Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 317 . mál.


559. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um landflutningasjóð, nr. 62/1979, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk landflutningasjóðs er að stuðla að uppbyggingu og framþróun í vöruflutningum á landi. Í þeim tilgangi skulu veittir styrkir til verkefna sem lúta að fræðslu um flutningastarfsemi, svo sem rekstur flutningafyrirtækja, vörumeðferð, neytendavernd og markaðsmál.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn, þar af einn eftir tilnefningu Landvara, félags íslenskra vöruflytjenda. Formaður sjóðstjórnar skal vera annar þeirra sem skipaður er án tilnefningar.
    2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn landflutningasjóðs tekur ákvörðun um hvernig hagað skuli vörslu og umsjón sjóðsins. Endurskoðun ársreikninga landflutningasjóðs annast Ríkisendurskoðun.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Rétt til styrkja úr sjóðnum eiga þeir einir sem eru fullgildir félagar í Landvara, félagi íslenskra vöruflytjenda, samtök þeirra eða verkefni á þeirra vegum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Frá 1. júní 1996 fellur úr gildi skipunartími núverandi stjórnar landflutningasjóðs og skal ný stjórn skipuð frá sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Landflutningasjóður var stofnaður með lögum nr. 62/1979. Aðdragandi stofnunar hans var nokkur ár. Alþingi samþykkti árið 1975 þingsályktun um „stofnlánasjóð vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla“ og hafði Landvari, landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, átt frumkvæði að því að tillagan var flutt. Samgönguráðherra skipaði nefnd er samdi frumvarp um sjóðinn. Í fyrstu var gert ráð fyrir í frumvarpinu að fleiri ættu aðild að sjóðnum, þ.e. einnig eigendur vinnuvéla og sérleyfis- og hópferðabíla. Eftir athuganir þingnefndar kom í ljós að einungis Landvaramenn höfðu hug á að taka þátt í sjóðnum. Þegar undirbúningur hafði staðið í fjögur til fimm ár var frumvarp í breyttu formi samþykkt sem lög frá Alþingi 31. maí 1979.
    Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að allt frumkvæði að stofnun og tilurð sjóðsins hafi komið frá Landvara. Þeir greiddu síðan samkvæmt lögunum 1% gjald (tekið af aðstöðugjaldsstofni frá tekjuárinu 1980 að telja) til sjóðsins til 1984. Þá var lögunum breytt, enn að frumkvæði Landvara, þannig að 1% gjaldið var fellt niður, enda hafði ríkissjóður ekki staðið við að greiða sitt mótframlag sem lögin gerðu ráð fyrir að yrði jafnhátt og gjald Landvaramanna.
    Höfuðstóll Landflutningasjóðs er því myndaður annars vegar með 1% gjaldi félaga í Landvara, hins vegar með tekjum af starfsemi sjóðsins. Ljóst er af öllum gögnum málsins sem og af texta laganna að engir aðrir en félagar í Landvara hafa myndað eign sjóðsins. Eigið fé sjóðsins nam í árslok 1993 15.210.336 kr. Varsla sjóðsins er í höndum Byggðastofnunar samkvæmt samningi sem undirritaður var 3. febrúar 1994.
    Í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna frá 1979, um tekjur sjóðsins, segir: „1% gjald er innheimt af starfsemi þeirra aðila sem eiga og reka bifreiðar til skipulagsbundinna vöruflutninga um landið, enda séu þeir fullgildir meðlimir í Landvara.“ Með lögum nr. 54/1984 var ákvæðum 4. gr. laganna um tekjur sjóðsins breytt. Þá var um leið tekið tillit til þess að einungis félagar í Landvara höfðu greitt til sjóðsins með ákvæði 2. gr. sem er svohljóðandi: „2. mgr. 5. gr. orðist svo: Rétt til lána úr sjóðnum eiga þeir einir sem eru fullgildir félagar í Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum.“ Þegar innheimta gjaldsins í sjóðinn hófst 1981 fór hún fram samkvæmt félagatali Landvara og æ síðan á meðan gjaldið var innheimt og er það staðfest með bréfum milli ráðuneytisins og ríkisskattstjóra.
    Landvari hefur farið þess á leit við ráðuneytið að Landflutningasjóður verði lagður niður og eignir hans afhentar Landvara. Ljóst er að ógerlegt er að endurgreiða gjaldið þeim sem upphaflega inntu það af hendi. Einstaklingar hafa látist og fyrirtæki hætt starfsemi. Því verður að leita annarra leiða við ráðstöfun sjóðsins. Hér er valin sú leið að sjóðurinn starfi áfram undir yfirstjórn samgönguráðherra og að sjóðurinn fá nýtt hlutverk til að styrkja stöðu atvinnugreinarinnar. Samgönguráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins og þar skal einn tilnefndur af Landvara.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk sjóðsins og til hverra verkefna sjóðurinn skuli veita styrki.

Um 2. gr.


    Áfram er gert ráð fyrir að þrír menn skipi stjórn sjóðsins. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að auk Landvara tilnefni Framkvæmdastofnun ríkisins, nú Byggðastofnun, einn fulltrúa í sjóðstjórn. Hér er lagt er til að samgönguráðherra skipi tvo menn í sjóðinn án tilnefningar og að Landvari tilnefni einn fulltrúa.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að stjórn sjóðsins taki á hverjum tíma ákvörðun um hver hafi með höndum vörslu og umsjón sjóðsins og að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun ársreikninga sjóðsins í samræmi við reglur þar um. Varsla sjóðsins er nú í höndum Byggðastofnunar samkvæmt samningi sem undirritaður var 3. febrúar 1994.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Miðað er við, verði frumvarpið að lögum, að þau taki gildi 1. júní nk. og að frá þeim tíma verði skipuð ný sjóðstjórn.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um


landflutningasjóð, nr. 62/1979, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er lagt til að landflutningasjóður fái nýtt hlutverk, þ.e. að stuðla að uppbyggingu og framþróun í vöruflutningum á landi. Í þessu sambandi skal sjóðurinn beita sér fyrir því að styrkja fullgilda félaga í Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, í samræmi við hlutverk sjóðsins. Samkvæmt núgildandi lögum er hlutverk sjóðsins að veita stofnlán til kaupa á vöruflutingabifreiðum er eiga að annast vöruflutninga á langleiðum og fyrir dreifbýli og til nauðsynlegra bygginga sem eru beinum tengslum við slíka flutningastarfsemi.
    Eigið fé landflutningasjóðs, sem myndað er annars vegar með 1% gjaldi af stofni aðstöðugjalds félaga í Landvara og hins vegar með tekjum af starfsemi sjóðsins, var í árslok 1993 rúmar 15 m.kr.
    Ekki verður séð að löggilding frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.