Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 390 . mál.


685. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)


    

1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er í því sambandi heimilt að víkja frá ákvæðum um kaupskyldu og forkaupsrétt á félagslegum íbúðum í þeim reynslusveitarfélögum þar sem einstaklingum eru veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna til að kaupa eða byggja íbúðir á almennum markaði.
    

2. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er í því sambandi heimilt að víkja frá 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að atvinnulausir geti ekki stundað námskeið eða annað nám, sem varir lengur en í átta vikur, á bótum og 1. mgr. 20. gr. sömu laga um að umsækjandi skuli láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, voru samþykkt á Alþingi vorið 1994. Skv. 1. gr. laganna er markmið þeirra að afla reynslu sem nýta má við undirbúning breytinga á löggjöf um:
        stjórnsýslu sveitarfélaga,
         framkvæmd verkefna sveitarfélaga,
         verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og
         tekjustofna sveitarfélaga.
    Samkvæmt lögunum skal með tilraununum að því stefnt að:
         auka sjálfsstjórn sveitarfélaga,
        laga stjórnsýslu sveitarfélaga betur að staðbundnum aðstæðum,
        bæta þjónustu við íbúana og
        nýta betur fjármagn hins opinbera.
    Tilraunirnar mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna né fela í sér auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá.




Prentað upp á ný.

    Til þess að gera tilraunastarfsemi mögulega veita lögin ráðherrum heimildir til þess að víkja frá ákvæðum tiltekinna laga. Gert er ráð fyrir að reynslusveitarfélög setji reglur, í formi samþykkta, í stað þeirra ákvæða sem vikið er frá, sbr. 7. gr. laganna. Viðkomandi ráðherra þarf að staðfesta slíka samþykkt og hana þarf að birta í B-deild Stjórnartíðinda. Lögin heimila tilraunir með nefndaskipan sveitarfélaga (9. gr.), í meðferð byggingarmála (16. gr.), félagslegra húsnæðismála (10. gr.), heilbrigðisþjónustu (15. gr.) og þjónustu við atvinnulausa (12. gr.), fatlaða (11. gr.) og aldraða (15. gr.). Heimilt er að fela reynslusveitarfélagi að taka að sér þjónustu ríkisins við fatlaða og rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Einnig er heimilt að gera tilraunir með nýjar reglur um ákvörðun tekjustofna sveitafélaga (13. gr.) og um fjármögnun verkefna (18. gr.). Í lögunum eru viðkomandi ráðherrum veittar heimildir til þess að víkja frá ákvæðum laga sem fjalla um þessa málaflokka.
    Í 2. gr. laganna eru heimildum ráðherra til þess að víkja frá lögum settar almennar efnislegar takmarkanir. Skv. 1. mgr. greinarinnar er ráðherra eingöngu heimilt að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um stjórnsýslu sveitarfélaga og skipulag starfsemi þeirra, hvernig verkefni skuli leyst af hendi, hvernig eftirliti ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í stuttu máli má segja að af þessu ákvæði leiði að ráðherrum er ekki heimilt að víkja frá grundvallarákvæðum um að verkefni skuli leyst af hendi. Hins vegar er heimilt að víkja frá ákvæðum sem mæla fyrir um á hvern hátt þau skuli leyst af hendi. Skv. 2. mgr. 2. gr. verður að vera tryggt að frávik hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim rétti til þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta lögum samkvæmt og að réttaröryggi þeirra haldist óskert.
    Verkefnið um reynslusveitarfélög byggist á því að óskir um tilraunir komi frá sveitarfélögunum sjálfum þar sem fyrir hendi er þekking á viðfangsefnunum og staðbundnum aðstæðum. Gert er ráð fyrir að verkefnið sé samstarfsverkefni reynslusveitarfélaga og ráðuneyta en frumkvæðið komi frá sveitarfélögunum sjálfum. Ekki var unnt að hefja markvisst undirbúningsstarf með sveitarfélögunum fyrr en val á þeim lá fyrir. Val á sveitarfélögum fór ekki fram fyrr en eftir að lögin tóku gildi og þá á grundvelli þeirra. Við gerð frumvarps til laganna lágu því ekki fyrir mótaðar tillögur um tilraunir. Lögin endurspegla það og var sérstaklega tekið fram í athugasemdum við frumvarpið að mjög líklega þyrfti að leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum þegar hugmyndir sveitarfélaga um tilraunastarfsemi lægju fyrir. Þetta hefur og komið á daginn. Er með þessu frumvarpi sótt um heimildir til þess að víkja frá nánar tilteknum efnisákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins og atvinnuleysistryggingar þar sem frávik frá þessum ákvæðum eru ekki talin rúmast innan heimilda 2. gr. laganna.
    

Staða verkefnisins.


    Í júní 1994 valdi þáverandi félagsmálaráðherra með heimild í 4. gr. laga um reynslusveitarfélög tólf sveitarfélög til þess að taka þátt í verkefninu. Þau eru:
         Hafnarfjörður     Garðabær     Reykjavík
         Borgarbyggð     Snæfellsbær     Dalabyggð
         Vesturbyggð     Akureyri     Neskaupstaður
         Hornafjarðarbær     Vestmannaeyjar     Reykjanesbær     
    Umsóknir reynslusveitarfélaganna lágu fyrir á sl. vori. Var gerð nákvæm grein fyrir þeim í skýrslu félagsmálaráðherra um framkvæmd verkefnisins sem lögð var fram á 118. löggjafarþingi 1994–95.
    Undirbúningur tilrauna hefur tekið lengri tíma en ráðgert var í upphafi. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Tilraunaverkefni eins og þetta er nýjung í stjórnsýslu hér á landi og því er að mörgu leyti um brautryðjendastarf að ræða. Það hefur tekið tíma, bæði fyrir sveitarfélög og ríki, að tileinka sér þann hugsunarhátt og starfsaðferðir sem verkefnið krefst. Vinna við nánari útfærslu umsókna hefur reynst umfangsmeiri en menn hugðu í upphafi og samstarfið, þar sem að málum koma bæði sveitarfélög, ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, hefur reynst tímafrekara en mönnum var ljóst fyrir fram. Hins vegar hefur samstarfið í aðalatriðum gengið vel og eftir því sem verkefninu hefur fleygt fram hefur aukist traust á milli fulltrúa sveitarfélaga og ráðuneyta og menn hafa unnið saman að útfærslu tilrauna þar sem báðir aðilar hafa lagt sitt af mörkum.
    Í tveimur málaflokkum hefur umsóknum verið hafnað, þ.e. menntamálaráðuneytið hafnaði umsóknum um yfirtöku sveitarfélaga á rekstri framhaldsskóla og dómsmálaráðuneytið hafnaði umsóknum um flutning á staðbundinni löggæslu, en ekki eru fyrir hendi heimildir í lögum um reynslusveitarfélög til þess að gera tilraunir á þessum sviðum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ákveðið að tilraunir, sem snerta það ráðuneyti, verði a.m.k. fyrst um sinn bundnar við þrjú sveitarfélög, en níu sveitarfélög sóttu um tilraunir á sviði ráðuneytisins.
    Aðrar umsóknir eru í vinnslu eða í frekari athugun hjá viðkomandi ráðuneytum, en ljóst er að þær munu ekki allar ná fram að ganga. Gengið hefur verið frá samþykktum fyrir fjögur sveitarfélög um afgreiðslu byggingarfulltrúa á tilteknum verkefnum án staðfestingar byggingarnefndar, þ.e. fyrir Hafnarfjörð (nr. 686/1995), Reykjavík (nr. 614/1995), Neskaupstað (nr. 617/1995) og Vestmannaeyjar (nr. 14/1996). Markmið tilrauna á þessu sviði er að einfalda og hraða meðferð minni háttar byggingarmála. Einnig hefur verið gengið frá samningi og samþykkt um yfirtöku Hornafjarðarbæjar á heilbrigðis- og öldrunarþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu (nr. 680/1995). Samningar um yfirtöku þriggja sveitarfélaga, þ.e. Reykjavíkur, Akureyrar og Vestmannaeyja, á þjónustu við fatlaða eru langt komnir en ekki liggur þó enn þá fyrir hvort samningar muni nást við þau öll. Undirbúningur tilrauna á sviði félagslegra húsnæðismála og vinnumála er vel á veg kominn en samþykkt þessa frumvarps er forsenda þess að unnt sé að ganga endanlega frá samþykktum á þessum sviðum.
    Rétt er að taka fram að allnokkrar umsóknir reynslusveitarfélaga fela í sér hugmyndir um umbótaverkefni sem ekki krefjast sérstakra lagaheimilda, og er alfarið unnið að þeim verkefnum innan viðkomandi sveitarfélaga. Þetta á sérstaklega við um tilraunir með breytt fyrirkomulag í stjórnsýslu sveitarfélaga.
    Síðastliðið vor var Gunnar Hilmarsson framkvæmdastjóri skipaður formaður verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga í stað Sigfúsar Jónssonar landfræðings sem lét af störfum að eigin ósk og í vetur var Jón Gauti Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri, ráðinn sem sérstakur ráðgjafi verkefnisstjórnarinnar. Í haust var að undangengnu útboði gengið til samninga við Hagvang um úttekt á tilraunum í samræmi við 6. gr. laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að heimilt sé að víkja frá kaupskyldu og forkaupsrétti sveitarfélaga þegar ákveðin tilraunaverkefni eiga í hlut, en 10. gr., sbr. 2. gr. laganna, veitir ekki slíka heimild. Ástæðan er sú að heimild félagsmálaráðherra til að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins takmarkast af ákvæðum 2. gr. þar sem segir að ráðherrum sé ekki heimilt að víkja frá lögum nema tryggt sé að það hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim rétti til þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta lögum samkvæmt. Brottfall kaupskyldu skerðir óhjákvæmilega rétt íbúanna til fyrirgreiðslu. Nú hafa komið fram hugmyndir um tilraunaverkefni sem ekki rúma kaupskyldu og forkaupsrétt en veita fólki í þess stað annars konar möguleika. Þar sem hugmyndir þessar þykja athyglisverðar og tilraunarinnar virði er lagt til að þeim verði sett sérstök lagastoð. Sveitarfélögin, sem í hlut eiga, eru Hornafjörður, Borgarbyggð, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar, og hugsanlegt er að fleiri bætist við.
    Sveitarfélögin fjögur sækja um að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag félagslegra eignaríbúða. Í því felst að fólki er veitt lán til að verða sér sjálft úti um íbúð á almennum markaði í stað úthlutunar húsnæðisnefndar á félagslegri íbúð til eignar. Tilhögunin er í grófum dráttum sú að Byggingarsjóður verkamanna lánar sveitarfélagi, sem síðan endurlánar einstaklingi, eða sjóðurinn lánar bæði sveitarfélagi og einstaklingi og sveitarfélag endurlánar einstaklingi sinn hluta. Í hvorutveggja tilviki er einstaklingi veitt lán til að byggja eða kaupa íbúð á almennum markaði. Þegar sá einstaklingur hyggst selja íbúðina sér hann um söluna með sama hætti og gengur og gerist á almennum markaði. Samhliða skal hann þó gera upp endurlánið við sveitarfélagið (og lánið við Byggingarsjóð verkamanna þar sem það á við) og sveitarfélagið greiða upp lán sitt hjá Byggingarsjóði verkamanna.
    Kostir þess að gera slíka tilraun, með lánveitingar í stað úthlutunar á íbúðum, eru taldir það miklir að þeir réttlæti að hvikað sé frá kaupskyldu. Beinast kostirnir bæði að stjórnvöldum og viðkomandi einstaklingum. Þannig einfaldast mjög öll framkvæmd með tilheyrandi sparnaði. Umsvifin kringum félagslegar eignaríbúðir eru nú talsverð bæði hjá húsnæðisnefndum og Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. byggingarframkvæmdir, úthlutun íbúðanna og síðast en ekki síst endursölukerfið í heild sinni; endurbætur á íbúð, uppreiknaður eignarhluti eftir nokkuð flóknum reglum o.fl. Einnig skal hér bent á að líklegt er að tilraunaleið þessi geti, þegar fram í sækir, að einhverju leyti greitt fyrir því að sveitarfélag geti selt íbúð sem illa gekk að selja í gamla kerfinu. Þannig geti sveitarfélag selt einstaklingi, sem fengið hefur lán samkvæmt nýju leiðinni, íbúð sem sveitarfélag hefur áður keypt inn samkvæmt kaupskyldunni, enda hafi lán við Húsnæðisstofnun verið gerð upp. Þar sem einstaklingurinn kaupir á markaðsverði getur svo farið, í þeim sveitarfélögum þar sem markaðsverð er lægra en innkaupsverðið samkvæmt kaupskylduákvæðum, að sveitarfélag hafi af þessu kostnað sem nemi þessum mismun. Svo mun vera ástatt í a.m.k. þremur af þeim sveitarfélögum sem hyggjast fara þessa tilraunaleið. Auk þess eru kostirnir fyrir einstaklinginn þeir að geta valið sér íbúð og e.t.v. endurbætt íbúðina sjálfur smám saman og lækkað skuldabyrði sína því enn frekar.
    Lagðar eru til tvær útfærslur á þessari tilraunaleið og ganga þær mislangt en eiga þó ýmislegt sameiginlegt, þar á meðal að kaupskylda (og forkaupsréttur) sveitarfélaga rúmast ekki innan þeirra. Í annarri leiðinni, sem Hornafjörður hyggst fara, er skrefið stigið til fulls á þann hátt að allt lán Byggingarsjóðs verkamanna (90%) rennur til bæjarfélagsins. Bærinn endurlánar síðan einstaklingum. Bæjarstjórn ber ábyrgð á láninu gagnvart Byggingarsjóði verkamanna, en bærinn tekur síðan veð í íbúðunum við endurlán til einstaklinga. Verði vanskil af hálfu kaupenda eru þau á ábyrgð Hornafjarðarbæjar. Þar sem bæjarstjórnin tekur á sig mikla ábyrgð fær hún einnig mikið ákvörðunarvald við endurlán til einstaklinga. Það ákvörðunarvald takmarkast þó af ákvæðum 1. og 2. gr. laga um reynslusveitarfélög um að ekki megi skerða réttindi einstaklinga. Um þetta setji bærinn sér reglur sem birtar verði bæjarbúum þannig að jafnræðis og réttaröryggis sé gætt. Skemmri leiðin, sem þrjú sveitarfélög velja (Borgarbyggð, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar), felur það í sér að lánveitingu Byggingarsjóðs verkamanna (90% lán) er skipt í tvennt. Veitt er 70% lán til einstaklinga með veði í íbúðunum, en 20% lán er veitt sveitarfélaginu sem aftur endurlánar það einstaklingunum. Ábyrgð sveitarfélagsins í þessu tilviki er því mun minni en hjá Hornafirði (20% ábyrgð) og ákvörðunarvaldið samkvæmt því. Sameiginlegt þessum tveimur útfærslum er, eins og áður hefur verið getið um, að fólk velur sér íbúð á almennum markaði, að við endursölu sér fólkið sjálft um söluna á almennum markaði samkvæmt almennum reglum, en skal áður hafa gert upp endurlán við bæjarfélag sem aftur hefur gert upp lán við Byggingarsjóð verkamanna, og að hvorki kaupskylda né forkaupsréttur sveitarfélaga rúmast innan þessa fyrirkomulags.
    Samin hafa verið drög að samþykktum fyrir þau fjögur sveitarfélög sem hér eiga hlut að máli.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum, geta bótaþegar ekki sótt námskeið til að auka starfshæfni sína sem taka lengri tíma en átta vikur og skv. 1. mgr. 20. gr. sömu laga verður atvinnulaus maður að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar. Nokkur reynslusveitarfélög hafa sett fram óskir um tilraunaverkefni sem fela í sér að ráðgjöf og úrræði vinnumiðlunar fyrir atvinnulausa verði efld. Hugmyndir fjögurra þeirra, þ.e. Reykjanesbæjar, Reykjavíkur, Borgarbyggðar og Akureyrar, fela í sér óskir um frávik frá framangreindum lagaákvæðum.
    Kannanir sýna að því minna nám sem menn hafa að baki því meiri hætta er á að þeir verði atvinnulausir. Sérstaklega á þetta við um þá yngstu á vinnumarkaðinum sem hafa takmarkaða starfsreynslu að byggja á. Þannig sýna kannanir Vinnumiðlunar Reykjavíkur að allt að 80% atvinnulausra á aldrinum 16–25 ára hafa ekki lokið öðru prófi en grunnskólaprófi. Sveitarfélögin telja að með því að hafa möguleika á að bjóða atvinnulausum að stunda nám í lengri tíma en átta vikur skapist svigrúm til þess að skipuleggja námsúrræði fyrir atvinnulausa sem raunverulega auki starfsmöguleika þeirra, en ljóst er að átta vikna reglan takmarkar mjög gagnsemi námskeiða fyrir atvinnulausa. Að bjóða atvinnulausum upp á slíka námsmöguleika er nýmæli hér á landi og því heppilegt að afla fyrst reynslu af því í einstökum sveitarfélögum þar sem hægt er að fylgjast með framkvæmd og meta að tilraunatímabili loknu hvernig til hefur tekist. Reykjanesbær, Borgarbyggð og Akureyrarbær hafa óskað eftir fráviki frá þessu ákvæði. Eru uppi hugmyndir um að þessi sveitarfélög bjóði upp á slíkt nám í samvinnu við framhaldsskóla, en ljóst er að gæta verður þess að slíkt nám sé ekki í samkeppni við almennt lánshæft nám og það verður að skipuleggja með þarfir hvers og eins í huga.
    Vikuleg skráning er íþyngjandi bæði fyrir hinn atvinnulausa og vinnumiðlun. Með því að veita undanþágu frá vikulegri skráningu er unnt að skapa svigrúm og hvata til þess að efla virkni bæði vinnumiðlana og hinna atvinnulausu. Tilgangur ákvæðisins um vikulega skráningu er að eftirlit verði haft með því að maður sé raunverulega atvinnulaus. Með öflugri þjónustu vinnumiðlunar skapast meiri tengsl milli vinnumiðlunar og hins atvinnulausa. Af því leiðir að vinnumiðlun getur betur fylgst með því að bótaþegar fullnægi skilyrðum bótaréttar án þess að vikuleg skráning þurfi til að koma. Í sveitarfélögunum eru uppi hugmyndir um að atvinnulausum, sem eiga á hættu að verða langtímaatvinnulausir, verði boðið upp á sérstaka aðstoð sem feli m.a. í sér að hinn atvinnulausi og vinnumiðlun geri í sameiningu áætlun um hvernig eigi að vinna að því að hann fái vinnu. Í áætluninni verði kveðið á um hvað hinn atvinnulausi á að gera sjálfur til þess að fá vinnu og hvaða aðstoð hann á rétt á frá vinnumiðlun til þess að vinna að markmiði áætlunarinnar. Í stað þess að þurfa að mæta til vikulegrar skráningar þurfi hinn atvinnulausi að sýna fram á hvað hann hafi aðhafst til þess að fá sér vinnu, t.d. að hann hafi sótt um vinnu, sótt námskeið eða tekið þátt í sérstökum verkefnum. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er það skilyrði bótaréttar að hinn atvinnulausi sé í atvinnuleit en ekki er fylgst með því í framkvæmd hvort sú sé raunin. Framangreindar hugmyndir byggjast á því að hinn atvinnulausi skuldbindi sig til þess að vera virkur í atvinnuleit. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar varðar það ekki missi bóta að fullnægja ekki þessu skilyrði. Með hliðsjón af því þykja ekki rök til þess að sá sem gert hefur slíkan samning skuli sæta missi bóta ef hann fullnægir ekki skyldum sínum. Hins vegar er eðlilegt að það leiði til þess að hann glati rétti til sérstakra úrræða og aðstoðar vinnumiðlunar og skuli aftur gert að sæta vikulegri skráningu. Fyrirmynd þessara hugmynda er sótt til nágrannalanda okkar. Er mikils virði að fá reynslu af þessu fyrirkomulagi hér landi.
    Hugmyndir Vinnumiðlunar Reykjavíkur eru nokkuð annars eðlis, en þær byggjast á því að skráning fari fram á tveggja vikna fresti. Í stað vikulegrar skráningar verður lögð áhersla á að efla einstaklingsráðgjöf við atvinnulausa þannig að hægt sé að ná því markmiði að kalla reglubundið inn til ráðgjafar þá einstaklinga sem hafa verið tiltekinn tíma á skrá, svo sem þrjá mánuði. Þessar hugmyndir byggjast á því að eftirlit með því að skilyrðum bóta sé fullnægt verði óbreytt að öðru leyti en því að atvinnulausir skuli skrá sig á tveggja vikna fresti í stað vikulega. Með hliðsjón af því er eðlilegt að viðurlög við því að skráning fari ekki fram í samræmi við reglur verði í sem mestu samræmi við það sem nú er, þ.e. það geti varðað missi bóta.
    Þar sem um er að ræða frávik frá ákvæðum sem snerta efnisleg réttindi og skyldur atvinnulausra og þar sem ekki þykir nægilega ljóst hvort frávik rúmist innan heimilda 1. mgr. 2. gr. laga um reynslusveitarfélög þykir rétt að sækja um sérstaka lagaheimild til þess að víkja frá þessum ákvæðum. Tekið skal fram að þessar hugmyndir eru í samræmi við hugmyndir nefndar sem skipuð var til þess að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar.
    

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögum um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994.

    Samkvæmt frumvarpinu getur ráðherra undanþegið reynslusveitarfélög framfylgd laga umfram þær almennu efnislegu takmarkanir sem settar eru í lögum um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994. Skv. 1. mgr. 2. gr. laganna er ráðherra eingöngu heimilt að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stjórnsýslu sveitarfélaga og skipulag starfsemi þeirra, hvernig verkefni skuli leyst af hendi og hvernig eftirliti ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað.
    Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra heimilað að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem kveðið er á um kaupskyldu og forkaupsrétt á félagslegum íbúðum í þeim reynslusveitarfélögum þar sem einstaklingum eru veitt lán til að kaupa eða byggja íbúðir á almennum markaði. Hugmyndin er sú að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag félagslegra eignaríbúða. Í því felst að fólki er veitt lán til að verða sér sjálft úti um íbúð á almennum markaði í stað þess að fá úthlutað félagslegri íbúð. Byggingarsjóður verkamanna lánar þá sveitarfélagi sem síðan endurlánar einstaklingi, eða sjóðurinn lánar bæði sveitarfélagi og einstaklingi og sveitarfélag endurlánar einstaklingi sinn hluta. Þegar einstaklingur hyggst selja íbúðina sér hann um söluna með sama hætti og gengur og gerist á almennum markaði. Með þessu móti dregur úr umsvifum kringum félagslegar eignaríbúðir hjá húsnæðisnefndum og Húsnæðisstofnun ríkisins. Hugmyndin er að framkvæma tilraunina í fjórum sveitarfélögum, þ.e. Hornafjarðarbæ, Borgarbyggð, Reykjanesbæ og Vestmannaeyjum. Í þessum sveitarfélögum eru 611 félagslegar íbúðir af um 10.000 félagslegum íbúðum í landinu öllu. Því er reiknað með að vinnusparnaðurinn við uppreikning eignarhluta og staðfestingu á honum geti lækkað rekstrarkostnað Húsnæðisstofnunar um 0,5–1 m.kr. Rétt er að benda á að ekki hefur verið hugað að því í frumvarpinu á hvern hátt ábyrgð sveitarfélaga af langtímalánum hjá Húsnæðisstofnun vegna tilraunarinnar verði háttað.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra verði heimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en samkvæmt henni geta atvinnulausir stundað námskeið eða annað nám sem varir í allt að átta vikur á hverju bótatímabili. Ljóst er að ótakmarkaður tími á námi þeirra atvinnulausu leiðir til þess að hver sá er hefur bótarétt getur í atvinnuleysi stundað nám á fullum bótum. Sýnt er að það fólk, sem þannig stundar fullt nám, er ekki jafnreiðubúið til að ráða sig í vinnu og ella meðan á námi stendur. Skiljanlega vill einstaklingur sem hafið hefur nám ljúka því. Heimildin hvetur því til aukins langvarandi skráðs atvinnuleysis og meiri bótagreiðslna Atvinnuleysistryggingasjóðs. Niðurstaðan gæti því orðið aukinn kostnaður ríkisins. Ef tekið er mið af heildarfjölda atvinnuleysisdaga á árinu 1995 voru yfir 67% þeirra íbúar í reynslusveitarfélögunum tólf sem valin voru á árinu 1994. Ef gert er ráð fyrir að dreifing bótagreiðslna sé hin sama og dreifing atvinnuleysisdaga yfir landið samsvarar þetta því að um 2.130 m.kr. fari til greiðslu atvinnuleysisbóta í þessum sveitarfélögum á árinu 1996 miðað við áætlun í fjárlögum. Hins vegar er ómögulegt að segja nákvæmlega fyrir um hver áhrif framangreindrar heimildar yrðu á skráð atvinnuleysi, hvorki í bráð eða í lengd.
    Í 2. gr. frumvarpsins er ráðherra einnig heimilað að víkja frá ákvæðum 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveður á um að umsækjandi atvinnuleysisbóta skuli láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar. Tíð skráning virkar gegn misnotkun atvinnuleysisbóta þannig að ef dregið verður úr þessari kröfu er hætt við að kostnaður ríkissjóðs af greiðslu atvinnuleysisbóta aukist.