnsveita sveitarfélags mun verða eigandi heimæðar og bera ábyrgð á henni.
    Breyting sú, sem lögð er til á 3. gr. frumvarpsins, felur í sér nýmæli. Með henni er sveitarstjórn heimilað að miða vatnsgjald við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Samkvæmt núgildandi lögum er eingöngu heimilt að miða vatnsgjald við endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra. Með því að binda gjaldtöku eingöngu við þessar viðmiðanir er hætta á að fasteignareigendum verði mismunað og gjaldtakan henti ekki rekstri vatnsveitunnar. Fasteignareigendur greiða meira fyrir vatn ef þeir eru í nýju húsi en gömlu á meðan kostnaður vatnsveitu af viðhaldi heimæða og annarra lagna eykst með aldri einstakra hverfa. Eðlilegt er því að heimila sveitarstjórnum að velja hvaða viðmiðun þær nota. Hins vegar er rétt að sama hámark gildi um álagningu vatnsgjalds, þ.e. að fjárhæð vatnsgjalds sé aldrei hærri en kveðið er á um í 1. málsl. 4. mgr. greinarinnar.
    Með hliðsjón af framangreinum breytingum er lagt til að 2. mgr. 14. gr. laganna verði felld brott þar sem hún er nú óþörf.
    Nefndin ræddi sérstaklega þá breytingu að miða skuli við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum, en ekki einungis vatnsgjald eins og kveðið er á um í núgildandi lögum, standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Nefndin telur að í þessu felist ekki efnisbreyting.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 19. des. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.

Siv Friðleifsdóttir.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Magnús Stefánsson.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Kristján Pálsson.

Bryndís Hlöðversdóttir.