Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 300 . mál.


540. Tillaga til þingsályktunarum úttekt og flutning á félagslegum verkefnum frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp, m.a. með fulltrúum þingflokkanna, til að gera úttekt á og skilgreina hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbrigðisráðuneytis séu í raun félagsleg verkefni sem eðlilegra væri að heyrðu undir félagsmálaráðuneytið. Unnin verði áætlun um að flytja þau verkefni milli ráðuneyta.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur síaukin áhersla verið lögð á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu og í ljós hefur komið að ýmis verkefni, sem áður tilheyrðu heilbrigðissviði, væru nú skilgreind sem félagsleg úrræði. Um er að ræða ýmsar stofnanir sem settar voru á laggirnar þegar draga þurfti úr dýrum innlögnum á sjúkrastofnanir á þeim tímum þegar félagsleg úrræði skorti. Skemmst er að minnast umræðunnar um lokun vistheimilisins Bjargs sem heyrir undir heilbrigðisráðuneyti en er í raun heimili þeirra vistmanna sem þar dvelja. Ef lagaleg staða slíkra stofnana eða verkefna verður áfram óljós má búast við að sparnaðaraðgerðir við fjárlagagerð bitni á komandi árum í ríkari mæli á þessum mikilvægu þáttum. Smám saman hefur æ meiri áhersla verið lögð á endurhæfingu hvers konar sem og fyrirbyggjandi úrræði til að draga úr innlögnum á sjúkrastofnanir. Mörkin milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu við langtímasjúka, aldraða og fatlaða hafa í mörgum tilfellum verið óljós en í nýlegum lögum um félagslega þjónustu er reynt að skilgreina þessi mörk. Skýrar línur eru m.a. mikilvægar varðandi allan samanburð á kostnaði, annars vegar á útgjöldum til heilbrigðismála og hins vegar á útgjöldum til félagsmála.
    Með lögum um málefni aldraðra hafa verkefni verið skilgreind ýmist á sviði félags- eða heilbrigðismála. Má nefna að heimaþjónusta aldraðra er að hluta til heilbrigðisþjónusta veitt af heilsugæslustöðvum og að hluta til félagsleg þjónusta félagsmálastofnana veitt sem samþætt þjónusta heima í héraði.
    Með lagasetningu um málefni fatlaðra hefur þjónusta við fatlaða gjörbreyst. Lögin frá 1992 ná eingöngu til félagslega þáttarins en almenn lög á sviði heilbrigðis- og menntamála skulu nú gilda um fatlaða jafnt sem aðra þegna landsins. Til þessa hafa búsetumálin þróast frá hefðbundinni stofnanaþjónustu til sambýla en nú er lögð aukin áhersla á félagslegar íbúðir og sjálfstæða búsetu fatlaðra. Lögð er áhersla á stoðþjónustu, þ.e. margháttaða þjónustu við fatlaða sem geri þeim kleift að búa sjálfstætt utan stofnana, og má segja að réttur til stoðþjónustu sé uppistaðan í breyttum áherslum. Í stoðþjónustu felst m.a. réttur til heimaþjónustu (heimilishjálp og heimahjúkrun), sem er hefðbundin félagsþjónusta veitt af sveitarfélögunum, en einnig réttur til liðveislu, svo sem við að búa sjálfstætt og vera á vinnumarkaði.
    Það sem gerir þessar breyttu áherslur mögulegar eru lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem sett voru árið 1991. Þau lög gjörbreyta rétti íbúa sveitarfélaga til félagslegrar þjónustu og opna jafnframt nýja möguleika í þjónustu við fatlaða, aldraða og sjúka.
    Eins og fyrr er getið virðist sem ýmsar stofnanir hafi fest í stjórnsýslunni án þess að hugað væri að því að með breyttum lögum og nútímaviðhorfum væri ástæða til að endurskoða starfsemi þeirra eða staðsetningu í kerfinu. Þannig var Kópavogshæli sett á laggirnar samkvæmt lögunum frá 1967 en á síðustu árum hafa farið fram viðræður um að endurskoða búsetumál þeirra er þar dvelja. Við setningu laganna um málefni fatlaðra, sem tóku gildi 1992, fór félagsmálanefnd Alþingis fram á, sbr. nefndarálit við afgreiðslu málsins, að viðræður yrðu hafnar milli ráðuneyta félags- og heilbrigðismála um hvernig tryggja mætti íbúum Kópavogshælis þá þjónustu sem lögin kváðu á um en þeir sem vistmenn á heilbrigðisstofnun áttu í raun ekki kost á. Síðan hefur verið unnin áætlun um útskrift þeirra vistmanna sem heimili hafa átt á Kópavogshæli og flutning á sambýli. Sérstök heimild er í lögum um að Framkvæmdasjóður fatlaðra megi ráðstafa fjármagni til reksturs sambýla og á það sérstaklega við um vistmenn Kópavogshælis. Þessi áform tengjast áætlun um að Kópavogshæli verði endurhæfingar- og hæfingarstöð Ríkisspítalanna.
    Þetta stutta yfirlit um breytingar á lögum og breytt viðhorf sem miða í átt til margvíslegrar stoðþjónustu sýnir ótvírætt hverja nauðsyn ber til að endurmeta stöðu ýmissa stofnana sem núna tilheyra heilbrigðiskerfinu. Má þar nefna ýmsar deildir fyrir geðsjúka og fatlaða sem eru í raun heimili þess fólks er þar dvelst eða áfangastaðir þar sem veitt er félagsleg endurhæfing. Þegar hefur verið getið um fyrirhugaðar breytingar á Kópavogshæli, en nefna má stofnanir eins og Gunnarsholt, meðferðarheimilið við Kleifarveg 15, Hlein í Mosfellssveit og endurhæfingardeildina í Hátúni að ógleymdu Bjargi sem nýverið lenti einmitt undir niðurskurðarhnífnum. Þá má nefna að Bergiðjan, sem er verndaður vinnustaður, er hluti sjúkrahússtarfseminnar í landinu þrátt fyrir að verndaðir vinnustaðir heyri undir félagsmálaráðuneyti samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra.
    Leiða má að því líkur að á félagslegum stofnunum, sem skilgreindar eru sem heilbrigðisstofnanir, sé í einhverjum tilvikum ráðið dýrara starfsfólk, svo sem læknar og hjúkrunarfræðingar, meðan á öðrum stöðum, félagslega reknum, sé öðruvísi staðið að starfsmannahaldi. Mikilvægt er að skoða þessa þætti með opnum huga og fordómalaust en hafa hagsmuni íbúa eða vistmanna að leiðarljósi.
    Ef hagræðing á að vera árangursrík og sársaukalítil þarf skynsamleg vinnubrögð og er því mikilvægt að átta sig á hvar skórinn kreppir og skilgreina svo sem unnt er hvað er ríkisins, hvað er sveitarfélaganna, hvað eru heilbrigðisstofnanir og hvað félagslegar stofnanir og hlú að þeim sem slíkum. Þannig má oft draga úr dýrum innlögnum með því að bjóða upp á góð félagsleg úrræði. Með þessari tillögu til þingsályktunar er stefnt að því að komast hjá niðurskurði eða lokunum sem eiga rætur að rekja til þess að viðkomandi yfirvöld telja sig ekki lengur bera ábyrgð á rekstrinum.
    Heilbrigðislög mæltu fyrir um heilbrigðisþjónustu en sökum vanbúinnar félagsþjónustu og skorts á heildstæðri félagsmálalöggjöf var farin sú leið að skapa félagslegum verkefnum lagagrundvöll undir formerkjum heilbrigðisþjónustu. Þannig voru heimili geðfatlaðra og þroskaheftra gjarnan rekin sem sjúkradeildir. Áfangastaðir, sem í raun er ætlað að auka félagslega færni, hafa verið reknir sem endurhæfingarstöðvar á heilbrigðissviði og verndaðir vinnustaðir hafa verið skilgreindir sem endurhæfingarstaðir. Dæmi er um að meðferðarheimili fyrir börn séu skilgreind sem sjúkradeild.
    Með breyttum viðhorfum til félagslegra verkefna og heilbrigðismála er brýnt að huga að rekstri stofnana, eins og hér er dregið fram, skilgreina hverjar eigi í raun að starfa sem heilbrigðisstofnanir en setja þær sem nú skoðast sem félagsleg verkefni undir félagsmálaráðuneytið og gera til þess nauðsynlegar lagabreytingar.