Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 385 . mál.


677. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Lögin gilda einnig um starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.

2. gr.


    Í stað orðanna „Siglingamálastofnunar ríkisins“ í 3. mgr. 10. gr., 1. mgr. 14. gr., 22. gr. og 24. gr. laganna kemur: Hollustuverndar ríkisins.

3. gr.


    13. gr. laganna orðast svo:
    Allt úrkast efna og hluta í hafið er óheimilt, sbr. þó 2. mgr. þessarar greinar.
    Hollustuvernd ríkisins getur heimilað að eftirtöldum efnum og hlutum sé varpað í hafið:
    dýpkunarefnum;
    náttúrulegum, óvirkum efnum, þ.e. föstum jarðefnum sem ekki hafa hlotið efnafræðilega vinnslu og samsett eru úr efnum sem ólíklegt er að losni út í hafsvæðið;
    fiskúrgangi frá fiskverkunarstöðvum;
    skipum eða loftförum fram til 31. desember 2004 í síðasta lagi.
    Við veitingu leyfis skv. 2. mgr. skal taka mið af eðli efnanna og hlutanna, magni þeirra og aðstöðu á losunarstað.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um úrkast dýpkunarefna að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Hafnamálastofnunar. Þar skal sérstaklega kveðið á um magn þeirra mengunarefna sem vísað er til í fylgiskjali 2.
    Kostnaður við eftirlit með úrkasti í hafið greiðist af leyfishafa.

4. gr.


    17. gr. laganna orðast svo:
    Nú er sýnt að mengunarvaldi takist ekki að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skaða af völdum mengunarinnar og skulu þá hafnayfirvöld tafarlaust hefja aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr mengun á viðkomandi hafnarsvæði og Hollustuvernd ríkisins, í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands og Siglingamálastofnun ríkisins og Hafnamálastofnun, utan hafnasvæða.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Siglingamálastofnun ríkisins“ kemur: Hollustuvernd ríkisins.
    Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu Hollustuverndar ríkisins og að höfðu samráði við sveitarstjórnir að setja nánari reglur um framkvæmd þessara mála, svo sem um skiptingu landsins í svæði, skipan í svæðisráð, notkun mengunarvarnabúnaðar og stjórn á mengunarstað.
                  Ráðherra getur að fenginni tillögu Hollustuverndar ríkisins og að höfðu samráði við sveitarstjórnir sett samræmda gjaldskrá vegna notkunar mengunarvarnabúnaðar.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Siglingamálastofnun ríkisins“ kemur: Hollustuvernd ríkisins.
    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ kemur: Siglingamálastofnunar ríkisins.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
    2. mgr. fellur brott.
    Orðin „að höfðu samráði við heilbrigðismálaráðherra og menntamálaráðherra“ í 3. mgr. falla brott.
    Orðin „að höfðu samráði við heilbrigðisráðherra“ í 4. mgr. falla brott.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, ásamt síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 1979 voru sett lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, sbr. lög nr. 41/1979. Lög þessi tengdust staðfestingu hafréttarsáttmálans og var ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni Íslendinga varðandi yfirráðarétt yfir hafsvæðinu í kringum Ísland. Í lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, er að finna frekari útfærslu á lögum nr. 41/1979 hvað snertir þann þátt málsins.
    Lögin mörkuðu tímamót á sínum tíma, en á þeim árum sem liðin eru frá því að þau voru sett hefur mikið vatn runnið til sjávar auk þess sem viðhorf hafa breyst til nýtingar auðlindarinnar. Reynslan hefur einnig leitt í ljós að á sumum atriðum þarf að skerpa betur. Umhverfisráðherra hefur í ljósi þessa ákveðið að stefna að heildarendurskoðun laga um varnir gegn mengun sjávar á næstu tveimur árum. Hins vegar eru nokkur atriði sem þarf að taka á hið fyrsta og geta ekki beðið eftir heildarendurskoðun laganna en þau eru:
    Gildissvið laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, takmarkast við íslenska efnahagslögsögu. Samkvæmt svokölluðum MARPOL-samningi, sem er alþjóðasamningur frá 2. nóvember 1973 um varnir gegn mengun frá skipum og íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, hafa Íslendingar skuldbundið sig til að íslensk lög á þessu sviði nái einnig yfir starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu. Taka þarf af öll tvímæli um það í lögunum.
    Íslendingar hafa undirritað alþjóðasamning um varnir gegn mengun hafrýmis Norður-Atlantshafsins, svokallaðan OSPAR-samning. Ísland er aðili að gildandi samningum á þessu hafsvæði, en stefnt er að því að OSPAR leysi eldri samninga, þ.e. Óslóarsamninginn frá 1972 og Parísarsamninginn frá 1974, af hólmi. Það er hagur Íslands að OSPAR taki gildi hið fyrsta þar sem í honum eru ákvæði sem ætlað er að sporna enn frekar gegn því að mengunarefni berist út í umhverfið. Samningurinn tekur ekki gildi fyrr en öll aðildarlönd Óslóar- og Parísarsamninganna hafa staðfest hinn nýja OSPAR-samning. Í honum eru nokkur ákvæði, einkum er varða losun úrgangsefna í hafið, sem þarf að taka á í íslenskri löggjöf áður en hann verður staðfestur.
    Lagfæra þarf lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, sbr. lög nr. 57/1995, með tilliti til breytinga sem urðu á árinu 1995 þegar starfsemi mengunardeildar Siglingamálastofnunar ríkisins var færð yfir til Hollustuverndar ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér eru tekin af öll tvímæli um að ákvæði MARPOL-samningsins gildi fyrir íslensk skip sem eru utan íslenskrar efnahagslögsögu.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Hér kemur fram sú meginregla að allt úrkast efna og hluta í hafið sé óheimilt, sbr. þó upptalningu í 2. mgr. greinarinnar. Við gerð OSPAR-samningsins ákváðu samningsaðilar að víkja frá svokölluðum bannlistum þar sem talin eru upp þau efni sem bannað er að varpa í hafið. Það hefur sýnt sig vera afar erfitt að ganga úr skugga um að slík efni sé ekki að finna í margs konar hlutum. Þess í stað er farin sú leið að telja upp þau efni sem til greina kemur að varpa í hafið. Þrátt fyrir að þessi efni séu talin upp þarf að ganga úr skugga um það í hvert skipti að þau innihaldi ekki mengandi efni.
    Í 2. mgr. greinarinnar er að finna „leyfislistann“ eins og hann er samkvæmt OSPAR-samningnum. Í henni er einnig að finna heimildarákvæði til að setja reglur um með hvaða hætti standa skuli að losun úrgangsefna í hafið. Þetta er gert til að geta sett fram nánari reglur er taki mið af samþykktum vinnureglum OSPAR-samningsins. Fyrirhugað er að gefa út leiðbeiningar um losun dýpkunarefna í sjó.

Um 4. gr.


    Um er að ræða lagfæringu í samræmi við að verkefni mengunardeildar Siglingamálastofnunar voru flutt til Hollustuverndar ríkisins 1. júní 1995.

Um 5. gr.


    Í fyrri málsgreininni, sem lagt er til að bætt verði við 18. gr. laganna, er kveðið á um að Hollustuvernd ríkisins skuli sjá um að skipuleggja og samræma viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó og þann búnað sem nauðsynlegur er. Tryggja þarf samræmingu í notkun þess mengunarvarnabúnaðar sem þegar hefur verið tekinn í notkun og tekinn verður í notkun í framtíðinni. Enn fremur er nauðsynlegt að svonefnt svæðisráð fái formlegan bakgrunn.
    Í síðari málsgreininni er sett inn heimild fyrir ráðherra til að setja samræmda gjaldskrá fyrir notkun á mengunarvarnabúnaðinum. Þetta ákvæði er sett inn að ósk hafnanna þar sem erfitt getur verið fyrir einstök sveitarfélög að ákveða gjald fyrir notkun á þessum búnaði.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.


    Þar til umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990 fór samgönguráðuneytið með mál er tengdust mengun sjávar. Þurfti ráðuneytið því að hafa samráð við heilbrigðisráðuneytið, sem fór þá með hollustuháttamál, og menntamálaráðuneytið, sem fór með náttúruverndarmál, við setningu reglna um olíumengun frá landstöðvum og um flokkun eiturefna og hættulegra efna. Þessir málaflokkar heyra nú allir undir umhverfisráðuneytið og þarf að laga lögin að þeirri staðreynd.

8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 32/1986,


um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að tveimur alþjóðasamningum um mengun sjávar. Einnig eru lagðar til breytingar til að auðvelda framkvæmd laganna, sérstaklega hvað varðar varnar- og hreinsunaraðgerðir. Að lokum miðar frumvarpið að því að laga lögin að breyttu stjórnkerfi með tilkomu umhverfisráðuneytisins 1990 og með yfirfærslu mengunarvarna sjávar til Hollustuverndar ríkisins frá Siglingamálastofnun.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.