Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 323 . mál.


570. Frumvarp til laga



um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



I. KAFLI


Til hverra lög þessi taka.


1. gr.


    Lög þessi taka til hvers kennara og skólastjórnanda við grunnskóla í þjónustu sveitarfélaga á föstum launum meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf.
    Nú verður ágreiningur um það hvort kennari eða skólastjóri skuli sæta ákvæðum laga þessara og sker þá menntamálaráðherra úr. Ef starfsmaður vill eigi hlíta úrskurði ráðherra getur hann borið málið undir dómstóla og skal þá höfða mál á hendur menntamálaráðherra.

II. KAFLI


Um veitingu starfa.


2. gr.


    Um ráðningu og skipun skólastjórnenda og kennara við grunnskóla fer eftir ákvæðum grunnskólalaga og ákvæði laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Ráðningarsamningar skulu vera skriflegir. Þeir skulu gerðir á samræmd eyðublöð sem Samband íslenskra sveitarfélaga lætur í té. Tekið skal fram hvort um er ræða skipun eða ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Starfsmaður á rétt á að fá í hendur afrit af fullgildum ráðningarsamningi sínum.

3. gr.


    Almenn skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í kennara- eða skólastjórnendastöðu við grunnskóla eru þessi:
    21 árs aldur.
    Lögræði.
    Nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna starfanum.
    Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó getur sveitarstjórn heimilað að ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins verði ráðnir til starfa með sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar. Einnig má víkja frá þessu ákvæði ef telja má sérstaklega eftirsóknarvert að fá erlendan ríkisborgara til að gegna starfi til bráðabirgða.
    Leyfisbréf menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla samkvæmt ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Fjárforræði, ef stöðu fylgja fjárreiður.
    Nú hefur umsækjandi um starf hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga, og telst hann þá ekki fullnægja starfsskilyrðum.
    Konur og karlar hafa jafnan rétt til að fá ráðningu eða skipun í kennara- eða skólastjórnendastörf við grunnskóla og til sömu launa fyrir sömu störf.

4. gr.


    Nú er starfsmaður skipaður í stöðu og ber þá að líta svo á að hann skuli gegna stöðunni þar til eitthvert eftirgreindra atriða kemur til:
    að hann brýtur af sér í starfinu, svo að honum beri að víkja úr því,
    að hann fullnægir ekki skilyrðum 3. gr. laga þessara,
    að hann fær lausn samkvæmt eigin beiðni,
    að hann hefur náð hámarksaldri, sbr. 13. gr.,
    að hann flyst í aðra stöðu, sem veitir hliðstæð réttindi hjá sveitarfélagi,
    að staðan er lögð niður, sbr. 14. gr.

5. gr.


    Lausa stöðu skal auglýsa í Lögbirtingarblaði, venjulega með fjögurra vikna fyrirvara. Heimilt er að taka til greina umsóknir sem berast eftir að liðinn er umsóknarfrestur, enda hafi staðan ekki þegar verið veitt eða maður í hana ráðinn eftir að frestur var liðinn.
    Veita skal umsækjendum og stéttarfélögum kennara og skólastjórnenda sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna kost á að fá vitneskju um það hverjir sótt hafa.

6. gr.


    Sveitarfélög skulu setja starfsmönnum erindisbréf. Samband íslenskra sveitarfélaga skal láta semja fyrirmynd að erindisbréfum fyrir starfsmenn.

III. KAFLI


Um lausn úr stöðu.


7. gr.


    Sveitarstjórn veitir starfsmanni lausn frá stöðu um stundarsakir. Skólastjóri getur þó veitt starfsmanni lausn um stundarsakir, þótt hann hafi ekki veitt stöðuna, ef bið þykir hættuleg, en tilkynna skal sveitarstjórn tafarlaust þá ráðstöfun með skýringu á málavöxtum, enda tekur hún fullnaðarákvörðun um lausnarveitinguna.
    Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.
    Nú hefur starfsmaður fjárreiður eða bókhald með höndum og má þá veita honum lausn um stundarsakir án áminningar ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Sama er ef hann er grunaður eða sannur orðinn að háttsemi er varða kynni sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga eða heilsu hans er svo farið að eigi þyki gerlegt að láta hann gegna starfa lengur.
    Lausn um stundarsakir skal jafnan vera skrifleg með tilgreindum ástæðum.

8. gr.


    Nú hefur starfsmanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og skal þá þegar mál hans rannsakað af kunnáttumönnum eða að hætti opinberra mála, ef ástæða þykir til, svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann aftur taka við starfi sínu.
    Úrslit um stöðuna skulu ráðin strax og lokaniðurstöður rannsóknar eru kunnar.

9. gr.


    Meðan lausn um stundarsakir stendur nýtur starfsmaður hálfra fastra launa þeirra sem stöðu hans fylgja. Embættishúsnæði og jarðnæði, ef um er að ræða, heldur hann, enda komi þau fríðindi til reiknings samkvæmt mati í þeim launum er hann fær.
    Nú fellur niður lausn um stundarsakir og skal starfsmaður þá fá greiddan þann helming hinna föstu launa er hann hefur verið sviptur.
    Nú tekur sá sem lausn hefur fengið um stundarsakir aftur við starfa sínum og skal þá líta svo á um starfsaldur sem hann hafi gegnt starfanum óslitið.

10. gr.


    Sveitarstjórn veitir starfsmanni lausn úr stöðu. Lausn skal veita skriflega og jafnan greindar orsakir, svo sem vegna umsóknar, heilsubrests, tiltekinna ávirðinga o.s.frv.
    Í lausnarbréfi skal jafnan kveðið á um það frá hvaða degi starfsmaður skuli lausn taka og með hvaða kjörum, svo sem um eftirlaun, sé um þau að ræða, lífeyri, hvenær hann skuli sleppa íbúð, jarðnæði o.s.frv., eftir því sem við á.

11. gr.


    Jafnan skal starfsmanni sem víkja skal úr stöðu veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin, ef þess er kostur.
    Rétt er þeim er vikið er úr stöðu að bera málið undir úrlausn dómstóla. Stefna skal sveitarsjóði fyrir hönd sveitarfélags.
    Nú er stöðumissir dæmdur óréttmætur og fer þá um bætur til aðila eftir ákvörðun dómstóla nema hlutaðeigendur hafi komið sér saman um annað. Þegar bætur eru metnar skal hafa til hliðsjónar ástæður starfsmanns, svo sem aldur og atvinnumöguleika, svo og fram komnar málsbætur sveitarstjórnar.

12. gr.


    Starfsmanni skal víkja úr stöðu að fullu ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna stöðu þeirri. Nú hefur hann verið sviptur þeim rétti með dómi í héraði og skal þá í þeim dómi kveða á um það hvort það ákvæði hans skuli þegar koma til framkvæmdar eða fresta því þar til ráðið verður hvort honum skuli skjóta til æðra dóms eða þar til úrlausn æðra dóms er fengin.

13. gr.


    Starfsmanni skal veita lausn þegar hann er fullra 70 ára að aldri.
    Heimilt er þó starfsmanni að láta af störfum með rétti til eftirlauna og/eða lífeyris hvenær sem er eftir að hann er orðinn 65 ára eða fyrr ef hann hefur unnið sér þann rétt samkvæmt öðrum lögum.

14. gr.


    Nú er staða lögð niður og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í sex mánuði frá því að hann lét af starfi ef hann hefur verið í þjónustu sveitarfélaga skemur en 15 ár, en í tólf mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélögum.
    Ef sama staða er aftur stofnuð innan fimm ára á starfsmaður að öðru jöfnu rétt til hennar.
    Nú hefur maður verið leystur frá starfi vegna þeirra orsaka sem um getur í grein þessari eða annarra atvika sem honum verður ekki sök á gefin og skal hann þá í fimm næstu ár að öðru jöfnu sitja fyrir um starf í þjónustu sveitarfélaga, er losna kann, ef hann sækir um það.
    Starfsaldur hans áður og eftir skal þá saman lagður og veitir þá sömu réttindi sem óslitin þjónusta.
    Nú tekur maður, er launagreiðslna nýtur skv. 1. mgr., við starfi í þjónustu sveitarfélaga áður en liðinn er sex eða tólf mánaða tíminn og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrri stöðunni. Ef launin í nýju stöðunni eru lægri skal greiða starfsmanni launamismuninn til loka sex eða tólf mánaða tímabilsins.

15. gr.


    Nú vill starfsmaður beiðast lausnar og skal hann þá gera það skriflega og með þriggja mánaða fyrirvara, nema ófyrirsjáanleg atvik hafi gert hann ófæran til að gegna stöðu sinni eða sveitarstjórn samþykki skemmri frest. Skylt er að veita lausn ef hennar er löglega beiðst. Þó er óskylt að veita starfsmönnum lausn frá þeim tíma sem beiðst er ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti í sömu starfsgrein að til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa ef beiðni hvers um sig væri veitt. Getur sveitarstjórn þá áskilið lengri uppsagnarfrest, allt að sex mánuðum.
    Ákvæði ráðningarsamnings, sem gerður hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, eða sérákvæði í lögum, er öðruvísi kveða á, skulu standa.

IV. KAFLI


Um orlof.


16. gr.


    Um orlof starfsmanna skal fara eftir ákvæðum kjarasamninga og laga um orlof.

17. gr.


    Skylt er starfsmanni að taka orlof ef yfirmaður hans skipar svo.
    Haldast skulu sérreglur í lögum og ráðningarsamningum um orlof tiltekinna starfsmanna, sbr. 15. gr. Þó sé það aldrei skemmra en lágmark það sem ákveðið er í orlofslögum og kjarasamningum.

V. KAFLI


Um launagreiðslur og hlunnindi.


18. gr.


    Starfsmenn taka laun samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum, sbr. 24. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Starfsmönnum er skylt að hlíta breytingum á launakjörum sínum samkvæmt lögum eða samþykktum, staðfestum af hlutaðeigandi sveitarstjórn, þar sem heimild er til slíks að lögum, enda standi ráðningarsamningur því eigi í gegn.

19. gr.


    Þegar laun fara stighækkandi eftir starfsaldri skal svo fara sem hér segir:
    Nú fær starfsmaður launahærri stöðu en hann hafði áður og tekur hann þá lægstu laun í hinni nýju stöðu ef þau eru hærri en hæstu laun í hinni fyrri. En ef byrjunarlaun í nýju stöðunni eru jöfn eða lægri en þau er hann hafði þá í hinni fyrri tekur hann næstu laun fyrir ofan þau er hann hafði þar. Starfsaldur til launahækkunar í nýju stöðunni telst frá því er hann fékk skipun eða setningu í hana.
    Nú tekur starfsmaður við sams konar stöðu og hann hafði áður og telst starfsaldur hans þá frá skipun eða ráðningu í hina eldri stöðuna.
    Nú tekur starfsmaður verr launaða stöðu í sömu starfsgrein en hann hafði áður og fær hann þá laun í nýju stöðunni sem næst eru þeim launum eða hærri en þau laun er hann hafði í fyrri stöðunni. Ef hann tekur stöðu í annarri starfsgrein þá fær hann hæstu laun þar ef þau eru lægri eða jafnhá þeim er hann hafði. En ef þau eru hærri þá tekur hann þau er hann hafði í eldri stöðunni.
    Nú tekur starfsmaður við stöðu aftur sem hann hafði farið úr og er þá rétt að telja saman allan starfstímann.

20. gr.


    Föst laun greiðast fyrir fram mánaðarlega fyrsta starfsdag hvers mánaðar. Greidd laun eru óafturkræf, þótt starfsmaður andist eða verði leystur frá starfa áður en mánuður er liðinn.
    Nú tekur maður við starfa eftir fyrsta dag mánaðar og fær hann þá laun í réttu hlutfalli við tölu þeirra daga sem eftir eru af þeim mánuði.

21. gr.


    Nú er starfsmaður leystur frá starfa vegna vanheilsu eða slysa, sem honum verður ekki með skynsamlegu mati gefin sök á, og ber þá að greiða honum þau föstu laun er stöðu hans fylgja í þrjá mánuði.
    Nú tekur maður sem látið hefur af starfi vegna vanheilsu aftur við starfi í starfsgrein og skal þá starfsaldur hans áður og eftir lagður saman og veitir þá sama rétt og óslitin þjónusta.
    Um greiðslu til maka látins starfsmanns fer eftir ákvæðum 1. mgr.

22. gr.


    Þegar einhver hluti launa er greiddur í fríðu, svo sem jarðarafnotum, húsnæði, ljósi, hita, fæði og öðru, skulu þessi hlunnindi metin árlega af ríkisskattstjóra og matsverðið dregið frá heildarlaununum.

23. gr.


    Starfsmanni er óheimilt að gefa út ávísanir á laun sem ekki eru í gjalddaga komin nema sveitarstjórn veiti til þess samþykki sitt hverju sinni. Sú heimild má þó ekki fara fram úr fjórðungi árslauna. Enginn vinnur rétt samkvæmt slíkri ávísun, nema samþykki sé fengið.

24. gr.


    Nú þykir hlýða að dómi sveitarstjórnar að starfsmaður beri einkennisbúning eða einkennismerki önnur í starfi sínu og ber sveitarsjóði að leggja hann eða þau merki til starfsmanni að kostnaðarlausu eftir þeim reglum sem sveitarstjórn setur.

25. gr.


    Starfsmenn er veita heimili forstöðu eiga rétt til þess að vinna tvo þriðju hluta ákveðins vinnutíma gegn samsvarandi frádrætti í launum, enda megi slíkt verða að skaðlausu.
    Samsvarandi ívilnun má og öðrum veita er sérstaklega er farið, svo sem vegna heilsuveilu.

26. gr.


    Nú gegnir starfsmaður samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar jafnhliða sínum starfa öðrum starfa og fær hann þá hálf þau föstu byrjunarlaun er þeim starfa fylgja og aukatekjur allar. Ef slíkum starfa er skipt milli tveggja eða fleiri starfsmanna kveður sveitarstjórn á um þóknun hvers þeirra með hliðsjón af vinnu og aðstöðu að öðru leyti.

27. gr.


    Sveitarstjórn ákveður í samþykktum sínum daglegan vinnutíma starfsmanna, svo og þóknun fyrir verk sem unnin eru utan þess tíma.

VI. KAFLI


Skyldur starfsmanna.


28. gr.


    Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein sem hann vinnur við.

29. gr.


    Skylt er starfsmanni að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt.
    Þrátt fyrir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er skólastjórum og staðgenglum þeirra óheimilt að gera verkfall. Fyrir 1. febrúar ár hvert skal sveitarstjórn birta lista yfir þá sem falla undir málsgrein þessa.
    Ágreiningur um það hvort maður falli undir ákvæði 2. mgr. þessarar greinar skal lagður fyrir Félagsdóm, sem sker úr honum til fullnustu.

30. gr.


    Starfsmenn skulu koma stundvíslega til starfa, hvort heldur er að morgni eða eftir hlé. Yfirmenn skulu fylgjast með stundvísi starfsmanna. Hafa skal stimpilklukkur á skrifstofum og vinnustofum, þar sem því verður við komið, og halda skal skrá um hvernig starfsmenn koma til vinnu.
    Starfsmanni er skylt að vinna án endurgjalds yfirvinnu allt að tvöföldum þeim tíma er hann hefur verið frá starfi án gildra forfalla eða hlíta því að dregið sé af launum sem því nemur.
    Nú sýnir starfsmaður óstundvísi og vanrækslu í starfi sínu og lætur ekki skipast við áminningu yfirboðara og varðar það brottvikningu um stundarsakir eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru.

31. gr.


    Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem yfirboðarar telja nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur þriðjungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.

32. gr.


    Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

33. gr.


    Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum lögum samkvæmt á störfum hans og verkahring frá því er hann tók við starfi, enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum. Sama er um breytingar sem yfirmaður ákveður en þeirri ákvörðun má skjóta til sveitarstjórnar.

VII. KAFLI


Um aukastörf.


34. gr.


    Heimilt er að fela starfsmanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu sveitarfélags, enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja.
    Áður en starfsmaður stofnar til atvinnurekstrar, hyggst taka við starfi í þjónustu annars aðila en sveitarfélags gegn varanlegu kaupi eða ganga í stjórn atvinnufyrirtækis ber honum að skýra sveitarstjórn eða eftir atvikum skólastjóra frá því. Innan tveggja vikna skal honum skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg stöðu hans og honum bannað að hafa hana með höndum.
    Rétt er að banna starfsmanni slíka starfsemi sem í 2. mgr. segir ef síðar er leitt í ljós að hún fer ekki saman við starf hans í þjónustu sveitarfélags.

VIII. KAFLI


Um félagsskap starfsmanna.


35. gr.


    Við endurskoðun laga þessara, svo og við samningu samþykkta í tengslum við þau, skal jafnan gefa stéttarfélögum starfsmanna kost á að fylgjast með og fjalla um ágreiningsatriði þau sem upp koma.

IX. KAFLI


Gildistaka o.fl.


36. gr.


    Lög þessi eru sett með vísan til b-liðar 1. mgr. 57. laga um grunnskóla, nr. 66/1995. Við flutning grunnskólanna til sveitarfélaga yfirtaka sveitarfélögin ráðningar og ráðningarsamninga núverandi starfsmanna. Kennarar og skólastjórnendur, sem starfað hafa hjá ríki fyrir flutninginn, skulu halda öllum starfsréttindum sínum óbreyttum, þar með töldum réttindum sem byggjast á starfs- og þjónustualdri. Flutningurinn felur því ekki í sér niðurlagningu stöðu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/1954 og gilda ákvæði hennar því ekki um starfsmenn í skilningi laga þessara.

37. gr.


    Eftir flutning grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga skulu starfsmenn ekki njóta lakari réttinda í veikindaforföllum og barnsburðarleyfum en þeir njóta nú og kveðið er á um í reglugerðum nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.

38. gr.


    Þeir starfsmenn sem ráðnir voru án skriflegs ráðningarsamnings fyrir 1. janúar 1975 og hafa starfað óslitið síðan hafa sömu réttindi og skipaður starfsmaður.

39. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 66 frá 8. mars 1995, um grunnskóla, var ákveðið að sveitarfélögin tækju yfir rekstur grunnskólanna frá ríkinu. Skv. 57. gr. laganna skyldu þau öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996. Kennarar og skólastjórar grunnskóla verða starfsmenn sveitarfélaga í stað þess að vera ríkisstarfsmenn. Vegna þessa voru sett inn í 57. gr. grunnskólalaganna sérákvæði sem kváðu á um að Alþingi samþykkti fyrir 1. ágúst 1996:
    breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggði öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla sem rétt höfðu átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins aðild að sjóðnum,
    lög um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggði þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda.
Frumvarp þetta er flutt með vísan til b-liðar 57. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995.
    Frumforsenda flutnings grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga var að sættir tækjust með öllum aðilum um framkvæmd flutningsins og fyrirkomulag ráðningarréttinda kennara og skólastjóra hjá nýjum vinnuveitanda í framtíðinni. Menntamálaráðherra skipaði nefnd 26. júní 1995 til þess að gera tillögur að meðferð kjara- og réttindamála kennara og skólastjórnenda við grunnskóla við flutning hans frá ríki til sveitarfélaga. Í nefndinni sátu Guðmundur H. Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, sem jafnframt var formaður, Jón G. Kristjánsson, fulltrúi sveitarfélaganna, og Birgir Björn Sigurjónsson, fulltrúi kennarafélaganna. Þá starfaði Sigurður Helgason deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu með nefndinni sem fulltrúi menntamálaráðherra. Nefndin skilaði skýrslu um réttindamál grunnskólakennara við flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga 22. desember 1995.
    Í nefndarálitinu var lagt til að sett yrðu lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra grunnskóla sem reknir verða af sveitarfélögunum, sem yrðu fullkomlega hliðstæð lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því einu breyttu sem leiddi af nýjum rekstraraðilum. Lögin skyldu gilda jafnt um þá sem nú væru í starfi og þá sem síðar yrðu ráðnir. Þá lagði nefndin til að til viðbótar núverandi köflum laga nr. 38/1954 kæmu viðbótarkaflar sem leiddu af efnisákvæðum laga, nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningum starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana og efnisákvæðum reglugerða um veikindaforföll og barnsburðarleyfi ríkisstarfsmanna, nr. 410 og 411 frá 1989. Einnig skyldi vera í lögunum kafli sem kvæði á um að ráðningar núverandi kennara og skólastjórnenda flyttust órofnar á milli aðila og héldu fullu gildi sínu. Allir kennarar og skólastjórnendur skyldu halda stöðum sínum eins og verið hefði hjá ríki. Biðlaunaréttur stofnaðist ekki við flutninginn, enda hefði löggjafinn að fullu tryggt óbreytt réttindi. Jafnframt áttu að vera ákvæði þess efnis að öll réttindi sem bundin voru starfsaldri eða þjónustualdri, svo sem með tilliti til veikindaréttar, barnsburðarleyfis eða annarra réttinda sem tengjast starfsaldri, héldu að fullu gildi sínu hjá nýjum vinnuveitanda.
    Frumvarpið er byggt á því samkomulagi sem náðist milli þessara aðila og birt er í skýrslu nefndarinnar. Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989.
    Í bréfi verkefnisstjórnar um flutning grunnskólans til menntamálaráðherra, dags. 1. febrúar sl., sjá fylgiskjal I, kemur fram að verkefnisstjórnin sé sammála um efni frumvarps þessa. Jafnframt kemur fram að verkefnisstjórnin hafi orðið ásátt um að undirbúningur lagasetningar, sem tryggi óskert lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda við flutninginn, fari fram í tengslum við gerð tillagna að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá var verkefnisstjórnin einnig sammála um breytingu á lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 48/1986, hvað varðar ráðningu grunnskólakennara og skólastjórnenda í grunnskólum eingöngu, sjá fylgiskjal II. Varðandi samkomulag verkefnisstjórnarinnar um að efnisákvæði reglugerða um veikindaforföll og barnsburðarleyfi ríkisstarfsmanna nr. 410 og 411 frá 1989 verði lögfest vísast til 37. gr. frumvarps þessa, sem og fylgiskjala III og IV með frumvarpinu.
    Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, eru nú í endurskoðun og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþingi 1996. Ef það frumvarp nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. er að finna almenna afmörkun á því til hverra frumvarp þetta skal taka. Það tekur til allra þeirra sem ráðnir eru eða skipaðir á grundvelli laga nr. 66/1995 eða á grundvelli eldri laga um grunnskóla. Sérstök athygli er vakin á því að orðið kennari er notað í greininni en ekki orðið grunnskólakennari, sem er hið lögverndaða heiti, sbr. lög nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Ástæðan er sú að frumvarp þetta tekur að sjálfsögðu einnig eftir því sem við á til svokallaðra réttindalausra kennara, þ.e. kennara sem starfa á grundvelli undanþágu skv. 13. gr. laga nr. 48/1986. Með orðinu starfsmaður í frumvarpinu er því átt við kennara og skólastjóra við grunnskóla.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 2. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með ráðningu og skipun skólastjóra og kennara við grunnskóla. Þar koma fyrst og fremst til skoðunar 23. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, auk ákvæða í lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara.
    2. mgr. greinarinnar er í samræmi við 3. og 9. gr. laga, nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana.

Um 3. gr.


    Í greininni eru ákveðin almenn skilyrði þess að verða ráðinn eða skipaður í kennara- eða skólastjórnendastöðu við grunnskóla.
    1. og 2. tölul. þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. tölul. er kveðið á um nauðsynlega heilbrigði, andlega og líkamlega. Tekið skal fram að enda þótt maður sé t.d. líkamlega fatlaður þá þarf það alls ekki að hafa í för með sér að hann hafi ekki nauðsynlega heilbrigði til að stunda kennslu — eða skólastjórastarf. Þá er sums staðar að finna í lögum ákvæði sem leggja bann við því að maður sem haldinn er smitandi sjúkdómi sé ráðinn til kennslustarfa í skólum, sbr. t.d. 9. og 10. gr. berklavarnalaga, nr. 66/1939.
    Í 4. tölul. er íslenskur ríkisborgararéttur settur að skilyrði fyrir skipun eða ráðningu í kennslu- eða skólastjórnandastarf við grunnskóla. Sveitarstjórn er hins vegar heimilað að ráða ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til starfa með sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar. Ákvæði þetta byggist á reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frelsi launþega og reglum um félagslegt öryggi. Það er hins vegar sveitarstjórnar að meta hvort hinn erlendi ríkisborgari uppfylli aðrar kröfur fyrir ráðningu, svo sem íslenskukunnáttu. Ef hins vegar t.d. stæði til að ráða erlendan tungumálakennara getur sveitarstjórn þó vikið frá kröfu um íslenskukunnáttu. Erlendur ríkisborgari verður ekki skipaður í stöðu.
    Í 5. tölul. er leyfisbréf menntamálaráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1986, gert að skilyrði fyrir ráðningu. Í lögum nr. 48/1986 er að finna upptalningu á þeim skilyrðum sem verður að uppfylla til að fá útgefið leyfisbréf.
    Í 6. tölul. er það gert að skilyrði að ef stöðu fylgja fjárreiður skuli viðkomandi hafa fjárforræði. Ef bú manns er undir gjaldþrotaskiptum er óeðlilegt að hann geti á sama tíma verið að sýsla með fjármuni skólastofnunar. Fjárræði er hins vegar almennt skilyrði skv. 2. tölul. greinar þessarar.
    Um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna gilda nú lög nr. 28/1991. Karlar og konur eiga sama rétt til að fá ráðningu eða skipun í kennara- eða skólastjórnendastöður við grunnskóla.

Um 4. gr.


    Hér eru greindar ástæður þess að starfsmaður láti af starfi. Meginreglan er sú að skipaður starfsmaður skuli eigi víkja úr stöðu nema hann hafi brotið af sér eða önnur þau atvik liggi til er greind eru í b–f-liðum greinarinnar. Með orðunum „sem veitir hliðstæð réttindi“ í 5. tölul. er ekki einungis átt við ákvæði þessa frumvarps heldur getur einnig verið um stöðu að ræða sem veitir réttindi samkvæmt lögum nr. 38/1954, sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, eða samkvæmt samþykktum sveitarfélaga. Grein þessi svarar til 4. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins. Við mat á því hvenær starfsmaður hefur brotið af sér í starfi þannig að réttlætt geti frávikningu verður að hafa hliðsjón af dómaframkvæmd. Af dómaframkvæmd má þannig ráða að minni háttar brot nægja ekki til að réttlæta frávikningu. Sveitarstjórn verður því að fara varlega í að víkja starfsmanni úr stöðu gegn vilja hans.

Um 5. gr.


    Hér er lögboðið að auglýsa skuli allar lausar kennara- og skólastjórnendastöður við grunnskóla. Með slíkri reglu er tryggt að allir þeir sem hafa hug á ákveðnu starfi gefist kostur á að sækja um það. Hér er einnig rétt að minna á ákvæði laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra þar sem kveðið er á um sömu reglu.

Um 6. gr.


    Í grein þessari er ekki gert ráð fyrir að nauðsynlegt sé að hverjum starfsmanni verði sett sérstakt erindisbréf. Almennt er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji öllum grunnskólakennurum sem hjá þeim starfa samhljóða erindisbréf.

Um 7. gr.


    Ef sveitarstjórn þykir einhverju svo áfátt um starfsmann að rök liggja til þess að víkja honum úr starfi skal að jafnaði fara þá leið að veita starfsmanninum lausn um stundarsakir og láta síðan fara fram rannsókn skv. 8. gr. frumvarpsins. Ástæður lausnar eru tilgreindar í 2. mgr.
    Ákvæðin um lausn um stundarsakir eru sett til að draga úr áhættu sveitarfélaga á bótagreiðslum vegna frávikningar að fullu og til að vernda grunnskólakennara og skólastjórnendur grunnskóla fyrir gerræðisfullum brottrekstri. Meginreglan er sú að ef sveitarfélagi þykir einhver rök liggja að því að víkja starfsmanni úr starfi skal honum veitt lausn um stundarsakir, en síðan fari fram rannsókn skv. 8. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir því sem aðalreglu að starfsmann beri að áminna áður en honum er veitt lausn. Gefa verður starfsmanni kost á að bæta ráð sitt. Þó er heimilt að veita starfsmanni lausn um stundarsakir án áminningar ef þau tilvik sem greind eru í 3. mgr. greinar þessarar eiga við.
    Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal lausn vera skrifleg og ástæður tilgreindar. Starfsmaður á að sjálfsögðu rétt á að vita á hvern hátt hann hefur af sér brotið. Hafa ber í huga að lausn úr stöðu skoðast sem stjórnvaldsathöfn og skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er aðila máls tryggður réttur til að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því.

Um 8. gr.


    Þegar starfsmanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir skal fara fram rannsókn á því hvort sakir séu svo vaxnar að veita skuli fullnaðarlausn.

Um 9. gr.


    Meðan á bráðabirgðalausn stendur skal starfsmaður njóta hálfra launa. Ef rannsókn leiðir til þess að hann skuli halda stöðunni fær hann greiddan þann launahelming sem haldið var eftir.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.


    Starfsmanni er veittur kostur á að tala máli sínu áður en honum er vikið endanlega úr stöðu. Starfsmanni er hér sem endranær tryggður andmælaréttur undir þessum kringumstæðum.

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Í ákvæðinu eru starfsmanni tryggð laun sem samsvara launum í ríflegum uppsagnarfresti ef staða hans er lögð niður og rétt til sömu stöðu ef hún verður stofnuð aftur eftir tiltölulega skamman tíma.
    Réttur til biðlauna stofnast eingöngu ef staða er í raun lögð niður. Biðlaun eru ekki greidd ef t.d. starfsmaður tekur við öðru sambærilegu starfi hjá sveitarfélögum, nema laun fyrir nýja starfið séu lægri en þau er hann áður hafði. Þá er launamismunurinn greiddur þann tíma sem biðlaunatíminn varir.
    Grein þessi svarar til 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við mat á því hvað teljist sambærilegt starf í skilningi greinarinnar er ekki nauðsynlegt að um sambærilegt starf sé að ræða hjá sama sveitarfélagi en að öðru leyti verður að hafa hliðsjón af dómaframkvæmd.

Um 15. gr.


    Starfsmanni er veittur réttur til þess að fá lausn frá starfi með þriggja mánaða fyrirvara. Í 2. mgr. ákvæðisins er sveitarfélagi heimilað að lengja þann frest í sex mánuði ef svo margir leita lausnar samtímis að erfitt yrði að skipa stöðurnar þegar að nýju og halda þannig uppi eðlilegu skólastarfi.

Um 16. gr.


    Um orlofsmál er fyrst og fremst kveðið á um í kjarasamningum. Um grundvallarreglur varðandi orlof er hins vegar kveðið á um í orlofslögum, nú nr. 30/1987.

Um 17.–26. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    Sveitarstjórnir eru að sjálfsögðu bundnar af ákvæðum ráðningar- og kjarasamninga um vinnutíma starfsmanna og greiðslur til þeirra, sbr. lög nr. 94/1986.

Um 28. gr.


    Greinin felur í sér almenna leiðbeiningu til starfsmanna um hvernig þeim ber að rækja starf sitt.

Um 29. gr.


    Í 1. mgr. er mælt fyrir um almenna hlýðniskyldu starfsmanna gagnvart yfirmönnum sínum.
    Í 14. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem taka einnig til starfsmanna sveitarfélaga, sbr. 1. gr. laganna, er stéttarfélögum starfsmanna tryggður verkfallsréttur. Það er hins vegar talið nauðsynlegt að skólastjórar og staðgenglar þeirra séu undanþegnir verkfallsrétti. Þar sem vafi getur leikið á því í einstaka tilfellum hverjir teljist staðgenglar skólastjóra er talið rétt að skylda sveitarfélög að birta lista fyrir 1. febrúar ár hvert yfir þá skólastjórnendur sem óheimilt er að gera verkfall. Er þetta í samræmi við ákvæði 19. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Um 30. gr.


    Í 30. gr. frumvarpsins er lögð áhersla á stundvísi starfsmanna. Greinin gerir ráð fyrir tvenns konar viðurlögum við óstundvísi: Skylda til að vinna án endurgjalds tvöfaldan þann tíma er á vantar eða launafrádráttur sem því svarar.

Um 31. gr.


    Í greininni er lögð skylda á starfsmenn til að vinna yfirvinnu sem yfirmenn telja nauðsynlega. Ákveðin takmörk eru þó sett við þessari yfirvinnuskyldu í 2. málsl. greinarinnar, þannig að starfsmönnum verði ekki íþyngt um of.

Um 32. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 33. gr.


    Í greininni er sveitarfélögum tryggður meiri réttur til að breyta störfum manns og verkahring en leiða mundi af almennum reglum vinnuréttar. Þó verður að skýra heimild þessa þröngt. Ekki er heimilt að láta breytinguna hafa áhrif til skerðingar á launakjörum starfsmannsins eða réttindum.

Um 34. gr.


    Mjög erfitt er að ákveða með skýrum lagafyrirmælum hvenær starfsmaður má taka að sér önnur störf auk aðalstarfs síns. Skilyrðislaust bann við aukastörfum starfsmanna er ekki réttlátt gagnvart þeim því að ýmsir starfsmenn hafa hæfileika og starfsþrek til þess að sinna öðrum verkefnum, þótt þeir gegni aðalstarfi sínu óaðfinnanlega. Hagsmunir sveitarfélaga leiða ekki heldur til slíks banns. Sveitarfélögum er oft hagkvæmt og nauðsynlegt að leita til hæfileikamanna í þjónustu þess til þess að undirbúa og vinna störf sem liggja utan verkahrings þeirra, en sem þeir kunna að hafa meiri þekkingu á en aðrir. Hins vegar er réttmætt og getur verið nauðsynlegt að banna starfsmanni að hafa með höndum aukastörf, t.d. atvinnurekstur eða ráðgjafarstörf, sem teljast ósamrýmanleg stöðu hans.

Um 35. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er fjallað um rétt stéttarfélaga starfsmanna til að gæta hagsmuna sinna í sambandi við ágreiningsatriði er upp kunna að koma við samningu samþykkta sveitarfélaga, t.d. á grundvelli 23. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, svo og hugsanlega endurskoðun laganna.

Um 36. gr.


    Með þessari grein er þeim kennurum og skólastjórnendum sem nú eru í starfi eða hafa starfað sem slíkir hjá ríkinu tryggð yfirfærsla á öllum starfstengdum réttindum, hvort sem þeir hefja starf strax eftir flutning grunnskólans eða síðar. Engin breyting á að verða á atvinnuréttindum, launum eða lífeyrisréttindum starfsmannanna við yfirfærsluna. Komi upp ágreiningur milli samtaka kennara og sveitarfélags um form eða efni ráðningarréttinda, sbr. b-lið 1. mgr. 57. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, getur hvor aðili um sig óskað gerðardóms í málinu. Starfsmönnum er tryggt sama starf hjá sveitarfélögunum og þeir höfðu hjá ríkinu. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um biðlaun, gilda því ekki um starfsmenn vegna flutningsins.

Um 37. gr.


    Efnisákvæði reglugerða nr. 410/1989 og nr. 411/1989 skulu eftir flutninginn gilda sem lágmarksréttindi en víkja eftir atvikum fyrir betri rétti samkvæmt öðrum gildandi lögum. Breytingar sem kunna að verða gerðar á þessum reglugerðum vegna starfsmanna ríkisins hafa engin sjálfvirk áhrif á réttindi þeirra sem undir frumvarp þetta heyra.

Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 39. gr.


    Grunnskólalög, nr. 66/1995, skulu taka gildi að fullu 1. ágúst 1996. Gert er ráð fyrir því að lög sem sett verða á grundvelli frumvarps þessa taki gildi á sama tíma.


Fylgiskjal I.


Bréf verkefnisstjórnar um flutning grunnskólans


til menntamálaráðherra.


(1. febrúar 1996.)



    Verkefnisstjórn um flutning grunnskólans sendir yður hjálagt, herra menntamálaráðherra, meðfylgjandi tillögu að frumvarpi til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, sem verkefnisstjórnin hefur orðið ásátt um á fundi sínum 1. febrúar 1996.
    Við umfjöllun þessa máls innan verkefnisstjórnarinnar hefur verið sérstakur gaumur gefinn að því með hvaða hætti skuli tryggja við flutninginn óskert lífeyrissjóðsréttindi þeirra starfsmanna sem átt hafa aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Vísast í þessu sambandi til 57. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, og 4. tölul. kafla 1.3.1 og kafla 3.5 í skýrslu nefndar um réttindamál grunnskólakennara við flutning grunnskóla til sveitarfélaga. Það er skilningur verkefnisstjórnarinnar að við flutning grunnskólans til sveitarfélaga sé ekki ætlunin að skerða lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda. Verkefnisstjórnin miðar við að kennarar sem koma til starfa eftir 1. ágúst 1996 eigi kost á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Verkefnisstjórnin hefur orðið ásátt um að undirbúningur að gerð lagaákvæða þessa efnis skuli fara fram í tengslum við gerð tillagna að frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Jafnframt sendist yður samkomulag verkefnisstjórnarinnar um tillögu að breytingu á 5., 9. og 11. gr. laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 48/1986, hvað varðar ráðningu grunnskólakennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Verkefnisstjórnin bendir á að með framangreindum breytingum er einvörðungu fjallað um ráðningarreglur varðandi kennara og skólastjórnendur í grunnskólum og ekki fjallað um sambærilegar reglur varðandi starfsmenn framhaldsskóla, enda er slíkt utan verksviðs verkefnisstjórnarinnar. Verkefnisstjórnin vekur athygli á að tillögur þessar fela ekki í sér breytingar á réttarstöðu kennara og skólastjórnenda í framhaldsskólum að gildandi lögum.

Virðingarfyllst,



Hrólfur Kjartansson.


Steingrímur Ari Arason.


Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.


Eiríkur Jónsson.


Húnbogi Þorsteinsson.




Fylgiskjal II.


Tillögur réttindanefndar um nauðsynlegar


breytingar á lögverndunarlögum.


(Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði


standi efnislega óbreytt.)



     5. gr.
    Heimilt er að skipa kennara sem starfað hefur í a.m.k. eitt ár við grunnskóla með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjóra og skólanefndar.

     9. gr.
    1. mgr.: Til þess að vera ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi.
    2. mgr.: Heimilt er að skipa skólastjórnanda sem starfað hefur í a.m.k. tvö ár við grunnskóla, þar af eitt ár sem skólastjórnandi, með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólanefndar og sveitarstjórnar.

     11. gr.
    1. mgr.: Sveitarstjórn ræður og skipar kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra við grunnskóla. Grunnskólakennari á rétt á fastráðningu með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti eftir tveggja ára starf nema verklok séu fyrir fram ákveðin. Heimilt er þó að ráða grunnskólakennara ótímabundið með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá fyrsta degi ráðningar. Skólastjórar ráða stundakennara, sbr. 12. gr., með samþykki skólanefnda.
    2. mgr.: Samband íslenskra sveitarfélaga skal setja leiðbeinandi reglur um umsóknareyðublöð og meðferð umsókna um kennslu- og stjórnunarstörf. Sveitarstjórn er skylt innan mánaðar frá ráðningu kennara eða skólastjórnanda að skila til menntamálaráðuneytisins öllum gögnum um menntun og fyrri störf þeirra sem ráðnir eru.
    3. mgr.: Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar og aldursstig nemenda. Nú er heimilt að ráða stundakennara skv. 12. gr. og getur skólastjóri þá ráðið grunnskólakennara án undangenginnar auglýsingar. Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
    4. mgr.: Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.

..........



    Með frumvarpinu voru einnig tvö önnur fylgiskjöl en um þau vísast til B-deildar Stjórnartíðinda 1989, bls. 861–865, eða til þingskjalsins ( lausaskjalsins).
    Í fylgiskjali III var reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins.
    Í fylgiskjali IV var reglugerð nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.

..........



Fylgiskjal V.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um réttindi og skyldur grunnskólakennara.

    Frumvarp þetta er flutt með vísan til b-liðar 57. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, og felur fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.
    Samkvæmt 36. gr. frumvarpsins halda kennarar og skólastjórnendur, sem starfað hafa hjá ríki fyrir flutning grunnskóla til sveitarfélaga, öllum starfsréttindum sínum óbreyttum. Flutningurinn felur því ekki í sér niðurlagningu stöðu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/1954 og gilda ákvæði hennar ekki um þá starfsmenn sem frumvarpið tekur til. Af þessum sökum er talið að frumvarpið leiði ekki til útgjalda fyrir ríkissjóð.