Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 411 . mál.


730. Frumvarp til laga



um atvinnuúrræði fyrir atvinnulaust fólk.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson,


Lúðvík Bergvinsson, Össur Skarphéðinsson.



Tilgangur.


1. gr.


    Atvinnurekendur, sem eru með tíu eða fleiri launþega í vinnu hjá sér, eiga rétt á endurgreiðslu af tryggingagjaldi og ábyrgðargjaldi ráði þeir atvinnulausa einstaklinga í vinnu samkvæmt nánari ákvæðum í lögum þessum.

Gildissvið.


2. gr.


    Lög þessi taka ekki til:
    Alþingis.
    Stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins sem ekki greiða skatta og gjöld.
    Sveitarstjórna og sambanda sveitarfélaga.
    Félagasamtaka.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu.


3. gr.


    Skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 1. gr. eru eftirfarandi:
    Lögð séu fram vottorð frá vinnumálaskrifstofu sem sanna að einstaklingurinn hafi verið atvinnulaus í a.m.k. fjórar vikur á tímabilinu mars–apríl 1996 og einnig á þeim tíma sem hann er ráðinn til starfið.
    Engum starfsmanni hafi verið sagt upp á síðustu þremur mánuðum. Ef einhverjum starfsmanni fyrirtækisins er sagt upp á gildistíma laganna fellur réttur til frekari endurgreiðslu niður.

Fjárhæð endurgreiðslu.


4. gr.

    Endurgreiða skal sem svarar 30.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem ráðinn er samkvæmt lögum þessum.

Tilhögun endurgreiðslu.


5. gr.

    Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessara laga. Skal þar m.a. kveðið nánar á um fyrirkomulag endurgreiðslu, kærur og fresti.


Prentað upp.

Gildistími.


6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996 og gilda til 31. ágúst 1997.

Greinargerð.


    Eftir að atvinnuleysi varð viðvarandi vandamál í Evrópu hafa stjórnvöld í nágrannalöndunum stöðugt leitað úrræða til að hamla gegn því og alvarlegum félagslegum fylgikvillum þess. Þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til, hafa skilað mismunandi miklum árangri og augljóst er að engin ein greiðfær eða sjálfgefin leið er fyrir hendi til að vinna gegn þeim mikla þjóðfélagsvanda sem atvinnuleysi er. Annars staðar á Norðurlöndum var m.a. brugðist við með margvíslegum vinnumarkaðsaðgerðum, þar á meðal launuðum fræðslu- og þjálfunarverkefnum með það fyrir augum að vinna gegn félagslegum afleiðingum atvinnuleysisins samhliða því að undirbúa starfsmenn fyrir ný störf.
    Hér á landi höfum við fetað í fótspor nágrannalanda að nokkru leyti hvað varðar það sjónarmið að enginn eigi að vera óvirkur á bótum. Mikilvægir þættir til að ná því markmiði eru m.a. fjárveitingar Atvinnuleysistryggingasjóðs til námskeiða fyrir atvinnulausa, starfsemi MFA og Tómstundaskólans, lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, átaksverkefni, námsflokkar sveitarfélaga, ásamt tilraunaverkefnum eins og Menntasmiðjunni á Akureyri.
    Beinar stjórnvaldsaðgerðir, sem miða að því að hvetja til þess að mannafli í fyrirtækjum verði aukinn, hafa hins vegar verið takmarkaðar. Fremur hafa opinberar aðgerðir falist í því að veita fjármagn til aukinna verklegra framkvæmda. Ekki má þó líta fram hjá því að beinar aðgerðir sem miðað hafa að því að auka hagvöxt hafa reynst mikilvægur þáttur í þessu sambandi og eru í raun undirstaða þess að hér skapist aðstæður fyrir nýsköpun og þróttmeira atvinnulíf. Enginn vafi er á því að aukinn hagvöxtur slær á atvinnuleysið. Hins vegar er það oft svo að fyrirtæki velja frekar þá leið að bæta yfirvinnu á þá sem fyrir eru í fyrirtæki en að bæta við mannskap. Þannig virðist sem vinnutími hafi fremur lengst hjá starfsfólki fyrirtækja eftir að rofa tók til í atvinnumálum og fjölgun starfa því orðið minni en ætla mætti. Bein úttekt er ekki fyrir hendi, en tölur kjararannsóknarnefndar sýna að vinnutími hefur lengst. Frumvarpi þessu er einmitt ætlað að stuðla að því að fremur verði fjölgað starfsfólki í fyrirtækjum.
    Með frumvarpinu er lagt til að með löggjöf verði fyrirtæki hvött til þess að bæta við sig fólki. Fyrirtæki, sem nýta vilja þann möguleika, fái eins konar ráðningarstyrki, þ.e. afslátt af tryggingagjaldi. Í frumvarpinu er lagt til að afslátturinn verði 30 þús. kr. á mánuði fyrir hvern starfsmann sem ráðinn yrði á tímabilinu sem tilgreint er. Mikilvægt er að með slíkri tillögu sé ekki opnuð leið til að segja upp fólki og ráða síðan aftur gegn endurgreiðslu gjaldsins.
    Gert er ráð fyrir að um raunverulega fjölgun starfa hjá hlutaðeigandi fyrirtæki sé að ræða. Þar sem ekki er enn hægt að miða við skráningu Hagstofu Íslands um fjölda starfsmanna fyrirtækja verður að líkindum að ganga út frá öðrum upplýsingum, t.d. staðgreiðslugögnum frá því viðmiðunartímabili sem tilgreint er.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirtæki þurfi að hafa í það minnsta tíu starfsmenn í sinni þjónustu til þess að falla undir ákvæði þessara laga. Markmiðið með þessu lágmarki byggist á nauðsyn þess að mynda ákveðinn hvata fyrir stækkun lítilla fyrirtækja. Ef litið er á stærðardreifingu fyrirtækja hér á landi miðað við fjölda starfsmanna vekur það athygli hversu mörg fyrirtæki eru með færri en tíu starfsmenn.
    Eins og fram kemur á meðfylgjandi súluritum eru yfir 90% af íslenskum fyrirtækjum með færri en tíu starfsmenn og hjá þessum fyrirtækjum vinna um 30% af vinnuaflinu. Hins vegar er aðeins 1% fyrirtækjanna með fleiri en 40 starfsmenn, en hjá þeim vinnur um helmingur vinnuaflsins. Afleiðing þessarar skekkju í uppbyggingu atvinnulífsins kemur m.a. fram í því hversu vanmáttug þessi litlu fyrirtæki eru í síaukinni alþjóðlegri samkeppni. Þannig eru framlög íslenskra fyrirtækja til vöruþróunar og markaðsmála miklu minni en þekkist í helstu samkeppnislöndum okkar. Þó svo að þetta sé lítið skref í þá átt að stuðla að vexti íslenskra fyrirtækja með því að stækka starfandi fyrirtæki og sameina smáfyrirtæki gæti svona ákvæði myndað jákvæðan hvata til þess að ýta fyrirtækjum yfir þennan þröskuld í íslensku atvinnulífi.
    Í nýlegri skýrslu iðnaðaráðuneytisins um tengsl sjávarútvegs og iðnaðar (iðnaðarráðuneytið, nóvember 1995) kom fram að ein af ástæðum þess að viðskiptaleg tengsl sjávarútvegs og iðnaðar eru ekki meiri en raun ber vitni er að fyrirtæki í iðnaði hafa ekki burði, m.a. vegna smæðar sinnar, til þess að taka við öllum þeim jákvæðu tækifærum sem öflugur sjávarútvegur býður upp á. Sú tilraun, sem frumvarpið gerir ráð fyrir og gilda á í eitt ár, gæti haft mikil og víðtæk áhrif ef vel er staðið að málum en eðlilegt er að stjórnvöld og Alþingi hugi að fleiri slíkum vaxtarhvötum til eflingar smærri fyrirtækjum.
    Í frumvarpinu eru ekki lögð til efri mörk á stærð fyrirtækja. Alþjóðlegur staðall fyrir fjölda starfsmanna hjá fyrirtækjum er 500 starfsmenn, en ekki er til viðurkennd tilsvarandi tala hérlendis og því þyrfti sú þingnefnd, er fær mál þetta til umfjöllunar, að meta hvort sett væru efri mörk á starfsmannafjölda þeirra fyrirtækja sem lögin tækju til.
    Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra setji nánari reglur um framkvæmd laganna, m.a. um tilhögun endurgreiðslu. Hafa ber í huga að lögunum er ætlaður ákveðinn gildistími, þ.e. frá 1. ágúst nk. til ágústloka 1997.



Fylgiskjal.


Upplýsingar úr Atvinnuvegaskýrslu Þjóðhagsstofnunar 1992, nr. 50.





(Repró, 6 myndir.)