Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 421 . mál.


750. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr., af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljast vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti, svo og gengishækkun hlutdeildarskírteina. Til tekna í þessu sambandi teljast enn fremur hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Ákvörðun tekna skal vera þannig:
    Vextir af reikningum í innlánsstofnunum skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi.
    Vextir af kröfu skulu teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.
    Afföll, þ.e. mismunur á uppreiknuðu nafnverði kröfu á kaupdegi að frádregnu kaupverði hennar, skal færa til tekna í hlutfalli við afborganir nafnverðs þegar þær greiðast.
                  Við vexti af verðbréfum sem ekki eru með árlegri greiðslu skal, þegar skattur er reiknaður af vöxtunum, bætast sérstakt álag sem miðast við að ársávöxtun eftir skatt yfir reikningstímabilið sé sem næst því sem verið hefði við árlega staðgreiðslu. Seðlabanki Íslands skal reikna út stuðul í þessu sambandi fyrir hvert tekjuár í upphafi næsta árs á eftir tekjuárinu. Nánar skal kveðið á um útreikning þennan í reglugerð.
    Áfallinn gengishagnað á hverja úttekt af reikningi eða afborgun af kröfu í erlendri mynt skal færa til tekna. Heimilt skal þó að miða við meðaltal stöðu reiknings í upphafi og í lok árs eða á innborgunar- og úttektardegi innan ársins nema um veruleg viðskipti sé að ræða. Nánari reglur hér að lútandi skulu settar í reglugerð.
    Vextir, arður og önnur ávöxtun af lífeyristryggingum, söfnunartryggingum einstaklinga hjá líftryggingafélögum skulu tekjast til tekna þegar slíkar tekjur falla til, nema að því leyti sem lífeyristryggingar, söfnunartryggingar, verða skattlagðar sem tekjur samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.

2. gr.


    9. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skattskyldur arður.


    Til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.
    Arður af eigin hlutum eða hlutabréfum telst hvorki til tekna né gjalda hjá hlutafélagi.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
    Í stað orðsins „fimm“ í 1. mgr. kemur: tvö.
    Í stað orðsins „fimm“ í 4. mgr. kemur: tveggja.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 17. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
    Hagnaður af sölu hlutabréfa telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar. Kaupverð hlutabréfa, sem skattaðili hefur eignast við samruna hlutafélaga skv. 56. gr., skal ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa er hann lét af hendi. Þegar ákveða skal hagnað af sölu hlutabréfa skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar í hendi sama eiganda.
    Nú er félagi slitið án þess að um samruna félaga sé að ræða, sbr. 56. gr., og skal þá litið á það sem sölu hlutafjár í hendi eiganda og úthlutunina sem söluverð.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 1. mgr. 30. gr. laganna:
    1., 2. og 3. tölul. 1. mgr. stafliðarins falla brott og breytist röð annarra liða samkvæmt því.
    Við bætist nýr töluliður, er verður 2. tölul., svohljóðandi: Nú verður greiðslufall á kröfu sem vextir hafa verið reiknaðir af og frestast þá greiðsla skatts af slíkum vöxtum. Heimilt er að mótreikna þessa töpuðu vexti við fjármagnstekjur. Skal það gert á því ári þegar sýnt er að skuld sem vextir voru reiknaðir af fæst ekki greidd og skal gera grein fyrir henni á skattframtali viðkomandi tekjuárs. Með sama hætti fer um leigutekjur, gengistap og tap á sölu hlutabréfa. Heimild þessi tekur til krafna allt að fimm ár aftur í tímann talið frá og með tekjuári. Sé ekki um fjármagnstekjur að ræða á því tekjuári þegar mótreikningur á sér stað yfirfærist mótreikningsheimildin til næsta skattframtals í allt að fimm ár. Heimild samkvæmt þessari málsgrein tekur einungis til fjármagnstekna utan rekstrar hjá einstaklingum og þeirra lögaðila sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur
    4. mgr. stafliðarins fellur brott.

6. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 8. tölul. 31. gr. laganna koma fjórir málsliðir, svohljóðandi: Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en nemur 10% af nafnverði hlutafjár þegar nafnverð hlutafjár hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. Þó skal hækkun samkvæmt þessari málsgrein ekki fara fram úr hækkun á raunverulegu verðmæti hreinnar eignar félagsins í lok þess árs sem næst fer á undan tekjuári að teknu tilliti til opinberra gjalda sem tengd eru því ári. Sé í eigu hlutafélags íbúðarhús, sumarhús, fólksbifreiðar, skemmtibátar eða aðrar eignir sem ætlaðar eru til einkaþarfa hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félagsins eða skylduliðs þeirra manna skal verðmæti þeirra eigna dregið frá nafnverði áður en arður samkvæmt þessum tölulið er ákvarðaður. Arður samkvæmt þessum tölulið er frádráttarbær frá tekjum þess árs sem hann er reiknaður af.

7. gr.

    Við 67. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, er verða 3. og 4. mgr., sem orðast svo:
    Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skal vera 10% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljast í þessu sambandi tekjur skv. 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur.
    Sú fjárhæð sem reiknast skv. 3. mgr. skal vera endanleg álagning á fjármagnstekjur. Skulu engin önnur opinber gjöld, sem reiknuð eru á tekjuskattsstofn, leggjast á þessar tekjur. Sömuleiðis skulu tekjurnar ekki taldar til tekjuskattsstofns við útreikning tekjuviðmiðunar barnabótaauka samkvæmt lögum þessum eða til viðmiðunar við útreikning bóta eða annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um húsaleigubætur eða öðrum lögum nema sérstaklega sé kveðið á um það í þeim lögum. Um afdrátt skatts af vaxtatekjum og arði samkvæmt þessari málsgrein skulu á tekjuárinu gilda lög um staðgreiðslu skatts af slíkum tekjum samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í þeim lögum.

8. gr.

    Á eftir 3. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Þeim hluta persónuafsláttar, sem þá er óráðstafað skal ráðstafað, til að greiða tekjuskatt sem lagður er á fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 67. gr.

9. gr.

    Við 4. mgr. C-liðar 69. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður næstsíðasti málsliður málsgreinarinnar, svohljóðandi: Vaxtabætur skulu hækkaðar um fjárhæð sem svarar til þess skatts sem greiddur hefur verið af vöxtum viðkomandi tekjuárs þó ekki nema að því hámarki er greinir í 6. málsl. þessarar málsgreinar.

10. gr.

    Við 72. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, er verða 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
    Lögaðilar þeir er undanþegnir eru skattskyldu skv. 2., 3., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. skulu þrátt fyrir það greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum, sbr. 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr. Skal hann vera 10% af þeim stofni. Afdráttur skatts og innborgun hans samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur skal vera fullnaðargreiðsla og koma í stað álagningar samkvæmt lögum þessum. Þó skulu þeir aðilar sem þessi málsgrein tekur til og sjálfir annast um innheimtu vaxta í eigin lánaumsýslu eða fá vaxtatekjur, sem ekki er dregin af staðgreiðsla, skila greinargerð um vaxtatekjur til skattyfirvalda og standa skil á 10% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu. Þeir aðilar sem þessi málsgrein tekur til og hafa aðrar fjármagnstekjur skulu sömuleiðis standa skil á 10% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu. Við ákvörðun á stofnverði eigna sem félög, sbr. 5. tölul. 4. gr., eignast við gjöf skal við sölu miðað við að stofnverðið sé markaðsverð á yfirtökudegi félagsins á eigninni. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um skilagreinar og skil vegna þessarar málsgreinar.
    Ákvæði 3. mgr. taka ekki til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Byggðastofnunar, Byggingasjóðs ríkisins, Byggingasjóðs verkamanna, Framkvæmdasjóðs fatlaðra, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs sveitarfélaga og Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda, Seðlabanka Íslands, lánastofnana sem skattskyldar eru samkvæmt lögum nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, með síðari breytingum, eða til lífeyrissjóða, sbr. lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

11. gr.

    Á eftir orðinu „laga“ í 1. mgr. 121. gr. laganna, sbr. 20. gr. laga nr. 145/1995, kemur: eða laga um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við staðgreiðslu gjalda á árinu 1997 og við álagningu gjalda á árinu 1998 fyrir tekjuárið 1997. Breyting á nafnverði hlutafjár, sbr. 1. málsl. 6. gr., skal koma til framkvæmda í fyrsta sinn á árinu 1998 vegna verðbreytingarstuðuls ársins 1997.

13. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


Vextir af bréfum og kröfum hjá aðilum utan rekstar


sem stofnað var til fyrir 1. janúar 1997.


    Vextir eins og þeir eru skilgreindir í 2. mgr. 8. gr. af bréfum og kröfum sem gefin voru út, eða til var stofnað fyrir 1. janúar 1997, teljast eigi til skattskyldra vaxtatekna að því leyti sem þeir voru áfallnir þann 1. janúar 1997.

II.


Jöfnunarverðmæti hlutabréfa.


    Á árunum 1997 og 1998 skal ákvarða jöfnunarverðmæti hlutabréfa og skal það verð lagt til grundvallar eftir gildistöku laga þessara sem kaupverð í hendi hluthafa við ákvörðun söluhagnaðar eða sölutaps hjá hluthöfunum og við slit félags. Einnig skal jöfnunarverðmætið lagt til grundvallar í stað nafnverðs við úthlutun á arði skv. 8. tölul. 31. gr. og taka verðbreytingum samkvæmt þeim tölulið í fyrsta sinn á árinu 1998.
    Jöfnunarverðmæti, sbr. 1. mgr., skal vera nafnverð hlutabréfa að viðbættu verði þeirra jöfnunarhlutabréfa sem gefin höfðu verið út og úthlutað til hluthafa 31. desember 1996.
    Heimilt er að fengnu samþykki ríkisskattstjóra að ákvarða jöfnunarverðmæti, sbr. 1. mgr., jafnhátt þeirri fjárhæð sem nemur samanlögðu nafnverði og þeirri fjárhæð sem heimilt hefði verið að gefa út sem jöfnunarhlutabréf samkvæmt þeim reglum sem um það giltu í árslok 1996. Ef þessi heimild er notuð skal hlutafélagið gera grein fyrir útreikningi umræddrar fjárhæðar með framtalsskilum á árinu 1998 eða 1999, vegna tekna á árinu 1997 og 1998, og eigna í lok þeirra ára.
    Jöfnunarverðmæti samkvæmt þessu ákvæði skal árlega tilgreina á skattframtali hlutafélagsins og á hlutafjármiðum.
    Hafi hlutafélag ekki gefið út jöfnunarhlutabréf eða tilgreint jöfnunarverðmæti með þeim hætti sem áskilinn er eigi síðar en á framtali ársins 1999 vegna tekna og eigna ársins 1998 skal jöfnunarverðmæti við sölu bréfanna vera nafnverð hlutabréfanna án frekari verðleiðréttingar.
    Þrátt fyrir reglur þessa ákvæðis er hluthafa í hlutafélagi, sem ekki hefur fullnægt framangreindum skilyrðum, heimilt við sölu hlutabréfa sinna eða slit félags að nota sem jöfnunarverðmæti nafnverð að viðbættri hækkun á því samkvæmt vísitölu jöfnunarhlutabréfa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, eins og sú málsgrein hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara enda sé verðmæti hreinnar eignar hlutafélagsins í árslok 1996 ofan þeirra marka er í þeirri málsgrein greinir.

III.


Vextir af örorkubótum.


    Nú hefur einstaklingur fengið greiddar bætur fyrir varanlega örorku fyrir 1. janúar 1997 og þær verið ákveðnar í einu lagi til greiðslu og er honum þá heimilt á árunum 1997–2001 að færa til frádráttar á móti fjármagnstekjum sínum fjárhæð sem svarar til lækkunar bótanna vegna eingreiðsluhagræðis og nemi 5% af fjárhæð bótanna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga. Í þessu felst tvennt. Annars vegar verði vaxtatekjur skattlagðar, en þær eru nú skattfrjálsar. Hins vegar verði aðrar fjármagnstekjur, þ.e. arður, söluhagnaður og leigutekjur, skattlagðar á sama hátt, en í því felst skattalækkun frá því sem nú er. Frumvarp þetta er byggt á tillögum nefndar sem fjármálaráðherra skipaði síðastliðið vor, nema hvað varðar tillögur um skattskyldu forseta Íslands. Hugsanleg breyting á skattskyldu forseta Íslands er til umfjöllunar á Alþingi og er talið eðlilegra að þessi þáttur málsins komi til umræðu við þá umfjöllun.
     Aðdragandi. Síðastliðið vor skipaði fjármálaráðherra nefnd til að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að standa að skattlagningu fjármagnstekna. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Nefndin hefur unnið út frá því grundvallarviðhorfi að ná samstöðu. Nefndarmenn komu að þessari umræðu með ólík sjónarmið, jafnt um það hvort taka beri skattinn upp, hvaða leiðir skuli fara og hvort hann eigi að vera mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð. Sú tillaga sem hér liggur fyrir og nefndin er sammála um er málamiðlun sem skoða verður í því ljósi.
    Markmið skattlagningar fjármagnstekna. Þegar fjallað er um markmið skattlagningar er gjarnan vísað til þriggja atriða, þess að afla tekna, jafna tekjuskiptinguna og hafa áhrif á atferli fólks og/eða fyrirtækja. Þessi atriði hafa öll verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni um skattlagningu fjármagnstekna. Þannig hafa margir talið óréttlátt að vaxtatekjur einstaklinga skuli vera skattfrjálsar og bent á að Ísland skeri sig úr hvað þetta varðar í samanburði við aðrar þjóðir. Erfitt sé að finna rök fyrir því að vaxtatekjur einstaklinga njóti þessa skattalega forgangs umfram atvinnutekjur og einnig umfram aðrar fjármagnstekjur, svo sem arð, húsaleigutekjur og söluhagnað. Einnig hefur verið bent á að í atvinnurekstri séu vaxtatekjur skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Þá hefur verið nefnt að í þröngri fjárhagsstöðu ríkissjóðs sé óhjákvæmilegt að líta til skattlagningar á vexti. Enn fremur hefur verið vísað til þess að þeir einstaklingar sem hafa hærri tekjur og meiri eignir njóti yfirleitt meiri vaxtatekna og því muni skattlagning vaxta stuðla að tekjujöfnun. Síðast en ekki síst hefur verið á það bent að það misræmi í skattlagningu fjármagnstekna sem birtist í skattfrelsi vaxta og skattlagningu annarra fjármagnstekna hamli gegn áhættufjárfestingu í atvinnulífinu. Við ríkjandi aðstæður sé einfaldlega arðbærara og áhættuminna að fjárfesta í tekjuskattsfrjálsum verðbréfum en öðrum eignum. Við þetta bætist að vaxtaberandi eignir séu að stærstum hluta undanþegnar eignarskatti, öfugt við aðrar eignir. Þessi atriði eru talin ráða miklu um að eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja er almennt of lágt.
    Ýmsir hafa hins vegar vakið athygli á því að hærri eignarskattar hér á landi en almennt tíðkast í nágrannalöndunum vegi á móti skattfrelsi vaxta, að því marki sem vaxtaberandi eignir eru eignarskattskyldar, enda hafi háir eignarskattar í sumum tilvikum beinlínis verið réttlættir með því að vextir væru skattfrjálsir. Enn fremur hefur verið bent á að samanburður á vaxta- og atvinnutekjum sé ekki einhlítur þar sem stór hluti greiddra vaxta sé í reynd verðbótaþáttur, en ekki tekjur, auk þess sem fólk hafi yfirleitt einhver vaxtagjöld á móti vaxtatekjum.
    Þótt þannig hafi komið fram margvísleg sjónarmið í umræðunni er niðurstaðan ótvírætt sú að flest stjórnmálaöfl telja æskilegt að taka upp skattlagningu vaxtatekna.
     Óvissa um áhrif. Árum saman hefur verið um það rætt hér á landi að skattleggja vexti og helst samræma skattlagningu allra fjármagnstekna. Af þessu hefur þó ekki orðið og gildir einu hvaða flokkar hafa setið í ríkisstjórn. Þetta stafar því ekki af einhlítri andstöðu einhvers stjórnmálaflokks gegn skattlagningu af þessu tagi. Meira máli skiptir sú óvissa sem hefur ríkt um áhrif skattsins á sparnað, vaxtastig, fjárstreymi til útlanda og stöðuna almennt á íslenskum fjármagnsmarkaði. Jafnframt vex mörgum í augum aukin upplýsingagjöf og ný flækja í framtölum manna. Einnig hafa ýmsir haft áhyggjur af áhrifum skattsins á afkomu einstakra hópa.
    Þrátt fyrir skattfrelsi vaxta er peningalegur sparnaður einstaklinga hér á landi minni en æskilegt er talið og ýmis rök hníga að því að skattlagning vaxta ein og sér kunni að gera hvort tveggja í senn, draga úr sparnaði og auka neyslu. Sú þróun gæti raskað jafnvægi á fjármagnsmarkaði, hækkað vexti og dregið úr fjárfestingum. Enda þótt flestar þjóðir skattleggi vexti og skatthlutfallið sé víða hátt eru til lönd þar sem komast má hjá að greiða skatt af vöxtum. Skattlagning vaxta kann því að leiða til þess að fé streymi úr landi. Því hefur verið samstaða um að ganga verði til verksins með gát.
     Lágt skatthlutfall og einföld framkvæmd. Af framangreindum ástæðum er ljóst að samstaða mun því aðeins nást um skatt á vexti að hann verði einfaldur í framkvæmd og skatthlutfallið sé lágt. Tillögur frumvarpsins endurspegla þetta og gera ráð fyrir því að lagður verði 10% skattur á nafnvexti, afföll og gengishagnað án heimildar til frádráttar vaxtagjalda og kostnaðar á móti fjármagnstekjum. Jafnframt verði heimilt að nýta persónuafslátt til frádráttar skattinum. Það kemur einungis hinum tekjulægstu til góða, þ.e. þeim sem hafa tekjur undir skattleysismörkum, en lausleg áætlun bendir til þess að nálægt fjórði hver einstaklingur sem hefur einhverjar vaxtatekjur lendi í þessum hópi.
    Þótt 10% vaxtaskattur yrði tekinn upp væri — að öðru óbreyttu — enn mikill munur á skattlagningu hlutafjár, leigu og söluhagnaðar annars vegar og flestra vaxtaberandi eigna hins vegar. Skattkerfið hefði því áfram þau áhrif að beina fjármagni inn á lánamarkað fremur en í áhættufjárfestingu í atvinnulífinu. Mismunun í skattlagningu vaxta og annarra fjármagnstekna hefur unnið gegn æskilegri og nauðsynlegri eiginfjármyndun í íslenskum fyrirtækjum og staðið þeim fyrir þrifum. Það getur skipt sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu að fólk fjárfesti í hlutafé. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að þeir aðilar sem hafa mikið fé umleikis taki með hlutafjárkaupum þátt í því að auka eigið fé í atvinnurekstri. Af þessum ástæðum er mikilvægt að allar fjármagnstekjur einstaklinga séu skattlagðar með svipuðum hætti.
     Samantekt á tillögunum. Tillögurnar eru í reynd tvíþættar. Annars vegar verði tekin upp skattlagning vaxtatekna, en þær eru nú skattfrjálsar. Hins vegar og jafnframt verði allar aðrar fjármagnstekjur skattlagðar á svipaðan hátt, en í því felst skattalækkun frá því sem nú er. Meginatriði tillagnanna eru eftirfarandi:
—    10% skattur verði lagður á allar fjármagnstekjur einstaklinga, þ.e. vexti, verðbætur, afföll, gengishagnað og tekjur af hlutdeildarskírteinum, tekjur af arði, leigu íbúðarhúsnæðis og söluhagnað.
—    Skatturinn verði innheimtur í staðgreiðslu af greiðanda fjármagnstekna þar sem því verður við komið, en endanlegt uppgjör verði í framtali.
—    Einstaklingum verði heimilt að nýta persónuafslátt sinn til greiðslu fjármagnstekjuskatts, en ekki er gert ráð fyrir sérstöku frítekjumarki vegna fjármagnstekna.
—    Skatturinn reiknast af öllum vaxta- og fjármagnstekjum án frádráttar vaxtagjalda eða annars kostnaðar.
—    Skattlagning fjármagnstekna verði almenn og án undantekninga. Fjármagnstekjur lífeyrissjóða verði þó ekki skattlagðar.
—    Í kjölfar skattlagningar vaxtatekna verði tekjutenging ýmissa bótagreiðslna hins opinbera skoðuð sérstaklega.
    Áhrif á einstaklinga. Skattlagning vaxtatekna felur í sér aukið samræmi í skattlagningu tekna. Auk þess stuðlar hún að tekjujöfnun þar sem tekjuhærri og efnameiri einstaklingar hafa alla jafna meiri vaxtatekjur en hinir tekjulægri. Skattlagning vaxtatekna hefur vitaskuld þau áhrif að skattbyrði einstaklinga, sem hafa einhverjar vaxtatekjur, þyngist frá því sem nú er að því marki sem persónuafsláttur nýtist ekki til greiðslu vaxtaskatts. Skattbyrði þeirra sem nú hafa tekjur af arði, húsaleigu og söluhagnaði, en ekki vaxtatekjur, minnkar hins vegar þegar á heildina er litið. Breytingin leiðir þó til hærri skattgreiðslna einstaklinga með tekjur af arði innan hinna sérstöku skattfrelsismarka sem gilda um þessar tekjur, en af þeim sem fá arð eru 90% innan þessara marka. Sama á við um einstaklinga sem hafa húsaleigutekjur undir frítekjumörkunum, en þau áhrif eru þó óveruleg. Á móti vegur nýting persónuafsláttar til greiðslu skattsins. Rétt er að hafa í huga að innan við fimmtungur arðgreiðslna kemur í hlut þeirra sem eru undir frítekjumörkunum, enda má ætla að flestir þeirra hafi fremur verið að sækjast eftir skattafslætti vegna hlutafjárkaupa en að hafa áhrif á rekstur eða eiginfjárstöðu viðkomandi fyrirtækja. Um 80% úthlutaðs arðs fer hins vegar til þeirra einstaklinga sem nú þegar greiða skatt af arði. Í þessum hópi eru hinir eiginlegu fjárfestar í fyrirtækjum og skattlagning þeirra mun samkvæmt tillögum nefndarinnar lækka. Auk þess má reikna með að fleiri verði tilbúnir að bætast í þann hóp.
    Tekjuháir einstaklingar munu greiða mun hærri skatt en hinir tekjulægri. Skattlagning fjármagnstekna er því væntanlega tekjujafnandi þegar á allt er litið. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að nýta persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Við það má ætla að verulegur hluti einstaklinga með lágar tekjur og litlar fjármagnstekjur greiðir engan fjármagnstekjuskatt þegar upp er staðið. Lausleg áætlun bendir til þess að um fjórðungur þeirra einstaklinga sem hafa einhverjar vaxtatekjur lendi í þessum hópi. Enn fremur dregur breytt skattlagning arðs og söluhagnaðar úr skattbyrði hinna tekjuhærri, enda er hún ekki rökstudd með tilvísun til jöfnunar heldur samræmingar í skattlagningu fjármagnstekna. Sú samræming er forsenda fyrir traustri eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja og öflugri uppbyggingu atvinnulífsins, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
     Áhrif á tekjur ríkissjóðs. Erfitt er að meta nákvæmlega áhrif tillagnanna á tekjur ríkissjóðs. Talið er að skattlagning vaxtatekna einstaklinga ein og sér geti skilað um 800 m.kr. í ríkissjóð þegar áhrifin eru að fullu komin fram. Í þessum tölum hefur verið tekið tillit til lækkunar tekna ríkissjóðs vegna nýtingar persónuafsláttar á móti greiðslu vaxtaskatts, en þau áhrif má meta nálægt 100 m.kr. Frá aðilum sem nú eru skattfrjálsir, en myndu greiða skatt samkvæmt tillögunum (ýmis félagasamtök og opinberir aðilar), féllu til um 300 m.kr. til viðbótar. Loks er skattlagning annarra fjármagnstekna talin geta skilað um 250 m.kr. tekjum miðað við skattstofninn eins og hann er áætlaður, samanborið við um 450 m.kr. skatttekjur samkvæmt gildandi lögum. Á móti þessu tekjutapi vegur hins vegar að breytingin örvar hlutabréfakaup og stuðlar að auknum skattskilum húsaleigutekna. Sá skattstofn mun því án efa stækka frá því sem nú er. Þess vegna er óvíst hve miklum skatttekjum ríkissjóður mun tapa af öðrum fjármagnstekjum þegar upp er staðið.
    Samanlagt má því gera ráð fyrir að skattlagning fjármagnstekna geti skilað ríkissjóði nálægt 1 milljarði króna í tekjur. Tekjuáhrifin eru hins vegar minni framan af, eða á bilinu 600–700 m.kr., þar sem hluti vaxtateknanna kemur ekki til útborgunar fyrr en að nokkrum árum liðnum. Heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs ráðast síðan endanlega af því hvort og þá í hvaða mæli aðrir skattar lækka á móti svo og því hvort og þá hvernig skattstofninn breytist við álagningu skattsins.
     Áhrif á sparnað og vexti. Um áhrifin á sparnað, vaxtastig og fjárstreymi úr landi gilda um margt svipuð sjónarmið. Álagning vaxtaskatts mun ein og sér væntanlega fremur stuðla að hærri vöxtum en lægri. Jafnframt má ætla að skattlagning vaxta kunni að leiða til þess að fjármagn leiti fremur úr landi en inn. Á móti vegur að skatthlutfallið er lágt og framkvæmdin er einföld. Hvort tveggja dregur úr áhrifunum á vaxtastig og fjárstreymi úr landi. Enn fremur mun lækkun skatta á aðrar fjármagnstekjur hafa gagnstæð áhrif, þ.e. auka fjárfestingu í hlutabréfum og þannig minnka lánsfjárþörf fyrirtækja sem aftur stuðlar að lægri vöxtum en ella. Að öllu samanlögðu er því ekki líklegt að tillögurnar valdi teljandi röskun á fjármagnsmarkaði heldur muni þær þegar fram í sækir hafa jákvæð áhrif á vexti, sparnað og uppbyggingu atvinnulífs.
    Um frekari skýringar vísast til athugasemda við einstakar greinar og umfjöllunar í áliti nefndar þeirrar er samdi frumvarpið. (Sjá fylgiskjal með frumvarpi þessu.)

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er um að ræða nýja málsgrein sem kemur í stað 2. mgr. 8. gr. Skilgreint er hvað teljist vera skattskyldir vextir hjá skattaðilum utan atvinnurekstrar. Almenna vaxtahugtakið er að finna í núverandi 8. gr. laganna og er ekki gert ráð fyrir að skilgreining þess breytist. Gert er ráð fyrir að til tekna sem vextir utan rekstrar teljist greiddir eða greiðslukræfir vextir og verðbætur og áfallinn gengishagnaður á afborganir og vexti og enn fremur afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og hvers konar öðrum keyptum kröfum. Sérstaklega er kveðið á um hvenær vextir af sparisjóðsbókum og reikningum í innlánsstofnunum skuli teljast til tekna, en það er á því ári þegar þeir eru færðir manni til eignar á reikningi. Almennt eru vextir færðir reikningseiganda til eignar einu sinni til tvisvar á ári og eru þeir þá lausir eiganda til ráðstöfunar í einhvern tíma þótt höfuðstóll sé bundinn. Það þekkist þó að vextir séu bundnir jafnlengi höfuðstól. Í slíkum tilvikum er sama regla látin gilda og því gert ráð fyrir að vextir teljist ekki til tekna í þessu sambandi fyrr en við greiðslu eða þegar þeir eru greiðslukræfir.
    Almenna reglan er að skattur leggist á þegar krafa til vaxtatekna stofnast, þ.e. þegar vextir eru gjaldfallnir. Þau tilvik þegar gjaldfallin krafa fæst ekki greidd gætu leitt til skattlagningar. Þykir rétt að setja fram reglu sem fellir undan skattlagningu þá vexti sem þannig stendur á um.

Um 2. gr.


    Í núgildandi lögum eru settar reglur um útgáfu á jöfnunarhlutabréfum og tilgreind þau skattalegu viðmið er þar eiga við. Hér er lagt til að ákvæðin um jöfnunarhlutabréf verði aflögð. Í þess stað er gert ráð fyrir að fundið verði jöfnunarverð á hlutafé og slíkt verð notað í viðskiptum með hlutabréfin. Breytingar þær sem hér eru lagðar til á 9. gr. laganna fela í sér að ákvæði um jöfnunarhlutabréf eru afnumin og jöfnunarverðsviðmiðun tekin upp.

Um 3. gr.


    Hér er lögð til breyting á þeim reglum er gilda um eignarhaldstíma íbúðar að því er skattskyldan söluhagnað varðar. Í stað fimm ára nægir að maður eigi íbúð í tvö ár.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir að söluhagnaður af hlutabréfum myndi stofn til 10% fjármagnstekjuskatts.
    Núgildandi reglur eru þríþættar þegar stofnverð til útreiknings hagnaðar er metið. Taka má tillit til útgefinna jöfnunarhlutabréfa þegar ákvarða á hagnaðinn. Í öðru lagi má miða við þá fjárhæð sem heimilt hefði verið að gefa út sem jöfnunarhlutabréf hjá viðkomandi félagi og í þriðja lagi nafnverð að viðbættri áfallinni verðbreytingu samkvæmt verðbreytingarstuðli skattalaga. Hér er lögð til veruleg einföldun. Til viðmiðunar verður síðastnefnda reglan, þ.e. nafnverð eitt og sér með verðbreytingastuðli. Hafa ber í huga ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir nýjum viðmiðunargrunni fyrir öll félög sem stofnsett voru fyrir gildistöku laga þessara.

Um 5. gr.


    Lögð er til breyting á B-lið 1. mgr. 30. gr. laganna, en sú lagagrein kveður á um hvað heimilt er að draga frá tekjum manna utan atvinnurekstrar. Samkvæmt þessari breytingu fellur brott 1. tölul. þessa stafliðar um vaxtafrádrátt. Fellur því niður heimild manna til að draga vexti frá tekjum sínum við ákvörðun skattstofns. Vaxtatekjur, afföll og gengishagnaður mynda því skattstofn, sbr. nánar ákvæði frumvarpsins, en hljóta sérstaka skattalega meðferð. Sömuleiðis er felldur niður 2. tölul. um frádrátt vegna arðs af hlutafé og 3. tölul. stafliðarins um stofnsjóðsfrádrátt.
    Samkvæmt þessari grein eru því felldir niður sérfrádrættir þeir sem gilt hafa um vexti, arð og húsaleigu samkvæmt núgildandi lögum. Heimild manna til að draga frá beinan útlagðan kostnað, t.d. þjónustugjöld vegna vaxtatekna, söluþóknun vegna hlutabréfaviðskipta og beinan útlagðan kostnað við útleigu heldur sér. Sömuleiðis er ekki áformað að fella niður heimild til að færa leigukostnað á móti leigutekjum við vissar aðstæður.
    Rétt þykir með hliðsjón af eðli þeirra tekna sem hér um ræðir að heimila sérstakan mótreikning í allt að fimm ár ef krafa tapast. Tekur mótreikningur til vaxta, söluhagnaðar svo og leigutekna sem tekjufærðar hafa verið og greiddur skattur af. Skattskil miðast að jafnaði við greiðslur almanaksársins en í greininni er sett fram sú regla að heimilt verði að mótreikna tapaðar fjármagnstekjur eldri ára við fjármagnstekjur ársins. Rétthafa tekna ber að sýna fram á að krafa sé töpuð. Er það unnt t.d. með skjölum er varða innheimtutilraunir, árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot þess er greiða skyldi kröfuna. Nær heimildin til tekna síðustu fimm ára og gildir um allar fjármagnstekjur svo og innbyrðis milli einstakra tegunda þeirra. Þannig væri heimilt að mótreikna tapaða og áður tekjufærða húsaleigu á móti vaxtatekjum.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að heimild hlutafélaga til að draga frá arð haldi sér en að viðmiðunargrunni verði breytt. Ákvæðið felur og í sér að girt er fyrir að einkaeignir hækki þann stofn sem arður reiknast af. Að því er sumarhús varðar skal tekið fram að ekki er átt við slík hús sem ætluð eru til almennrar notkunar hjá hópi starfsmanna. Verbúðir og annað íbúðarhúsnæði, sem keypt er vegna rekstrarþarfa, fellur hér utan við.

Um 7. gr.


    Greinin kveður á um skattútreikning og reglur um tekjutengingu.
    Greinin fjallar um tekjuskattsútreikning og skatthlutföll. Gert er ráð fyrir því að um fjármagnstekjur manna utan rekstrar gildi sérstakar skattlagningarreglur. Þannig er skatthlutfallið ákveðið 10% af fjármagnstekjum án nokkurs frádráttar. Á móti útreiknuðum skatti má draga ónýttan persónuafslátt. Útsvar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga leggst ekki á fjármagnstekjurnar eða aðrir skattar á einstaklinga sem taka mið af tekjuskattsstofni.
    Sömuleiðis er ekki gert ráð fyrir tengslum milli fjármagnsteknanna sem skattstofns og annarra laga, t.d. almannatryggingalaga, laga um félagslega aðstoð o.fl., en oft er í þeim lögum tekin upp tekjuviðmiðun skattalaga, nema umrædd lög kveði á um slíkt sérstaklega.
    Gert er ráð fyrir að hinn útreiknaði og álagði skattur á fjármagnstekjur falli að því er varðar álagningarreglur, innheimtu og aðra framkvæmd að reglum þeim sem gilda um tekjuskattinn sem slíkan. Unnt er að birta skattstofninn sérstaklega á álagningarseðli skattþegna og útreiknaðan skatt á þann stofn.
    Í álagningarskrá, sbr. 1. mgr. 98. gr., sem liggur frammi til sýnis í kærufresti, svo og í skattskrá, sbr. 2. mgr. 98 gr., kæmi fjárhæð tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts koma fram í einu lagi.

Um 8. gr.


    Lagt er til að ónýttur persónufrádráttur komi til greiðslu á þeim skatti sem lagður verði á fjármagnstekjur.

Um 9. gr.


    Hér er lögð til breyting á vaxtabótareglum.
    Vaxtatekjur skerða vaxtagjöld sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta og því þótti eðlilegt að þeim hluta skatts sem á þá vexti er lagður verði bætt við fjárhæð vaxtabóta, þó ekki meira en sem nemur hámarki bótanna.

Um 10. gr.


    Greinin kveður á um skattlagningu félaga, sjóða og stofnana.
    Fjármagnstekjur rekstraraðila falla að hinum almenna skattstofni rekstrarins. Samkvæmt núgildandi lögum er hundraðshluti sameignarfélaga 41% af tekjuskattsstofni en annarra lögaðila 33%. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi þegar um rekstur og almenna skattskyldu er að ræða.
    Hins vegar er áformuð samkvæmt þessari grein frumvarpsins veruleg útvíkkun skattskyldu þannig að lögaðilar, stofnanir og félög sem hingað til hafa verið skattfrjáls greiði 10% skatt af fjármagnstekjum sínum eins og einstaklingar utan rekstrar.
    Ákvæðið nær til ríkissjóðs, ríkisstofnana og fyrirtækja sem ríkissjóður rekur og ber ótakmarkaða ábyrgð á og til sýslu- og sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem þau reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á. Sama gildir um félög, sjóði og stofnanir sem starfa að almannaheillum eða eru ekki reknar í atvinnuskyni og loks aðila sem eru undanþegnir samkvæmt sérlögum.
    Þessum aðilum verður ekki gert að skila skattframtölum og er áformað að staðgreiðsla skatts af vöxtum og arði verði ígildi lokaálagningar, sbr. frumvarp um staðgreiðslu fjármagnstekna.
    Í lokamálsgrein greinarinnar eru tilgreindar stofnanir sem talið er eðlilegt að halda alfarið utan skattskyldu. Er þar um að ræða lífeyrissjóði og stofnanir sem atvinnu hafa af útlánum og greiða skatt í samræmi við almenn lög á því sviði.

Um 11. gr.


    Ákvæðið tengir staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum við gildandi reglur um beitingu álags ef staðgreiðslu hefur ekki verið skilað.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Hér er um lagaskilaákvæði að ræða þar sem er að finna reglur um meðferð þeirra vaxta sem fallnir verða á fyrir gildistöku laga þessara.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Með þeim reglum sem hér greinir er sett ný byrjunarviðmiðun til notkunar við ákvörðun á verðmæti hlutabréfa. Rétt þótti að áunnin réttindi héldu sér með því skilyrði að hlutafélög noti næstu tvö árin til að ákvarða hina nýju viðmiðun.
    Í lokamálsgrein er settur varnagli til að vernda hagsmuni hluthafa ef félagið stendur ekki rétt að málum og er þá gert ráð fyrir einfaldri vísitölubreytingu á nafnverð bréfa.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Ljóst er að um vexti af örorkubótum gilda sérstök sjónarmið. Hér er lagt til að sú vaxtafjárhæð sem afreiknuð er við ákvörðun bótanna heimilist til lækkunar á fjármagnstekjum næstu fimm ár eftir gildistöku laga þessara ef þær voru greiddar fyrir gildistökuna.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


    Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem skipuð var á síðastliðnu vori til að gera tillögur um skattlagningu fjármagnstekna. Nefndin var skipuð fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, auk fulltrúa ASÍ og VSÍ. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Þar sem frumvörpin varða sama málið, þ.e. skattlagningu og innheimtu skatts á fjármagnstekjur, á umsögn þessi við um þau bæði.
    Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt mun samkvæmt frumvarpinu hafa í för með sér að fjármagnstekjur verða skilgreindar sérstaklega og skattlagðar í 10% skattþrepi. Einnig eru lagðar til breytingar á meðferð jöfnunarhlutabréfa og arðsfrádráttar hjá hlutafélögum. Samkvæmt frumvarpi um staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts er gert ráð fyrir að skattur af vaxtatekjum og arði verði innheimtur af greiðendum þessara tekna.
    Lagt hefur verið mat á kostnað skattkerfisins verði framangreind frumvörp að lögum. Samkvæmt þeirri áætlun er heildarkostnaður áætlaður 32–34 m.kr. Fjárhæðin skiptist þannig að í fyrsta lagi er kostnaður vegna eftirlits með skilaskyldum aðilum og yfirferð og eftirlit með framtölum einstaklinga áætlaður 10–12 m.kr. á ári. Í öðru lagi er talið að kostnaður við eftirlit með ákvörðun jöfnunarverðmætis hlutabréfa sem gera þarf á árunum 1997 og 1998 verði um 8 m.kr. Er þá gert ráð fyrir að hlutafélögin hafi sjálf með höndum útreikning jöfnunarverðmætis samkvæmt leiðbeiningum sem ríkisskattstjóri gefur út. Að lokum er kostnaður við hugbúnaðargerð, kynningarkostnað og eyðublaðagerð áætlaður 14 m.kr.
    Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 12,5 m.kr. til undirbúnings fjármagnstekjuskatts.
    Ekki liggja fyrir áætlanir um kostnað banka og annarra fjármálastofnana vegna innheimtu fjármagnstekjuskatts. Ætla má að kostnaður vegna innheimtu skatts af vöxtum í innlánsstofnunum verði ekki umtalsverður, en þar fer stærsti hluti innheimtunnar fram. Á móti vegur að aðeins er gert ráð fyrir einum gjalddaga á ári og innheimtuaðilar njóta því ávöxtunar af innheimtum skatti fram að gjalddaga.



Fylgiskjal II.



Álit og tillögur nefndar um samræmda skattlagningu fjármagnstekna.


(Febrúar 1996.)





(70 síður myndaðar.)