Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 117 . mál.


623. Nefndarálit



um frv. til l. um erfðabreyttar lífverur.

Frá umhverfisnefnd.



    Máli þessu var fyrst vísað til nefndarinnar á 119. löggjafarþingi og bárust nefndinni þá umsagnir frá Rannsóknarráði Íslands, líftæknideild Iðntæknistofnunar Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, fagráði í lífrænni framleiðslu, Náttúruverndarráði, Læknafélagi Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Málinu var aftur vísað til nefndarinnar á 120. löggjafarþingi, að mestu óbreyttu. Hefur nefndin fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna Sigurbjörgu Sæmundsdóttur, deildarstjóra í umhverfisráðuneyti, Franklín Georgsson frá Hollustuvernd ríkisins, Ólaf Andrésson og Valgerði Steinþórsdóttur frá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á Keldum, Mikael M. Karlsson frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Jórunni Erlu Eyfjörð sameindaerfðafræðing og Aðalheiði Jóhannsdóttur frá Náttúruverndarráði.
    Nefndin leggur til að gerðar verði ýmsar breytingar á frumvarpinu, bæði efnisbreytingar og orðalagsbreytingar, og er þær að finna á sérstöku þingskjali. Eftirfarandi eru skýringar á þeim efnisbreytingum sem lagðar eru til:
    Lagt er til að við 1. gr. verði bætt ákvæði er kveður á um að öll framleiðsla og meðferð erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt og í samræmi við grundvallarregluna um sjálfbæra þróun. Um er að ræða svið þar sem líklegt er að siðfræðileg álitaefni komi til umræðu og því þykir mikilvægt að fram komi í markmiðsgrein laganna að beiting erfðatækni verði í samræmi við almenn siðferðisviðhorf þjóðfélagsins á hverjum tíma. Í samræmi við þetta eru lagðar til ýmsar breytingar á frumvarpinu, svo sem að við skipun í ráðgjafanefnd skv. 6. gr. verði höfð í huga tengsl við sérfræðistofnanir í siðfræði. Þá skal leyfi til afmarkaðrar notkunar, sleppingar og dreifingar erfðabreyttra lífvera því aðeins veitt að það sé talið siðferðilega réttlætanlegt.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 2. gr. frumvarpsins auk þess sem bætt er við tveimur nýjum málsgreinum. Annars vegar er lagt til að tekið verði skýrt fram í lagatexta að lögin gildi ekki um afurðir erfðabreyttra lífvera. Kom það fram í greinargerð við frumvarpið að ákvæðum þess var ekki ætlað að ná til slíkra afurða. Þá er lagt til að við framkvæmd laganna skuli höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á skilgreiningum sem koma fram í 4. gr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða breytingu á skilgreiningu á erfðabreyttum lífverum og miðar hún að því að skýra viðfangsefni frumvarpsins frekar. Í öðru lagi er um að ræða tillögu um að fallið verði frá notkun hugtaksins „áhættumat“ og þess í stað komi hugtakið „greinargerð um hugsanlegar afleiðingar“. Í þriðja lagi er bætt inn skilgreiningu á afurðum erfðabreyttra lífvera, en þeim reglum, sem settar eru fram í frumvarpinu, er ekki ætlað að ná til slíkra afurða. Loks er lagt til að bætt verði inn í greinina skilgreiningu á lífveru í stað örveru. Er sú breytingartillaga flutt í ljósi þess að hvergi er fjallað sérstaklega um örverur í frumvarpinu.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til á 6. gr. Felast þær í fyrsta lagi í því að ráðgjafanefnd, sem mælt er fyrir um að komið skuli á fót, verði skipuð níu mönnum í stað fimm en með því á að tryggja að fleiri sjónarmið komi fram í nefndinni. Að öðru leyti miða breytingartillögurnar að því að skýra frekar verkefni og starfssvið nefndarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að við skipun í nefndina verði höfð í huga tengsl við sérfræðistofnanir í náttúrufræði og siðfræði. Með því er þó ekki verið að leggja til að að hver og einn nefndarmanna sé sérfróður á sviði erfðatækni eða siðfræði heldur að innan nefndarinnar sé til staðar sérfræðiþekking á þessum sviðum. Þá er gerð tillaga um breytingu er miðar að því að auka frumkvæði nefndarinnar þar sem henni er falið að gera tillögur til ráðherra um allt það er horfir til betri vegar í erfðatækni. Loks er lagt til að nefndinni verði falið að beita sér fyrir fræðslu fyrir almenning um erfðatækni og erfðabreytingar.
    Lögð er til sú breyting á 7. gr. að umhverfisráðherra skuli leita umsagnar ráðgjafanefndarinnar áður en hann setur reglugerðir á grundvelli laganna. Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar og einnig bætt við liðum sem mæla fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerðir um fræðslu fyrir almenning um erfðatækni annars vegar og hins vegar um ábyrgðartryggingar.
    Í 8. gr. er fjallað um umsóknir um leyfi til starfsemi þar sem fara á fram afmörkuð notkun erfðabreyttra lífvera. Nokkrar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu. Í fyrsta lagi sú breyting að orðið áhættumat verði ekki notað heldur verði umsækjendum ætlað að gera í umsókn sinni grein fyrir hugsanlegum afleiðingum afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra lífvera á heilsu manna og umhverfi. Er þessi breyting lögð til m.a. með hliðsjón af norsku lögunum um erfðatækni. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði inn í greinina ákvæði þess efnis að Hollustuvernd ríkisins geti krafist þess að umsækjandi veiti frekari upplýsingar en fram koma í umsókn um aðstöðu umsækjanda og fyrirhugaða starfsemi. Er með þessu opnuð leið fyrir Hollustuvernd til að krefjast ítarlegri gagna og fá frekari skýringar á einstökum atriðum, t.d. hvað varðar greinargerð um hugsanlegar afleiðingar.
    Í 10. gr. er að finna reglur um meðferð umsókna og skilyrði fyrir leyfisveitingum Hollustuverndar ríkisins. Nauðsynlegt þótti að kveða skýrar á um ýmsa þætti þessa ferlis. Þannig er í fyrsta lagi lagt til að bætt verði í frumvarpið ákvæði um að Hollustuvernd leggi mat á hverja umsókn á grundvelli framkominna gagna og umsagnar ráðgjafanefndar, sem m.a. er ætlað að veita umsögn um siðferðileg álitaefni, og taki afstöðu til þess hvort veita skuli leyfi. Þá er lagt til að bætt verði inn ákvæði, í samræmi við breytingartillögu við 1. gr., um markmið laganna, þess efnis að aðeins sé heimilt að veita leyfi að það sé siðferðilega réttlætanlegt. Loks er lagt til að bætt verið inn í lögin, í samræmi við það sem segir í greinargerð, að Hollustuvernd ríkisins skuli hafa eftirlit með og skrásetja þær tegundir erfðabreyttra lífvera sem unnið er með hverju sinni.
    Við 13. gr., sem fjallar um umsóknir vegna sleppingar og dreifingar á erfðabreyttum lífverum, eru gerðar nokkrar breytingartillögur. Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um hvenær unnt er að sækja um leyfi fyrir fleiri en eina sleppingu eða dreifingu í sömu umsókn. Lagt er til að það verði aðeins heimilað ef um er að ræða fleiri tegundir sem öllum er sleppt á sama stað eða sömu tegund sem sleppa á á fleiri stöðum í sama tilgangi og á tilteknum tíma. Í öðru lagi er lögð til sams konar breyting og á 8. gr. varðandi greinargerð um hugsanlegar afleiðingar af sleppingu og dreifingu. Þá er einnig gert ráð fyrir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um siðferðileg álitaefni, sbr. breytingartillögu við 1. gr. Einnig er lögð til breyting sem lýtur að frágangi umsókna. Umsóknir skulu vera þannig úr garði gerðar að þær séu skiljanlegar almenningi og fallnar til almennrar kynningar. Loks er lagt til að lögbundið verði að Hollustuvernd skuli leita umsagna Náttúruverndarráðs og rannsóknastofnana sem starfa á því sviði sem umsókn lýtur að, auk þess sem umsagna skal leitað hjá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Gert er ráð fyrir nánari útfærslu á formi umsagna og umsagnarfresti í reglugerð.
    Á 14. gr. eru lagðar til breytingar sem eru sambærilegar við breytingartillögur við 10. gr. Þær lúta að meðferð umsókna og leyfisveitingum Hollustuverndar ríkisins.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 15. gr. Miða þær að því að skerpa ábyrgð þess sem fengið hefur leyfi til sleppingar eða dreifingar á erfðabreyttum lífverum eða hefur sótt um slíkt leyfi. Leyfishafa verði þannig gert skylt að tilkynna Hollustuvernd ríkisins um nýjar upplýsingar sem koma fram um áhættu sem fylgt getur sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera og ef talið er nauðsynlegt að breyta heimilaðri tilhögun um sleppingu eða dreifingu þeirra. Á grundvelli nýrra upplýsinga er gert ráð fyrir að Hollustuvernd taki afstöðu til leyfis eða leyfisveitingar á ný.
    Lagt er til að í 17. gr. verði bætt sams konar ákvæði og gerð er tillaga um að bæta í 10. og 14. gr. um meðferð umsókna og leyfisveitingar Hollustuverndar.
    Í 19. gr. er lagt til að bætt verði við ákvæði um möguleika á að banna eða takmarka markaðssetningu tiltekinna erfðabreyttra lífvera hérlendis, þ.e. að banna megi markaðssetningu ef hún samræmist ekki íslenskum lögum. Haft var til hliðsjónar svipað ákvæði í norskum lögum sem veitir norskum yfirvöldum heimild til að banna eða takmarka markaðssetningu erfðabreyttra lífvera telji þau að markaðssetningin hafi í för með sér hættu fyrir heilsu manna og umhverfi eða ef hún stríðir gegn öðrum markmiðum norsku laganna. Þá er sérstaklega tekið fram í norsku lagagreininni að við leyfisveitingar verði að taka tillit til þess hvort markaðssetning hefur í för með sér þjóðfélagslegan ávinning eða hvort hún styrkir sjálfbæra þróun.
    Loks eru lagðar til breytingar á 27. gr. Miða þær að því að skýra nánar ákvæði um fund þann sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Lagt er til að fundurinn verði kallaður opinn áheyrnarfundur í stað opinbers fundar áður. Fyrirmyndin að slíkum fundi er það sem nefnist á skandinavísku „offentlig höring“ og á ensku „public hearing“ Gert er ráð fyrir að heimild verði til að halda slíka fundi. Hollustuvernd ríkisins ákveður hvort boðað verði til slíks fundar.
    Loks er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði fellt brott, þar sem það þykir óþarft.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Einar Oddur Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febr. 1996.



Ólafur Örn Haraldsson,

Gísli S. Einarsson.

Árni M. Mathiesen.


form., frsm.



Hjörleifur Guttormsson.

Tómas Ingi Olrich.

Ísólfur Gylfi Pálmason.



Kristín Halldórsdóttir.