Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 324 . mál.


571. Skýrsla


um störf Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1995.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.


1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Á fundi Alþingis 28. desember 1994 voru eftirtaldir fulltrúar kosnir til setu í Vestnorræna þingmannaráðinu: Árni Johnsen, Ingibjörg Pálmadóttir, Petrína Baldursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sigbjörn Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Á fundi sínum 6. febrúar 1995 kaus Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins Árna Johnsen formann og Steingrím J. Sigfússon varaformann.
    Á fundi Alþingis 13. júní 1995 voru eftirtaldir fulltrúar kosnir til setu í Vestnorræna þingmannaráðinu: Árni Johnsen, Ísólfur Gylfi Pálmason, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Stefán Guðmundsson, Gísli S. Einarsson, Svavar Gestsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir.
    Á fundi sínum 27. júlí 1995 kaus Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins Steingrím J. Sigfússon formann og Árna Johnsen varaformann.
    Á fundi Alþingis 22. desember 1995 var Svavar Gestsson kosinn fulltrúi í Vestnorræna þingmannaráðinu í stað Steingríms J. Sigfússonar og Kristinn H. Gunnarsson kosinn varamaður í stað Svavars Gestssonar.

2. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Deildin hélt fjóra fundi á árinu. Á ársfundi ráðsins 1994 var ákveðið að skipa vinnunefnd til að athuga framtíðarsamstarfið og mögulegt samstarf landanna um samskipti við Evrópusambandið og sameiginlegar áherslur gagnvart því. Íslensku fulltrúarnir tveir í vinnunefndinni sendu í byrjun febrúar 1995 bréf til utanríkisráðuneytisins, Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, utanríkismálanefndar Alþingis og Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þar sem óskað var eftir áliti á stöðu vestnorrænnar samvinnu og samstarfi vestnorrænu þjóðþinganna sérstaklega, í ljósi breyttra aðstæðna, og hugmyndum um hvernig æskilegt væri að þessi samvinna þróaðist á næstu árum. Í svörum umsagnaraðilanna kom fram vilji til að halda samstarfinu áfram en þó í breyttri mynd. Hugsanlegt væri víðtækara samstarf með fulltrúum frá Noregi eða e.t.v. samstarf innan Norðurheimskautsráðsins, sem ætlað er að stofna í Kanada vorið 1996. Í framhaldinu var samin skýrsla sem lögð var fyrir ársfund ráðsins af hálfu Íslandsdeildarinnar sem grundvöllur almennra umræðna á fundinum.
    Fyrir ársfundinn var Geir H. Haarde, alþingismanni og forseta Norðurlandaráðs, boðið á fund með Íslandsdeildinni þar sem hann gerði grein fyrir stöðu mála í Norðurlandaráði og rædd voru tengsl þess og Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Á fundi Íslandsdeildarinnar í júní skýrði Inga Sólnes, forstjóri sameiginlegu skrifstofunnar hjá Vestnorden Tourist Board, frá samstarfi þeirra þar sem sérstaklega er lögð áhersla á fjögur verkefni, þ.e. árlega ferðakaupstefnu, farandkynningu á ferðaskrifstofum í Þýskalandi, markaðssetningu skemmtiferðaskipa og græna ferðamennsku svokallaða. Fram kom að Íslendingar væru hikandi varðandi útvíkkun samstarfsins á sviði ferðamála svo það næði einnig til Norður- og Vestur-Noregs.
    Á miðsvetrarfundi landsdeildaformanna ráðsins í Kaupmannahöfn 25. apríl 1995 var m.a. rætt framtíðarsamstarfið. Ákveðið var að bjóða embættismanni hjá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar sem vinnur með byggðamál, vestnorrænu fulltrúunum í Norrænu samstarfsnefndinni (NSK) og einum fulltrúa frá Noregi að vera viðstöddum ársfund ráðsins. Ýmis önnur mál voru til umræðu, þar á meðal framgangur samþykkta ráðsins í þjóðþingunum og fyrirhugaður sumarfundur á Grænlandi, sem ákveðið var að hafa í ágúst 1995.

3. Ellefti ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1995.
    11. ársfundur ráðsins var haldinn í Qaqortoq á Grænlandi dagana 11. og 12. ágúst 1995. Hann sóttu af hálfu Íslandsdeildar þingmannaráðsins eftirtaldir þingmenn: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Alls sóttu 17 vestnorrænir þingmenn ársfundinn. Auk þess hafði sérstaklega verið boðið til fundarins forseta Norðurlandaráðs, Geir H. Haarde alþingismanni, og vestnorrænu fulltrúunum í Norrænu samstarfsnefndinni (NSK), en færeyski fulltrúinn, Niels á Velbastað, sótti fundinn af þeirra hálfu. Á fundinum gerðu Geir H. Haarde og Niels á Velbastað grein fyrir væntanlegum skipulagsbreytingum í Norðurlandaráði og breytingum í byggðasamstarfinu innan ráðherranefndarinnar með samþykkt nýrrar samstarfsáætlunar um byggðamál þar sem breytingarnar felast fyrst og fremst í þátttöku strandhéraða Noregs í samstarfinu. Formenn landsdeildanna fluttu síðan stuttar skýrslur um störfin á árinu og gerðu stuttlega grein fyrir stjórnmálalegri stöðu, hver í sínu landi. Í almennum umræðum var fyrst og fremst rætt skipulag framtíðarsamstarfsins á grundvelli skýrslunnar sem lögð hafði verið fyrir fundinn af hálfu Íslandsdeildarinnar. Voru menn sammála um nauðsyn þess að endurskoða samstarfið og skipulag þess, bæði með hliðsjón af breyttri stöðu vestnorræns samstarfs innan Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nú einnig tekur til strandhéraða Vestur- og Norður-Noregs, og vegna stofnunar heimskautsráðsins. Fram kom eindreginn vilji þingfulltrúa til að efla samstarfið í framtíðinni. Ákveðið var að skipa vinnuhóp innan ráðsins sem á að leggja tillögur varðandi framtíðarsamstarfið og skipulag samstarfsins fyrir næsta ársfund. Fyrir þinginu lá ein tillaga. Hún var til landsstjórna Færeyja og Grænlands og ríkisstjórnar Íslands um að eiga frumkvæði að kaupum á vestnorrænu barnamyndunum þremur „Ævintýri á norðurslóðum, þrjú ævintýri frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi“ til notkunar við kennslu í grunnskólum vestnorrænu landanna þriggja og var hún samþykkt einróma. (Sjá þingsályktunartillögu sem lögð er fram á Alþingi samhliða skýrslunni.) Auk þess voru samþykktar fjórar eftirfarandi ákvarðanir um störf ráðsins sjálfs:
    Vestnorræna þingmannaráðið samþykkir að óska eftir því við forsætisnefnd Norðurlandaráðs að Vestnorræna þingmannaráðið geti sent áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs.
    Vestnorræna þingmannaráðið ákveður að skipa vinnuhóp til að vinna að nýju skipulagi fyrir ráðið.
         
    
    Meðlimir vinnuhópsins:
                  Vinnuhópinn skipa landsdeildarformennirnir þrír auk eins fulltrúa frá hverri landsdeild.
         
    
    Verkefni vinnuhópsins:
                  Vinnuhópurinn á fyrir næsta ársfund að taka saman skýrslu með tillögum um skipulag samstarfsins á vestnorræna svæðinu í framtíðinni. Skýrslunni ber að fela í sér hugleiðingar varðandi:
                   
    stofnun heimskautsráðs,
                   
    endurskipulag Norðurlandaráðs,
                   
    hugsanlega innlimun Norður- og Vestur-Noregs í Vestnorræna þingmannaráðið auk annarra strand- og eyjasvæða.
         
    
    Staða Vestnorræna þingmannaráðsins gagnvart:
                   
    ríkisstjórnum landanna þriggja,
                   
    Vestnorræna sjóðnum,
                   
    norrænu Atlantshafsnefndinni,
                   
    öðrum vestnorrænum stofnunum og samtökum.
         
    
    Forgangsröðun í störfum Vestnorræna þingmannaráðsins:
                   
    þróun atvinnulífsins og efnahagur,
                   
    menning, menntun og samgöngur,
                   
    aðstæður í samgöngu- og ferðamálum.
    Vestnorræna þingmannaráðið ákveður að formennirnir athugi fyrir næsta ársfund hvort hægt sé að fá hlutdeild í fjárveitingum á norrænu fjárlögunum, sem færi til nemendaskipta milli vestnorrænu landanna og hinna Norðurlandanna, til þess að gera nemendaskipti innan vestnorrænu landanna möguleg.
    Vestnorræna þingmannaráðið ákveður að láta landsdeildaformennina eiga frumkvæði að gerð bæklings um vestnorræna samstarfið ásamt tölfræðilegum upplýsingum um vestnorrænu löndin þrjú.
    Í framhaldi af ákvörðun ráðsins nr. 1/1995 var óskað eftir því við forsætisnefnd Norðurlandaráðs að fá að senda áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs og fengist jákvætt svar þar að lútandi að sækja haustþing Norðurlandaráðs í Kuopio í Finnlandi í nóvember 1995. Steingrímur J. Sigfússon, formaður ráðsins, sótti þetta þing.
    Í lok fundarins tók Steingrímur J. Sigfússon við formennsku í Vestnorræna þingmannaráðinu af Jonathan Motzfeldt.
    Ákveðið var að halda 12. ársfund þingmannaráðsins á Íslandi sumarið 1996.

Alþingi, 12. febr. 1996.


Árni Johnsen,

Ásta R. Jóhannesdóttir,

Ísólfur Gylfi Pálmason.

form.

varaform.


Kristín Ástgeirsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Svavar Gestsson.