Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 309 . mál.


550. Tillaga til þingsályktunar



um samanburð á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera hlutlæga skoðun á lífskjörum á Íslandi og bera saman við lífskjör í nálægum löndum, auk þess að benda á hugsanlegar ástæður fyrir mismun sem fram kann að koma.

Greinargerð.


    Mikil umræða hefur að undanförnu farið fram um samanburð á þeim kjörum sem launþegar búa við hér á landi og í nálægum löndum. Staðhæft er að Íslendingar flýi land á vit betri lífskjara og hefur sérstaklega verið rætt um Hanstholm í Danmörku í þessu sambandi, a.m.k. hvað fiskvinnslufólk varðar. Umræðan mótast nokkuð af því að rætt er við brottflutta Íslendinga sem gefa upplýsingar um að laun sín séu mun hærri en laun sem hér eru greidd fyrir sambærileg störf. Vitað er að samanburður á launum einum saman gefur engan veginn rétta mynd af afkomu launþega og fjölskyldna þeirra. Til þess að fá réttan samanburð verða að liggja fyrir upplýsingar um fjölmarga aðra þætti, svo sem um verð á algengum lífsnauðsynjum og kostnað við samgöngur, um skattkerfi, félagslega þjónustu, heilbrigðiskerfi og skólakerfi, auk upplýsinga um lögskipaða og áunna frídaga, sem og vinnustundir að baki launum viðkomandi.
         Mikilvægt er fyrir umræðu um lífskjör og lág laun á Íslandi að fá hlutlægan samanburð við lífskjör í nágrannalöndunum. Ef það er rétt sem haldið hefur verið fram að afkoma almennings sé lakari hér en í nálægum löndum er jafnframt mikilvægt að vita í hverju sá munur liggur svo unnt sé að bregðast við og leiðrétta það sem aflaga fer.
    Ekki liggur fyrir heildstæður samanburður á kjörum eða möguleikum fólks til mannsæmandi lífsafkomu hér á landi samanborið við nálæg lönd en þó hafa Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur og Þröstur Sigurðsson viðskiptafræðingur hjá fyrirtækinu Rekstur og ráðgjöf ehf. tekið saman ýmis gögn sem gætu myndað grundvöll slíkrar úttektar. Samanburðurinn er hins vegar kostnaðarsamur og ekki á færi einstaklinga að ráðast í svo vel sé. Úttekt eða samanburður sem unninn er á vegum verkalýðsfélaga eða samtaka vinnuveitenda kann að verða vefengdur. Af þeim sökum er eðlilegt að stjórnvöld hlutist til um að láta gera slíka könnun þannig að niðurstaða fáist um hvort lífskjör hér á landi séu sambærileg við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.