Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 97 . mál.


637. Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfaviðskipti.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu, Jóhann Albertsson og Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Guðmund Hauksson og Helga Sigurðsson frá Samtökum verðbréfasjóða, Karl Jóhann Ottósson verðbréfamiðlara, Pétur Kristinsson verðbréfamiðlara, Agnar Kofoed-Hansen verðbréfamiðlara, Hrafn Magnússon frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Guðbjörn Marinósson og Valgarð Sverrisson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands. Sömu aðilar sendu nefndinni umsagnir um málið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Af þeim breytingum ber fyrst að nefna að nefndin telur eiga betur við að tala um fyrirtæki í verðbréfaþjónustu en fjárfestingarfyrirtæki eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Til slíkra fyrirtækja heyra annars vegar verðbréfafyrirtæki og hins vegar verðbréfamiðlanir. Í frumvarpinu er notað orðið verðbréfamiðlunarfyrirtæki en nefndinni þykir fara betur að tala um verðbréfamiðlun. Skal nú gerð nánari grein fyrir breytingartillögum við einstakar greinar eftir því sem efni þykir til:
    Við 1. gr. Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um ýmsa viðbótarþjónustu sem verðbréfafyrirtækjum er heimilt að hafa með höndum, þar á meðal ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun o.fl, sbr. d-lið 8. gr. Ljóst er að ýmsir aðilar aðrir en verðbréfafyrirtæki veita slíka ráðgjöf og leggur nefndin því til að afdráttarlaust verði kveðið á um það í 2. mgr. 1. gr. að slík þjónusta falli ekki undir gildissvið laganna. Aðrar breytingar á greininni eru ekki efnislegar.
    Við 2. gr. Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á skýringu hugtaksins „almennt útboð“ þannig að utan slíks útboðs falla verðbréf í sama flokki sem þegar eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Í öðru lagi er lagt til að við greinina verði bætt skilgreiningu á hugtakinu „nánum tengslum“. Breytingin miðar að því að uppfylla skilyrði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 95/26, svokallaðri Post-BCCI tilskipun, er breytir ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu, þar á meðal tilskipun um fjárfestingarfyrirtæki, nr. 93/22, sem frumvarpið byggir á. Nauðsynlegt er að fyrir liggi skilgreining á hugtakinu „náin tengsl“ vegna annarra ákvæða í frumvarpinu er mæla fyrir um sérstakar skyldur endurskoðenda. Í þriðja lagi eru lagðar til minni háttar breytingar á skilgreiningum á hugtökunum „föstum rekstrarkostnaði“ og „veltubók“. Síðari breytingin er nauðsynleg til að koma í veg fyrir misskilning um að veltubók nái eingöngu til verðbréfaeignar sem tengd er verðmunarviðskiptum (arbitrage). Aðrar breytingar á greininni þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Við 3. gr. Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðinu. Þar ber fyrst að geta að lagt er til að gerðar verði ríkari kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu en gert er í hlutafélagalöggjöfinni. Þykir þetta eðlilegt með hliðsjón af þeirri miklu ábyrgð sem starf þeirra felur í sér. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði frumvarpsins um kröfur til framkvæmdastjóra varðandi þekkingu á verðbréfaviðskiptum víki ekki frá þeirri tilhögun sem kveðið er á um í gildandi lögum. Þá er lagt til að ákvæði 4. gr. um heimildir ráðherra til að synja um starfsleyfi verði fært í 3. gr. frumvarpsins samhliða því að ákvæði greinarinnar um fyrirkomulag umsóknar, sem og um öflun umsagnar frá öðrum aðilum, verði færð yfir í 4. gr. Miða þessar síðastnefndu breytingar að því að gera uppsetningu ákvæðanna skýrari. Jafnframt þessu er lagt til að við hina nýju 2. mgr. 3. gr. verði bætt ákvæði er varðar heimild til synjunar umsókn um starfsleyfi ef um náin tengsl er að ræða, sbr. skýringu við breytingu á 2. gr.
    Við 4. gr. Efni greinarinnar var áður í 2. og 3. mgr. 3. gr. en jafnframt er ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. fært yfir í þessa grein. Ekki er um neina efnisbreytingu að ræða.
    Við 5. gr. Lögð er til sú breyting á greininni að ráðherra beri að tilkynna ákvörðun sína um veitingu eða synjun umsóknar innan þriggja mánaða, en frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra geti haft allt að sex mánaða frest.
    Við 7. gr. Lagfærð er röng tilvísun í greininni.
    Við 8. gr. Lagt er til að 2. tölul. greinarinnar um skjöl verði felldur brott þar sem hann hefur ekki efnislega þýðingu.
    Við 9. gr. Annars vegar er lagt til að verðbréfamiðlurum verði heimilt að veita sérfræðiráðgjöf um verðbréfaviðskipti óháð því hvort sú ráðgjöf tengist beint einstökum viðskiptum. Hins vegar er lagt til að þeim verði heimilað að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning að því skilyrði uppfylltu að innborgað hlutafé nemi a.m.k. 10 milljónum króna.
    Við 10. gr. Samkvæmt texta 10. gr. frumvarpsins fellur viðbótarþjónusta skv. 3. tölul. 8. gr. undir einkarétt fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Nefndin leggur til að slík þjónusta verði undanskilin enda eru sum þeirra atriða, sem þar eru talin upp, það almenns eðlis að ekki er hægt að útiloka aðra frá þeim.
    Við 12. gr. Lagt er til að sá frestur sem gert er ráð fyrir að ráðherra hafi til að synja hluthafa um að eignast hlut eða til að fara með atkvæðarétt sinn verði styttur úr þremur mánuðum í einn mánuð.
    Við 19. gr. Lagt er til að fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu, sem bjóða upp á vörslu verðbréfa, sbr. a-lið 3. tölul. 8. gr., verði í stað þess að árita bréfin við hvert einstakt framsal heimilað að halda sérstaka framsalsskrá. Breytingin er hugsuð til hagkvæmni og sparnaðar fyrir fyrirtækin jafnt sem framseljendur verðbréfa. Nefndinni er ljóst að tillagan gengur gegn þeirri meginreglu viðskiptabréfaréttarins að framsal skuli ávallt skráð á bréfið þegar það er framselt. Með tilliti til síaukinna krafna um hraða og hagkvæmni í viðskiptalífinu og þar sem núverandi fyrirkomulag er farið að hamla þar gegn telur nefndin rétt að leyfa slíka tilhögun, þó með þeim fyrirvara að fyrir liggi samþykki bankaeftirlitsins um að fyrirkomulag vörslu og það upplýsingakerfi sem fyrirtækið hyggst nota sé í lagi. Heimildin gildir að sjálfsögðu aðeins fyrir þann tíma sem bréfin eru í vörslu fyrirtækisins. Um leið og einhver óskar eftir að taka bréf úr vörslu þess er gert ráð fyrir að röð framsalshafa, sem bæst hafa við meðan bréfið var í vörslu, verði rituð á það.
    Lagt er til að í III. kafla frumvarpsins verði tekið nýtt ákvæði, 24. gr., sem undanþiggi verðbréfafyrirtæki frá stimpilskyldu. Sams konar heimild er að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Við 25. gr. Nefndin sér ekki ástæða til að flokka tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands sem trúnaðarupplýsingar allt til þess tíma er þeim er miðlað frá þinginu og leggur því til að miðað verði við það tímamark er upplýsingarnar berast til þingsins.
    Við 31. gr. Aðallega er um að ræða breytingar er lúta að formi greinarinnar. Þó er gert ráð fyrir þeirri efnisbreytingu að til að fullnægja tilskipunum Evrópusambandsins verði fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu gert að tilkynna bankaeftirlitinu ef endurgreiðsla af víkjandi láni veldur því að eiginfjárhlutfall fer niður fyrir 10%.
    Við 33. gr. Lagt er til að kröfur um efnisinnihald ársreiknings verði samræmdar þeim kröfum sem gerðar eru í lögum um ársreikninga.
    Við 35. gr. Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til endurskoðenda frá því sem frumvarpstextinn gerir ráð fyrir. Breytingin er til samræmis við framangreinda „Post BCCI“ tilskipun ESB.
    Við 36. gr. Lagt er til að bankaeftirlitinu beri að taka meira tillit til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu en verið hefur þegar þau eru krafin um upplýsingar vegna hagskýrslugerðar.
    Við 37. gr. Lagt er til að lokamálsliður greinarinnar falli brott. Nefndin telur að með tilliti til jafnræðissjónarmiða sé ekki skynsamlegt að veita ráðherra heimild til að stytta þá fresti sem ákvæðið gerir annars ráð fyrir að fyrirtæki hafi til að auka eigið fé ef honum sýnist sem þær tilraunir verði árangurslausar.
    Við 50. gr. Lögð er til sams konar breyting hvað varðar afturköllun starfsleyfa og lögð er til að gerð verði á 3. gr. varðandi veitingu leyfa. Vísast í skýringar við þá grein í þessu sambandi.
    Við 60. gr. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en frumvarpið gerði ráð fyrir að þau öðluðust gildi 1. janúar sl.
    Við ákvæði til bráðabirgða. Annars vegar er lagt til að frestur einstaklinga, sem hyggjast sækja um leyfi til verðbréfamiðlunar til að laga sig að hinum nýjum lögum, verði til 1. janúar 1997 þar sem eðlilegt þykir að miða þetta við almanaksárið. Hins vegar er lagt til að bætt verði við nýju ákvæði til bráðabirgða þar sem fram komi reglur um frest starfandi fyrirtækja til að fullnægja skilyrðum 3. gr. um innborgað hlutafé.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er tilgangur þeirrar heildarendurskoðunar á lögum um verðbréfaviðskipti sem verið er að gera fyrst og fremst að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu. Sumar af þeim tillögum, sem lagðar eru fram af nefndinni, eins og breytingar á 2., 31. og 35. gr., miða einnig að þessu marki. Ekki hvað síst er þó verið að skapa góðan ramma utan um verðbréfaviðskipti almennt og hefur nefndin í því sambandi lagt sig fram um að stuðla að aukinni skilvirkni viðskiptalífsins, sbr. breytingar á 5. og 12. gr. um styttri fresti og tillögu um sérstaka framsalsskrá í 19. gr.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febr. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.

Valgerður Sverrisdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.

Sólveig Pétursdóttir.