Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 340 . mál.


595. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1995.

    Á árinu 1995 voru tvær stjórnir í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Fyrir kosningar sátu í stjórn deildarinnar Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki) formaður, Ólafur Þ. Þórðarson (Framsóknarflokki) varaformaður, Einar K. Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki), Gunnlaugur Stefánsson (Alþýðuflokki) og Margrét Frímannsdóttir (Alþýðubandalagi). Þá sat Anna Ólafsdóttir Björnsson (Kvennalista) í stjórninni sem áheyrnarfulltrúi. Þegar Alþingi kom saman í maí 1995 eftir alþingiskosningarnar 8. apríl það ár var skipuð ný stjórn fyrir Íslandsdeildina í samræmi við 3. gr. starfsreglna deildarinnar. Stjórnina skipa nú Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki) formaður, Margrét Frímannsdóttir (Alþýðubandalagi) varaformaður, Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki), Einar K. Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki) og Jóhanna Sigurðardóttir (Þjóðvaka). Áheyrnarfulltrúar eru Gísli S. Einarsson (Alþýðuflokki) og Kristín Halldórsdóttir (Kvennalista). Eins og undanfarin ár er Þorsteinn Magnússon ritari deildarinnar.
    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins á árinu 1995 var með hefðbundnum hætti. Íslandsdeildin tók þátt í báðum reglulegum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í Madrid í mars (93. þing) og hið síðara í Búkarest í október (94. þing). Þá tók deildin þátt í aukafundi ráðs sambandsins sem haldinn var í New York um mánaðamótin ágúst/september. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þessum þremur fundum auk þess sem fjallað er um gagnabanka um þjóðþing sem Alþjóðaþingmannasambandið er að koma upp.
    Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum um starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins en fram koma í ársskýrslunni geta fengið slík gögn hjá ritara deildarinnar en sambandið gefur m.a. út greinargóða og ítarlega skýrslu, á ensku og frönsku, um hvert þing sambandsins.

A. ÞINGIÐ Í MADRID


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt 93. þing sitt í Madrid dagana 24. mars til 1. apríl 1995. Þingið sóttu fulltrúar 125 þinga en auk þess voru áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde formaður (hluta þingsins) og Jóhann Einvarðsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu auk þess sem fram fóru almennar stjórnmálaumræður. Málefnin voru eftirfarandi:
    siðfræðileg vandamál tengd líftækni og afleiðing hennar fyrir vernd mannréttinda,
    hverning bregðast eigi við hörmungum sem rekja má til stríðsátaka og náttúruhamfara,
    hlutverk þinga í því að stuðla að jafnrétti kynjanna.
    Um öll málin þrjú samþykkti þingið ályktanir.
    Að tillögu ráðs sambandsins samþykkti þingið að kjósa Hiraizumi (frá Japan), Furubjelke (frá Svíþjóð) og Pahor (frá Slóveníu) í framkvæmdastjórn sambandsins í stað þingmanna frá þessum löndum sem ýmist höfðu látist eða látið af störfum sem þingmenn. Þá samþykkti þingið einnig að tillögu ráðsins að gera breytingar á lögum sambandsins í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hafði verið um breytt skipulag þinga sambandsins. Breytingin felur í sér að umræður um þau málefni sem þingið fjallar um (aðrar en almennar stjórnmálaumræður) fara eingöngu fram í nefndum og þinghaldið styttist um einn dag.

III. Störf og ályktanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingstörf niðri. Ráðið fjallar um og tekur ákvarðanir um innri málefni sambandsins. Í ráðinu eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sat Jóhann Einvarðsson báða fundi ráðsins og Geir H. Haarde þann fyrri.
    Fyrir ráðinu lágu umsóknir um aðild frá Andorra, Armeníu og Hvíta-Rússlandi og voru þær samþykktar. Jafnframt var samþykkt að veita Rúanda aftur aðild að sambandinu. Þá var samþykkt að þingið í Kasakstan gæti ekki tekið þátt í fundum á vegum sambandsins meðan óvissa ríkti um stöðu þingsins þar í landi. Aðildarþing Alþjóðaþingmannasambandsins voru eftir þessar breytingar 135, auk þess sem þrjú fjölþjóðaþing eiga aukaaðild að því.
    Að vanda var lögð fram ítarleg skýrsla þeirrar nefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Í skýrslu nefndarinnar var gerð grein fyrir málum 67 starfandi eða fyrrverandi þingmanna í ellefu löndum. Þessi lönd eru Albanía, Búlgaría, Búrúndí, Kólumbía, Hondúras, Indónesía, Maldíveyjar, Myanmar, Nígería, Tógó og Tyrkland. Einstakar þjóðdeildir voru hvattar til að vekja athygli þinga sinna og stjórnvalda á stöðu þessara þingmanna.
    Ráðið samþykkti einróma tillögu frá framkvæmdastjórn sambandsins um að það beitti sér fyrir gerð samstarfssamnings milli Alþjóðaþingmannasambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Aðildarþing voru hvött til að beita áhrifum sínum við utanríkisráðherra hvers lands til að stuðla að framgangi málsins.
    Líkt og á fyrri fundum fjallaði ráðið um fjölmörg önnur mál er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta sambandsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda.

IV. Störf framkvæmdastjórnar.


    Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum auk forseta sambandsins, fundaði í tvo daga fyrir upphaf þingsins auk þess sem hún hélt einn heilsdagsfund samhliða þinginu. Meginviðfangsefni funda framkvæmdastjórnarinnar var undirbúningur aukafundar ráðs sambandsins í New York um mánaðamótin ágúst/september, starfsáætlun sambandsins og hugsanlega fjölgun í framkvæmdastjórninni. Geir H. Haarde, sem kjörinn var í framkvæmdastjórnina á fundi sambandsins í Kaupmannahöfn í september 1994, sat fund stjórnarinnar fyrir þingið en vegna alþingiskosninganna gat hann ekki tekið þátt í seinni fundinum.

V. Störf pólitískra svæðahópa.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi pólitískra svæðahópa (nokkurs konar þingflokkar) sem þingfulltrúar skiptast í. Íslandsdeildin á aðild að Tólf-plús hópnum sem skipaður er þingmönnum frá flestum ríkjum í Evrópu auk Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Þá eiga Ísrael, Evrópuþingið og Evrópuráðsþingið aukaaðild að hópnum.
    Peter Bosa frá Kanada, formaður hópsins, stýrði störfum hans bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi.

B. AUKAFUNDUR RÁÐS SAMBANDSINS Í NEW YORK


    Dagana 30. ágúst til 1. september 1995 var haldinn í New York aukafundur ráðs Alþjóðaþingmannasambandsins en í tilefni 50 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna var ákveðið að efna til sérstaks fundar ráðsins til að fjalla um stöðu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegrar samvinnu frá sjónarhóli þingmanna. Fund ráðsins sóttu fulltrúar 75 þinga, auk áheyrnarfulltrúa frá fjölda alþjóðastofnana.
    Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu fundinn alþingismennirnir Einar K. Guðfinnsson og Magnús Stefánsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar. Þá sat Geir H. Haarde fundinn á vegum framkvæmdastjórnar sambandsins en hún hafði á hendi umsjón með fundahaldinu og gekk m.a. frá ítarlegri ályktun sem lögð var fyrir fundinn og samþykkt einróma.
    Fundur ráðsins var haldinn í sal allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum samtakanna og við upphaf fundarins flutti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros Boutros-Ghali, ræðu. Að því loknu hófust umræður um þau tvö umræðuefni sem lágu fyrir fundinum, annars vegar um helstu vandamál sem munu blasa við þjóðum heims við upphaf næstu aldar og hvernig best sé að bregðast við þeim og hins vegar um stöðu og framtíðarhlutverk Sameinuðu þjóðanna og hvernig auka megi þátt þingmanna í störfum samtakanna, sérstaklega hvernig styrkja megi tengsl Alþjóðaþingmannasambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Einar K. Guðfinnsson flutti ræðu við umræður um fyrra dagskrárefnið og Geir H. Haarde við það síðara.
    Það varpaði nokkrum skugga á fund ráðsins að engir bandarískir þingmenn sóttu hann. Meðal bandarísks almennings og stórs hóps nýrra þingmanna sem tekið hefur sæti á Bandaríkjaþingi virðist gæta vaxandi einangrunarhyggju. Þessi afstaða birtist m.a. í því að fulltrúadeildin ákvað árið 1995 að heimila ekki greiðslur til ýmissa alþjóðasamtaka sem Bandaríkin hafa átt aðild að, þar á meðal Alþjóðaþingmannasambandsins, en Bandaríkjaþing greiðir nú tæp 15% af heildarútgjöldum þess. Þessi staða var rædd á fundum framkvæmdastjórnarinnar og var samþykkt að óska eftir því við framkvæmdastjóra sambandsins að hann legði fyrir næsta þing sambandsins í október greinargerð um með hvaða hætti unnt væri að bregðast við fjárhagslegri hlið málsins. Þá var jafnframt ákveðið að hvetja einstök aðildarþing sambandsins til að hafa samband við bandaríska þingmenn, sem og fulltrúa Bandaríkjastjórnar, í því skyni að reyna að fá Bandaríkjaþing til að halda áfram þátttöku í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins sem og öðru alþjóðastarfi.
    Auk þess sem framkvæmdastjórn sambandsins fjallaði um dagskrárefni fundar ráðsins og samskiptin við Bandaríkjaþing fór verulegur hluti af tíma hennar í að fjalla um samskiptin við Sameinuðu þjóðirnar. Átti stjórnin m.a. hádegisverðarfund með Boutros Boutros-Ghali um þau málefni. Að frumkvæði sambandsins var í haust lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tillaga um gerð sérstaks samstarfssamnings Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaþingmannasambandsins sem var samþykkt samhljóða. Nú er unnið að gerð slíks samnings en hann mun m.a. auðvelda Alþjóðaþingmannasambandinu að koma á framfæri sjónarmiðum sínum á þeim ráðstefnum sem Sameinuðu þjóðirnar efna til um ýmis málefni, sbr. umhverfisráðstefnuna, mannfjöldaráðstefnuna og kvennaráðstefnuna.
    Samhliða fundum ráðs Alþjóðaþingmannasambandsins voru haldnir daglega fundir í Vesturlandahópnum innan þingmannasambandsins (Tólf-plús hópnum). Á þessum samráðsfundum var fjallað um innri málefni hópsins, afstöðu Bandaríkjaþings til Alþjóðaþingmannasambandsins, fjármál sambandsins og ýmis önnur mál er varða starfsemi þess.

C. ÞINGIÐ Í BÚKAREST


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt 94. þing sitt í Búkarest dagana 9.–14. október 1995. Þingið sóttu fulltrúar 118 þinga, auk áheyrnarfulltrúa frá fjölmörgum alþjóðasamtökum.     Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson og Gísli S. Einarsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar.
    

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Á þinginu í Búkarest var í fyrsta skipti starfað eftir nýju skipulagi sem felur í sér að umræður um þau málefni sem þingið fjallar um fara nú eingöngu fram í nefndum, þar sem öll ríkin eiga fulltrúa, í stað þess að vera áður rædd í þingsal. Þessi breyting var hugsuð til þess að gera umræður um málin líflegri og draga úr því að þingmenn flyttu langar skrifaðar ræður sem oftast voru í litlum tengslum við það sem aðrir ræðumenn lögðu til málanna. Auk umræðna um þau málefni sem lágu fyrir þinginu voru almennar stjórnmálaumræður í þingsal en aðra daga var fundað í nefndum. Geir H. Haarde flutti ræðu í almennu stjórnmálaumræðunum en sendinefndin skipti að öðru leyti með sér setu á nefndafundum.
    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu. Þau voru eftirfarandi:
    hlutverk þjóðþinga í baráttu gegn spillingu,
    leiðir til að tryggja framkvæmd á niðurstöðum félagsmálaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í mars 1995 í Kaupmannahöfn,
    bann við kjarnorkuvopnatilraunum.
    Þingið ályktaði um öll þessi mál og var samstaða um tvö fyrstnefndu málin en þingið klofnaði í afstöðunni til tillögunnar um bann við kjarnorkuvopnatilraunum og voru það einkum Frakkar og Kínverjar sem beittu sér gegn tillögunni. Tillagan um bann við kjarnorkuvopnatilraunum var hins vegar samþykkt með miklum atkvæðamun. Fulltrúar landa sem höfðu að baki sér 933 atkvæði studdu tillöguna (þar á meðal öll Norðurlöndin), 65 atkvæði voru gegn henni og fulltrúar landa með 356 atkvæði sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

III. Störf og ályktanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingstörf niðri. Öll íslenska sendinefndin sat fundi ráðsins, þar af tveir sem áheyrnarfulltrúar.
    Við upphaf þingsins áttu 135 þing aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu en ráðið samþykkti að víkja Líberíu úr sambandinu vegna langvarandi skulda þess við sambandið. Auk þjóðþinganna 134 eiga nú þrjú fjölþjóðaþing aukaaðild að þinginu: Evrópuráðsþingið, þing Andean-ríkjanna í rómönsku Ameríku og þing ríkja rómönsku Ameríku.
    Að vanda var lögð fram ítarleg skýrsla um mannréttindamál þingmanna en mannréttindanefnd sambandsins gerði grein fyrir málum 79 starfandi og fyrrverandi þingmanna í tólf löndum. Þessi lönd eru Albanía, Búlgaría, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Hondúras, Indónesía, Maldíveyjar, Myanmar, Nígería, Tógó og Tyrkland. Sem fyrr voru einstakar þjóðdeildir hvattar til að vekja athygli þinga sinna og stjórnvalda á stöðu þessara þingmanna.
    Ráðið afgreiddi fjárlög sambandsins fyrir árið 1996. Geir H. Haarde gerði grein fyrir tillögum framkvæmdastjórnarinnar um lækkun útgjalda og voru þær einróma samþykktar.
    Á þinginu í Búkarest létu fimm af tólf framkvæmdastjórnarmönnum af störfum og kaus ráðið aðra í þeirra stað. Þeir sem létu af störfum voru: Tati Darsoyo frá Indónesíu, Leni Fischer frá Þýskalandi, Wataru Hiraizumi frá Japan, Mohamed Jelai Essaid frá Marokkó og Paez Verdugo frá Síle. Í stað þeirra gáfu sex þingmenn kost á sér í framkvæmdastjórnina: Najma Heptulla frá Indlandi, Zhi Qizhen frá Kína, Chung-Soo Park frá Kóreu, Roland Riz frá Ítalíu, Bongnessan Arsene frá Búrkína Fasó og Eduardo Menem frá Argentínu. Kínverski fulltrúinn náði ekki kjöri.
    Þá fjallaði ráðið að vanda um fjölmörg önnur mál er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta sambandsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda.

IV. Störf framkvæmdastjórnarinnar.


    Framkvæmdastjórnin fundaði í tvo daga fyrir upphaf þingsins auk þess sem hún hélt einn heilsdagsfund samhliða þinginu. Meginviðfangsefni funda framkvæmdastjórnarinnar voru fjármál sambandsins og staða Bandaríkjaþings innan þess. Þessi mál eru að verulegu leyti samtengd, eins og áður hefur verið getið, því að hugsanlegt brotthvarf Bandaríkjaþings hefði veruleg áhrif á starfsemi sambandsins. Skrifstofustjóri öldungadeildarinnar, Kelly Johnston, kom á fund framkvæmdastjórnar sambandsins til að gera grein fyrir stöðu mála á Bandaríkjaþingi og svara spurningum nefndarmanna um málið.
    Fyrir framkvæmdastjórninni lágu tillögur framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins um ýmsar leiðir til að draga úr útgjöldum sambandsins en framkvæmdastjórnin hafði falið honum að vinna að slíkri tillögugerð. Eftir langar umræður um málið varð framkvæmdastjórnin sammála um að lækka útgjöld þess um tæplega 460 þúsund svissneska franka á árinu 1996 en sú upphæð nemur 5% af áætluðum heildarútgjöldum sambandsins fyrir árið 1996.
    Þar sem kjörtímabil varaforseta Alþjóðaþingmannasambandsins, Tati Darsoyo frá Indónesíu, rann út á þinginu þurfti framkvæmdastjórnin að kjósa nýjan varaforseta en hún velur varaforseta úr sínum röðum til eins árs í senn. Varð Geir H. Haarde fyrir valinu en hann hefur setið í framkvæmdastjórn þess frá því í september 1994, fyrstur íslenskra þingmanna. Tillagan um Geir sem varaforseta sambandsins var flutt af fulltrúa Ungverjalands og fulltrúa Túnis og var hún einróma samþykkt. Varaforseti sambandsins er aðeins einn og mun Geir því gegna forsetastörfum þegar Ahmed Fathy Sorour, forseti egypska þingsins, sem jafnframt er forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, er forfallaður.

V. Störf pólitískra svæðahópa á þinginu.


         Daglegir fundir voru haldnir í Vesturlandahópnum innan þingmannasambandsins (Tólf-plús hópnum). Hópurinn fundaði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi, fjallað um innri málefni hópsins, afstöðu Bandaríkjaþings til Alþjóðaþingmannasambandsins, fjármál sambandsins og ýmis önnur mál er varða starfsemi þess.

D. GAGNABANKI ALÞJÓÐAÞINGMANNASAMBANDSINS


    Undanfarin ár hefur Alþjóðaþingmannasambandið unnið að því að koma á fót gagnabanka. Hann verður tvíþættur. Annars vegar er um að ræða upplýsingar um þjóðþing (nefnt PARLINE) og hins vegar um bækur, tímarit og önnur rit er fjalla um þjóðþing og sem hafa verið skráð af bókasafni sambandsins (nefnt PARLIT). Undirbúningur að gagnabanka sambandsins hefur verið í höndum sex manna ráðgjafarnefndar á vegum þess og hefur Þorsteinn Magnússon, ritari Íslandsdeildarinnar, átti sæti í henni.
    Alþjóðaþingmannasambandið stefnir að því að veita almennan aðgang að PARLINE og PARLIT á Internetinu á síðari helmingi ársins 1996 og munu þá þingmenn og starfsmenn Alþingis hafa fullan aðgang að gagnabankanum. Þá er í undirbúningi að bæta við þriðja meginþætti gagnabankans sem fæli í sér aðgang að þingskjölum sambandsins og fleiri gögnum sem snerta starfsemi þess.
    Væntanlega mun PARLINE-gagnabankinn vekja mestan áhuga. Gert er ráð fyrir að hann innihaldi upplýsingar um öll eða flest þjóðþing í heiminum. Í dag eru tilbúnir fjórir „kaflar“ gagnabankans og eru þeir eftirfarandi:
    almennar upplýsingar um þing, m.a. heiti þings, kjörtímabil þings, fjöldi þingsæta, nafn þingforseta og skrifstofustjóra og póstfang,
    kosningakerfi, m.a. fjöldi kjördæma, kosningareglur, kosningarréttur og kjörgengi,
    úrslit síðustu þingkosninga, m.a. síðasti kjördagur, aðdragandi kosninga og kosningaúrslit,
    embætti forseta þings, m.a. staða forsetans og hlutverk hans auk almennra upplýsinga um forsetaembættið, svo sem kjörtími forseta og reglur um val hans.

E. NÆSTU ÞING


    Næstu regluleg þing sambandsins verða í Istanbúl (apríl 1996), Beijing (september 1996), Seoul (apríl 1997) og Kaíró (september 1997).

Alþingi, 22. febr. 1996.



Geir H. Haarde,

Margrét Frímannsdóttir.

Magnús Stefánsson.


form.



Einar K. Guðfinnsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.





Neðanmálsgrein: 1
    Þegar skýrsla þessi er skrifuð í febrúar 1996 eru verulegar líkur á því að Bandaríkjaþing muni halda áfram þátttöku í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins. Í lok mánaðarins mun sendinefnd á vegum sambandsins fara til Washington til viðræðna við Bandaríkjaþing um málið. Sendinefndina munu skipa Ahmed Fathy Sorour, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Geir H. Haarde, varaforseti sambandsins, og Pierre Cornillon, framkvæmdastjóri þess.