Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 215 . mál.


439. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994 og nr. 58/1995.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Inga Val Jóhannesson deildarstjóra frá félagsmálaráðuneytinu. Þá komu til fundar við nefndina Grétar J. Guðmundsson verkfræðingur, Sigurður Geirsson og Þórhallur Jósefsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Bjarni Ármannsson frá Kaupþingi, Davíð Björnsson frá Landsbréfum, Guðmundur Gylfi Guðmundsson hagfræðingur og Grétar Þorsteinsson frá ASÍ og Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur frá BSRB.
    Skriflegar umsagnir bárust nefndinni frá Húsnæðisstofnun, Neytendasamtökunum og ASÍ.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 1. gr. frumvarpsins að hámarkslánstími á fasteignaveðbréfum sem húsbréfadeildin kaupir skuli vera 40 ár. Ekki þykir rétt að að festa í lög að lánstíminn skuli vera 15, 25 eða 40 ár. Nefndin telur réttara að svigrúm sé til staðar svo að unnt sé að meta hvað geti átt best við hverju sinni.
    Einnig er lögð til sú grundvallarbreyting á 2. gr. frumvarpsins að hætt verði við að flytja skuldbreytingarlán í húsbréfakerfið. Húsnæðismálastjórn verður nú með lögum heimilað að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til lánþega fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar og Byggingarsjóðs ríkisins til allt að 15 ára vegna tímabundinna erfiðleika. Hingað til hefur slík heimild verið til staðar í reglugerð nr. 414/1993, um skuldbreytingar á lánum á vegum Byggingarsjóðs ríkisins, sem breytt var með reglugerð nr. 168/1995. Fyrrnefnda reglugerðin var sett með stoð í 11. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, og var þar kveðið á um það fjármagn sem verja skyldi til skuldbreytingarlána. Með breytingum á þeirri reglugerð var sú fjárhæð síðan hækkuð og er nú 300 millj. kr. Í öðru lagi er lagt til að fest verði varanlega í lög VI. bráðabirgðarákvæði laga nr. 97/1993, en samkvæmt því er Húsnæðisstofnun ríkisins heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar ef viðkomandi hefur orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis, minnkandi atvinnu, veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna. Bráðabirgðaákvæðið fellur úr gildi 1. janúar 1996. Til samræmis er því lagt til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt og að gildistaka þess miðist við 1. janúar 1996. Þá er lagt til að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessara mála að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar.
    Þá er lögð til orðalagsbreyting á 3. gr. frumvarpsins þar sem talið er að það felist í eftirliti með útgáfu húsbréfa að fjárhagur húsbréfadeildarinnar verði kannaður.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 19. des. 1995.


Kristín Ástgeirsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Einar K. Guðfinnsson.

form., frsm.


Kristján Pálsson.

Magnús Stefánsson.

Arnbjörg Sveinsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.

Pétur H. Blöndal.

Bryndís Hlöðversdóttir.