Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 157 . mál.


610. Nefndarálit



um till. til þál. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Þórhall Ólafsson, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, og Arnald Árnason og Guðbrand Bogason frá Ökukennarafélagi Íslands. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Hópferðamiðstöðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Landssambandi lögreglumanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, lögreglustjóranum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Ökukennarafélagi Íslands og Læknafélagi Íslands. Þá sendi dómsmálaráðuneytið nefndinni afrit af bréfi frá P. Samúelssyni hf.
    Megintilgangur tillögunnar er að stefna að því að umferðaröryggismál verði rædd á Alþingi árlega fram til ársins 2000 þar sem dómsmálaráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu mála og komi með frekari tillögur til úrbóta. Önnur norræn ríki fóru þessa leið fyrir 4–5 árum síðan og hafa þau flest náð þeim markmiðum sem þau settu sér í upphafi. Þess má geta að fram kom hjá fulltrúa dómsmálaráðuneytisins að framkvæmd þeirra 22 átaksatriða sem talin eru upp í athugasemdum við tillöguna er þegar langt komin. Mikilvægt er að ljúka þeirri vinnu sem og að hrinda í framkvæmd þeim atriðum sem eftir standa. Ráðherra mun síðan á næsta ári fara yfir það hvernig til hefur tekist jafnhliða því að koma með nýjar tillögur.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Við 2. málsl. bætist: í samvinnu við ökumenn og samtök þeirra.

    Jóhanna Sigurðardóttir, fulltrúi Þjóðvaka, sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. febr. 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sighvatur Björgvinsson.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Jón Kristjánsson.

Hjálmar Jónsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ögmundur Jónasson.

Kristján Pálsson.