Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 308 . mál.


549. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13 30. mars 1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands mega eftirtaldir aðilar einir stunda:
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
    Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
        i)         Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
        ii)    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25%, sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
         iii)    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara, eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 34 25. mars 1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. lög nr. 121/1993. Eru breytingar þessa frumvarps sem nú er flutt gerðar til samræmis við breytingar á því frumvarpi. Af frumvörpunum leiðir sú breyting að nú verður óbein fjárfesting í sjávarútvegi heimil þótt verulegar takmarkanir séu þar enn á. Því verður ekki lengur með lögunum komið í veg fyrir beina erlenda eignaraðild að lögaðila sem á í fyrirtæki sem stundar fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands. Sú beina eignaraðild er hins vegar takmörkuð við 25% hlutafjár eða stofnfjár en má þó ná til allt að 33% hlutafjár eða stofnfjár ef eignarhlutur viðkomandi lögaðila í fyrirtæki sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands er ekki meiri en 5%. Auk þess er sú krafa gerð að það fyrirtæki sem á í útgerðarfyrirtækinu sé undir íslenskum yfirráðum. Að sjálfsögðu er ætlast til þess að einstök orð og hugtök frumvarpsins hafi sömu merkingu og þau hafa í frumvarpi til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, sbr. lög nr. 121/1993. Er því almennt vísað til þess frumvarps og athugasemda við það. Þó verður ekki hjá því komist skýrleikans vegna að greina hér sérstaklaga frá því sem þar segir um hugtökin íslenskan aðila, íslenskan lögaðila og yfirráð íslenskra aðila. Í lokamálsgrein 1. gr. áðurnefnds frumvarps segir orðrétt: „Með íslenskum aðila er í þessari grein átt við ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Með íslenskum lögaðila er í þessari grein átt við lögaðila með heimili hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Lögaðili telst eiga heimili hér á landi ef hann er skráður hér á landi, ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi. Með íslenskum lögaðila undir yfirráðum íslenskra aðila er í þessari grein átt við íslenskan lögaðila þar sem íslenskir aðilar eiga meiri hluta hans, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, og hafa meirihluta atkvæðisréttar og hafa raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi lögaðila.“
    Auk þess er rétt til glöggvunar að geta þess að í 2. gr. ofangreindra laga er hugtakið erlendur aðili skilgreint svo: „Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.“ Bein fjárfesting í sjávarútvegi er eftir sem áður óheimil.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um


rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands nr. 13 30. mars 1992.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að leyfilegur eignarhlutur erlendra aðila í íslenskum lögaðilum er stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands verði aukinn, með vissum skilyrðum.
    Ekki er séð að samþykkt frumvarpsins leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.