Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 444 . mál.


776. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)1. gr.


    Í stað orðsins „virðisaukaskatt“ í 1. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur: 60% þess virðisaukaskatts.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti. Þetta er gert í tengslum við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 97/1987, um vörugjald. Gert er ráð fyrir að breytingar á vörugjaldslögunum muni lækka tekjur ríkissjóðs um u.þ.b. 450 millj. kr. Til þess að mæta tekjutapinu ákvað ríkisstjórnin að draga úr endurgreiðslum á virðisaukaskatti af vinnu við íbúðarhúsnæði. Var ákveðið að endurgreiðsla vegna vinnu við íbúðarhúsnæði skuli nema 60% af greiddum virðisaukaskatti. Áætlað var að sú endurgreiðsla mundi árið 1996 nema u.þ.b. 1.100 millj. kr. Með þessari breytingu má gera ráð fyrir að endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu við íbúðarhúsnæði muni lækka um 440 millj. kr. Til mótvægis við lækkun á endurgreiðslu á virðisaukaskatti verða vörugjöld felld niður eða lækkuð, þar á meðal af ýmsum byggingarvörum, t.d. málningu, einangrunarefni og lagnaefni, svo og af heimilistækjum.
    Lagt er til að orðalagi 2. mgr. 42. gr. laganna verði breytt þannig að byggjendur íbúðarhúsnæðis fá einungis 60% af greiddum virðisaukaskatti af vinnu manna á byggingarstað endurgreidd, í stað þess að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan að fullu eins og nú er.
Prentað upp á ný.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,


um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er að finna ákvæði um breytingu á 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Lagt er til að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti. Gert er ráð fyrir að endurgreisla á virðisaukaskatti vegna byggingar íbúðarhúsnæðis muni af þessum sökum lækka úr u.þ.b. 1.100 millj. kr. í 660 millj. kr. á þessu ári. Ekki verður þó um tekjuaukningu fyrir ríkissjóð að ræða því ákveðið hefur verið að fella niður og lækka vörugjöld af ýmsum vörum með frumvarpi til breytinga á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
    Frumvarp þetta mun ekki hafa í för með sér breytingu á framkvæmd endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Kostnaður ríkissjóðs af þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir verður því óverulegur.