Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 331 . mál.


580. Frumvarp til laga


um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)


1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar, sem nefnist Póstur og sími hf., og að leggja til hlutafélagsins allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar, réttindi, skuldbindingar og viðskiptavild svo sem nánar greinir í lögum þessum.
    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.

2. gr.

    Tilgangur félagsins er að veita hvers konar fjarskiptaþjónustu, póstþjónustu og fjármálalega umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem þar gilda, svo og að reka aðra skylda starfsemi. Þá skal félaginu einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
    Heimilt er hlutafélaginu að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi getur hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.
    Hlutafélaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt skv. 1. mgr. þessarar greinar.
    Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

3. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gildir 2. mgr. 3. gr. laganna ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 20 gr. sömu laga ekki um tölu hluthafa.
    Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.
    Að öðru leyti skulu ákvæði laga um hlutafélög gilda um hið nýja félag.

4. gr.

    Nafnverð stofnhlutafjár skal nema 75% af bókfærðu eigin fé Póst- og símamálastofnunar samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 31. desember 1995 sem jafnframt skal gilda sem stofnefnahagsreikningur félagsins, en 25% af eigin fé skal færa í varasjóð. Hlutafé skal þó taka breytingum til hækkunar eða lækkunar samkvæmt niðurstöðu matsnefndar, sbr. 5. gr.
    Hlutafélagaskrá skal tilkynnt endanlegt hlutafé félagsins jafnskjótt og niðurstaða matsnefndar liggur fyrir.
    Eitt hlutabréf skal gefið út þegar niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Hlutabréf, sem gefið verður út í tengslum við stofnun félagsins eða skiptingu þess samkvæmt niðurlagsákvæði í 2. mgr. 2. gr., skal undanþegið stimpilgjöldum.

5. gr.

    Samgönguráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna til að endurmeta eignir stofnunarinnar, skuldbindingar og viðskiptavild, svo og til að leggja mat á aðra eigna- og skuldaliði efnahagsreiknings stofnunarinnar. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. júlí 1996 og skal hlutafé félagsins ákvarðast í samræmi við þær, sbr. 4. gr.

6. gr.

    Stjórn Pósts og síma hf. skal skipuð sjö aðalmönnum og sjö til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert. Ef félaginu verður skipt í tvö félög í samræmi við niðurlagsákvæði 2. mgr. 2. gr. skulu stjórnir beggja skipaðar á sama hátt.
    Samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma hf.

7. gr.

    Póstur og sími hf. skal taka til starfa eigi síðar en 1. október 1996. Samgönguráðherra ákveður nánar stofndag. Hann skipar nefnd til þess að annast nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar og til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni.

8. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni.
    Nú hefur félagið boðið fastráðnum starfsmanni Póst- og símamálastofnunar sambærilega stöðu hjá félaginu með eigi lakari launum en hann áður naut og fellur biðlaunaréttur þá niður ef starfsmaður hafnar boðinu eða hefur ekki samþykkt það innan tveggja vikna frá því honum barst boðið.
    Ef fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem ráðinn hefur verið hjá félaginu samkvæmt framansögðu, höfðar, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. þessarar greinar, mál til greiðslu biðlauna eða greiðslu bóta fyrir missi biðlauna á hendur ríkissjóði vegna formbreytingar þeirrar á starfsemi Póst- og símamálastofnunar sem lög þessi kveða á um fellur jafnframt niður biðlaunaréttur hans gagnvart félaginu skv. 2. mgr.
    Fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og hefur ráðist til starfa hjá félaginu með óskertum launum skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, heldur þeim réttindum gagnvart félaginu sem 12. gr. greinir, en á ekki jafnframt rétt til greiðslu lífeyris úr sjóðnum meðan hann heldur óskertum launum sínum hjá félaginu skv. 9. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, með síðari breytingum.

9. gr.

    Samgönguráðherra veitir félaginu rekstrarleyfi á tilteknum sviðum til þeirrar starfsemi sem af verkefnum félagsins leiðir samkvæmt lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Við útgáfu rekstrarleyfa getur ráðherra bundið þau þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að tryggja hagsmuni viðskiptavina félagsins.

10. gr.

    Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá fyrir félagið þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða og jafnframt tekið tillit til tækninýjunga sem haft geta áhrif á söluverð þjónustu félagsins. Setning gjaldskrár er þó háð samþykki samgönguráðherra að því er varðar verðlagningu á póst- og símaþjónustu innan lands sem er veitt vegna einkaleyfis sem félagið kann að hafa á hverjum tíma.
    Gjaldskrá fyrir einkaleyfisþjónustu öðlast gildi þegar hún hefur verið staðfest af samgönguráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

11. gr.

    Nú selur félagið búnað og þjónustu í samkeppni við aðra á frjálsum markaði og skal félagið þá í þeim tilvikum halda fjárreiðum deilda í einkaréttarþjónustu aðskildum frá öðrum rekstri. Félaginu er óheimilt að nota fjármagn frá rekstri, sem grundvallast á rekstrarleyfi, til þess að lækka verð á búnaði eða þjónustu sem seld er í samkeppni. Samgönguráðuneytið skal fylgjast með því að einkaréttarrekstur sé nægilega aðgreindur frá samkeppnisrekstri félagsins.

12. gr.

    Póstur og sími hf. skal greiða skatta eftir almennum reglum sem tíðkast um hlutafélög og arð eftir því sem afkoma félagsins leyfir.

13. gr.

    Pósti og síma hf. er skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu fyrir landsmenn sem nánar er skilgreind í reglugerð sem ráðherra setur.

14. gr.

    Nú óska stjórnvöld eftir því að Póstur og sími hf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Pósts og síma hf.

15. gr.

    Póstur og sími hf. starfar í samræmi við lög þessi. Hlutafélagið yfirtekur í samræmi við 1. gr. allar eignir, réttindi og skuldbindingar Póst- og símamálastofnunar frá og með stofndegi þess. Yfirtaka Pósts og síma hf. á skuldbindingum Póst- og símamálastofnunar samkvæmt lögum þessum veitir samningsaðilum stofnunarinnar ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

16. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 15. júlí 1996 og falla þá lög um stjórn og starfrækslu Póst- og símamálastofnunar, nr. 36/1977, ásamt síðari breytingum, úr gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Síðustu tvo áratugina hefur þróun fjarskiptatækni í heiminum verið afar ör svo að nálgast byltingu. Samtímis hefur verið losað um opinberar hömlur í fjarskiptum, dregið úr veitingu einkaleyfa og frjálsræði verið aukið hröðum skrefum á þessu sviði.
    Hvort tveggja, tækniþróunin og aukið frjálsræði ásamt greiðari aðgangi að fjarskiptarekstri milli landa, hefur aukið verulega samkeppni milli stofnana og fyrirtækja sem veita fjarskipta- og póstþjónustu, bæði innan viðkomandi landa og í alþjóðaviðskiptum.
    Fyrirsjáanlegt er að þessi þróun heldur áfram og samkeppni mun vaxa hratt, ekki síst vegna tækninýjunga sem sífellt líta dagsins ljós í fjarskiptaheiminum.
    Á því er enginn vafi að þessi þróun hefur þegar leitt til og á eftir að hafa víðtæk áhrif á alla upplýsingamiðlun á sviði vísinda og tækni.
    Samgönguráðuneytið og Póst- og símamálastofnun hafa fylgst náið með þessari tæknilegu þróun, og segja má að í dag ráði stofnunin yfir búnaði og þekkingu til fjarskiptaþjónustu sem jafnist á við það sem best gerist í löndum Evrópu og sé að sumu leyti í fararbroddi í þessu efni, en á síðastliðnu ári varð Ísland fyrsta landið í heiminum til taka í notkun stafrænt símkerfi um allt land.
    Póst- og símamálastofnun hefur byggt fjarskiptakerfið upp á þann hátt að Ísland er fyllilega hæft til að fylgja stefnumótun Evrópubandalagsþjóðanna um fjarskiptaþjónustu innan bandalagsins. Við fyrirhugaða aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið skipaði samgönguráðherra nefnd 12. ágúst 1991 til þess að endurskoða lög um stjórn og starfrækslu Póst- og símamálastofnunar. Í nefndina voru skipuð Lárus Jónsson viðskiptafræðingur, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar, en auk hans Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri, Ragnhildur Hjaltadóttir skrifstofustjóri, Ólafur Tómasson póst- og símamálastjóri og Guðmundur Björnsson aðstoðarpóst- og símamálastjóri. Nefndin fékk einnig sérstaklega til liðs við sig í þessu verkefni Benedikt Jóhannesson, forstöðumann Talnakönnunar hf., Pétur Guðmundarson hrl. og Andra Árnason hrl. Ritari nefndarinnar var Hrefna Ingólfsdóttir, upplýsingafulltrúi Póst- og símamálastofnunar.
    Í skipunarbréfi var lögð áhersla á að nefndinni væri ætlað að endurskoða lög um stofnunina, einkum með hliðsjón af réttarstöðu hennar samkvæmt lögum nr. 36/1977, með síðari breytingum. Þá var nefndinni sérstaklega falið „að taka mið af breytingum sem orðið hafa og væntanlegar eru á réttarstöðu póst- og símastjórna í nágrannaríkjum okkar“.
    Eftir að nefndin lauk störfum hefur Ísland gerst aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið og á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hefur veruleg þróun orðið í átt til aukins frjálsræðis og takmörkunar ríkisafskipta af fjarskipta- og póstþjónustu. Nauðsynlegt er við endurskoðun löggjafar á þessu sviði að taka mið af þessari þróun.
    Á undanförnum árum hefur verið ráðist í breytingar á rekstrarformi opinberra símafyrirtækja í flestum löndum EES. Mislangt hefur verið gengið í þeim efnum; í nokkrum löndum hefur hlutur ríkisins verið seldur á opnum markaði, svo sem í Bretlandi og Danmörku, en annars staðar hefur verið ákveðið að láta staðar numið við að breyta rekstrarformi viðkomandi stofnunar og má í því sambandi taka Noreg sem dæmi. Hvort heldur sem ríkið hefur haldið hlut sínum í fyrirtækjunum eður ei hefur markmiðið þó fyrst og fremst verið að búa þau sem best undir aukna samkeppni og hefur hlutafélagsformið nær undantekningarlaust orðið fyrir valinu.
    Með tilliti til þeirrar þróunar, sem á sér stað í EES löndum um þessar mundir, er brýnt að Póst- og símamálastofnun sé undir það búin að mæta þeirri samkeppni sem í vændum er, einkum á sviði fjarskiptamála, en í löndum ESB er nú einnig unnið að afnámi einkaréttar á póstþjónustu. Sem stendur er óljóst hvenær einkaréttur á póstþjónustu í löndum ESB verður afnuminn, en búast má við að til þess komi innan fárra ára. Þrátt fyrir að ekki sé búið að ákveða framtíðarskipulag póstmála í löndum ESB til hlítar hefur einnig verið gripið til breytinga á rekstrarformi póstþjónustu ýmissa landa innan þess. Póstþjónustan í Svíþjóð og Finnlandi er nú rekin af hlutafélögum. Í Danmörku var sjálfstæði póstþjónustunnar aukið til muna á síðasta ári, jafnframt því sem nafni hennar var breytt til að undirstrika nýtt og fjölbreyttara hlutverk hennar. Í Hollandi er póst- og símaþjónustan rekin sem tvö aðskilin fyrirtæki undir sameiginlegri stjórn eignarhaldsfélags og hefur þriðjungur hlutafjár þess verið seldur á almennum markaði.

Meginniðurstöður nefndarinnar.
    Nefndin komst að þeirri meginniðurstöðu að hagkvæmast sé og raunar nauðsynlegt að gera Póst- og símamálastofnunina sem sjálfstæðasta til þess að auka samkeppnishæfni hennar í þeim þjónustugreinum sem hún annast.
    Nefndin taldi enn fremur að sjálfstætt atvinnufyrirtæki á þessu sviði gæti veitt landsmönnum ódýrari og betri þjónustu en ella og yrði jafnframt traustari vinnustaður fyrir starfsfólk.
    Eðlilegstu leiðina að þessu marki taldi nefndin vera að stofna til hlutafélags um póst- og símaþjónustu hér á landi svo sem stefnt er að með þessu frumvarpi. Hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt hér á landi. Í þeirri löggjöf, sem um það hefur verið sett, er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda) annars vegar og stjórnar og framkvæmdastjórnar hins vegar. Þar er einnig að finna skýrar reglur um endurskoðun og gerð ársreikninga.
    Nefndin lagði jafnframt til að hið nýja félag yrði alfarið í eigu ríkisins og að ekki væri gert ráð fyrir breytingu á þeirri eignaraðaðild nema með sérstöku samþykki Alþingis.
    Íslensk fjarskipta- og póstþjónusta má búast við stóraukinni samkeppni, einkum af hálfu erlendra aðila, en einnig innlendra fyrirtækja, á allra næstu árum. Þar koma og til þær breytingar hjá fyrirtækjum á sama sviði sem eiga sér stað hvarvetna í nágrannalöndunum og jafnframt örar tækniframfarir á sviði fjarskipta.
    Við þessu þarf að bregðast með skynsamlegum hætti eins og víða hefur verið gert meðal Evrópuþjóða. Að öðrum kosti má búast við að þessi þjónusta verði ekki veitt á hagkvæman hátt og að hún færist meira eða minna í hendur erlendra fyrirtækja.
    Auka þarf sjálfstæði póst- og símaþjónustunnar hér á landi í því skyni að þessar þjónustugreinar geti betur staðist aukna samkeppni erlendis frá. Þar gilda sömu rök og forráðamenn póst- og símastjórna, stjórnmálamenn og starfsmenn stofnana í nágrannalöndunum hafa fært fyrir nauðsyn breyttrar réttarstöðu þessara stofnana.
    Augljóst er að stjórnendur sjálfstæðs íslensks fyrirtækis á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu geta á mun auðveldari hátt brugðist við síbreytilegum aðstæðum á markaði og segja má að sjálfstætt hlutafélag á þessu sviði yrði að öllum líkindum mun arðbærara fyrirtæki, samkeppnishæfara og jafnframt áhugaverðari vinnuveitandi fyrir starfsfólk, en ríkisstofnun með svipuðu sniði og verið hefur.
    Á það má einnig benda að sjálfstætt atvinnufyrirtæki á sviði fjarskiptaþjónustu gæti haft samstarf við ýmsa aðila í formi sameiginlegra hlutafélaga, bæði á innlendum sem erlendum vettvangi. Þetta gæti reynst hagkvæmt fyrir Póst og síma hf., samstarfsaðila og neytendur, en slíkt samstarf er nánast útilokað í núverandi rekstrarformi.

Sérstaða íslensks póst- og fjarskiptamarkaðar.
    Hér á landi var frjálsræði á sviði sölu á notendabúnaði aukið fyrr en hjá nágrannaþjóðunum. Sala á notendabúnaði hefur verið frjáls um fimmtán ára skeið og hefur samkeppni á þeim markaði verið talsverð, þannig að reynsla er fengin á því sviði.
    Rétt er að benda á að íslenskt atvinnufyrirtæki á sviði póst- og símaþjónustu mundi hafa á að skipa mjög hæfu starfsfólki og yrði því afar öflugt á sviði tækniþekkingar. Slíkt fyrirtæki yrði og þjálla til þess að mæta breytilegum aðstæðum á markaði. Þess vegna eru líkur á að á þessu sviði geti Íslendingar haslað sér völl í alþjóðaviðskiptum ekki síður en á öðrum sviðum í útflutningi á þekkingu og hugviti.

Aðskilnaður póst- og símaþjónustu.
    Talvert hefur verið rætt hvort aðskilja eigi póst- og símaþjónustuna hér á landi eins og víðast hefur verið gert í öðrum löndum. Í því sambandi má benda á eftirfarandi atriði:
    Æskilegt er að stíga einvörðungu það skref að breyta réttarstöðu Póst- og símamálastofnunar í hlutafélagsform og láta það hafa forgang. Að því loknu verði skoðað hvort heppilegt sé að skipta rekstrinum í tvö sjálfstæð hlutafélög. Með því gæfist m.a. tími til að gera úttekt á rekstri og efnahag hvorrar þjónustugreinar um sig og efla þær rekstrarlega ef á þyrfti að halda áður en til slíks aðskilnaðar kæmi.
    Með tilliti til breyttra aðstæðna á Evrópska efnahagssvæðinu má reikna með að ekki verði hjá því komist að taka þennan þátt til endurskoðunar áður en langt um líður. Er enda gert ráð fyrir þeim möguleika í 2. gr. frumvarpsins.

    Frumvarp það sem hér er lagt fram er í meginatriðum byggt á tillögum framangreindar nefndar en breyting hefur verið gerð á 8. gr. frumvarpsins frá því sem nefndin hafði lagt til. Ákvæðinu er ætlað að tryggja starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar störf hjá félaginu á kjörum sambærilegum þeim sem þeir áður nutu hjá Póst- og símamálastofnun. Vísast um þetta atriði til athugasemda við 8. gr.
    Samhliða vinnu við undirbúning frumvarps þessa hefur samgönguráðuneytið látið endurskoða löggjöf um fjarskipti, nr. 73/1984, og póstlög, nr. 38/1986, með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á því sviði og þeim skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarp til nýrra fjarskiptalaga verður lagt fyrir Alþingi til afgreiðslu á vorþingi samtímis frumvarpi þessu og frumvarp til nýrra póstlaga verður lagt fyrir Alþingi til kynningar á vorþingi en væntanlegrar afgreiðslu á haustþingi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er ríkisstjórninni veitt heimild til að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Lagt er til að félagið heiti Póstur og sími hf. og að allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar verði lagðar til þess. Með stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar er sjálfstæði hennar aukið til muna og stjórnendum hennar gert mun auðveldara að bregðast við aukinni samkeppni og nýjum aðstæðum á sviði þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir. Gert er ráð fyrir að félagið verði alfarið í eigu íslenska ríkisins og að sala á hlutum þess komi ekki til nema með samþykki Alþingis og breytingum á þessari grein laganna.

Um 2. gr.

    Tilgangur félagsins kemur fram í greininni. Sú breyting verður væntanlega gerð á starfsemi Póst- og símamálastofnunar með nýjum fjarskiptalögum að félagið verði alfarið atvinnufyrirtæki. Með 2. mgr. greinarinnar er veitt heimild til stofnunar dótturfyrirtækja til þess að annast einstaka þætti í starfsemi er Póst- og símamálastofnun annast nú og ekki tilheyra rekstri sem einkaleyfi þarf til. Með því er stefnt að því að tryggja fjárhagslegan aðskilnað þess hluta fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta sem er í samkeppni við aðra og til tryggingar þess að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar. Með því eru höfð í huga ákvæði samkeppnislaga, samningur um Evrópska efnahagssvæðið og 11. gr. frumvarpsins.
    Niðurlag 2. mgr. gerir ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að talið verði heppilegt og hagkvæmt að félaginu verði skipt milli tveggja félaga þar sem annað annaðist póstþjónustu en hitt fjarskiptaþjónustu.
    Félaginu er heimilað að stofna til hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum og er þá m.a. átt við aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum.

Um 3. gr.

    Þar sem íslenska ríkið er eini stofnandi og hluthafi félagsins eru í greininni nauðsynlegar undanþágur frá ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Í 14. gr. laganna er m.a. kveðið á um innborgun hlutafjár, en þar segir m.a.: „Eigi má skrá félag nema heildarhlutafé það, sem áskrift hefur fengist fyrir, sé í samræmi við það er greinir um hlutafé í samþykktum og þar af skal minnst helmingur vera greiddur.“ Hvað varðar tölu stofnenda segir í 2. mgr. 3. gr. sömu laga m.a. að stofnendur hlutafélags skuli vera tveir hið fæsta. Gert er ráð fyrir undantekningu frá þessari grein laganna, auk þess sem gerð er undantekning frá ákvæði um tölu hluthafa félagsins, en í 1. mgr. 20. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um að tala hluthafa hlutafélags skuli að minnsta kosti vera tveir að tölu.

Um 4. gr.

    Í greininni eru ákvæði um stofnhlutafé félagsins og um hlutabréf sem gefið skal út eftir að mat hefur farið fram á efnahag félagsins. Um hlutafélög gilda bókhaldsreglur töluvert frábrugðnar þeim er gilda um ríkisstofnanir og má þar til að mynda benda á reglur um afskriftir og skuldbindingar orlofsfjár. Við stofnun félagsins þarf að meta afkomu félagsins undangengið starfsár eins og um hlutafélag hafi verið að ræða og að því loknu er fyrst hægt að ákveða endanlegt stofnfé hlutafélagsins.

Um 5. gr.

    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skuldbindingar Póst- og símamálastofnunarinnar gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði færðar til skuldar í efnahagsreikningi stofnunarinnar í árslok 1995.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra skipi stjórnarmenn félagsins, sjö aðalmenn og sjö til vara.

Um 7. gr.

    Í greininni felst að ráðherra geti ákveðið hvenær stofndagur félagsins skuli vera. Á þann hátt er stofnuninni m.a. veittur viss aðlögunartími áður en til breytingar á rekstrarformi kemur.

Um 8. gr.

    Ákvæði þessu er ætlað að tryggja starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess eins og engin formbreyting hefði orðið á rekstri hennar, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfsaðstöðu að ræða.
    Með ákvæðinu eru viðurkennd þau réttindi sem starfsmenn höfðu áunnið sér hjá stofnuninni fyrir stofnun félagsins. Jafnframt er kveðið svo á um að fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar, sem kjósa að starfa áfram hjá félaginu, skuli halda áunnum réttindum hjá því og skuldbindur félagið sig til þess að virða þau réttindi og tekur við þeim skuldbindingum af ríkissjóði sem af því leiðir. Hins vegar er ákvæðinu ekki ætlað að veita starfsmönnum þessum aukin réttindi, þar á meðal biðlaunaréttindi, miðað við það sem þeir áður höfðu, þannig að þeir geti ekki sótt rétt til beggja, félagsins og ríkisins, yrði staða lögð niður eftir stofnun félagsins.
    Því er það ákvæði sett í 3. mgr. greinarinnar að ef fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem ráðinn hefur verið til starfa hjá félaginu, sækir, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., í máli fyrir dómstólum rétt til greiðslu biðlauna eða bóta fyrir missi biðlaunaréttar úr ríkissjóði vegna formbreytinga á rekstri Póst- og símamálastofnunar skuli niður falla réttur hans til biðlauna hjá félaginu.
    Síðasta málsgrein greinarinnar gerir ráð fyrir að starfsmaður hjá félaginu sé eins settur gagnvart töku lífeyris eins og hann starfaði áfram hjá stofnuninni, þó þannig að ef hann hefur notið stöðuhækkunar eftir að hann réðst til starfa hjá félaginu hafi sú hækkun ekki áhrif til hækkunar vegna réttinda sem starfsmaður hafði áunnið sér hjá stofnuninni.

Um 9. gr.

    Samkvæmt tilskipun ráðherranefndar Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að einkaréttur símastjórna aðildarríkja þess til að veita símaþjónustu verði með öllu afnuminn 1. janúar 1998. Af EES-samningum leiðir að einkaréttur Póst- og símamálastofnunar á sviði fjarskipta verður afnuminn hér á landi 1. janúar 1998, en þess ber þó að gæta að sækja má um frest á afnámi einkaréttar ef um smáþjóðir er að ræða eða ef tæknileg uppbygging grunnkerfis er skammt á veg komin í viðkomandi landi.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að við gerð gjaldskrár á því sviði, sem samkeppni ríkir, skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða, auk þess sem tillit verði tekið til tækninýjunga. Á hinn bóginn er lagt til að gjaldskrá sé háð samþykki samgönguráðherra að því er varðar póst- og símaþjónustu innan lands sem veitt er á grundvelli rekstrarleyfis.

Um 11. gr.

    Kveðið er á um að Pósti og síma hf. sé óheimilt að nýta ágóða af þjónustu, sem grundvallast á einkarétti, til niðurgreiðslu á búnaði og þjónustu sem seld eru í samkeppni. Enn fremur skal félagið halda fjárreiðum deilda í samkeppni aðskildum frá fjárreiðum deilda sem grundvallast á rekstrarleyfi og samkeppni er ekki til að dreifa.

Um 12. gr.

    Greinin fjallar um greiðslu skatta og arðs af rekstri félagsins. Kveðið er á um að félagið greiði ríkissjóði arð eftir því sem afkoma félagsins kann að leyfa á hverjum tíma.

Um 13. gr.

    Með grein þessari er mælt fyrir um að Póstur og sími hf. haldi uppi tilskilinni öryggisþjónustu fyrir alla landsmenn og gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis.

Um 14. gr.

    Stjórnvöld hafa gert Póst- og símamálastofnun að annast ýmis verkefni endurgjaldslaust sem bersýnilega eru óarðbær. Í slíkum tilfellum skal gengið frá samningi milli ríkisstjórnarinnar og félagsins um framkvæmd þessara verkefna.

Um 15. gr.

    Með grein þessari er kveðið á um að allar eignir, réttindi og skuldbindingar, innan lands sem utan, færist yfir á hið nýja félag, sbr. 1. gr. Ekki er gert ráð fyrir að til riftunar á gildandi samningum milli Póst- og símamálastofnunar og viðskiptamanna hennar geti komið, á þeim forsendum að rekstrarformi hafi verið breytt.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags
um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

    Frumvarpið kveður á um að ríkisstjórninni verði heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar og leggja til félagsins allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar, réttindi, skuldbindingar og viðskiptavild. Miðað við áform í frumvarpinu á formbreytingin úr ríkisfyrirtæki yfir í hlutafélag ekki að hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.