Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 437 . mál.


769. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Við 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. bætist: nema bátur komi í stað báts sem hefur verið dæmdur óbætandi vegna sjótjóns.
    

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða á þorskaflahámarki, krókabátar, skulu frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 stunda veiðar skv. 9. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum og línu, eða einungis með handfærum, sbr. 6. mgr. þessarar greinar. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum og til hrognkelsaveiða í net.
    Krókabátum gefst frá og með fiskveiðiári því sem hefst 1. september 1996 kostur á að velja á milli þess að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 4.–5. mgr. og þess að stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga eftir annarri hvorri þeirra aðferða sem nánar er lýst í 6.–10. mgr. Eigandi krókabáts skal tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 1. júlí 1996. Innan sama frests getur eigandi krókabáts komið fram athugasemdum við Fiskistofu um útreikning á þorskaflahámarki. Velji eigandi krókabáts ekki fyrir tilskilinn tíma skal bátur stunda veiðar á þorskaflahámarki. Sætti eigandi sig ekki við úrskurð Fiskistofu um þorskaflahámark getur hann, innan mánaðartíma frá því að úrskurður liggur fyrir, skotið málinu til sérstakrar kærunefndar sem ráðherra skipar. Skal hún skipuð þremur mönnum og skal formaður hennar fullnægja skilyrðum til að vera skipaður héraðsdómari. Úrskurðir kærunefndar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnkerfisins.
    Heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta skal vera 13,9% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs en þó ekki lægri en 21.500 lestir, miðað við óslægðan fisk. Frá þessari heildarþorskaflaviðmiðun dragast 500 lestir til og með fiskveiðiárinu 1998/1999, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II laga nr. 83/1995.
    Þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost velja skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam hlutfalli hvers báts í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995.
    Heimilt er að framselja þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta en það er háð því skilyrði að allt hámarkið sé flutt af viðkomandi bát, enda falli veiðileyfi niður og rétti til endurnýjunar sé afsalað. Heimilt er að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Enn fremur er heimilt að flytja til krókabáts á þorskaflahámarki, innan hvers fiskveiðiárs, úthlutað aflamark í þorski skv. 7. gr., um þann flutning gilda almennar reglur um flutning aflamarks. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning þorskaflahámarks milli báta og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn.
    Bátum sem velja sóknardaga gefst kostur á að velja um að stunda veiðar með handfærum og línu skv. 7.–8. mgr. þessarar greinar eða einungis með handfærum skv. 9.–10. mgr. þessarar greinar. Sóknardagur telst vera 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Ráðherra getur heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr., sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háfiskum, séu utan sóknardaga.
    Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta er velja að stunda veiðar með handfærum og línu skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark, skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 skulu sóknardagar þessara báta vera 84, miðað við veiðar með handfærum. Ef bátur rær með línu skal margfalda fjölda nýttra daga með tölunni 1,9 á tímabilinu frá 1. maí til 1. september, en með tölunni 1,35 á öðrum tíma. Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala alls af línu fyrir hvern sóknardag en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 500 krókar séu á línu í hverjum bala.
    Fjöldi sóknardaga þeirra báta er þennan kost velja er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 1997, með því að reikna meðalafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksafla þeirra á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skal fækka eða fjölga um heila daga og er broti sleppt.
    Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta er velja að stunda veiðar með handfærum eingöngu skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 skulu sóknardagar þessara báta vera 84.
     Fjöldi sóknardaga þeirra báta er þennan kost velja er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 1997, með því að reikna meðalafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksafla þeirra á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skal fækka eða fjölga um heila daga og er broti sleppt.

3. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.
    Ráðherra er heimilt að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Heimild til að framselja þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta, með því skilyrði að allt hámarkið sé flutt af viðkomandi bát, veiðileyfi falli niður og rétti til endurnýjunar sé afsalað, skal taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 11. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, sem haldinn var 12. og 13. október 1995, lýsti sjávarútvegsráðherra því yfir að ráðuneytið væri reiðubúið að beita sér fyrir þeim breytingum á starfsumhverfi krókabátaútgerða sem gætu einfaldað reglur og auðveldað þennan atvinnurekstur, án þess að hvikað yrði frá því að geta haft tök á að halda veiðinni innan viðmiðana um heildarafla. Kaus aðalfundurinn sérstaka nefnd til að eiga viðræður við ráðuneytið um hugsanlegar breytingar.
    Í framhaldi af því var efnt til viðræðna á milli ráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda (LS) og voru fundir haldnir nokkuð reglulega þar til 18. mars að samkomulag var orðið um að frumvarp yrði flutt til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, sem hefði að geyma þær tillögur um breytingar á veiðistýringu krókabáta, sem koma fram í þessu frumvarpi. Áður hafði orðið samkomulag um það í desember síðastliðnum að flutt yrðu frumvörp þau til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem urðu að lögum nr.158/1995 og lögum nr.157/1995. Þar var um að ræða annars vegar brýnar leiðréttingar og hins vegar heimild til að hækka tilboð um úreldingarstyrk til krókabáta í allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Þá náðist hins vegar ekki samkomulag um heildstæðar tillögur um lagabreytingar varðandi krókabáta. Í byrjun þessa árs kynnti LS svæðissamböndum innan landssambandsins þær tillögur um breytingar sem ráðuneytið lagði fram í desember og kom fram að ýmsum hugmyndum var alveg hafnað, t.d. varðandi einstaklingsbundið þak fyrir báta í sóknardagakerfi, þannig að hver og einn yrði að hætta veiðum þegar komið væri t.d. 50% fram úr reiknuðu þorskaflahámarki viðkomandi báts. Varð að endurskoða verulega þau mál er sneru að sóknardagabátunum er aðilar komu saman aftur á þessu ári.
    Með þeim tillögum sem hér eru settar fram er í veigamiklum atriðum komið til móts við þær óskir sem LS og fjölmargir smábátasjómenn hafa sett fram um breytingar á starfsumhverfi þessa útgerðarforms. Veiðar krókabáta munu áfram verða stundaðar á þorskaflahámarki eða með sóknardagatakmörkunum, en sú breyting er lögð til hér að sóknardagahóparnir verði tveir í stað eins og yrði einungis leyft að stunda veiðar með handfærum í öðrum hópnum, en með handfærum og línu í hinum. Það vinnst með því að fjölga veiðihópunum um einn að viðurkennt er að hagsmunir þeirra sem stunda krókaveiðar eru ólíkir innbyrðis og með því að koma til móts við þá staðreynd með þessum hætti er hægt að hafa reglur hvers hóps um sig einfaldari en ella hefði verið.
    LS lagði í viðræðum við ráðuneytið áherslu á að auka þyrfti veiðiheimildir krókabáta bæði með því að hækka 21.500 lesta miðmiðunin og á að nauðsynlegt væri að hlutfallstengja aflann miðað við ákvarðaðan heildarafla í þorski. Ráðuneytið taldi ekki mögulegt að skerða aðra útgerðarhópa frekar til þess að auka veiðiheimildir krókabátahópsins miðað við óbreyttan heildarafla, m.a. vegna þess að veiðiheimildir krókabáta hafa þegar verið auknar með lögum nr. 87/1994 er viðmiðun var hækkuð úr 2.896 þorskígildislestum, miðað við úthlutað aflamark á síðasta ári, í 20.170 þorskígildislestir og var þá varðandi síðari töluna miðað við meðalafla fiskveiðiáranna sem hófust 1. september 1991 og 1. september 1992. Enn voru veiðiheimildir krókabáta svo rýmkaðar með lögum nr. 83/1995 sem gáfu frjálsar varðandi aflaviðmiðun aðrar veiðar þessara báta en þorskveiðar.
    Ráðuneytið féllst hins vegar á þá meginkröfu LS að 21.500 lesta heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta yrði tengd hlutfallslega við ákvarðaðan heildarafla í þorski miðað við 155.000 lesta þorskafla. Verður heildaraflinn því hér eftir 13,9% af heildarafla þorsks ef tillaga frumvarpsins verður samþykkt, þó ekki minni en 21.500 lestir, miðað við óslægðan fisk.
    Ein tillaga um ákvörðun leyfilegs afla fyrir hvern bát sem aðalfundur LS samþykkti og viðræðunefnd LS fylgdi fast eftir, var að allir krókabátar fengju heimild til að veiða 10 lestir fyrir hverja brúttórúmlest báts, en bátar sem minni veiðireynslu hefðu en 10 lestir skyldu fá eigin reynslu sem aflaþak. Ráðuneytið hafnaði þessari tillögu á þeim grundvelli að samtala þeirra heimilda sem slík regla myndi veita, væri líklega meira en tvöföld sú veiðiheimild sem nú er í gildi. Þá þótti hæpið að hægt væri að útfæra með boðlegum hætti reglu um „frystingu“ báta með minna en 10 lesta veiðireynslu, m.a. með tilliti til jafnræðisreglu.
    Eitt veigamikið atriði til viðbótar sem fallist var á að kröfu LS er að allir fastir banndagar, sem nú eru 136 á ári, eru felldir burtu, samkvæmt þessum tillögum. Það þýðir að þeir sem stunda veiðar á þorskaflahámarki eru ekki háðir neinum sérstökum takmörkunum öðrum en þeim að halda sig innan aflahámarksins varðandi þorskveiðar. Jafnframt býður það upp á aukinn sveigjanleika að nú yrði heimilt að flytja 20% af þorskaflahámarki eins fiskveiðiárs yfir á það næsta. Þá má nefna að þorskaflahámarksbátunum verður heimilt að framselja þorskaflahámark innan hópsins með tilteknum skilyrðum og enn fremur að flytja til sín aflamark í þorski innan hvers fiskveiðiárs.
    Fyrir krókabáta á sóknardagatakmörkunum þýðir afnám banndaga að þeir yrðu óbundnir varðandi það hvenær þeir kjósa að nýta sína sóknardaga, en í frumvarpinu er jafnframt lagt til að hætt verði að skipta fiskveiðiárinu í fjögur tímabil. Alla dagana, sem eru 84 í upphafi fyrir báða sóknardagahópana, væri því hægt að nýta á sama árstímanum. Raunar eru rökin fyrir því að skipta sóknardagabátum í tvo hópa einkum þau að þeir sem kjósi að veiða með handfærum eingöngu séu gjarnan menn sem reyni að stunda veiðarnar með litlum tilkostnaði og þurfa þar af leiðandi minna aflamagn til að komast af en ýmsir aðrir. Þessir menn telja sig ekki eiga samleið með línuveiðimönnum í dagakerfi með sameiginlega aflaviðmiðun. Varðandi handfærakerfið er lagt til að menn nýti alltaf einn sóknardag fyrir hverjar 24 klst. frá því að veiðiferð hefst, en þannig verður sóknardagur nú skilgreindur í lögunum. Varðandi handfæra- og línukerfið er hins vegar lagt til að nýting sóknardaga sé reiknuð með stuðli, þannig að menn noti 1,9 daga fyrir hvern dag þegar veitt er með línu frá 1. maí til 1. september og 1,35 daga fyrir hvern dag á öðrum tímum. Notkun svonefnds símakróks til tilkynninga í og úr höfn hefur gert það mögulegt að veita mjög svo aukið svigrúm varðandi persónubundið val á sóknardögum og nýtingu á þeim.
    Það stóra mál sem LS lagði mikla áherslu á í viðræðunum en náði ekki fram að ganga var ósk um fastan lágmarksdagafjölda til handa krókabátum á sóknardögum. Ráðuneytið telur óhugsandi að menn ákveði í lögum fastan lágmarksfjölda sóknardaga með þeim hætti að aflinn, miðað við fyrirliggjandi reynslu, verði augljóslega utan þeirra viðmiðunarmarka sem lögin segja til um, hver sem þau annars væru. Fiskveiðistjórnun miðast við að halda heildarafla innan ákveðinna marka og sóknareiningarnar eru afleidd stærð sem miðar að því að ná markmiðum um tiltekinn afla. Stjórnvöld geta ekki afsalað sér endanlega möguleikanum til að stjórna fiskveiðunum með hliðsjón af aflamagni. Sóknardagar sem fastákveðnir væru án þess að afli stæði að baki væru innistæðulausir og vandséð að það væri hægt að leiðrétta síðar án þess að nokkuð nýtt kæmi fram um aflabrögð. Slíkum föstum dagafjölda væri því spilað út sem óafturkræfu loforði. Á grundvelli slíks loforðs myndu líklega margir eigendur krókabáta endurmeta stöðu sína þannig að þeir hættu við úreldingu eða kæmu inn í sóknardagakerfið úr aflahámarkinu.
    Það athugist að gert er ráð fyrir því í tillögunum að allir eigendur krókabáta geti nú með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til, valið um það á ný hverju þriggja framangreindra veiðikerfa þeir ætli að tilheyra.
    Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til laga um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem er ætlað að samræma reglur um úreldingarstyrki til krókabáta þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þessum úreldingarreglum, ásamt með auknu svigrúmi til að færa saman veiðiheimildir í þorskaflahámarkskerfinu og þeim hertu endurnýjunarreglum fyrir þessa báta sem lögfestar voru á síðastliðnu sumri, er ætlað að stuðla að þeirri aðlögun afkastagetu krókabátaflotans að veiðiheimildunum, sem er nauðsynleg ef starfsumhverfið á að geta talist lífvænlegt fyrir þá sem munu hafa atvinnu af krókaveiðum í framtíðinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein er það lagt til að ef nýr krókabátur komi í stað annars, sem hefur verið dæmdur óbætandi vegna sjótjóns, þá sé hinn nýi bátur undanþeginn reglu 5. gr. laganna, en samkvæmt greininni skal afkastageta nýs eða nýkeypts báts vera a.m.k. 50% minni en þess báts sem veiðileyfi lætur.

Um 2. gr.


    Þetta er viðamesta greinin í frumvarpinu og þar er hinum þremur veiðikerfum krókabáta lýst og flestum þeim sérreglum sem um þessar veiðar gilda.
    Í 1. mgr. er að finna þá breytingu frá núgildandi lögum að í stað þess að allir krókabátar geti veitt á handfæri og línu, með þeim undantekningum sem koma fram í niðurlagi málsgreinarinnar, þá er nú lagt til að menn geti valið um að stunda veiðar eingöngu með handfærum og er búist við að einhverjir kjósi að nýta sér þetta í þeirri von að þarna verði minna um báta sem hyggja á mikla sókn, sem leiðir til fækkunar sóknardaga ef afli verður umfram viðmiðanir fyrir hvern hóp.
    Í 2. mgr. er fjallað um valið milli kerfa og meðferð ágreinings um útreikning á þorskaflahámarki. Þetta ákvæði felur ekki í sér efnisbreytingar frá gildandi ákvæði að öðru leyti en því að nú er gert ráð fyrir því að bátur þess sem ekki velur innan tiltekins frests stundi veiðar á þorskaflahámarki, en ekki á sóknardögum eins og reglan var samkvæmt núgildandi lögum. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að um tvö aðskilin sóknardagakerfi er að tefla og afstaða bátseigandans til þess í hvoru sóknardagakerfinu hann mundi vilja vera liggur ekki fyrir.
    Í 3. mgr. kemur heildarþorskaflaviðmiðunin fram, en þar kemur einnig fram að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II, laga nr. 83/1995, skuli 500 lestum af þorski úthlutað árlega af Byggðastofnun til skilgreindra svæða og stendur sú ráðstöfun í þrjú fiskveiðiár til viðbótar samkvæmt ákvæðinu.
    Í 5. mgr. er fjallað um útreikning á þorskaflahámarki þeirra báta sem þann kost velja, en þorskaflahámarkið veitir samkvæmt þessari málsgrein hverjum báti fasta hlutdeild í heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta, og miðast hlutdeildin við þá hlutdeild sem útreiknað hámark bátsins var af 21.000 lestum, miðað við óslægðan fisk. Í 5. mgr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að reikna á ný þorskaflahámark fyrir einstaka báta í þorskaflahámarkskerfi og fyrir þá sem síðan velja sóknardaga og leggja sitt þorskaflahámark inn í samtölu í hvors sóknardagahóps um sig, sem myndar heildaraflaviðmiðun fyrir hvern hóp. Þá sé notast við það hlutfall sem þorskaflahámark hvers báts var af 21.000 lestum, eins og það var reiknað skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þessu hlutfalli er síðan beitt á nýja heildarþorskaflaviðmiðun.
    Skv. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 83/1995, skyldi þorskaflahámark þeirra báta er þann kost völdu samtals nema sama hlutfalli af 21.000 lestum, miðað við óslægðan fisk, og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í heildarþorskafla krókabáta á almanaksárinu 1994. Skyldi því skipt milli einstakra báta á grundvelli veiðireynslu viðkomandi báts almanaksárin 1992, 1993 og 1994. Skyldi við þá skiptingu fyrst taka tvö bestu árin varðandi þorskafla hvers báts og reikna meðalþorskafla bátsins á þeim árum. Sá hluti þannig reiknaðs meðalafla fyrir hvern bát, sem umfram var 50 lestir, skyldi síðan margfaldaður með stuðlinum 0,7. Þannig umreiknaður meðalafli tveggja bestu áranna skyldi lagður til grundvallar hlutfallslegri skiptingu sameiginlegs þorskaflahámarks milli einstakra báta.
    Við ofangreinda skiptingu var miðað við að báturinn hefði haft veiðileyfi óslitið frá 1. janúar 1992. Veiðireynsla báta sem fengu veiðileyfi frá öðrum bátum eftir 1. janúar 1992 var reiknuð með því að leggja saman veiðireynslu þeirra báta sem létu veiðileyfi í stað þess nýja. Ef bátar fengu veiðileyfi eftir 31. ágúst 1995 miðast veiðireynsla þeirra við þann bát sem hæstu veiðireynsluna hafði.
    Í 6. mgr. er lögð til sú nýlunda að heimilt verði að framselja þorskaflahámark innan hópsins, með því skilyrði að allt sé flutt af bátnum, sem flutt er frá, en hins vegar er heimilt að flytja heimildina til fleiri en eins báts. Þá er það skilyrði fyrir framsali að veiðileyfi báts falli niður og rétti til endurnýjunar sé afsalað. Sú regla truflar það ekki að bátur geti notið úreldingarstyrks frá Þróunarsjóði sjávarútvegisns, enda gerir frumvarp til breytingar á lögum um Þróunarsjóðinn, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, ráð fyrir því að lægri styrkir séu greiddir vegna krókabáta sem veiða á þorskaflahámarki en annarra krókabáta. Að uppfylltum endurnýjunarreglum um krókabáta, þ.e. að afkastageta nýs eða nýkeypts báts sé a.m.k. 50% minni en þess sem veiðileyfi lætur, getur bátur eða bátar á þorskaflahámarki farið út úr kerfinu fyrir nýjan bát og veiðiheimildir þeirra sem veiðileyfi láta geta þá flust yfir á nýja bátinn. Þannig myndi líka hægt að endurnýja þorskaflahámarksbát með jafn stórum eða minni báti úr sóknardagakerfunum, en gamli báturinn yrði þá að afsala veiðileyfi og endurnýjunarrétti og hámarkið flyttist á þann bát sem áður var sóknardagabátur en yrði eftir þetta þorskaflahámarksbátur. Raunar geta menn látið veiðileyfi af bátum úr tveimur eða öllum þremur veiðihópunum fyrir veiðileyfi á einn nýjan bát og á þá eigandinn val um það í hvaða kerfi nýi báturinn kemur. Þannig er það í gildandi reglum um endurnýjun þegar bátar úr tveimur kerfum fara út fyrir einn nýjan. Sóknardagabátur sem veiðileyfi lætur vegna endurnýjunar þorskaflahámarksbáts (og öfugt) getur hins vegar ekki lagt til neinar veiðiheimildir til báts í öðru kerfi, því þær verða bundnar við hvern hóp fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að flytja innan ársins úthlutað aflamark í þorski skv. 7. gr. til þorskaflahámarksbáts. Þetta er flutningur innan ársins í eina átt og verður það magn sem flutt er til krókabáts samkvæmt þessari heimild ekki flutt af honum aftur, enda álitamál hvort t.d. bátur sem hefur þorskaflahámark og sem hefur flutt til sín aflamark og hafið þorskveiðar, sé þegar þarna er komið að selja frá sér úr þorskaflahámarkinu eða hið aðflutta aflamark.
    Í 6. mgr. er fjallað um val á milli sóknardagakerfa og almennt um sóknardaga. Nýlunda er að sóknardagur er nú skilgreindur sem 24 klukkustundir frá því að róður hefst í stað þess að miðast við almanaksdag. Þá er lögð þarna til sú rýmkun að í stað þess að undanþága til veiða utan sóknardaga sé bundin við þau sérhæfðu veiðarfæri sem fram koma í lokamálslið 1. mgr. er sama látið gilda um veiðar á háfiskum (pleurotremata) með sérhæfðri línu. Undir háfiska falla hákarl og beinhákarl, hámeri og háfur.
    7. og 8. mgr. fjalla um blandaða sóknardagakerfið, þar sem bæði handfæri og lína eru leyfð veiðarfæri en 9. og 10. mgr. fjalla um handfærakerfið. Þótt efni þessara málsgreina sé að mörgu leyti hið sama þótti eðlilegt að fjalla um þessa tvo veiðihópa í sitt hvoru lagi, enda kunna þeir að þróast með mismunandi hætti.
    Heildarþorskaflaviðmiðun hvors kerfis um sig grundvallast á útreikningi á samanlögðu þorskaflahámarki allra báta sem kerfið velja og því hversu hátt hlutfall það hefði verið af 21.000 lestum. Það athugist að það er þorskaflahámark allra sem velja kerfið sem leggur grunn að heildarþorskaflaviðmiðun og hún breytist ekki fyrir hópinn þótt bátur hverfi síðar úr kerfinu, t.d. fyrir úreldingu.
    Sóknardagar í báðum kerfum eru ákveðnir 84 í upphafi. Í handfæra- og línuhópnum miðast dagafjöldinn við handfæradaga en þeim fækkar sé róið með línu samkvæmt tveimur mismunandi stuðlum fyrir vetur og sumar.
    Erfitt er að gera sér grein fyrir því fyrir fram hversu mikill afli muni leiða af tilteknum dagafjölda. Gífurleg afkastageta er enn ónýtt í krókabátaflotanum. Um 200 af nálægt 680 bátum sem nú eru á sóknardögum var lítið sem ekkert haldið til veiða á síðasta fiskveiðiári. Hinir 480 nýttu í heild rúmlega þriðjung af sínum sóknardögum. Meðalafli í róðri á síðasta fiskveiðiári var 585 kg fyrir handfæri og 795 kg á línu. Meðalafli krókabáta í febrúar síðastliðnum var u.þ.b. 1,4 lestir í róðri að meðaltali, væntanlega línuafli að stórum hluta. Á yfirstandandi fiskveiðiári eru 81 sóknardagur á 4 tímabilum. Mesta dagafækkunin frá fyrra ári kemur fram í sumar er veiða má í 26 daga á 2 tímabilum frá maí til ágúst. Á fyrstu tveimur tímabilum yfirstandandi fiskveiðiárs virðist aflinn ætla að vera verulega yfir viðmiðunarmörkum. Sóknardagafjöldinn er svipaður á næsta ári, en þó a.m.k. nálægt fjórðungi færri ef menn veiða eingöngu með línu.
    Allt að einu sýnist framvindan í sóknardagakerfinu á næstu misserum mikið undir því komin að það úreldingartilboð sem stendur fram á haustið, nái að koma af stað talsverðri fækkun báta, og því að aukin sóknargeta verði ekki leyst úr læðingi. Að öðrum kosti yrði ekki hægt að afstýra fækkun sóknardaga, þótt aflaheimildir þessara báta aukist að öllum líkindum á næstu fiskveiðiárum með hækkandi heildarafla.
    

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er að finna ákvæði í 1. mgr. sem var áður í 6. gr. laganna en er nú sett í nýja grein 6. gr. a. Ástæða þess er sú að efni ákvæðisins er ekki bundið við krókabáta, en 6. gr. laganna fjallar nú eingöngu um málefni þeirra. 1. mgr. 6. gr. a. sem svo yrði ef frumvarpið hlýtur samþykki fjallar um heimild allra til tómstundaveiða og er óbreytt. 2. mgr. sem fjallar um notkun báta í sjóstangaveiðimótum og nýtingu afla sem til fellur í þeim er hins vegar nýlunda. Þau opinberu mót sem þarna eru nefnd hafa undanfarin ár verið um 8 á ári hverju.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið flýtir gildistöku heimildar til framsals þorskaflahámarks þannig að það myndi taka þegar gildi. Tillaga er gerð um sömu tilhögun um gildistöku í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem flutt er samhliða þessu frumvarpi og er ástæða þessarar tillögu sú að heppilegt er að menn geti þegar farið að vinna að þessum málum í stað þess að bíða til hausts.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á lögum um stjórn fiskveiða að þeim hópi krókabáta er veiðir eftir sóknardagakerfi verði skipt upp í tvo hópa eftir því hvort veitt er með handfæri eingöngu eða bæði með handfæri og línu. Þessi breyting kallar á nokkra vinnu hjá Fiskistofu við endurflokkun krókabáta undir sóknardagakerfi. Sú vinna er ekki talin vera meiri en svo að hægt sé að inna hana af hendi með núverandi fjármunum og mannafla þannig að viðbótarkostnaður ríkissjóðs við samþykkt frumvarpsins telst enginn vera.