Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 98 . mál.


633. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu, Jóhann Albertsson og Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Guðmund Hauksson og Helga Sigurðsson frá Samtökum verðbréfasjóða, Karl Jóhann Ottósson verðbréfamiðlara, Pétur Kristinsson verðbréfamiðlara, Agnar Kofoed-Hansen verðbréfamiðlara, Hrafn Magnússon frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Guðbjörn Marinósson og Valgarð Sverrisson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands. Sömu aðilar sendu nefndinni umsagnir um málið.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þar er um tvær efnisbreytingar að ræða, báðar til samræmis við þær breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti. Annars vegar er um að ræða tillögu um breytingu á 2. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að gerðar verði ríkari kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra verðbréfasjóða en gert er ráð fyrir í hlutafélagalöggjöfinni og hins vegar breytingu á 10. gr. þar sem lagt er til að kröfur á hendur endurskoðendum verði auknar frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Síðarnefnda breytingin miðar að því að uppfylla skilyrði svokallaðrar „Post BCCI“ tilskipunar Evrópusambandsins, nr. 95/26. Breyting á 3. gr. felur einungis í sér leiðréttingu á texta frumvarpsins og breyting á 4. gr. er til samræmis við tillögur nefndarinnar við frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti um að nota hugtakið fyrirtæki í verðbréfaþjónustu í stað fjárfestingarfyrirtækis.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febr. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.

Valgerður Sverrisdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.

Sólveig Pétursdóttir.