Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 106 . mál.


675. Nefndarálit



um frv. til l. um gatnagerðargjald.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sesselju Árnadóttur deildarstjóra frá félagsmálaráðuneyti. Þá komu til fundar við nefndina Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri frá embætti borgarverkfræðings í Reykjavík, Guðmundur Baldursson, bæjartæknifræðingur í Hveragerði, og Gísli Norðdahl, byggingarfulltrúi frá Kópavogsbæ.
    Skriflegar umsagnir bárust nefndinni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSNV – Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að ákvæði um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um endurgreiðslu gatnagerðargjalds verði fellt brott úr 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins og þess í stað vísað til þess í 1. mgr. 6. gr. að ráðherra skuli setja slíka reglugerð.
    Með breytingum á 2. gr. frumvarpsins er skilgreint nánar til hvers skuli verja gatnagerðargjaldi sem innheimt er samkvæmt lögunum og meðal annars tekin af tvímæli um að lagnir vegna götulýsingar geti heyrt þar undir. Með þessu er þó ekki stefnt að því að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur í einstaka sveitarfélögum, sem eiga sjálf rafveitur eða hitaveitur, að slíkar stofnanir standi straum af kostnaði við lagnir vegna götulýsingar og lýsinguna sjálfa. Í þessu samhengi er síðan lagt til að í sérstakri gjaldskrá, sem hverju sveitarfélagi ber að setja skv. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins, skuli koma fram hvað sé innifalið í gjaldinu í hverju sveitarfélagi.
    Þá er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 1997 þar sem heppilegast er að miða við áramót vegna áætlanagerðar sveitarfélaga. Þá er og lagt til að aðlögunartími samkvæmt fyrri tölulið ákvæðis til bráðabirgða verði lengdur úr fimm árum í tíu ár þar sem sveitarfélögin eru misjafnlega vel á vegi stödd til þess að mæta þeim tímamörkum sem sett eru. Lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, með síðari breytingum, munu því gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. þeirra laga sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laga þessara með nánari skilyrðum sem kveðið er á um í fyrri tölulið ákvæðis til bráðabirgða.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 11. mars 1996.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Einar K. Guðfinnsson.

Magnús Stefánsson.

Pétur H. Blöndal.



Bryndís Hlöðversdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.