Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 261 . mál.


454. Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á lagaákvæðum um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Össur Skarphéðinsson,

Jón Kristjánsson, Kristín Ástgeirsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að endurskoða gildandi lög um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Við þá endurskoðun verði 53. gr. laga nr. 19/1991 skoðuð sérstaklega og lagt mat á það hvort þörf sé á frekari löggjöf sem miðar að því að tryggja aðstöðu blaðamanna og annars fjölmiðlafólks við starfa sinn, svo sem vernd þeirra gagna sem fjölmiðlamenn komast yfir, vernd starfsstöðvar þeirra o.fl. gegn rannsóknaraðgerð yfirvalda. Nefndin ljúki störfum fyrir 1. mars 1996.

Greinargerð.

    Í áttunda kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er fjallað um „Vitni, mat og skoðun“. Þar er kveðið á um að öllum sé skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli og bera þar vitni. Frá þessari meginreglu eru undantekningar. Í 50.–55. gr. er fjallað um þá sem skorast geta undan vitnaskyldu eða er óheimilt að bera vitni fyrir dómi um ýmis atriði vegna tengsla við sakborning eða trúnaðar sem fylgir starfsskyldum þeirra. Í 53. gr. er fjallað um vitnaskyldu fjölmiðlamanna. Ákvæðið var lögfest árið 1991 og er það fyrsta sinnar tegundar í lögum um meðferð opinberra mála og var afgreitt af löggjafanum án teljandi umræðu eða athugasemda. Athyglisvert er að ekki var leitað álits Blaðamannafélags Íslands eða annarra slíkra samtaka. Greinin á sér fyrirmynd í dönsku réttarfarslögunum.
    Í 53. gr. eru viðurkenndar starfsskyldur fjölmiðlamanna um trúnað við heimildarmenn sína. Þetta ákvæði á sér hliðstæðu í siðareglum Blaðamannafélags Íslands þar sem segir í 2. gr.: „Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.“ Þessi siðaregla er alþjóðleg í fjölmiðlun og eru um það ótal dæmi að fjölmiðlamenn hafa heldur sætt varðhaldi og öðrum refsingum en að brjóta þessa reglu. Í reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins segir í 4. gr.: „Virða ber trúnað við heimildarmenn, bæði að því er varðar nafnleynd þeirra og trúnaðarupplýsingar.“
    Í framangreindri lagagrein eru ákvæði um undantekningar frá hinni almennu reglu um trúnað fjölmiðlamanna við heimildarmenn sína fyrir dómi. Annars vegar er kveðið á um að vitnisburðar sé krafist vegna afbrots sem ætla megi að varði þyngri refsingu en fésektum eða varðhaldi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi. Ekki er óeðlilegt að löggjafinn kveði með einhverjum slíkum hætti á um vitnaskyldu þessara starfsstétta.
    Hins vegar er kveðið á um að fjölmiðlamanni sé skylt að bera vitni vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmundir í húfi. Þrátt fyrir mikilvægi þeirrar þagnarskyldu verður að teljast óeðlilegt að binda fjölmiðlamenn sérstakri vitnaskyldu í slíkum dómsmálum. Það er eðli fjölmiðlastarfa að afla upplýsinga sem víðast að, afhjúpa spillingu og veita ríkisvaldinu aðhald. Skerðing á rétti fjölmiðlamanna til upplýsingaöflunar gerir þeim ókleift að gegna hlutverki sínu. Fjölmiðlamenn bera ábyrgð á birtingu efnisins samkvæmt m.a. meiðyrðakafla hegningarlaga, prentlögum og siðareglum, en það er mikilvægt fyrir fjölmiðla í lýðræðissamfélagi að sem minnst höft séu lögð á sjálfa upplýsingaöflun þeirra. Mikilvægi frelsis við upplýsingaöflun sést best á því að líklegt er að almenningur í Bandaríkjunum hefði aldrei komist á snoðir um Watergate-málið ef blaðamenn Washington Post, Robert Woodward og Carl Bernstein, hefðu ekki getað tryggt heimildarmanni sínum fyllstu leynd. Minna má á að hérlendis hafa fjölmiðlamenn oft bent á mikilvægi þessa og á að enn eru engin lög til um upplýsingaskyldu hins opinbera og reglur og venjur um upplýsingar úr stjórnkerfinu eru óljósar og ósamstæðar, jafnvel svo að enn eru ekki tiltæk íslensk gögn um sögulega viðburði. Oftar en ekki verða gögn úr skjalasöfnum annarra ríkja því einu heimildir fjölmiðlamanna og sagnfræðinga um gang mála á Íslandi.
    Í grannlöndunum hafa mál af þessum toga vakið mikla umræðu á síðustu árum, en samkvæmt upplýsingum Lúðvíks Geirssonar, formanns Blaðamannafélags Íslands, njóta fjölmiðlamenn í grannlöndunum meiri verndar en hér, ef til vill að Stóra-Bretlandi undanteknu.
    Ekki verður séð að mál vegna brota á þagnarskyldu í opinberu starfi hafi þá sérstöðu umfram önnur dómsmál að þau verði ekki felld inn í þann almenna ramma sem tiltekinn er í 1. mgr. 53. gr. um alvarleg brot. Enga ámóta hugsun er að finna í 55. gr. um vitnaskyldu presta, lækna, lyfsala, sálfræðinga, félagsráðgjafa, lögfræðinga og endurskoðenda. Varpa má fram þeirri spurningu hvort andi lagaákvæðisins brjóti ekki í bága við þróun í nútímaréttarríkjum sem miðar að opnari stjórnsýslu og virkara aðhaldi fjölmiðla gagnvart stjórnvöldum, sbr. dómaframkvæmd hjá mannréttindadómstól Evrópu varðandi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um rétt til að taka við og miðla áfram upplýsingum, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Hugmyndin um að nauðsyn sé á því að þögn og leynd hvíli yfir embættisfærslum stjórnvalda byggist á úreltum sjónarmiðum.
    Hérlendis hefur ekki reynt á umrætt ákvæði 53. gr. fyrr en héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði 15. desember sl. að Agnesi Bragadóttur blaðamanni Morgunblaðsins væri skylt að bera vitni í tilteknu máli sem varðar meint brot á þagnarskyldu. Því máli hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Athyglisvert er að hefði Agnes sætt sig við úrskurð héraðsdóms og borið vitni um heimildarmann fyrir dóminum má telja líklegt að hún teldist hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Með því að hlíta úrskurði dómsins, sem felldur er á grunni umræddra ákvæða 53. gr., hefði blaðamaðurinn því orðið fyrir álitshnekki innan starfsstéttar sinnar og þrengt verulega starfsmöguleika sína við fjölmiðlun. Þá miða þvingunaraðgerðir gegn blaðamanninum að því að halda uppi trúnaðartrausti almennings á forustumönnum Landsbanka Íslands og því að bankaeftirlitið njóti trausts. Einnig er athyglisvert við dóminn að viðkomandi rannsókn beindist að banka í eigu ríkisins og með niðurstöðunni er sýnt að hagsmunir ríkisbankans eru mun betur tryggðir en hagsmunir einkabanka.
    Mikilvægt er fyrir lýðræðið og frjálsa fjölmiðlun að fjölmiðlamenn njóti sömu eða sambærilegrar verndar samkvæmt lögum hér á landi og blaðamenn njóta í nágrannalöndum sem við berum okkur helst saman við. Það er grundvallarréttur fjölmiðlamanns að vernda heimildir sínar, réttur sem er virtur í öllum lýðræðisríkjum.
    Eðlilegt er að nefndin sem hér er lagt til að sett verði á laggirnar verði skipuð bæði lögfróðum mönnum og blaðamönnum. Henni er ætlað það verkefni að endurskoða sérstaklega 53. gr. laga nr. 19/1991, skoða önnur lagaákvæði sem fjalla um trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra, með tilliti til þess að styrkja starfsskilyrði þeirra, og skoða reglur um húsleit, símahleranir o.fl. í því sambandi. Æskilegt er að nefndin geri úttekt á réttarástandi hjá öðrum þjóðum.


Fylgiskjal I.


Siðareglur blaðamanna.

(Samþykkt á aðalfundi 1991.)


    Í starfi sínu hafa blaðamenn allra fjölmiðla jafnan í huga grundvallarreglur mannlegra samskipta og rétt almennings til upplýsinga, tjáningarfrelsis og gagnrýni.

1. gr.

    Blaðamaður leitast við að gera ekkert það sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.

2. gr.

    Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu. Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.

3. gr.

    Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki eða fólki sem á um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu.

4. gr.

    Það telst mjög alvarlegt brot þiggi blaðamaður mútur eða hafi í hótunum vegna birtingar efnis. Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar.
    Í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

5. gr.

    Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns.
    Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli.
    Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.

6. gr.

    Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til siðanefndar BÍ innan 2ja mánaða frá birtingu enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma.
    Áður skal hann þó leita leiðréttingar mála sinna hjá viðkomandi fjölmiðli. Þó getur siðanefnd úrskurðað um undanþágur frá leiðréttingarkröfum vegna annarra aðstæðna. Siðanefndin tekur kæruna fyrir á fundi innan viku og kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er. Taki siðanefnd kærumál til efnislegrar athugunar skal hún kanna heildarumfjöllun um málið í hinum kærða fjölmiðli. Kærða skal gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiði sínu.
    Siðanefnd greinir brot í flokka eftir eðli þeirra:
    ámælisvert,
    alvarlegt,
    mjög alvarlegt.
    Úrskurði siðanefndar verður ekki áfrýjað. Úrskurð siðanefndar ásamt rökstuðningi skal birta í heild í Félagstíðindum BÍ svo fljótt sem verða má. Úrskurð siðanefndar skal senda viðkomandi fjölmiðli við fyrstu hentugleika og með ósk um birtingu ef um brot samkvæmt skilgreiningu b og c er að ræða. Þremur dögum seinna skal senda úrskurðinn öðrum fjölmiðlum.
    Meginniðurstaða nefndarinnar skal birt orðrétt. Við framsetningu frétta af úrskurðum siðanefndar sýna blaðamenn alla þá aðgát sem reglur þessar ætlast til, sbr. 1. og 2. gr. að framan.
    Nú telur stjórn BÍ að gengnum úrskurði siðanefndar að brot sé svo alvarlegt að frekari ráðstafana sé þörf og getur hún þá borið undir félagsfund tillögu um vítur á viðkomandi blaðamann enda sé þeirra ætlunar getið í fundarboði.
    Nú bera ummæli ekki með sér hver sé höfundur þeirra eða viðkomandi blaðamaður er utan BÍ og gengur þá úrskurður svo sem ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður eigi beina aðild að. Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt álit um kæruefni.
Fylgiskjal II.


Reglur um fréttaflutning Ríkisútvarpsins



(4 síður myndaðar.)


Fylgiskjal III.


Siðareglur fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.


(Samþykkt í maí 1995.)



—    Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar er óháður fjölmiðill sem greinir satt og rétt frá og af hlutlægni.
—    Varast skal gífuryrði og hástemmdar lýsingar.
—    Skylt er að nota nauðsynlega fyrirvara, svo sem meintur, virðist, talinn, grunaður, sakaður, kærður, ákærður, dæmdur, óstaðfestar fregnir herma, yfirvöld segja o.s.frv. Túlkun eða afstaða með eða á móti einhverjum má ekki koma fram í fréttaflutningi, t.d. með orðalagi eins og „lögregla neyddist til að beita táragasi“ og „óttast er að öfgamenn sigri í kosningunum“.
—    Fréttastofan fjallar óhikað um nýjungar, vörur, tilboð, þjónustu og annað sem óumdeilanlega varðar þorra almennings en hafnar hvers konar auglýsingamennsku eða kynningarstarfsemi sem ekki þjónar ofangreindum tilgangi.
—    Fréttamaður skal ekki nota fornafn í 1. persónu þegar hann segir frá. Dæmi: Í stað „eftir því sem ég kemst næst“ skal nota „eftir því sem fréttastofan kemst næst“ eða eitthvað í þeim dúr. Þá skal fréttastofan ekki gangast í ábyrgð fyrir alla íslensku þjóðina með orðalagi eins og „við Íslendingar“.
—    Leita skal staðfestingar úr fleiri en einni átt ef minnsti vafi leikur á sannleiksgildi upplýsinga eða nákvæmni.
—    Mjög ríkar ástæður þurfa að vera fyrir því að fréttastofan heimili nafnleynd í fréttum sínum. Fréttastofan ber sjálf ábyrgð á upplýsingum sem ákveðið er að birta frá ónafngreindum aðila. Hafi nafnleynd verið lofað skal hún virt undir öllum kringumstæðum.
—    Fréttabann (embargo) er virt af fréttastofunni, jafnt í innlendum sem erlendum fréttum. Fréttastofan áskilur sér hins vegar fullan rétt til þess að sniðganga fréttabann sem hindrar eðlilegt upplýsingaflæði til almennings. Brjóti aðrir fjölmiðlar fréttabann mun fréttastofan meta réttmæti þess að nýju.
Fylgiskjal IV.


Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur


um vitnaskyldu blaðamanns Morgunblaðsins.



    Ár 1995, föstudaginn 15. desember, er dómþing héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni, dómarafulltrúa.

Fyrir er tekið:
Mál nr. R-190/1995:
Rannsóknarlögregla ríkisins
gegn
Agnesi Bragadóttur
og kveðinn upp svohljóðandi.

Úrskurður:


    Ár 1995, föstudaginn 15. desember, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem
háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni, dómarafulltrúa, kveðinn upp úrskurður þessi:

I.


    Rannsóknarlögregla ríkisins hefur krafist þess að Agnesi Bragadóttur, kt. 190952-3989, blaðamanni á Morgunblaðinu, verði með úrskurði gert að svara spurningum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur um hvaða skrifleg gögn hún hafi haft undir höndum og frá hvaða mönnum hún hafi fengið gögn og upplýsingar, er hún ritaði greinar sínar í Morgunblaðið 25., 26., 28. og 29. mars 1995 — þ.e. vitninu verði gert skylt að svara spurningum um á hvaða heimildum hún hafi byggt greinaskrifin.
    Af hálfu varnaraðila er þess krafist að framangreindri kröfu sóknaraðila verði synjað.

II.


    Með bréfi dagsettu 7. nóvember sl. fór sóknaraðili þess á leit við dóminn, með vísan til 74. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að varnaraðili yrði kvödd fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu varðandi ætlað brot á þagnarskyldu skv. 43. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, í RLR máli nr. 3455/95. Beiðnin er sett fram vegna opinberrar rannsóknar er beinist að því að upplýsa hvort varnaraðili hafi við ritun greinaflokks sem birtist í Morgunblaðinu dagana 25., 26., 28. og 29. mars sl. um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga, byggt skrif sín á trúnaðarupplýsingum sem ætla megi að maður sem bundinn er þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 43/1993, hafi látið varnaraðila í té. Í greinaflokki þessum var meginumfjöllunarefnið hvernig Landsbanka Íslands tókst að leysa upp viðskiptaveldi Sambandsins, án þess að bankinn yrði fyrir milljarða tapi.
    Ríkissaksóknari mælti fyrir um rannsókn þessa af hálfu Rannsóknarlögreglu ríkisins með bréfi dagsettu 1. ágúst sl., eftir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafði með bréfi dagsettu 26. júlí sl. lagt málið fyrir ríkissaksóknara. Í samantekt bankaeftirlitsins sem fylgdi bréfi þess til ríkissaksóknara eru tilfærð dæmi um ummæli í blaðagreinunum um endalok Sambandsins, sem talin eru vera tekin upp úr eða styðjast við gögn Landsbankans um uppgjör Sambandsins. Í samantektinni eru einnig listuð upp gögn, allt trúnaðargögn eða trúnaðarupplýsingar, sem bankaeftirlitið telur að varnaraðili hafi haft undir höndum eða haft upplýsingar um við ritun blaðagreinanna.
    Við lögregluyfirheyrslu þann 6. nóvember sl. neitaði varnaraðili að svara spurningum um á hvaða heimildum hún hafi byggt greinaskrifin sem og öðrum spurningum er lutu að heimildum hennar og heimildarmanni eða -mönnum. Lýsti hún því yfir að hún teldi synjun sína um heimildir og heimildarmenn eiga stoð í 8. kafla laga nr. 19/1991. Í framhaldi af því sendi sóknaraðili málið til dómsins. Við skýrslutöku hér fyrir dómi þann 17. nóvember sl. neitaði varnaraðili að svara framangreindum spurningum og krafðist sóknaraðili þess þá að varnaraðila yrði með úrskurði lýst rétt og skylt að svara
spurningunum.
    Af hálfu sóknaraðila og varnaraðila hafa verið lagðar fram greinargerðir. Í framhaldi af framlagningu þeirra fór fram munnlegur málflutningur þann 6. þ.m., en að svo búnu var málið tekið til úrskurðar.

III.


    Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að starfsmenn ríkisbankans Landsbanka Íslands, svo sem bankastjórar og bankaráðsmenn, gegni opinberu starfi í skilningi XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þagnarskyldubrot starfsmanns ríkisbanka sýnist beinlínis varða við 136. gr. laga nr. 19/1940, enda sé þar fjallað um brot í opinberu starfi. Væri þetta ákvæði ekki í XIV. kafla laganna myndu þagnarskyldubrot starfsmanns ríkisbanka væntanlega varða við 43. gr. laga nr. 43/1993, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.
    Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 sé öllum skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli á varnarþingi sínu og bera þar vitni. Frá þessari meginreglu séu mikilvægar undantekningar sem komi fram í 50.–55. gr. laganna. Það ákvæði sem hér skipti máli sé í 1. mgr. 53. gr. laganna, en það sé sniðið eftir 172. gr. dönsku réttarfarslaganna. Túlka verði ákvæðið þannig að þeim sem ábyrgð ber að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birt er opinberlega sé óskylt að skýra frá því fyrir dómi hver sé höfundur eða heimildarmaður að grein eða frásögn sem birst hefur, nema vitnisburðar sé krafist vegna afbrots sem ætla megi að varða muni þyngri refsingu en sektum eða varðhaldi eða vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi. Gögn málsins beri með sér að vitnisburðurinn sé nauðsynlegur fyrir rannsóknina. Mikilvæg ástæða bankaleyndar sé hagsmunir einstakra viðskiptamanna bankans af því að málefni sem varða fjárhag þeirra og bankinn fær vitneskju um verði ekki opinberaður óviðkomandi aðilum. Þessir hagsmunir geti verið afar mikilvægir, t.d. þegar samband viðskiptavinarins við bankann varðar þýðingarmikil viðskiptaleyndarmál, en þetta geti einnig varðað persónulega hagsmuni.
    Bankaleyndin myndi ekki hafa verið eins lífseig og raun ber vitni ef einungis væri um að ræða tillitið til einkahagsmuna viðskiptavina bankans. Skýringin á því hve lífseig bankaleyndin er hljóti að liggja í þýðingu og mikilvægi leyndarinnar fyrir markmið bankakerfisins. Óundanþæg forsenda þess að bankarnir eigi að geta fullnægt hlutverki sínu í atvinnulífinu og samfélaginu yfirleitt sé að þeir auðsýni viðskiptavinum sínum trúnað og láti viðskiptavini sína njóta trúnaðar. Grundvallarskilyrði þess að aðili fái yfir höfuð tækifæri til að geyma trúnaðarmál annars sé að hann varðveiti þau leyndarmál sem honum sé trúað fyrir. Viðskiptavinir sem tapi trausti sínu á banka sem bregst trúnaði þeirra snúi sér til annarra banka.
    Ætla megi að í því tilviki sem hér um ræðir hafi forsvarsmaður ríkisbanka, bankastjóri eða bankaráðsmaður, brugðist trúnaði viðskiptamanns bankans og um leið bankanum sem hann starfar við. Miklu skipti að trúnaðarbresturinn verði upplýstur, enda mikið í húfi.
    Af hálfu varnaraðila er á það bent að verið sé að rannsaka hvort bankastarfsmenn hafi gerst sekir um refsiverð brot gegn 43. gr. laga nr. 43/1993 þar sem kveðið sé á um þagnarskyldu starfsmanna viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. 100. gr. sömu laga. Sóknaraðili vísi einnig til þess að brotið hafi verið gegn 136. gr. almennra hegningarlaga. Því sé mótmælt að sú lagatilvísun geti átt við, sé það talið skipta máli, þar sem þagnarskylda bankastarfsmanna sé að öllu leyti hin sama skv. lögum nr. 43/1993 hvort heldur banki sé í eigu ríkisins eða einkaaðila.
    Krafa varnaraðila um að vera undanþegin vitnaskyldu sé í fyrsta lagi byggð á 51. gr. laga nr. 19/1991. Þar sé kveðið svo á að manni sé ekki skylt að svara spurningu að viðlagðri vitnaábyrgð ef ætla megi að svar við henni feli í sér játningu eða bendingu um að hann hafi framið refsiverðan verknað. Hér standi svo á að verið sé að rannsaka hvort starfsmenn banka hafi brotið lagareglur um þagnarskyldu. Ef þær sakargiftir væru réttar sé væntanlega um að ræða trúnaðarmál sem varnaraðili eigi að hafa birt í Morgunblaðinu með greinum sínum. Sé einhver fótur fyrir þessum rannsóknartilefnum sé væntanlega ljóst að varnaraðili kynni með vísan til 22. gr. laga nr. 19/1940, hvort sem er beint vegna 136. gr. sömu laga eða með lögjöfnun vegna laga nr. 43/1993, að verða talinn hlutdeildarmaður í meintum brotum, annaðhvort eða bæði fyrir að hafa aflað meintra trúnaðarupplýsinga eða fyrir að hafa birt þær almenningi í blaðinu. Þessi aðstaða leiði til þess að 51. gr. laga nr. 19/1991 hljóti að undanþiggja varnaraðila skyldunni til að svara.
    Í annan stað bendir varnaraðili á að réttur hennar til að synja svörum sé byggður á því að henni sé stöðu sinnar vegna óskylt að gefa upp heimildir sínar að greinunum í blaðinu. Sé þá átt við að hagsmunir almennings af frelsi fjölmiðla til efnisöflunar og tjáningar yrðu skertir ef réttarframkvæmd tryggi blaðamönnum ekki réttinn til að virða trúnað við heimildarmenn sína. Vísað sé til 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995, sbr. áður 72. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem veitt hafi verið lagagildi með lögum nr. 62/1994 og 53. gr. laga nr. 19/1991.
    Á því leiki vart vafi að a.m.k. eftir gildistöku laga nr. 62/1994 og enn frekar eftir breytingu stjórnarskrárinnar með lögum nr. 97/1995 njóti réttur manna til að taka við upplýsingum og miðla þeim áfram sérstakrar verndar. Þessi vernd fái sérstaka þýðingu þegar í hlut eigi blöð og blaðamenn í lýðræðisríkjum sem gegni veigamiklu hlutverki í þágu hins lýðræðislega þjóðskipulags. Verði að ætla þeim víðtækt frelsi til að afla sér upplýsinga, án þess að þeir sem upplýsingar vilja veita án þess að gefa upp nafn sitt þurfi að óttast að trúnaður við þá verði rofinn. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að meginefni greina varnaraðila í Morgunblaðinu hafi varðað samskipti félags með víðtækri þátttöku almennings við ríkisbanka. Ljóst sé því að efnið sem um var fjallað varðaði almannahagsmuni og hafi átt fullt erindi til almennings. Við birtingu upplýsinga um slík efni séu fjölmiðlar aðeins að gegna lýðræðislegri skyldu sinni.
    Að því er varðar skýringu á 53. gr. laga nr. 19/1991 sé í fyrsta lagi á því byggt að 1. mgr. undanþiggi varnaraðila skyldu til vitnisburðar. Árétta beri að það geti ekki átt við hér að verið sé að rannsaka brot gegn þagnarskyldu í opinberu starfi. Brot gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 43/1993 varði aðeins sektum eða varðhaldi, þannig að undanþága greinarinnar eigi beint við, enda hljóti varnaraðili í þessu tilliti að verða lögð að jöfnu við þann sem „ber ábyrgð á efni prentaðs rits“. Jafnvel þótt fótur þætti vera fyrir þeirri ætlan sóknaraðila að verið sé að rannsaka brot í opinberu starfi þá verði aldrei talið að skilyrðum greinarinnar um nauðsyn vitnisburðar og ríka hagsmuni sé fullnægt. Við mat á hagsmunum verði m.a. að hafa í huga hina enn ríkari hagsmuni sem varnaraðili vilji vernda.
    Verði talið að framangreindar ástæður dugi ekki til þess að taka kröfur varnaraðila til greina, sé að lokum bent á heimildarákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 19/1991. Í því efni sé vísað til þess sem fyrr sagði um mat á þeim hagsmunum sem um er fjallað í málinu. Að auki beri að nefna að það tilheyri starfsskyldum varnaraðila að virða siðareglur blaðamanna, m.a. um trúnað við heimildarmenn. Með því að úrskurða varnaraðila skylt að svara væri verið að knýja varnaraðila til að brjóta gegn þessum starfsskyldum.

IV.


    Heimild sóknaraðila til að leggja mál þetta fyrir dómara er í 74. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Fjallar VIII. kafli laganna um vitni o.fl. 1. mgr. 49. gr. laganna hefur að geyma meginregluna um að öllum sé skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli á varnarþingi sínu og bera þar vitni. Undantekningar frá þessari meginreglu er að finna í 50.–55. gr. laganna. Að því er varðar þá sem að lögum bera ábyrgð á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birt er opinberlega er slíkt undanþáguákvæði að finna í 1. mgr. 53. gr. laganna. Fram kemur í greinargerð með lögunum að ákvæðið sé sniðið eftir 172. gr. dönsku réttarfarslaganna. Lýtur ákvæðið að því að framangreindum aðilum sé óskylt að skýra frá því fyrir dómi hver sé höfundur að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem birst hefur án þess að höfundur væri nafngreindur. Skýra verður ákvæðið þannig að það taki einnig til þess tilviks sem hér er til úrlausnar, þ.e. að sá sem er heimildarmaður falli einnig undir það. Frá ákvæðinu er hins vegar sú undantekning að þetta eigi ekki við ef krafist er vitnisburðar vegna afbrots sem ætla má að varða muni þyngri refsingu en fésektum eða varðhaldi, eða vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi, en það skilyrði er sett að vitnisburðurinn sé nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi.
    Eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að greinarskrifin séu varnaraðila saknæm þannig að 51. gr. laga nr. 19/1991 eigi við. Verður niðurstaða málsins einungis byggð á því hvernig beita skuli 1. mgr. 53. gr. laganna. Í því sambandi verður fyrst að líta til þess að sá banki sem grunur leikur á að trúnaðargögn og trúnaðarupplýsingar séu komin úr er í eigu íslenska ríkisins.
    Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að ákvæði almennra hegningarlaga um þagnarskyldu eigi við um bankastarfsmenn. Gildi þar einu hvort þeir séu starfsmenn einkabanka eða ríkisbanka. Um þá gildi einungis ákvæði laga nr. 43/1993 og því eigi skírskotun til 136. gr. laga nr. 19/1940 ekki við. Fram kemur í gögnum málsins að grunur sóknaraðila beinist einkum að því að fyrirsvarsmaður Landsbankans, bankastjóri eða bankaráðsmaður, sé heimildarmaður og sá sem afhent hafi trúnaðargögnin. Á því leikur ekki vafi að þeir sem að framan eru nefndir eru opinberir starfsmenn í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. hrd. í málinu nr. 146/1995, og falla því hvað refsiábyrgð varðar undir ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Samanburður á þeim hluta rannsóknargagna málsins sem flokkast sem trúnaðargögn við orðalag í blaðagreinum varnaraðila bendir eindregið til að varnaraðili hafi haft þessi gögn við að styðjast. Er því uppi rökstuddur grunur um að miðlun upplýsinganna til varnaraðila stafi frá einhverjum þeirra sem fyrr eru nefndir, og að með því kunni ekki einungis að hafa verið brotið gegn 43. gr. laga nr. 43/1993 heldur einnig 136. gr. laga nr. 19/1940. Við skoðun rannsóknargagna málsins er einnig ljóst að framhald rannsóknarinnar veltur að verulegu leyti á því hvort varnaraðili beri vitni um þau atriði sem krafa sóknaraðila lýtur að. Það skilyrði 1. mgr. 53. gr. laga nr. 19/1991 að vitnisburður sé nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins er því uppfyllt. Eftir stendur þá að meta hve ríkir hagsmunir séu í húfi að réttlætt geti framgang kröfu sóknaraðila. Þess er þá fyrst að geta að þess sér hvergi stað í gögnum málsins að sá aðili sem trúnaður virðist hafa verið brotinn gagnvart hafi látið uppi álit um að hann hafi skaðast vegna greinaskrifanna eða að athugasemdir hafi verið gerðar við þau af hans hálfu. Nærlægast væri því að láta við svo búið sitja. Allt að einu verður hér að líta til fleiri þátta. Eins og áður er að vikið beinist grunur rannsóknara að tiltölulega fámennum hópi manna sem liggi þá allir, sekir jafnt sem saklausir, undir grun um ætlað þagnarskyldubrot er varðað gæti refsingu samkvæmt 43. gr. laga nr. 43/1993 og 136. gr. almennra hegningarlaga. Einnig verður í þessu samhengi að líta til hlutverks þess aðila sem hratt rannsókninni af stað, þ.e. bankaeftirlits Seðlabankans. Eins og nafn þeirrar stofnunar gefur til kynna er hún eftirlitsstofnun með bönkum og sparisjóðum. Myndi það rýra mjög skilvirkni eftirlitsins ef þeir sem eftirlitinu sæta gætu með því sem sýnist vera yfirborðslegar skýringar og svör komið sér undan rannsókn.
    Að öllu þessu athuguðu og virtu verður niðurstaða dómsins sú að nægjanlega ríkir hagsmunir séu í húfi í skilningi 1. mgr. 53. gr. laga nr. 19/1991 til þess að unnt sé að taka kröfu sóknaraðila til greina. Er varnaraðila samkvæmt framansögðu skylt að bera vitni í máli þessu.

Úrskurðarorð:


    Varnaraðila, Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, er skylt að koma fyrir dóm sem vitni til skýrslugjafar í RLR máli nr. 3455/95.
Fylgiskjal V.


Leiðari Morgunblaðsins.


(16. desember 1995.)



Réttur blaðamanna — réttur fólksins.


    Síðastliðinn vetur birtist hér í Morgunblaðinu greinaflokkur eftir einn af blaðamönnum blaðsins þar sem fjallað var um endalok Sambands ísl. samvinnufélaga og uppgjör á skuldbindingum þess við Landsbanka Íslands, sem var aðalviðskiptabanki Sambandsins, meðan það var umsvifamesta viðskiptasamsteypa, sem rekin hefur verið á Íslandi. Greinaflokkur þessi átti sér langan aðdraganda. Fyrir um það bil tveimur og hálfu ári hófust umræður á ritstjórn Morgunblaðsins um nauðsyn þess að gera endalokum þessa mikla viðskiptaveldis einhver skil. Niðurstaða þeirra umræðna og þeirrar vinnu, sem fór fram nokkru síðar, birtist í fyrrnefndum greinaflokki. Greinar þessar voru að sjálfsögðu skrifaðar að frumkvæði ritstjóra Morgunblaðsins og á þeirra ábyrgð, þótt einn af blaðamönnum blaðsins, Agnes Bragadóttir, skrifaði þær undir nafni. Fullt og náið samráð var á milli blaðamanns og ritstjóra Morgunblaðsins um skrif greinanna og endanlegan frágang þeirra til birtingar.
    Markmiðið með greinum þessum var tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera einhverja grein fyrir því hvernig mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar gat hrunið með þeim hætti sem Sambandið gerði og hins vegar á hvern veg þjóðbankanum, Landsbanka Íslands, tókst að lágmarka tap sitt og þar með viðskiptamanna bankans vegna þessa hruns. Hér voru miklir almannahagsmunir í húfi og eðlileg krafa að almenningur hefði aðgang að einhverjum upplýsingum um þetta mál. Þegar greinarnar birtust var viðskiptum Sambandsins að langmestu leyti lokið. Hér var því um að ræða að safna saman upplýsingum um sögulegar staðreyndir, sem engan gátu skaðað, en ekki upplýsingum um viðskipti fyrirtækis í fullum rekstri við viðskiptabanka sinn. Slíkar sögulegar upplýsingar um viðskipti fyrirtækja við banka hafa áður komið fram, m.a. um viðskipti Landsbankans við Kveldúlf hf., án þess að ríkissaksóknari og Rannsóknarlögregla ríkisins hafi komið til sögunnar.
    Þegar fréttir birtust í öðrum fjölmiðlum um að bankastjórn Seðlabankans hefði sent erindi til ríkissaksóknara vegna birtingar þessara greina og meints brots á bankaleynd höfðu ritstjórar Morgunblaðsins samband við formann bankastjórnar Seðlabankans og óskuðu eftir að fá í hendur þær upplýsingar, sem bankinn hefði sent til ríkissaksóknara. Þeirri ósk var hafnað á þeirri forsendu að öðrum fjölmiðlum hefði verið neitað um slíkar upplýsingar og eitt yrði yfir alla að ganga. Þegar á það var bent að krafa Seðlabankans um rannsókn beindist að Morgunblaðinu en ekki öðrum fjölmiðlum var því svarað til að hún beindist ekki að blaðinu heldur meintum brotum bankastarfsmanna. Eins og öllum er nú ljóst hefur þetta mál frá upphafi snúist um þann grundvallarrétt blaðamanna að vernda heimildir sínar, rétt sem er virtur í lýðræðisríkjum um heim allan.
    Þegar blaðamaður Morgunblaðsins var kvaddur til yfirheyrslu hjá Rannsóknarlögreglu ríksins neitaði hann að svara spurningum rannsóknarlögreglumanna um heimildarmenn sína. Rannsóknarlögreglan krafðist þess þá að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að blaðamaðurinn væri skyldur til að gefa slíkar upplýsingar.
    Í greinargerð sem Rannsóknarlögregla ríkisins lagði fram í héraðsdómi Reykjavíkur hinn 5. desember sl. er vegið alvarlega að heiðri Morgunblaðsins og starfsheiðri þess blaðamanns, sem greinarnar skrifaði. Þar eru birtar stuttar tilvitnanir í umræddar greinar og síðan segir: „Þessar glefsur bera meginmarkmiði blaðagreinanna vitni; að varpa ljóma á tiltekna starfsmenn Landsbanka Íslands á kostnað viðskiptamanns Landsbanka Íslands og fyrirsvarsmanna hans, Sambands íslenskra samvinnufélaga. Á birting trúnaðarupplýsinga af þessu tagi og með hætti sem gert var tæpast nokkuð skylt við lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla.“
    Það er með ólíkindum að slík orð skuli látin falla af hálfu Rannsóknarlögreglu ríkisins í umræddri greinargerð. Meginmarkmið blaðagreinanna var að upplýsa almenning á Íslandi um málefni, sem vörðuðu almannahagsmuni. Þeir almannahagsmunir liggja í augum uppi, þar sem spurning var um hvort miklir fjármunir töpuðust eða hvort þeim yrði hægt að bjarga að hluta til.
    Í greinargerð Rannsóknarlögreglu ríkisins eru einnig hafðar uppi dylgjur í garð fyrirsvarsmanna Landsbanka Íslands. Þar segir: „Ætla má að í því tilviki, sem hér er fjallað um, hafi fyrirsvarsmaður ríkisbanka, bankastjóri eða bankaráðsmaður, brugðist trúnaði viðskiptamanns hrapallega og um leið bankanum, sem hann starfar við.“ Væri ekki við hæfi að Rannsóknarlögregla ríkisins sannaði slíkar fullyrðingar í stað þess að hafa uppi dylgjur sem þessar? Þeir sem starfa við fjölmiðla vita hins vegar að upplýsingar berast oft til þeirra með margvíslegum hætti og ekki alltaf á þann veg, sem þeir sem utan við standa telja að liggi beinast við.
    Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að blaðamanni Morgunblaðsins væri skylt að koma fyrir dóm, sem vitni til skýrslugjafar. Rök héraðsdómsins eru þau að svo ríkir hagsmunir séu í húfi að komast að niðurstöðu um það hvort bankamenn hafi rofið bankaleynd og að skilvirkni bankaeftirlits verði ekki rýrð, að þeir séu ríkari en þeir hagsmunir, sem lúta að frjálsri blaðamennsku og rétti blaðamanna á Íslandi til að vernda heimildir sínar, rétti sem er viðurkenndur í lýðræðisríkjum um allan heim.
    Af hálfu Morgunblaðsins hefur þessi úrskurður þegar verið kærður til Hæstaréttar Íslands. Þetta mál snýst nú um grundvallaratriði frjálsrar blaðamennsku fyrst og síðast en ekki hagsmuni Sambandsins, sem hefur ekki skaðast á nokkurn hátt, eins og raunar kemur fram í forsendum úrskurðarins. Þeir hagsmunir sem í húfi eru snúast um starfsskilyrði og aðstöðu fjölmiðla og starfsmanna þeirra til þess að halda uppi upplýsingamiðlun um mikilsverð málefni, sem varða almannahag. Slíkt mál hefur ekki fyrr komið upp á tímum lýðræðis á Íslandi. Engir hagsmunir geta verið ríkari en þeir sem snúa að lýðræði, tjáningarfrelsi og rétti almennings til upplýsinga, sem varða hagsmuni hans. Þessa hagsmuni er Morgunblaðið að verja.