Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 356 . mál.


616. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Á eftir 3. mgr. 5. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Nánari ákvæði um framkvæmd málsgreinar þessarar skulu sett í reglugerð.
    Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti, enda sé ljóst að hagsmunum Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði betur borgið með nauðasamningi.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 12. desember 1994 segir m.a.:
    „Nefnd, sem skipuð var af félagsmálaráðherra til þess að fjalla um málefni meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda og fjárhagsvanda Innheimtustofnunar sveitarfélaga, skilaði tillögum sínum 19. október sl. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að tillögur nefndarinnar, er lúta að réttarstöðu krafna, skuldajöfnun og samningum við skuldara, komi til framkvæmda sem fyrst til að bæta skil við stofnunina.
    Komið verði á fót nefnd félagsmálaráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vinni að því að taka aðrar tillögur nefndarinnar til athugunar. Nefndin leggi fram tillögur til úrbóta í málefnum meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda sem miði varanlega að því að fjárvöntun Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði undir 300 m.kr. á ári til þess að ekki þurfi framar að taka lán vegna óinnheimtra meðlaga og að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti sinnt hlutverki sínu í framtíðinni.“
    Í framhaldi af yfirlýsingunni var framangreind nefnd skipuð 6. mars 1995. Í nefndina voru skipuð: Ingvar Viktorsson bæjarfulltrúi, formaður, Dögg Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ólafur Hjálmarsson deildarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Magnús Karel Hannesson oddviti. 8. júní 1995 var gerð sú breyting á nefndinni að Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður var skipaður formaður í stað Ingvars Viktorssonar. Þá starfaði Björn Arnar Magnússon deildarsérfræðingur með nefndinni.
    Nefndin skipti starfi sínu í tvo hluta. Í fyrri hlutanum var unnið að tillögum sem miða skyldu að því að að gera innheimtu Innheimtustofnunar sveitarfélaga léttari og skilvirkari. Í seinni hlutanum ætlar nefndin að skoða hvernig innheimtu meðlaga er háttað í öðrum löndum og hvort ekki megi draga einhvern lærdóm af því. Einnig hefur nefndin fengið Löggilta endurskoðendur hf. til að gera úttekt á þeim einstaklingum sem eru í vanskilum við Innheimtustofnun sveitarfélaga með tilliti til tekna þeirra, eigna og stöðu. Nefndin áformar að skila niðurstöðum þessa hluta starfsins næsta vor.
    Hinn 22. september 1995 skilaði nefndin tillögum til félagsmálaráðherra varðandi fyrri hluta starfs nefndarinnar. Tillögurnar eru eftirfarandi:
    Auknar verði heimildir stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til samninga við skuldara með það að markmiði að gera fleiri skuldara að skilamönnum. Stjórninni verði heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um að lægri upphæð verði greidd en fellur til mánaðarlega og yrðu slíkir samningar t.d. endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti. Stjórnin fái heimildir til að afskrifa höfuðstól eða hluta hans ef um sérstakar aðstæður er að ræða svo sem fjárhags- og félagslega erfiðleika, enda aðstæður skuldara þannig að hann getur eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans auk meðlaga sem falla til mánaðarlega.
    Nefndin beinir því til fjármálaráðuneytis að Innheimtustofnun sveitarfélaga fái heimildir til skuldajöfnunar meðlaga á móti inneign virðisaukaskatts meðlagsgreiðenda.
    Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytis að kröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga fái sömu réttarstöðu og skattakröfur hins opinbera hvað aðfararbeiðnir snertir.
    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu á grundvelli tillögu nr. 1 og er þáttur í samræmdum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til hjálpar einstaklingum sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum við að ná tökum á fjármálum sínum. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði heimilt að gera tímabundna samninga við skuldara sem kveða á um að lægri upphæð verði greidd en fellur til mánaðarlega. Slíka samninga skuli endurskoða á sex mánaða fresti. Jafnframt er lagt til að stjórnin fái heimild til að afskrifa höfuðstól eða hluta hans ef um sérstakar aðstæður er að ræða hjá skuldara svo sem félagslega erfiðleika, enda séu aðstæður skuldara þannig að hann geti ekki greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans auk meðlaga sem falla til mánaðarlega. Gert er ráð fyrir að heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans verði bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. málsgreinarinnar.
    Tillaga þessi miðar að því að auka innheimtuhlutfall Innheimtustofnunar sveitarfélaga til frambúðar og stækka greiðendahópinn. Jafnframt verði reynt að fækka þeim einstaklingum sem taka þann kost að vinna á svörtum markaði til þess að koma sér undan meðlagsgreiðslum og hárri skuld við Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Í september 1995 voru heildarskuldir þeirra 10.660 meðlagsgreiðenda sem voru í vanskilum við Innheimtustofnun sveitarfélaga tæpir 5,5 milljarðar króna eða 515 þúsund krónur á hvern skuldara að meðaltali.
    Heimild til að gera þá samninga sem um ræðir í 1. málsl. málsgreinarinnar leiðir til þess að líklegra er að hægt sé að gera meðlagsskuldurum kleift að komast í skil með greiðslur til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
    Í 2. mgr. er lagt til að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti. Það skilyrði er þó sett að ljóst sé að hagsmunum Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði betur borgið með nauðasamningi.
    Heimild þessi er sett til að tryggja að þegar einstaklingur þarf að leita nauðasamninga vegna erfiðrar fjárhagsstöðu, þá geti skuldir við Innheimtustofnun sveitarfélaga fallið undir þá samninga. Samkvæmt gildandi lögum er slík heimild ekki til staðar fyrir stjórn stofnunarinnar.
    

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun


sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er kveðið á um að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé heimilað að gera tímabundna samninga við skuldara um lækkun á mánaðarlegum greiðslum. Einnig er lagt til að stofnuninni sé heimilað undir vissum kringumstæðum að afskrifa að hluta eða öllu leyti höfuðstól skuldar. Skilyrði fyrir þessu er að skuldari hafi staðið við samning um lækkun mánaðarlegra greiðslna í a.m.k. þrjú ár. Er þetta gert með það að markmiði að gera fleiri skuldara að skilamönnum. Ekki verður séð að frumvarpinu fylgi kostnaður fyrir ríkissjóð.