Ferill 269. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 269 . mál.


497. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um gjald af áfengi, nr. 96 28. júní 1995.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Af innheimtu gjaldi skv. 3. gr. skal 1% renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins skal vera að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu. Styrki skal veita úr sjóðnum til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli. Heilbrigðisráðherra skipar fjögurra manna sjóðstjórn. Fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra tilnefna einn stjórnarmann hver en þann fjórða skipar heilbrigðisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Heilbrigðisráðherra setur nánari reglur um sjóðinn með reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hér er lögð til sú breyting á 8. gr. laga um gjald af áfengi, nr. 96/1995, að þær tekjur, sem renna í Forvarnasjóð og á að nota til forvarnastarfa gegn áfengisneyslu, megi einnig nota til forvarnastarfs gegn annarri fíkniefnaneyslu.
    Í júní á þessu ári voru samþykkt á Alþingi lög um gjald af áfengi. Þar er í 8. gr. kveðið á um að 1% af því gjaldi á áfengi, sem er innheimt skv. 3. gr. laganna, skuli renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins er að með framlögum úr honum skuli stuðla að áfengisvörnum. Heilbrigðisráðherra setti reglugerð um starfsemi Forvarnasjóðsins 3. október sl. Þar segir í 1. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar að hlutverk sjóðsins sé „að styrkja forvarnastarf félagasamtaka og einstaklinga á sviði áfengisvarna á verkefnagrundvelli, svo sem fræðslustarfsemi og alls kyns áróður.“ Stjórn sjóðsins skal samkvæmt reglugerðinni auglýsa a.m.k. einu sinni á ári eftir umsóknum um styrki úr Forvarnasjóði.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er liðurinn 08-621 Áfengisvarnir og bindindismál. Þar er gert ráð fyrir að til Áfengisvarnaráðs fari 9,1 millj. kr. Á sama fjárlagalið er lagt til að 40,9 millj. kr. fari til annarrar forvarnastarfsemi. Af þeim lið hefur nú þegar verið ráðstafað til forvarnastarfs um 12 millj. kr. samkvæmt ákvörðun Alþingis. Framlög til Forvarnasjóðs eru ekki sérmerkt í frumvarpi til fjárlaga en ætla má að tekjur sjóðsins séu undir liðnum 08-621.
    Eins og áður segir eru framlög úr Forvarnasjóði eingöngu ætluð til forvarnastarfs gegn áfengisneyslu. Þar er vissulega um þarft verk að ræða en í ljósi þess að neysla annarra ávana- og fíkniefna hefur stóraukist á undanförnum árum er nauðsynlegt að auka framlög til allrar forvarnastarfsemi. Í ljósi þess er hér lögð til sú breyting að heimilt sé að veita fé úr Forvarnasjóði til forvarnastarfsemi gegn áfengisneyslu og annarri fíkniefnaneyslu.