Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 369 . mál.


646. Beiðni um skýrslufrá forsætisráðherra um muninn á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku.

Frá Margréti Frímannsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Kristni H. Gunnarssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni, Ragnari Arnalds,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Ögmundi Jónassyni.    Með vísun til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um muninn á launum og lífskjörum á Íslandi annars vegar og í Danmörku hins vegar. Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
    Hver er munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og Danmörku? Miðað skal við nokkrar atvinnustéttir opinberra starfsmanna og almenns verkafólks.
    Hve stór hluti dagvinnulauna má ætla að fari til lífsframfæris meðalfjölskyldna af eftirfarandi gerð:
         
    
    einstæðir foreldrar,
         
    
    báðir makar í fullri vinnu,
         
    
    annar maki í fullri vinnu, hinn heimavinnandi?
    Hverjir eru meðalskattar og jaðarskattar framannefndra fjölskyldugerða miðað við mismunandi tekjur?
    Hver er munurinn á barnabótum, vaxtabótum og húsaleigubótum?
    Hver er meðalvinnutími og hversu algeng er yfirvinna? Hvernig er staðið að greiðslum fyrir yfirvinnu?
    Hve mikið fá aldraðir og öryrkjar frá ríki og úr lífeyrissjóðum? Hvaða afslátt fá þeir af þjónustugjöldum og fyrir hvaða þjónustu þurfa þeir að greiða?
    Hver er réttur foreldra í veikindum barna í skamman eða langan tíma? Hver er réttur þeirra gagnvart:
         
    
    atvinnurekendum,
         
    
    ríki?
    Hver er munurinn á þjónustugjöldum fyrir:
         
    
    mismunandi tekjuhópa,
         
    
    börn?
    Hverjir eru möguleikar á orlofi, svo sem fæðingarorlofi, foreldraorlofi og menntunarorlofi?

    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu þegar henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Á kjaramálaráðstefnu, sem Alþýðubandalagið stóð fyrir 17. febrúar sl., kom fram að samanburður á launum og lífskjörum á Íslandi og í nágrannalöndunum er Íslendingum mjög óhagstæður og dæmi eru um allt að 170% mun á dagvinnulaunum verkafólks innan sömu starfsgreina. Þar sem vinnumarkaðurinn er orðinn opnari og alþjóðlegri en áður var mótmæla stöðugt fleiri Íslendingar lágum launum og lélegum lífskjörum með því að flytja til annarra landa. Mikilvægt er að tryggja sambærileg lífskjör hér og í nálægum löndum. Undirstaða þess er að skoða í hverju munurinn er fólginn og leita síðan leiða til úrbóta. Því fer þingflokkur Alþýðubandalagsins fram á að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um þetta efni. Könnunin, sem farið er fram á að gerð verði, er viðamikil og kostnaðarsöm. Því verður að gera ráð fyrir að ráðuneytið fái til þessarar vinnu sérstakt framlag. Þingflokkur Alþýðubandalagsins leggur áherslu á að skýrsla þessi liggi fyrir og verði rædd á Alþingi fyrir lok þessa þings.