Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 436 . mál.


768. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Í stað „1. maí 1995“ í lok ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 1. september 1995.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Sjávarútvegsráðherra er, þrátt fyrir ákvæði 7. gr., heimilt að ákveða að til ársloka 1996 skuli styrkur vegna úreldingar krókabáta vera hærra hlutfall af húftryggingarmati en gildir um önnur skip og getur styrkurinn ákveðist hærri vegna krókabáta á sóknardögum en vegna krókabáta á þorskaflahámarki. Jafnframt er heimilt að ákveða að til 1. október 1996 geti úreldingarstyrkur vegna krókabáta á sóknardögum numið að hámarki 80% af húftryggingarverðmæti en að hámarki 60% af húftryggingarverðmæti vegna krókabáta á þorskaflahámarki. Á sama tímabili er Þróunarsjóði heimilt að kaupa krókabáta sem hafa verið úreltir. Getur sjóðurinn m.a. notað þá til þróunarverkefna erlendis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.
    Í því frumvarpi eru gerðar breytingar á reglum sem varða útgerð krókabáta í samræmi við niðurstöður viðræðna milli sjávarútvegsráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda um breytingar á starfsumhverfi krókabáta. Þar er m.a. lagt til að heimilt verði að framselja aflahámark af krókabáti á þorskaflahámarki með því skilyrði að allt þorskaflahámarkið sé flutt af bátnum, hann afsali sér veiðileyfi og falli frá endurnýjunarrétti. Aðstæður við úreldingu krókabáta á þorskaflahámarki annars vegar og sóknardögum hins vegar verða því mjög misjafnar vegna möguleikans til að selja þorskaflahámarkið. Lagt er til í 2. gr. að hámarksúreldingarstyrkur geti til 1. október 1996 numið allt að 80% af húftryggingarverðmæti vegna sóknardagabáts, sem er það sama og gildir nú um alla krókabáta, en verði allt að 60% vegna þorskaflahámarksbáts. Þessar hámarkstölur gefa ekki vísbendingu um hlutfall á milli styrkfjárhæða þessara tveggja útgerðarhópa. Hve mikið er nýtt af hámarki styrkfjárhæðar er sjálfstæð ákvörðun fyrir hvorn hóp um sig. Slík styrktilboð eru markaðsaðgerð og tillaga til sjávarútvegsráðherra um styrkhlutfall vegna þorskaflahámarksbáta mun ráðast mikið af markaðsverði á þorskaflahámarki.
    Eftir 1. október er heimilt innan 45% viðmiðunarinnar í lögunum að hafa styrk vegna krókabáta hærri en vegna annarra báta til loka þessa árs og er hér lagt til að á þessum tíma geti styrkfjárhæð vegna þessara tveggja hópa verið mismunandi.
    Í 1. gr. er lagt til að viðmiðun um það hvaða krókabátar eiga rétt á úreldingu verði breytt. Nú er miðað við að bátur hafi verið skráður á skipaskrá fyrir 1. maí 1995, en lagt er til að miðað verði við 1. september 1995. Þessi tillaga var niðurstaða viðræðna við Landssamband smábátaeigenda og þóttu sanngirnisrök mæla með því að allir krókabátar er voru á skipaskrá við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs eigi þennan rétt.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 92 24. maí 1994,


um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að reglum um úreldingarstyrki fyrir krókabáta verði breytt þannig að styrkur til úreldingar krókabáta í sóknardagakerfi geti áfram að hámarki numið 80% til 1. október þessa árs en styrkur til krókabáta á þorskaflahámarki lækki úr 80% í 60% (sjá 2. gr. laga nr. 157/1995). Hvorug aðgerðin hefur bein áhrif á útgjöld A-hluta ríkissjóðs, en væntanlega mun hún verða til þess að flýta eitthvað fyrir úreldingu krókabáta í sóknardagakerfi og hafa þannig áhrif á útgjöld Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.