Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 271 . mál.


506. Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Á eftir 64. gr. komi ný grein, 64. gr. a, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um heimild eiganda ökutækis til að velja tiltekna bókstafi og tölustafi á skráningarmerki ökutækis (einkamerki).
    Fyrir rétt til einkamerkis skal greiða 50.000 kr., auk gjalds fyrir skráningu og skráningarmerki. Fyrir skráningu á flutningi einkamerkis af einu ökutæki á annað í samræmi við reglur sem settar eru skv. 1. mgr. skal greiða sama gjald og fyrir skráningu eigendaskipta að ökutæki. Gjaldið renni til Umferðarráðs.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað að setja reglur um sérstök skráningarmerki (einkamerki) á ökutæki þar sem eiganda ökutækisins verði veitt heimild til að velja samstæðu bókstafa og/eða tölustafa á skráningarmerkið í stað þeirra bókstafa og tölustafa sem skráningarmerkið mundi að öðrum kosti bera í samræmi við almennar reglur um skráningu ökutækja. Slík skráningarmerki á ökutæki hafa verið heimiluð í ýmsum löndum, m.a. í Danmörku og Svíþjóð.
    Gert er ráð fyrir að í reglum verði kveðið nánar á um framkvæmdaratriði, svo sem um hámarksfjölda bókstafa og tölustafa á skráningarmerki. Þar verði og ákvæði er tryggi að áletrun á skráningarmerki brjóti ekki í bága við íslenskt málfar né sé hún fallin til að valda hneykslun eða geti haft í för með sér óþægindi fyrir aðra. Þá er gert ráð fyrir að réttur til einkamerkis verði tímabundinn, væntanlega til átta ára, og að eigandinn hafi rétt til að færa einkamerkið á annað ökutæki á þeim tíma.
    Rétt þykir að gjald fyrir einkamerki verði hærra en gjald fyrir almenn skráningarmerki og er lagt til að gjaldið verði ákveðið 50.000 kr. Þá er lagt til að gjaldinu verði varið til að efla umferðaröryggi í landinu og að það renni til Umferðarráðs svo sem er um umferðaröryggisgjald skv. 115. gr. umferðarlaga.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting


á umferðarlögum, nr. 50/1987.


    Í frumvarpinu er lagt til að eiganda ökutækis verði heimilað að velja sérstakt skráningarmerki (einkamerki) á bifreið sína en gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um framkvæmdaratriði í reglum. Fyrir einkamerkið skal greiða 50.000 kr. auk gjalds fyrir skráningu og skráningarmerki og rennur gjaldið til Umferðarráðs.
    Kostnaðaráhrif af þessu eru tvenns konar. Annars vegar má ætla að framleiðsla einkamerkja sé heldur dýrari en venjulegra skráningarmerkja en að mati dómsmálaráðuneytis er sá kostnaðarauki óverulegur. Hins vegar eykur þetta tekjur Umferðarráðs. Erfitt er að áætla umfang þessa þar sem ekki er vitað hve margir munu nýta sér þessa heimild.