Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 315 . mál.


556. Frumvarp til laga



um helgidagafrið.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)


    

I. KAFLI

Tilgangur laganna.

1. gr.

    Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.
    

II. KAFLI

Um helgidagafrið og helgidaga þjóðkirkjunnar.

2. gr.

    Helgidagar þjóðkirkjunnar eru þeir sem nú skal greina:
    Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu.
    Jóladagur og föstudagurinn langi til kl. 6.00 að morgni næsta dags, páskadagur og hvítasunnudagur.
    Aðfangadagur jóla frá kl. 18.00.
    

III. KAFLI

Um helgidagafrið.

3. gr.

    Óheimilt er að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.
    

4. gr.

    Um starfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar gilda eftirfarandi reglur:
    Á helgidögum skv. 1. tölul. 2. gr. er öll almenn starfsemi heimil.
    Á helgidögum skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi óheimil:
         
    
    Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.
         
    
    Markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi.
    

5. gr.

    Eftirfarandi starfsemi er undanþegin banni því er greinir í 4. gr.:
    Starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, verslana með neyðarbúnað, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga. Hið sama gildir um gististarfsemi og tengda þjónustu.
    Íþrótta- og útivistarstarfsemi.
    Listsýningar, leiksýningar eða sams konar sýningar og samkomur er hafa sígilt listrænt gildi og samrýmast helgidagafriði, svo og sýningar er varða vísindi eða er ætlað að gegna almennu upplýsingahlutverki, má halda eða veita aðgang að á þeim tímum þegar helgidagafriður á að ríkja skv. 2. tölul. 2. gr., en þó ekki fyrr en kl. 15.00. Hið sama gildir um listasöfn og bókasöfn.
    Heimila má að dansleikir er hefjast að kvöldi laugardags fyrir páska eða hvítasunnu standi aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags samkvæmt almennum reglum, þó eigi lengur en til kl. 3.00.
    

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

6. gr.

    Lögreglustjóri getur, þegar sérstakar ástæður mæla með því, leyft að haldnar séu samkomur og sýningar eða að stofnað sé til svipaðrar starfsemi, sem greinir í 5. gr., á þeim tíma sem helgidagafriður skv. 5. gr. á að ríkja.
    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. tölul. 4. gr. er lögreglustjóra heimilt að veita leyfi fyrir einkasamkvæmi af sérstöku tilefni.
    

7. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum.
    Brjóti handhafi opinbers starfsleyfis gegn lögum þessum er heimilt að svipta hann leyfinu tímabundið eða fyrir fullt og allt ef brot er ítrekað.
    

8. gr.

    Dóms- og kirkjumálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.
    

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


A. Almennt.
    Með bréfi, dags. 24. maí 1995, skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd sem falið var að endurskoða lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926. Nefndarmenn voru Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður og sr. Hjálmar Jónsson alþingismaður. Ritari nefndarinnar var Högni S. Kristjánsson fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Drög að lagafrumvarpi lágu fyrir í október 1995 og voru þau lögð fyrir 26. kirkjuþing. Ályktaði kirkjuþing um frumvarpsdrögin efnislega með eftirfarandi hætti:
    Lagt var til breyting á kaflaheiti II. og III. kafla.
    Lagt var til að bann við skemmtanahaldi gilti aðfaranótt páskadags.
    Vakin var athygli á nauðsyn nánari skilgreininga ýmissa atriða.
    Í frekari vinnu nefndarinnar við frumvarpið eftir að umsögn kirkjuþings lá fyrir voru gerðar eftirfarandi breytingar á því auk orðalagsbreytinga.
    Kaflaheitum II. og III. kafla var breytt til samræmis við ályktun kirkjuþings.
    Auk þess að leggja áfram til að skemmtanahald yrði heimilt aðfaranótt páskadags var lagt til að skemmtanahald aðfaranótt hvítasunnudags yrði með sama hætti. Er þetta rökstutt nánar í athugasemdum við 5. gr. Er lagt til að sett verði tímamörk í þessu efni þannig að skemmtanir standi þessar nætur eigi lengur en til kl. 3.00.
    Orðið var við því að skilgreina ýmis atriði nánar.
    Í 2. tölul 2. gr. er helgi jóladags og föstudagsins langa framlengd til kl. 6.00 daginn eftir. Þetta er gert til að nálgast bann við skemmtanahaldi þennan tíma með öðrum hætti en var í þeim drögum er lögð voru fyrir kirkjuþing. Til samræmis var fellt út sérstakt bann við skemmtanahaldi þennan tíma í 4. gr.
    Farin var önnur leið en áður til að skilgreina hvaða starfsemi væri heimil á helgidögum skv. 1. tölul. 5. gr.
    
B. Söguleg atriði.
    Ákvæði um helgidaga og helgidagahald voru upprunalega í kristinna laga þætti, sbr. síðar Kristinrétt Árna biskups Þorlákssonar, 31.–37. kap. Sú löggjöf var víðtækari en helgidagalöggjöf síðari alda. Voru m.a. ákvæði „um að meir segðist á brotum“ sem unnin væru á helgum dögum en endranær. Við siðaskipti urðu aldahvörf og er talið að 26 messudagar hafi verið afnumdir með kirkjuskipan Kristjáns III. frá 1537, lögfest hér á landi 1541 og 1551, en raunar bætti það lagaboð við helgidögum þótt í litlum mæli væri og breytti auk þess ákvæðum um helgidagahald öðrum þræði. Í Alþingissamþykkt 1552 var fjallað um helgibrot, kirkjugrið og helgidagahald og er m.a. getið þar tveggja helgidaga sem kirkjuskipanin vék ekki að sérstaklega, þ.e. skírdegi og föstudeginum langa. Síðari lagaboð, m.a. kirkjuskipan Kristjáns IV. frá 1607, lögfest hér 1629, áréttuðu ákvæði fyrri kirkjuskipanar (frá 1537). Helgisiðabókin frá 1685 var ekki lögleidd hér á landi þótt eftir henni væri farið í ýmsum greinum. Ákvæði Dönsku og Norsku laga frá 1683 og 1687 um helgidaga og helgidagahald, og að svo miklu leyti sem því var til að dreifa, voru ekki lögleidd hér á landi. Tilskipunin um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins og annarra helgra daga frá 29. maí 1744 á rót að rekja til píetismans og voru þar ströng ákvæði um helgihald og m.a. um kirkjusókn. Tilskipun 26. október 1770 stafar frá tímum Struensee en þá voru nokkrir helgidagar afnumdir. Eftir sem áður gilti tilskipun 29. maí 17414 að verulegu leyti. Helgidagalöggjöf Dana var breytt með nýjum lögum frá 1845 mjög í frjálsræðisátt. Bárust Alþingi, er það var endurreist, bænaskrár um breytingar á helgidagalöggjöf. Með tilskipun frá 1855 var komið á nýskipan að því er varðaði helgihaldið og var sú löggjöf mjög reist á dönsku helgidagalögunum frá 1845. Var þessi skipan ólíkt frjálslegri en hin fyrri skipan og þótti sumum of langt gengið sérstaklega með að draga úr friðun sunnudags. Var þessu atriði breytt með opnu bréfi 28. september 1860.
    Þegar leið á 19. öldina voru flutt frumvörp á Alþingi er vörðuðu þetta mál, m.a. 1893, um afnám helgidaga, skírdags, uppstigningardags, annars dags í páskum og hvítasunnu og kóngsbænadags. Frumvarp þetta náði aðeins fram að ganga að því er varðar afnám kóngsbænadags, sbr. lög nr. 37/1893. Þá voru sett sérstök lög um fermingu og affermingu skipa, nr. 19/1897, en heildarlög um helgidaga, sem sett voru í Danmörku 1876, voru ekki lögfest hér á landi eða lög sniðin eftir þeim. Hins vegar voru lögtekin ný lög um helgidaga og helgidagahald árið 1901, sbr. lög nr. 47 það ár. Var þar kveðið rækilega á um helgidagahald, en helgidagar látnir haldast. Í meðferð málsins á Alþingi kom glögglega fram að greina bæri í milli helgidagalöggjafar og vinnuverndarlöggjafar. Fáum árum seinna (1919) var flutt frumvarp á Alþingi sem var gagngert af vinnuverndarrótum runnið og mælti fyrir um að helgidagar yrðu raunverulega að hvíldardögum fyrir verkamenn.
    Núgildandi lög um þetta efni eru nr. 45/1926. Þau fólu m.a. í sér þá breytingu að takmarka skyldi vinnu við fermingu og affermingu skipa á helgidögum og í öðru lagi var leyft að hafa fleiri verslanir opnar á helgidögum en fyrr var svo og þjónustustofnanir. Skírdegi var ekki gert hærra undir höfði en sunnudögum og almennar skemmtanir voru bannaðar eftir kl. 18.00 kvöldið fyrir stórhátíðardaga. Þessi lög hafa gilt í rösklega sjö áratugi óbreytt að kalla, en breytingar er gerðar hafa verið varða annars vegar refsiviðurlög í 8. gr. sem breytt var með lögum nr. 75/1982 er fjalla m.a. um sektarmörk nokkurra laga og hins vegar atriði er tengdust aðskilnaði umboðsvalds og dómsvalds í héraði og tók gildi 1. júlí 1992.
    Á 111. löggjafarþingi árið 1988 var lagt fram frumvarp til laga um helgidagafrið en það varð ekki útrætt.
    
C. Gildandi lög.
    Eins og áður getur eru gildandi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar frá árinu 1926. Eitt einkenni þeirra laga er að í þeim eru ekki taldir upp þeir dagar sem teljast vera helgidagar. Hins vegar hefur ekki verið ágreiningur um að það eru þeir sömu dagar og getur í 2. gr. frumvarps þessa.
    Í lögunum er í 1. gr fjallað um bann við vinnu á helgidögum er hefur hávaða í för með sér eða fer fram á þeim stað eða með þeim hætti að hún raskar friði helgidagsins. Er fjallað sérstaklega um fermingu og affermingu skipa í þessu sambandi.
    Í 2. gr. er fjallað um verslunarstarfsemi. Er hún bönnuð á helgidögum þjóðkirkjunnar en undanþegnar banninu eru tilteknar búðir eins og lyfjabúðir, brauð- og mjólkurbúðir að því er snertir sölu á brauði og mjólk, fiskbúðir o.fl. Kemur og fram að öll sala opinberlega sé bönnuð á helgidögunum en undanþága er varðandi sölu á fiski, bókum, blöðum, aðgöngumiðum að íþróttamótum, happdrættismiðum og þess háttar til kl. 11 árdegis og eftir kl. 3 síðdegis.
    Í 3. gr. er kveðið á um að á helgidögum þjóðkirkjunnar megi ekki á neinum almennum veitingastað halda veislur eða aðra hávaðasama fundi fyrr en eftir miðaftan.
    Samkvæmt 4. gr. má á helgidögum þjóðkirkjunnar hvorki halda almennar skemmtanir né heldur mega markaðir eða aðrar þær athafnir, sem hávaði er að, eiga sér stað fyrir kl. 3 síðdegis, nema lögreglustjóri leyfi.
    Samkvæmt 5. gr. má á helgidögum þjóðkirkjunnar ekki, nema brýna nauðsyn beri til, halda sveitar- eða bæjarstjórnarfund, þing eða dómþing.
    Samkvæmt 6. gr. má ekki halda almenna fundi um veraldleg efni á helgidögum þjóðkirkjunnar fyrr en um nónbil.
    Í 7. gr. laganna er mælt fyrir um að bönn þau er áður getur í lögunum nái yfir allan föstudaginn langa og hinn fyrra helgidag stórhátíðanna og eftir kl. 6 á aðfangadagskvöld jóla. Kemur og fram að kvöldið fyrir aðra stórhátíðisdaga eru allar almennar skemmtanir bannaðar eftir miðaftan.
    
D. Álit umboðsmanns Alþingis.
    Í tveimur álitum umboðsmanns Alþingis árið 1995 hefur verið vikið að ákvæðum laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45/1926. Í áliti sínu frá 25. apríl 1995 beindi umboðsmaður því til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það hygði að því hvort ástæða væri til breytinga á lögunum. Í sama áliti vakti umboðsmaður athygli á nauðsyn þess að tryggja samræmi í framkvæmd laganna. Í álitinu er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að lögin standi ekki í vegi almennri veitingastarfsemi á páskadegi.
    Í öðru áliti umboðsmanns frá 12. maí 1995 kemur fram að hann telji að lögin standi ekki í vegi fyrir skemmtanahaldi aðfaranótt laugardags fyrir páska (frá miðnætti). Í áliti hans segir m.a. að laugardagurinn fyrir páska sé ekki meðal helgidaga þjóðkirkjunnar í skilningi laga nr. 45/1926. Verði bann við skemmtanahaldi þann dag því ekki byggt á helgidagafriðun. Dagur þessi falli hins vegar undir kvöldfriðun skv. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þar sem fyrir lá að fyrirhugað skemmtanahald átti ekki að fara fram á þeim tíma varð bann við því ekki byggt á þessu ákvæði. Jafnframt segir umboðsmaður að umræddur tími dags verði ekki felldur undir lögin með öðrum hætti.
    Hvað varðar annan dag hvítasunnu segir umboðsmaður Alþingis að hann sé ótvírætt meðal helgidaga þjóðkirkjunnar og því hafi skemmtanahald ekki verið heimilt þann dag nema með leyfi lögreglustjóra. Gerir umboðsmaður hins vegar athugasemdir við ósamræmi í framkvæmd milli einstakra landshluta og einstakra helgidaga sem eðlilegt sé að hafi samstöðu.
    

II. Almennt.


A.


    Löggjöf um helgidaga og helgidagahald á langa sögu að baki svo sem vikið hefur verið að. Löggjöfin hefur lengstum verið af trúarlegum toga spunnin. Ýmis önnur sjónarmið hafa þó tengst löggjöfinni. Í því efni hafa á síðari árum tengst málefninu vinnuverndarsjónarmið í þeirri viðleitni að tryggja fólki frí frá vinnu á helgidögum. Löggæslusjónarmið tengjast og málinu að því leyti að haga verður löggjöfinni þannig að auðvelt sé að framfylgja henni og tengist það afstöðu almennings til helgidaga og helgidagahalds þar sem ætla má að auðveldara sé að framfylgja reglum er falla almennt að sjónarmiðum almennings. Í þessu verður og að hafa í huga að með löggjöf sem þessari eru atvinnustarfsemi sett takmörk og frjálsræði manna heft.
    Í starfi nefndarinnar er samdi frumvarp þetta var nokkuð rætt um markmið með lagasetningu sem þessari. Voru nefndarmenn sammála um að leitast bæri við að tryggja fólki frið, ró og næði á tilteknum hátíðisdögum. Jafnframt bæri að gera lögin þannig úr garði að hið sama fólk gæti innan vissra takmarka átt þess kost að stunda afþreyingu sem samræmdist helgi þeirra daga er hér um ræðir.
    

B.


    Í gildandi lögum er fjallað um ýmsa starfsemi á helgidögum, svo sem verslunarstarfsemi, skemmtanir og almennar samkomur. Þótti ekki ástæða til að hverfa frá þeirri uppbyggingu löggjafarinnar.
    Á undanförnum árum og áratugum hefur orðið veruleg breyting á þjóðfélagsháttum hér á landi. Í því efni má t.d. nefna rúman opnunartíma verslana, skemmtanahald fer í vaxandi mæli fram í tengslum við helgidaga svo og íþróttakeppnir ýmisskonar. Þessi atriði tengjast öll meira eða minna því sem fyrr var getið um tengsl löggjafarinnar við vinnuverndarsjónarmið. Þessi sjónarmið hafa komið fram í því m.a. að gert hefur verið ráð fyrir að á helgidögum þjóðkirkjunnar hafi fólk almennt frí frá störfum. Með þeim breytingum, sem orðið hafa á þjóðfélagsháttum, hafa til viðbótar vinnuverndarsjónarmiðum komið sjónarmið og kröfur um svigrúm til afþreyingar á þessum frídögum.
    Nokkur umræða hefur einnig skapast um að veitingastaðir séu lokaðir á tilteknum helgidögum þjóðkirkjunnar, einkum um páska og hvítasunnu. Hefur það m.a. verið tengt þeirri viðleitni að markaðssetja Ísland í auknum mæli sem ferðamannaland og þetta verið talið því fjötur um fót. Í lögum nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, og í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga eru skilgreindir frídagar launþega. Eru þessir dagar gjarnan miðaðir við helgidaga þjóðkirkjunnar og ýmsa aðra skilgreinda daga. Hins vegar er heimilt samkvæmt tilvitnuðum lögum að víkja frá ákvæðum þeirra með samningum sem staðfestir eru af hlutaðeigandi heildarsamtökum. Er þess og að geta að samkvæmt gildandi lögum eru ekki hömlur við starfsemi veitinga- eða gististaða á helgidögum þjóðkirkjunnar. Heimildir til áfengisveitinga á nefndum dögum hafa hins vegar verið takmarkaðar samkvæmt reglugerð um sölu og veitingar áfengis og skemmtanahald er bannað samkvæmt gildandi lögum um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Samkvæmt þessu er hins vegar ljóst að helgidagalöggjöfin stendur því ekki í vegi að veitingastarfsemi fari fram á helgidögum þjóðkirkjunnar. Því er hér um að ræða atriði sem aðilar vinnumarkaðarins geta haft áhrif á í samningum sín í milli.
    

C.


    Reglulega fer fram umræða um hvort fækka beri helgidögum eða takmarka helgi þeirra með öðrum hætti.
    Í frumvarpi því er lagt var fram 1988 var lagt til að dregið yrði úr helgidagafriðun án þess að dögunum væri með því fækkað. Í þessu skyni var m.a. lagt til að afnumin yrði friðun laugardags fyrir páska og hvítasunnu.
    Í frumvarpi því er hér liggur fyrir er gengið lengra. Lagt er til að helgidagar verði þeir sömu og mælt var fyrir um í frumvarpinu 1988. Hins vegar er breytt ákvæðum um hvaða athafnir skuli heimilar á helgidögum. Þótti ekki ástæða til að fækka hinum helgu dögum þó að heimil starfsemi á þeim dögum sé nokkuð rýmkuð. Eru þessar breytingar skilgreindar með þeim hætti að á stórhátíðisdögum verði heimiluð starfsemi mjög takmörkuð en á öðrum dögum mjög rúm. Þykir þessi skipan falla að viðhorfum almennings á þessu sviði og koma til móts við kröfur um svigrúm til afþreyingar á helgidögum þjóðkirkjunnar.
    Hins vegar þótti rétt að reisa skorður við þeirri framkvæmd sem komist hefur á í ýmsum umdæmum undanfarin ár að dansleikir hefjist á miðnætti að liðnum föstudeginum langa (aðfaranótt laugardags fyrir páska) og aðfaranótt annars dags jóla. Fyrir þessu eru þau rök að skemmtanahald raskar óhjákvæmilega þeirri helgi, friði og ró sem stefnt er að tiltekna daga með frumvarpi þessu jafnframt því að helgi föstudagsins langa og jóladags verði óhjákvæmilega raskað með samkomuhaldi sem þessu. Er sú leið farin að þessu markmiði að framlengja helgi jóladags og föstudagsins langa til kl. 6.00 næsta dag svo sem greinir í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Felur þetta hins vegar í sér að slíkt samkomuhald mun verða heimilt um hvítasunnu og páska án sérstakra leyfa annarra en lögbundina skemmtanaleyfa, þó eigi lengur en til kl. 3.00.
    

D.


    Í 1. gr. frumvarpsins er skilgreint almennt markmið með lagasetningu þessari. Gætir þar þeirra viðhorfa að markmiðið sé ekki það eitt að tryggja helgi þeirra daga sem eru helgidagar þjóðkirkjunnar heldur og að vernda helgihald og tryggja almenningi frið og ró þessa daga, jafnframt því að veita almenningi svigrúm fyrir afþreyingu innan tiltekinna marka.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru taldir upp helgidagarnir og er þeim skipt í þrjá flokka. Má til einföldunar segja að í 2. og 3. tölul. sé að finna þá daga sem oft eru nefndir stórhátíðisdagar. Er vakin athygli á því að helgi jóladagsins og föstudagsins langa er framlengd til kl. 6.00 að morgni næsta dags svo sem vikið hefur verið að. Er þetta gert í því skyni að skemmtanir hefjist ekki á miðnætti að liðnum þessum dögum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna almenn ákvæði um athafnir og starfsemi sem raskar helgi guðsþjónustu og kirkjuathafna sem slíkra. Í 4. gr. er hins vegar sérgreint ákvæði sem kveður á um athafnir og starfsemi sem andstæðar eru helgidagafriði. Er þar að finna það nýmæli að sérstaklega er tekið fram að öll almenn starfsemi sé heimil á þeim dögum er greinir í 1. tölul. 2. gr. en hins vegar er kveðið á um bann við tilteknum athöfnum á þeim dögum er greinir í 2. og 3. tölul. 2. gr. en undanþágur eru frá því í 5. gr. þar sem leitast er við að koma til móts við menningar- og listastarfsemi og íþrótta- og útivistarstarfsemi. Í 6. gr. er ákvæði sem heimilar lögreglustjóra að víkja frá ákvæðum 5. gr. og í einu tilviki frá ákvæði 4. gr.

E.


    Ákvæði frumvarpsins hafa í för með sér eftirfarandi:
     Helgidagar þar sem mælt er fyrir um fulla friðun: Jóladagur og föstudagurinn langi til kl. 6.00 að morgni næsta dag, páskadagur og hvítasunnudagur, sbr. 2. tölul. 2. gr. og 2. tölul. 4. gr. Þó er heimilað að dansleikir standi aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags, sbr. 5. tölul. 5. gr., en eigi lengur en til kl. 3.00. Lögreglustjóra er heimilt skv. 6. gr. að veita undanþágur vegna einkasamkvæma.
     Friðun frá kl. 18.00: Aðfangadagur jóla, sbr. 3. tölul. 2. gr.
     Frávik frá friðun eru í 5. og 6. gr.
     Helgidagar þar sem ekki er lögboðin friðun: Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 1. tölul. 4. gr.
    

F.


    Bera má saman efni frumvarpsins og gildandi laga með eftirfarandi hætti.
    Helgidagar eru þeir sömu, en þeir eru tilgreindir í frumvarpinu, andstætt því sem nú er.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld verði niður friðun laugardaga fyrir páska og hvítasunnu eftir kl. 18.00, sbr. 2. mgr. 7. gr. gildandi laga. Lagt er til að heimilt verði að dansleikir standi aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags, þó eigi lengur en til kl. 3.00.
    Friðun sunnudaga og annarra helgidaga er greinir í 1. tölul. 2. gr. er felld niður (en samkvæmt frumvarpinu frá 1988 var hún frá kl. 10.00–15.00) en sett eru takmörk varðandi skemmtanir í framhaldi jóladags.
    Ákvæðin um starfsemi þá sem bönnuð er á helgidögum eru sérgreindari í frumvarpinu en samkvæmt gildandi lögum og er lagt til að ýmis frávik verði lögfest í ljósi reynslunnar.
    Ekki eru tekin upp í frumvarpið sérákvæði 1. gr. gildandi laga eða 5. gr. þeirra um sveitarstjórnarfundi o.fl. eða 6. gr. um almenna fundi. Þýðir það í raun að engin takmörk eru á slíkum fundum.
    Aukið er við helgidagafriðun með því að taka fram að friðun föstudagsins langa nái til aðfararnætur laugardagsins fyrir páska.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í grein þessari er skilgreint markmið frumvarpsins ef að lögum verður. Er þar um þau nýmæli að ræða að frumvarpinu er ætlað að vernda helgihald almennt og tryggja almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Er sérstaklega tekið fram að markmiðið sé og að tryggja almenningi frið, ró, næði og afþreyingu þá daga er greinir í 2. gr. Er þess getið að slík afþreying takmarkist af ákvæðum er greinir í frumvarpinu.
    

Um 2. gr.


    Ákvæðið er að mestu með sama hætti og í frumvarpinu frá 1988. Helgidagarnir eru óbreyttir. Gerðar eru orðalagsbreytingar sem ekki hafa efnisleg áhrif á ákvæðið en að auki er helgi föstudagsins langa og jóladags framlengd fram á næsta dag, sbr. 2. tölul.
    Í ákvæðinu felst einvörðungu talning á helgidögunum. Hins vegar ræðst það af öðrum ákvæðum frumvarpsins hvaða starfsemi er heimil á þessum dögum og eftir atvikum innan hvaða tímamarka. Eins og ákvæðið er framsett eru engin tímamörk sett og gildir því bann við tiltekinni starfsemi allan daginn, þ.e. frá kl. 00.00 til kl. 24.00. Frá þessu eru svo undanþágur í 4. og 5. gr. Einnig er lögreglustjóra heimilt að veita tilteknar undanþágur skv. 6. gr.
    Sú leið er farin að framlengja helgidagafrið jóladagsins og föstudagsins langa til kl. 6.00 næsta dag til þess að hindra skemmtanahald í framhaldi þessara daga. Er þetta nýmæli. Þykir sú hefð, sem skapast hefur í ýmsum umdæmum, að heimila skemmtanir (dansleiki, jafnvel með áfengisveitingum) á þessum tíma, ganga gegn þeim markmiðum sem stefnt er að með frumvarpinu. Skemmtanahald hefur óhjákvæmilega áhrif á helgi föstudagsins langa og jóladags og er ástæða til að ætla að undanfari slíkra skemmtana sé ýmiss konar ónæði að kvöldi föstudagsins langa og jóladags. Takmörkun þessi er og í samræmi við ályktun 19. kirkjuþings frá 1988 sem lagði áherslu á að sporna gegn samkomuhaldi eftir miðnætti á jóladag og páskadag. Hins vegar var ákveðið að leggja til að takmörkun þessi næði eingöngu til föstudagsins langa og jóladags. Rökin fyrir þeirri takmörkun eru fyrst og fremst þau að í huga fólks er helgi þessara daga með öðrum hætti en annarra hátíðisdaga, en hafa ber í huga að um páska og hvítasunnu leitar fólk sér í auknum mæli afþreyingar í ýmsum tómstundum og slíkt ber að styrkja frekar en hitt. Því er t.d. ekki lagt til að takmörkun verði á skemmtanahaldi eftir miðnætti páskadags eða hvítasunnudags, sbr. 5. tölul. 5. gr., að öðru leyti en því að lagt er til að skemmtanahald standi eigi lengur en til kl. 3.00. Er slíkt til þess fallið að auka möguleika á að bjóða fólki upp á margvíslega afþreyingu meðan flestir eiga frí frá vinnu.
    Eins og áður er getið er í gildandi lögum ekki að finna ákvæði um það hverjir séu helgidagar þjóðkirkjunnar. Úr þessu er bætt með þeirri upptalningu er greinir í ákvæðinu.
    Þess er og vert að geta að með þeirri skipan, sem lagt er til að tekin verði upp í 2. gr., er felld niður sú friðun sem er samkvæmt gildandi lögum frá kl. 18.00 laugardaginn fyrir páska og hvítasunnu. Felur þetta í sér t.d. að kvikmyndasýningar, verslunarstarfsemi, skemmtanir o.fl. geta farið fram allt til miðnættis þessa daga verði frumvarpið að lögum. Rýmri heimildir eru þó lagðar til að því er varðar skemmtanahald aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags, sbr. 5. tölul. 5. gr.
    

Um 3. gr.


    Í greininni er að finna almennt ákvæði um að óheimilt sé að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru sem andstætt kann að vera helgi viðkomandi athafna. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir því að helgihald almennt njóti þessarar verndar og er hún hvorki bundin við helgidaga þjóðkirkjunnar eða þjóðkirkjuna heldur nýtur athöfnin verndar þótt hún fari fram í öðru trúfélagi eða utan þess friðunartíma sem annars er markaður í frumvarpinu. Er ekki ástæða til að gera greinarmun á trúfélögum í þessu sambandi.
    Er í þessu efni og vakin athygli á 3. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga.
    Í ákvæðinu er lagt bann við að trufla framangreindar trúarathafnir. Sú háttsemi sem hér kemur til getur verið af ýmsum toga. Oftast má ætla að um sé að ræða hávaðasama háttsemi í grennd við kirkju eða samkomuhús sem truflar trúarlega athöfn. Annað kann og að falla hér undir eðli málsins samkvæmt.
    

Um 4. gr.


    Í þessu ákvæði eru settar fram almennar reglur um takmörk á heimilaðri starfsemi á þeim dögum er greinir í 2. gr. Frá þeim takmörkunum er greinir í ákvæðinu eru undantekningar í 5. gr. og 2. mgr. 6. gr.
    Í 1. tölul. er að finna nýmæli. Það er sú breyting frá gildandi lögum, og frá því sem lagt var til í frumvarpinu frá 1988, að öll almenn starfsemi skuli vera heimil á þeim dögum er greinir í 1. tölul. 2. gr. Þetta felur í sér að engin takmörk eru lögð við starfsemi þá daga vegna helgidagafriðar. Þykir slíkt fara gegn ríkjandi viðhorfum almennings og gegn þeim breytingum er orðið hafa á íslenskum þjóðfélagsháttum í þá veru að nýta daga sem þessa í auknum mæli til ýmiss konar afþreyingar, gjarnan í samveru fjölskyldu. Er mikilvægt að stuðla að slíku. Þetta felur m.a. í sér að frumvarpið leggur ekki skorður við skemmtistarfsemi tilgreinda daga, utan aðfaranótt annars dags jóla. Verslunarstarfsemi er almennt heimil. Íþróttastarfsemi, kvikmyndasýningar o.fl. er því heimilt að viðhafa þessa daga. Hafa ber þó í huga að önnur lög, stjórnvaldsfyrirmæli eða kjarasamningar kunna í framkvæmd að setja takmarkanir í þessu efni.
    Í 2. tölul. er að finna takmarkanir á ýmsa starfsemi á þeim dögum er greinir í 2. og 3. tölul. 2. gr. Upptalning sú er greinir í 2. tölul. er almenns eðlis en sú leið er ekki farin, svo sem var gert í frumvarpinu frá 1988, að telja upp einstaka starfsemi sem óheimil er.
    Í a-lið 2. tölul. er lagt bann við skemmtanahaldi á opinberum veitingastöðum eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, svo og einkasamkvæmum. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.
    Með opinberu skemmtanahaldi og sýningum er átt við að aðgangur að slíkum skemmtunum eða sýningum sé frjáls fyrir almenning eða óákveðinn hóp manna eða fyrir félagsmenn og boðsgesti þeirra þegar félag, samtök manna eða stofnun gengst fyrir skemmtun eða sýningu sem hænir að mannsöfnuð án tillits til þess hvort aðgangur er án endurgjalds eður ei eða hvort samkoma eða sýning er utan eða innan dyra. Með skemmtun í þessu samhengi er m.a. átt við dansleiki, hljómleika eða aðrar sams konar skemmtanir.
    Í ákvæðinu er einnig lagt bann við einkasamkvæmum á nefndum stöðum. Er bann þetta lagt til með það að markmiði að koma í veg fyrir að skemmtunum sé haldið uppi á þessum stöðum í skjóli þess að um einkasamkvæmi sé að ræða. Mun þetta auðvelda til muna alla framkvæmd laganna. Hins vegar er lagt til í 2. mgr. 6. gr. að lögreglustjóra verði heimilt að víkja frá banni við einkasamkvæmum í sérstökum tilvikum.
    Í ákvæðinu er og lagt til bann við opinberu skemmtanahaldi tilgreinda daga þar sem fram fer tiltekin spilastarfsemi. Ákvæði þetta er í samræmi við frumvarpið frá 1988 að öðru leyti en því að bannið er bundið við opinberar skemmtanir af þessu tagi en samkvæmt eldra frumvarpi gat bannið einnig náð til samkoma á einkaheimilum manna. Þykja rök ekki standa til þess að grípa inni í einkalíf almennings með þeim hætti á grundvelli friðunar helgidaga. Það bann sem í ákvæðinu greinir er ekki bundið við tiltekna staðsetningu heldur gildir það hvort heldur skemmtun er haldin í veitingahúsi eða öðru samkomuhúsi. Samkvæmt orðanna hljóðan er bannið bundið við skemmtun þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Felur þetta í sér ætlan um að með ákvæðinu sé reynt að takmarka spilastarfsemi þar sem spilað er um fjármuni með einum eða öðrum hætti. Með þessu er leitast við að leggja ekki höft á ýmsa starfsemi sem fram fer á tilgreindum dögum, svo sem bridsmót, skákmót eða slíka starfsemi. Með þessu ákvæði er ekki ætlunin að leggja höft á notkun spilakassa á þeim stöðum sem opnir eru greinda daga.
    Í ákvæðinu er lagt bann við opinberum sýningum nefnda daga. Gildir það bann um allar sýningar en í 5. gr. er mælt fyrir um undanþágur frá því og innan marka 5. gr. er hægt að veita frekari undanþágur á grundvelli 6. gr.
    Ákvæði a-liðar 2. tölul. tekur til skemmtana og sýninga á þeim dögum er greinir í 2. og 3. tölul. 2. gr. Felur þetta í sér það nýmæli að skemmtanahald verður óheimilt á tímabilinu 00.00 til kl. 6.00 aðfaranótt annars dags jóla og laugardags fyrir páska. Í athugasemdum við 2. gr. var nánar vikið að þessu.
    Rétt er að benda á að þessi ákvæði leggja ekki frekar en verið hefur takmarkanir á heimildir veitingastaða til að stunda veitingastarfsemi þessa daga. Ákvæðið nær eingöngu til skemmtanahalds. Þannig geta veitingastaðir, þar með talin hótel, verið opnir þessa daga. Hafa ber þó í huga að á grundvelli áfengislaga eru takmarkanir á áfengisveitingum á þeim dögum er hér greinir.
    Í b-lið 2. tölul. er lagt bann við markaðsstarfsemi, verslunarstarfsemi og annarri viðskiptastarfsemi á tilgreindum dögum. Hér er lagt til að öll almenn verslunar- og viðskiptastarfsemi verði óheimil nefnda daga. Í því felst að starfsemi almennra verslana, peningastofnana o.s.frv. er óheimil. Vakin er athygli á þeim undanþágum sem heimilar eru frá þessu í 5. gr. frumvarpsins.
    

Um 5. gr.


    Grein þessi felur í sér nánari afmörkun á starfsemi sem 4. gr. spornar almennt við en í ákvæðinu er mælt fyrir um ýmsar undantekningar frá takmörkunum 4. gr. Markmiðið með þeim undantekningum er greinir í ákvæðinu er að stuðla að því að ýmiss konar afþreying verði möguleg fyrir almenning á þeim dögum er greinir í 2. tölul. 2. gr., enda sé um að ræða starfsemi sem almennt má ætla að falli að helgidagafriði. Jafnframt er markmið með ákvæðinu að leitast við að helgidagafriður komi ekki í veg fyrir ýmsa starfsemi sem nauðsynleg er fyrir ferðamenn.
    Þeim undanþágum er greinir í ákvæðinu má í grófum dráttum skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða almennar og ótímabundnar undanþágur frá banni 4. gr. við starfsemi á þeim dögum er greinir í 2. tölul. 2. gr., þ.e. að undanþágurnar gilda allan daginn. Í þennan flokk falla lyfjabúðir, bensínstöðvar, verslanir á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, verslanir með neyðarbúnað, blómaverslanir, söluturnar og myndbandaleigur, auk íþrótta- og útivistarstarfsemi. Hins vegar er um að ræða undanþágur er varða starfsemi sem heimil verður eftir kl. 15.00 tilgreinda daga, en í þann flokk fellur ýmiss konar lista- og vísindastarfsemi. Tímasetningu í þessu sambandi er ætlað að stuðla að því að umrædd starfsemi rekist ekki á við almennt helgihald.
    Í 1. tölul. er að finna nýmæli. Í frumvarpi því er lagt var fram 1988 var gert ráð fyrir að almennt væru lyfjabúðir og bensínsölur undanþegnar banni en ýmis önnur verslunarstarfsemi einungis á tilteknum dögum. Öll verslunarstarfsemi er heimil á þeim dögum er greinir í 1. tölul. 2. gr. Hér er lagt til að lyfjabúðir og önnur nánar tilgreind verslunar- og þjónustustarfsemi verði alfarið undanþegin takmörkunum b-liðar 2. tölul. 4. gr. Með þessu ákvæði er m.a. leitast við að koma til móts við það sjónarmið að unnt verði að bjóða ferðamönnum ýmsa nauðsynlega þjónustu án tillits til helgidagafriðar. Þetta þýðir m.a. að veitingastarfsemi verður heimil á þessum dögum (svo sem reyndar hefur verið), þjónustustarfsemi við ferðamannastaði, bensínsölur o.s.frv. Markmiðið er eingöngu að þjónustuaðilum verði gert mögulegt að sinna ýmissi grunnþjónustu, þar með talið við ferðamenn, á þessum hátíðardögum. Ákvæðinu verður ekki beitt til að hafa almennar verslanir og þjónustustarfsemi opna þessa daga, svo sem matvöruverslanir, fataverslanir o.s.frv. Heimill starfstími allrar þessarar þjónustu ræðst á þessum dögum af almennum reglum er um opnunartímann gilda. Með því að telja nákvæmlega upp þá starfsemi sem er undanþegin banni 4. gr. er leitast við að auðvelda framkvæmd laganna. Með því verður ljósar en ella hvað heimilt er og hvað ekki. Rétt er að víkja sérstaklega að söluturnum og myndbandaleigum. Ástæða þess að slík starfsemi er undanþegin banni 4. gr. er sú að með því að undanþiggja bensínstöðvar banni 4. gr. er heimilað að bensínstöðvar verði almennt opnar tilgreinda daga. Þær eru í eðli sínu söluturnar þar sem margvíslegar aðrar vörur en olíuvörur eru seldar. Er eðlilegt að starfsemi annarra söluturna sitji við sama borð og megi hafa opið þessa daga. Jafnframt er þá nauðsynlegt að heimila að myndbandaleigur megi vera opnar þar sem slík starfsemi er nánast undantekningalaust rekin í blönduðum rekstri með söluturnum. Það að leggja bann við starfsemi myndbandaleiga en heimila opnun söluturna mundi leiða til mikilla erfiðleika í framkvæmd.
    Í 2. tölul. er að finna nýmæli frá því sem var í frumvarpinu frá 1988 en þar var gert ráð fyrir að íþróttastarfsemi væri bundin við þá daga er greinir í 1. tölul. 2. gr. ef slíkt væri nauðsynlegt, svo og páskadag og hvítasunnudag eftir kl. 15.00. Undanþágan tók þó ekki til keppni vélknúinna farartækja, þar með talinna loftfara, veðreiðakeppni og íþróttakeppni eða íþróttamóta atvinnumanna. Um er að ræða almenna undanþágu fyrir íþrótta- og útivistarstarfsemi, þ.e. hún er ekki bundin við tiltekinn tíma dagsins. Þykir ekki ástæða til að setja takmörk við því á hvaða tíma dagsins íþrótta- og útivistarstarfsemi fer fram. Samræmist það best því markmiði að almenningi standi til boða afþreying á þeim dögum er frumvarpið nær til. Verður almennt að líta svo á að íþróttastarfsemi sé af hinu góða sem ekki beri að leggja hömlur við. Jafnframt er í þessu efni tekið tillit til þess að í auknum mæli fer fram ýmiss konar skipulögð íþrótta- og útivistarstarfsemi á þeim dögum er hér um ræðir. Má í því efni nefna skipulögð skíðamót. Í þessu efni eru ekki settar takmarkanir á íþróttagreinar og tekur undanþágan því til akstursíþrótta, íþróttamóta atvinnumanna o.s.frv. Hins vegar verður ekki stunduð veðmálastarfsemi í skjóli þessarar undanþágu.
    Í 3. tölul. er að finna ákvæði er einnig var í frumvarpinu frá 1988 að öðru leyti en því að undanþágu er eingöngu þörf að því er varðar þá daga er greinir í 2. og 3. tölul. 2. gr., frá kl. 15.00. Það að undanþiggja sýningar með listrænu og fræðandi efni frá almennu banni 4. gr. byggist á því viðhorfi er áður greinir að stuðla beri að því að almenningur geti tilgreinda daga sótt tiltekna afþreyingu sem fellur að þeim friði og ró sem stefnt er að þessa daga. Þykja listsýningar, vísindasýningar, listasöfn og bókasöfn falla almennt undir þetta atriði. Rétt er og að taka fram að ýmis starfsemi, er tengist þeirri starfsemi sem hér er undanþegin, mundi einnig vera heimil, svo sem veitingastarfsemi og sölustarfsemi. Með listsýningum er átt við sýningar á hvers konar myndlist, hvort heldur er um að ræða málverk, teikningar, höggmyndir, grafík, gjörninga, ljósmyndir o.s.frv. Hvað varðar vísindasýningar og sýningar sem ætlað er að gegna almennu upplýsingahlutverki er m.a. átt við sýningar á vísindatækjum, vísindalegum vinnubrögðum, handritasýningar, sýningu vísindarita o.s.frv., svo og sýningar er varða nýjungar í mannvirkjagerð, tölvutækni, ferðamannaþjónustu o.s.frv. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið og til leiksýninga, ballettsýninga o.s.frv. Hins vegar eru kvikmyndasýningar ekki heimilar samkvæmt ákvæðinu.
    Í 3. tölul. er og að finna undanþágu að því er varðar samkomur er hafa sígilt listrænt gildi og samrýmast helgidagafriði, enda séu þær haldnar eftir kl. 15.00. Undir þetta ákvæði falla ýmsar listrænar samkomur, svo sem listahátíðir, bókmenntakynningar, listkynningar o.s.frv. Undir ákvæðið falla og tónlistarsamkomur sem hafa sígilt og listrænt gildi og samræmast helgidagafriði. Sú takmörkun sem í þessu felst felur m.a. í sér að „popptónleikar“ mundu óheimilir þessa daga en tónleikar með sígildri tónlist, kirkjutónlist, kórtónlist o.s.frv. eru heimilir. Þykir takmörkun sem þessi samræmast best þeim friði sem stefnt er að tilgreinda daga.
    Í 4. tölul. er gert ráð fyrir að heimilt verði að dansleikir standi yfir aðfaranótt páskadags og hvítasunnudags samkvæmt almennum reglum, þó eigi lengur en til kl. 3.00. Felur það í sér að almennar reglur um opnunartíma skemmtistaða gilda að þessu leyti. Rökin að baki þessu eru þau sem áður getur, þ.e. að ekki beri að standa í vegi fyrir afþreyingu fólks þessa daga. Hafa ber í huga að í auknum mæli fara fram skipulagðar samkomur á þessum árstíma, einkum hvítasunnu, sem oft tengjast útivist og útiveru. Er undanþágu sem þessari ætlað að koma til móts við slíka starfsemi. Með því að láta undanþáguna ná bæði til páskadags og hvítasunnudags er leitast við að gæta samræmis á milli þessara hátíða. Rétt þótti hins vegar að setja tiltekin tímamörk í þessu efni.
    

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er að finna heimild fyrir lögreglustjóra, þegar sérstakar ástæður mæla með, að leyfa samkomur, sýningar eða svipaða starfsemi og greinir í 5. gr. á þeim tíma er helgidagafriður skv. 5. gr. á að ríkja. Ákvæðið þykir nauðsynlegt til að möguleikar verði fyrir hendi til að leysa ýmis vandmál er upp kunna að koma og ekki eru fyrirséð. Hins vegar þykir nauðsynlegt að takmarka þessa undanþáguheimild svo sem unnt er til að tryggja að sem best samræmi náist á milli umdæma í þessum efnum, en reynsla sýnir m.a. að rúm undanþáguheimild samræmist ekki því markmiði sem stefnt er að með lögum sem þessum.
    Ákvæðið felur í sér að þær undanþágur er lögreglustjóri getur heimilað snúa eingöngu að 5. gr. Það þýðir t.d. að lögreglustjóri getur vikið frá þeim tímamörkum sem sett eru í 5. gr. en hann getur hins vegar ekki heimilað að skemmtun sem annars er bönnuð skv. 4. gr. verði haldin, utan einkasamkvæma sem hann hefur heimild til að leyfa skv. 2. mgr. ákvæðisins. Rökin að baki þeirri sérstöku undanþáguheimild eru að nauðsynlegt þykir að leggja bann við einkasamkvæmum á opinberum veitingastöðum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að til að tryggja að ekki verði haldið uppi skemmtanahaldi andstætt lögunum í skjóli einkasamkvæma. Hins vegar er nauðsynlegt að tryggja að við sérstakar aðstæður væri unnt að heimila einkasamkvæmi á þessum stöðum á nefndum dögum. Má í því efni nefna afmæli, brúðkaup og jólaskemmtanir.
    

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er annars vegar kveðið á um refsingu fyrir brot gegn ákvæðum frumvarpsins ef að lögum verður og hins vegar um leyfissviptingu ef brotið er gegn ákvæðum frumvarpsins, en það er nýmæli frá gildandi lögum og frumvarpinu frá 1988.
    Ekki er talin ástæða til að kveða á um þyngri refsingar en sektir og gildir hér því ákvæði 50. gr. almennra hegningarlaga.
    Rétt þykir að kveða á um það í lögum að heimilt sé að svipta handhafa opinbers leyfis því ef brotið er ítrekað gegn lögunum. Getur sviptingin ýmist verið tímabundin eða fyrir fullt og allt. Í þessu felst t.d. að ef handhafi áfengisveitingaleyfis brýtur gegn ákvæðum frumvarpsins verður heimilt að svipta hann leyfinu sé brot hans ítrekað. Er ákvörðun í því efni í höndum lögreglustjóra.
    

Um 8. gr.


    Rétt þykir að hafa í lögum almenna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd laganna.
    

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.
    
    

Samanburður á gildandi lögum og frumvarpinu.




(Tafla mynduð.)





Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

    

Umsögn um frumvarp til laga um helgidagafrið.


    Frumvarpið er samið af nefnd sem falið var að endurskoða lög nr. 45/1926, um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Frumvarpið felur í sér rýmkun á heimildum til ýmiss konar starfsemi á helgidögum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.