Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 312 . mál.


553. Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1995.

    Á leiðtogafundi Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE) í ársbyrjun 1995 var samþykkt að breyta nafni ráðstefnunnar í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Í kjölfarið breyttist nafn RÖSE-þingsins í ÖSE-þingið.
    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna, sem undirrituð var 21. nóvember 1990 í París, var hvatt til þess að komið yrði á fót þingmannasamkundu ríkjanna. Fyrsti undirbúningsfundur til að hrinda þessu ákvæði Parísaryfirlýsingarinnar í framkvæmd var haldinn í Madrid í apríl 1991. Á Madrid-fundinum var ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal ÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. Í ársbyrjun 1995 breytti þingið síðan um nafn, sem fyrr segir, og kallast nú ÖSE-þingið. ÖSE-þingið er því ungt að árum og starf þess enn í mótun. Þingið getur tvímælalaust orðið mikilvægur hlekkur í ÖSE-keðjunni á öllum sviðum ÖSE-samstarfsins. Þó er ljóst að hvað þingfundina varðar er nauðsynlegt að taka vinnubrögð og skipulag til endurskoðunar ef samstarfið á að bera raunverulegan árangur, enda hafa starfsreglur þingsins nær stöðugt verið til endurskoðunar.
    
I. Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.
    Aðild að ÖSE eiga 53 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins eru því ætluð eftirfarandi hlutverk:
    Að meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu.
    Að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna.
    Að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum.
    Að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum.
    Að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er aðild að því miðuð við þing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og að ríkin taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 53 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 312 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglurnar gera ráð fyrir að ÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fastanefndir er fjalli um mál er falla undir svið þeirra. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok allsherjarfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár, í samráði við formann og varaformann nefndarinnar. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar þrjár eru nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, níu varaforsetum og gjaldkera. Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetum, gjaldkera, formönnum nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, eða alls 67 fulltrúum.
    Þingsköp ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðu-reglu“ (consensus rule), en henni er fylgt á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“ reglu sem felur í sér að tvö eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á árlegum fundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem verið er að vinna að á þeim vettvangi. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til þess ráðherra er mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins.
    Líkt og almennt hefur gilt í ÖSE-samstarfi eru opinber tungumál þingsins sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska.

II. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 1995:
    Fyrir þingkosningar í apríl: Tómas Ingi Olrich Sjálfstæðisflokki, formaður, Finnur Ingólfsson Framsóknarflokki, varaformaður, Sigbjörn Gunnarsson Alþýðuflokki, Guðjón Guðmundsson Sjálfstæðisflokki, Ólafur Ragnar Grímsson Alþýðubandalagi og Anna Ólafsdóttir Björnsson Kvennalista (áheyrnarfulltrúi).
    Eftir þingkosningar í apríl: Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki, formaður, Ragnar Arnalds Alþýðubandalagi, varaformaður, Hjálmar Árnason Framsóknarflokki, Guðjón Guðmundsson Sjálfstæðisflokki og Guðný Guðbjörnsdóttir Kvennalista.
    Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

III. Starfsemi á árinu 1995.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Fundur stjórnarnefndnar ÖSE-þingsins var haldinn dagana 12.–13. janúar í Vín. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar formaður og ritari.
    Max van der Stoel, sérlegur erindreki ÖSE um málefni minnihlutahópa, vék m.a. að málefnum minnihlutahópa í Moldavíu, Eystrasaltsríkjunum, Úkraínu, Albaníu og Makedóníu. Embætti hans er ætlað að bregðast við eins skjótt og hægt er þegar hætta er á að þjóðernisdeilur þróist í átök innan ÖSE-svæðisins. Hann lýsti yfir ánægju með að leiðtogafundur ÖSE í Búdapest hefði ákveðið að efla starfsemi embættis hans. Þá svaraði hann fyrirspurnum nefndarmanna og lutu þær einkum að ástandi mála í Makedóníu, Albaníu, Grikklandi, Úkraínu og Eistlandi.
    Audrey Glover, yfirmaður þeirrar stofnunar ÖSE sem fer með mannréttindi og lýðræði (ODIHR), ræddi einkum um kosningaeftirlitið en skýrði einnig frá námskeiðum sem eru í undirbúningi, sem og þeirri aðstoð sem veitt hefur verið við gerð stjórnarskráa í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra. Stofnun hennar er m.a. ætlað að samræma kosningaeftirlit, útvega sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og veita fræðslu á því sviði.
    Istvan Gyarmati, formaður ÖSE-ráðsins, ræddi um átökin í Tsjetsjeníu sem nýverið höfðu verið til umræðu í ÖSE-ráðinu og sagðist hann telja að umfjöllun ÖSE um málið hefði áhrif á báða deiluaðila.
    Dr. Wilhelm Höynck, framkvæmdastjóri ÖSE, ræddi ýmis atriði er vörðuðu innra starf ÖSE. Hann vék einnig að því að á árinu væru 20 ár liðin frá því að Helsinki-sáttmálinn var undirritaður og bað þingmenn að íhuga hvernig þingin gætu best staðið að því að minnast þess atburðar.
    Dr. Franz Vranitsky, forsætisráðherra Austurríkis, ávarpaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi ÖSE sem samráðsvettvangs um öryggismál í Evrópu og benti í því sambandi á að ÖSE væri eini vettvangurinn þar sem Rússar mættu öðrum Evrópuríkjum á jafnréttisgrundvelli.
    Enn fremur var rætt um undirbúning næsta ÖSE-þings í júlí í Ottawa í Kanada og fjárhagsstaða samtakanna kynnt, en hún er ágæt. Fram kom að þingsköp ÖSE-þingsins væru þung í vöfum og ákveðið var að halda aukafund stjórnarnefndarinnar í Kaupmannahöfn í apríl til að fjalla um breytingar á þeim. Þá var rætt um kosningaeftirlit og voru menn sammála um að sá þáttur væri mikilvægasta framlag ÖSE-þingsins til lýðræðis í Evrópu. Samþykkt var ályktun um Tsjetsjeníu. Loks tóku Makedóníumenn upp óskir sínar um aðild að ÖSE, en þeir höfðu þá áheyrnaraðild.

b. Aukafundur stjórnarnefndar.
    Hinn 21. apríl sótti formaður Íslandsdeildarinnar aukafund stjórnarnefndar í Kaupmannahöfn þar sem ræddar voru starfsreglur þingsins.
    Fjöldi breytingartillagna hlaut samþykki fundarins og má þar mikilvægastar nefna breytingar sem gerðar voru á skilafresti breytingartillagna við ályktunartillögur þingsins. Þær ber nú að leggja fram eigi seinna en við upphaf þingfundar en áður þurfti einungis að leggja þær fram fyrir viðkomandi atkvæðagreiðslu.

c. Fjórði fundur RÖSE-þingsins.
    Dagana 4.–8. júlí var haldinn fjórði árlegi fundur ÖSE-þingsins, að þessu sinni í Ottawa. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður, Hjálmar Árnason og Guðjón Guðmundsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Áður en þingið hófst formlega var haldinn upplýsingafundur um starfsemi ÖSE þar sem framkvæmdastjóri ÖSE, umboðsmaður ÖSE í málefnum minnihlutahópa og forstöðumaður lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE fluttu ávörp og sátu fyrir svörum. Þar var m.a. fjallað um kosningaeftirlitið sem ÖSE hefur staðið að í ýmsum ríkjum Austur-Evrópu. Jafnframt var rætt um þátt ÖSE í átakavörnum og lausn deilumála víðs vegar um Evrópu. Var m.a. fjallað um Tsjetsjeníu, Moldavíu og Nagornó-Karabakh. Þá var fjallað um átökin í fyrrum Júgóslavíu en því miður gat ÖSE ekki státað af neinum árangri þar.
    Þá fundaði stjórnarnefnd þingsins en í henni eiga sæti formenn allra landsdeilda þingsins. Á fundinum var m.a. fjallað um skýrslu sendinefndar ÖSE-þingsins sem heimsótti Tyrkland í boði tyrkneska þingsins, einkum til að skoða aðstæður Kúrda. Stjórnarnefndin ákvað að sendinefndin héldi áfram starfi sínu í málefnum Tyrklands. Jafnframt var ákveðið að forseti þingsins skipaði fljótlega „ad hoc“ nefnd til að fjalla um reglusmíð (code of conduct) í mannréttindamálum.
    Þrjár nefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Íslandsdeildin tók þátt í nefndarstarfi sem hér segir:
         Nefnd um stjórn- og öryggismál     Pétur H. Blöndal
         Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál     Guðjón Guðmundsson
         Nefnd um lýðræði og mannréttindamál     Hjálmar Árnason
    Við setningu þingsins fluttu ávörp Frank Swaelen, forseti ÖSE-þingsins, Gilbert Parent, forseti neðri deildar kanadíska þingsins, Gildas L. Molgat, forseti efri deildar kanadíska þingsins, Jean Chretien, forsætisráðherra Kanada og Laszlo Kovaks, formaður ráðherraráðs ÖSE og utanríkisráðherra Ungverjalands. Umræður á fundinum snerust eðlilega mikið um fyrrum Júgóslavíu en jafnframt var fjallað um önnur svæði, svo sem Nagornó-Karabakh, Moldavíu, Eystrasaltssvæðið og Tsjetsjeníu, svo og fyrirhugaðar kjarnorkutilraunir Frakka. Þá héldu konur meðal þingmanna einnig með sér fund.
    Ályktun fundarins var unnin þannig að lagðar voru fram skýrslur í hverri nefnd en á grundvelli þeirra höfðu verið samin drög að ályktunum. Voru þessi drög rædd í viðkomandi nefnd, breytingartillögur lagðar fram og ályktunin afgreidd. Þessum ályktunum var síðan steypt saman í eina heildarályktun í þremur köflum sem lögð var fyrir þingið. Ályktun þingsins er í lokaútgáfu sinni sautján síðna skjal og kennir þar ýmissa grasa. Í ályktuninni er t.d. að finna hvatningu til þess að kannaðar verði hógværar breytingar á hinni svokölluðu „samstöðu-reglu“ í ákvarðanatöku innan ÖSE, fordæmingu á ákvörðun Frakka um að hefja á ný kjarnorkutilraunir, ákvörðun um að halda eins dags fund í Sarajevó fyrir árslok ef öryggisaðstæður leyfa og ákall um að fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía fái inngöngu í ÖSE, með afbrigði af samstöðureglunni (consensus minus one) ef þörf krefur.
    Á þinginu fór fram kjör forseta ÖSE-þingsins og fimm varaforseta af níu. Frank Swaelen frá Belgíu var endurkjörinn án mótframboðs í embætti forseta. Frambjóðendur til varaforseta voru átta en eftirfarandi náðu kosningu:
         Steny Hoyer     Bandaríkin     til þriggja ára
         Helle Degn     Danmörk     til þriggja ára
         Andras Barsony     Ungverjaland     til þriggja ára
         Erkin Khalilov     Úsbekistan     til eins árs
         Kazys Bobelis     Litáen     til eins árs
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar áttu fund með tveimur fulltrúum Tyrklands á meðan á ÖSE-þinginu stóð til þess að ræða málefni Sophiu Hansen. Könnuðust Tyrkirnir við málið og lýstu sig að vissu leyti reiðubúna til að aðstoða við málið og mun Íslandsdeildin eiga frekari samskipti við þá í því sambandi. Þá átti Íslandsdeildin kynningarfund með fulltrúum frá Kirgisistan og Tadsjikistan.

d. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í eflingu lýðræðis og virðingar fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Árið 1995 tók ÖSE-þingið þátt í kosningaeftirliti vegna kosninga í Armeníu, Lettlandi, Króatíu, Georgíu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi. Alls tóku um 200 þingmenn ÖSE-ríkjanna þátt í þessu starfi, langflestir í Rússlandi.

e. Annað.
    ÖSE-þingið hefur átt fulltrúa á fundum embættismannanefndar ÖSE. Það hefur tekið þátt í fundum efnahagsmálanefndarinnar og námsstefnum lýðræðis- og mannréttindaskrifstofunnar. Þingið tók jafnframt þátt í ferðum formanns ráðherraráðs ÖSE til ýmissa svæða.



Fylgiskjal I.


SKIPAN ÖSE-ÞINGSINS



    

Fjöldi þing-

Fjöldi


    

sæta hvers

þingsæta


    

aðildarríkis

alls



A.     Bandaríkin     
17
17
B.     Rússland     
15
15
C.     Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland     
13
52
D.     Kanada og Spánn     
10
20
E.     Úkranía, Belgía, Holland,     
    Pólland, Svíþjóð og Tyrkland     
8
48
F.     Rúmenía     
7
7
G.     Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland,
    Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland,
    Úsbekistan og Kasakstan     
6
78
H.     Búlgaría og Lúxemborg     
5
10
I.     Júgóslavía og Slóvakía     
4
8
J.     Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litáen, Albanía,
    Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan,
    Georgía, Kirgisistan, Armenía, Aserbaídsjan og Bosnía-
    Hersegóvína     
3
51
K.     Liechtenstein, Mónakó og San Marínó     
2
6
Samtals               
312
Fylgiskjal II.


Starfsreglur


fyrir Íslandsdeild ÖSE-þingsins.



1. gr.

    Íslandsdeild ÖSE-þingsins (The Icelandic delegation to the OSCE Parliamentary Assembly) er skipuð fimm alþingismönnum. Íslandsdeildin sendir þrjá fulltrúa á ÖSE-þingið hvert ár, sbr. ákvæði Madrid-yfirlýsingarinnar frá apríl 1991 og viðauka við starfsreglur þingsins frá janúar 1993 um fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarþingum.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir tilnefningin út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.


3. gr.

    Þingflokkur skal tilnefna í deildina eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins nema samkomulag sé um aðra skiptingu fulltrúa. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi ÖSE-þingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.
    


4. gr.

    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (Standing Committee) ÖSE-þingsins, sbr. 32. gr. starfsreglna þess.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þingskapa Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða árgjald til aðalskrifstofu þingsins, ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers kjörtímabils skipuleggur Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi ÖSE-þingsins fyrir kjörtímabilið í heild, sbr. 2. mgr.
    Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal fylgja hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka ef ekki er samkomulag um annað.

8. gr.

    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.


(Samþykktar á fundi forsætisnefndar 28. apríl 1993.)