Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 461 . mál.


796. Frumvarp til laga



um Flugskóla Íslands hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að beita sér fyrir stofnun hlutafélags um rekstur flugskóla sem nefnast skal Flugskóli Íslands hf.
    Í þessu skyni er ráðherra heimilt að leggja fram í reiðufé allt að 4 m.kr. sem hlutafé í hinu nýja félagi og kveðja aðra aðila til samstarfs um stofnun þess. Auk þess skal ráðherra heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og verði hann metinn til hlutafjár.

2. gr.

    Markmið skólastarfsins skal vera að veita menntun sem gerir nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna og áritana á þau. Samkvæmt því skal skólinn veita kennslu til undirbúnings prófa í atvinnuflugi.
    Kennsla sú sem skólinn veitir skal miðast við öll stig atvinnuflugnáms og miða að því að búa nemendur undir próf loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til öflunar atvinnuflugréttinda í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.
    Flugskóli Íslands hf. skal leita samvinnu og samstarfs við aðra flugskóla um ákveðna kennsluþætti, einkum þá verklegu.
    Skólinn skal sinna endurmenntun atvinnuflugmanna eftir því sem þörf krefur.

3. gr.

    Þeir einir geta hafið nám í Flugskóla Íslands hf. sem:
    uppfylla lágmarkskröfur um aldur og menntun, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð,
    fullnægja skilyrðum um andlegt og líkamlegt heilbrigði til að fá útgefið skírteini eða áritun atvinnuflugmanns.
    Heimilt er að halda inntökupróf í Flugskóla Íslands hf. og gera tiltekinn prófárangur að skilyrði fyrir að geta hafið nám.

4. gr.

    Þriggja manna stjórn, sem kosin skal á aðalfundi ár hvert, fer með yfirstjórn skólans.
    Samgönguráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu og skipar hann meiri hluta stjórnar.
    Stjórn skólans skipuleggur skólastarfið, ákvarðar tilhögun kennslu, undirbýr námskeið og stundaskrár og ákveður námsefni. Auk þess hefur stjórnin með höndum yfirstjórn annars þess sem varðar rekstur skólans. Hún ræður skólastjóra sem auk kennslu skal, sem framkvæmdastjóri, framfylgja ákvörðunum stjórnar. Stjórnin ræður kennara að skólanum í samráði við skólastjóra.

5. gr.

    Samgönguráðherra skal beita sér fyrir gerð samnings milli ríkisins og hins nýja félags þar sem nánar skal kveðið á um það skólahald sem félagið á að sinna og hvernig greiðslum af hálfu ríkisins skuli háttað. Á fjárlögum hverju sinni skal síðan veita fé til að fullnægja skuldbindingum ríkisins samkvæmt samningnum.
    Auk fjárframlaga samkvæmt samningi skólans við ríkið skal rekstur hans fjármagnaður með skólagjöldum nemenda. Stjórn skólans ákveður upphæð þeirra skólagjalda sem nemendum er gert að greiða.

6. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að selja hluti ríkisins í félaginu, en þó skal eignarhlutur ríkisins aldrei verða minni en 51% og enginn einn aðili annar en ríkissjóður eiga meira en 20% hlutafjár. Einnig skal ráðherra heimilt að taka þátt í hlutafjáraukningu sem ákveðin kann að verða á vettvangi félagsins samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.

7. gr.

    Stofnfund félagsins skal halda samkvæmt ákvörðun samgönguráðherra í samráði við þá sem hann kveður til samstarfs um stofnun hlutafélags um rekstur skólans. Fyrir stofnfundinn skal m.a. leggja drög að samþykktum félagsins.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um stofnun og starfsemi Flugskóla Íslands hf. samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.

8. gr.

    Heimilt er samgönguráðherra að kveða nánar á um fyrirkomulag á kennslu til prófa í atvinnuflugi og um próftöku með reglugerð.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Hafðar voru til hliðsjónar tillögur nefndar sem samgönguráðherra skipaði 2. október 1991. Nefndinni var m.a. falið að gera tillögur um framtíðarskipan kennslu til atvinnuflugprófs hér á landi. Í nefndinni áttu sæti Þórhallur Jósefsson, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu, sem var formaður nefndarinnar, Grétar Óskarsson, framkvæmdastjóri loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar, Skúli Jón Sigurðarson, deildarstjóri loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar, Ólafur Arnarson frá menntamálaráðuneytinu, Ólafur W. Finnsson frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og Hjálmar Árnason, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Starfsmaður nefndarinnar var Davíð Stefánsson, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu.
    Flugráði var sent frumvarpið til umsagnar og kom fram í umsögn þess m.a. að rétt væri að leita álits starfandi flugskóla og flugrekenda á því hvað þeir teldu vera eðlilegt rekstrarform slíks skóla og hvort af þeirra hálfu væri áhugi á þátttöku í hlutafélagi um skólann.
    Ráðuneytið ritaði öllum flugskólum og flugrekendum bréf 31. júlí 1995, alls 28 talsins, og spurði þá álits á framanrituðu. Fjórir aðilar svöruðu bréfi ráðuneytisins og tóku tveir flugrekendur afstöðu til rekstrarformsins. Flugleiðir hf. telja eðlilegt að skólinn verði í hlutafélagsformi fremur en að sett verði á laggirnar ný ríkisstofnun. Fyrirtækið segist reiðubúið að leggja slíku hlutafélagi lið í formi hlutafjár. Í bréfi félagsins kemur m.a. fram að það telji jafnframt eðlilegt að kostnaður við starfsemi skólans verði greiddur úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni en að öðru leyti standi skóla- og námsgjöld undir kostnaði. Í þessu sambandi er bent á að íslenska ríkið stendur nær alfarið straum af kostnaði við grunnmenntun langflestra starfsstétta og að ekki séu forsendur til að undanskilja bóklegt nám atvinnuflugmanna.
    Hinn aðilinn, sem tók afstöðu til rekstrarforms skólans, er Flugfélag Norðurlands hf. Félagið telur eðlilegast að skólinn verði alfarið í eigu ríkisins og rekinn af ríkinu. Rök félagsins eru þau að þar sem Ísland sé lítill „markaður“ gæti reynst erfitt fyrir einkaaðila að skapa nægilega góða kennsluaðstöðu með hæfum kennurum við skólann. Félagið telur ekki rúm fyrir fleiri en einn slíkan skóla hér á landi „en samkeppni hlýtur að vera forsenda þess að um einkarekstur verði að ræða í þessari grein“.
    Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að kostir hlutafélagsformsins séu verulegir umfram ríkisrekstur á þessu sviði. Þar sem loftferðaeftirlit Flugmálastjórnar hefur eftirlit með flugskólum samkvæmt reglugerð og Flugmálastjórn fer með framkvæmd og umsjón prófa og útgáfu atvinnuskírteina er talið rétt að höggva á þau nánu rekstrarlegu tengsl sem verið hafa milli Flugmálastjórnar og skólans með stofnun hlutafélags um Flugskóla Íslands.
    Annars staðar á Norðurlöndunum hafa ríkisreknir flugskólar ýmist verið lagðir niður eða yfirteknir af einkaaðilum eða her viðkomandi ríkja, nema í Noregi þar sem er ríkisrekinn flugskóli fyrir atvinnuflugmenn, en áform eru uppi um að leggja hann niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Flugskóla Íslands. Meginástæðan er sú að með því rekstrarformi er aðilum, sem hagsmuna eiga að gæta varðandi rekstur skólans, gefinn kostur á að gerast eignaraðilar að skólanum og hafa þannig áhrif á stefnu hans og viðgang. Gert er ráð fyrir að fyrst um sinn verði skólinn í meirihlutaeigu ríkisins og að samgönguráðherra fari með eignarhlut þess. Í því skyni er ráðherra veitt heimild til að leggja fram í reiðufé allt að 4 m.kr. Þessu til viðbótar er ráðherra heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og verði hann metinn til hlutafjár. Hér er fyrst og fremst um að ræða þau tæki sem Flugmálastjórn hefur látið skólanum í té, svo sem flughermi.
    Skólinn skal veita menntun til prófa í atvinnuflugi í samræmi við reglur sem samgönguráðherra setur.

Um 2. gr.


    Markmiðið með starfsemi Flugskóla Íslands hf. er að veita nemendum bestu menntun sem völ er á hverju sinni. Skólinn mun veita menntun á öllum stigum atvinnuflugnáms og stefnt er að því að nemendur útskrifist með skírteini sem viðurkennd verði af Samtökum loftferðaeftirlita í Evrópu, Joint Aviation Authorities (JAA), og öðlist með því réttindi í öllum aðildarríkjum JAA. Þessi samtök vinna að setningu reglna um flugskóla sem eiga að skilgreina hvaða kröfur þeir skuli uppfylla til þess að framangreindu markmiði verði náð. Í þessum samtökum eru öll ESB-ríkin, svo og EFTA-ríkin. Reglurnar liggja fyrir í lokadrögum og er gert ráð fyrir að þær taki gildi hér á landi innan fárra ára.
    Samkvæmt væntanlegum reglum JAA er það lykilatriði að bókleg og verkleg kennsla haldist í hendur. Stytta má atvinnuflugnám verulega ef bóklega og verklega námið er samhæft og hefur hlotið viðurkenningu loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar sem ein heild. Slíkt er óhjákvæmilegt nema með samvinnu af þessu tagi. Í þessari grein er því ákvæði um að Flugskóli Íslands hf. skuli hafa samvinnu við aðra flugskóla um tiltekna þætti kennslunnar og er verklegi þátturinn sérstaklega nefndur. Enda þótt gert sé ráð fyrir því að höfuðverkefni skólans verði kennsla í bóklegum þáttum atvinnuflugnámsins er ekki loku fyrir það skotið að skólinn veiti verklega kennslu. Ekki er gert ráð fyrir að skólinn eigi kennsluvélar heldur semji hann við aðra starfandi flugskóla sem kenna til einkaflugprófs um afnot af flugvélum eða um aðra þjónustu. Ef Flugskóli Íslands hf. ætti að koma sér upp kennsluvélum yrði það afar kostnaðarsamt. Stofnkostnaður við flugvélar, flugskýli og búnað þess, er hár auk þess sem búast má við miklum rekstrarkostnaði. Því er gert ráð fyrir þeim möguleika að skólinn geti samið um afnot á slíkum vélum fyrir hönd nemenda sinna við framangreinda flugskóla, svo og um störf flugkennara. Þar sem nemendur í flugnámi greiða sjálfir kostnað af verklegu námi er talið eðlilegt að þeir eigi kost á að semja sjálfir um flugvélar eða leggja til eigin vélar, enda verði skilyrðum skólans að öllu leyti fullnægt.
    Eitt af verkefnum skólans er að sinna endurmenntun atvinnuflugmanna eftir því sem þörf er á. Í þessu sambandi er hugsanlegt að skólinn taki að sér kennslu eða þjálfun fyrir flugrekendur og Flugmálastjórn.

Um 3. gr.


    Þessi grein kveður á um skilyrði sem þeir aðilar þurfa að uppfylla sem óska inngöngu í skólann. Í fyrsta lagi þurfa þeir að uppfylla lágmarkskröfur um aldur og menntun eftir því sem nánar segir í reglugerð um skírteini gefin út af Flugmálastjórn, nú reglugerð nr. 344/1990, sbr. reglugerðir um breytingar á henni nr. 19/1995 og nr. 71/1996. Í grein 7.2.10 segir að „rétt til bóklegs atvinnuflugnáms hefur hver sá, sem náð hefur 17 ára aldri, lokið bóklegu og verklegu einkaflugnámi og er handhafi einkaflugmannsskírteinis.“ Í öðru lagi þurfa umsækjendur um skólavist að fullnægja skilyrðum framangreindrar reglugerðar um andlegt og líkamlegt heilbrigði til þess að fá útgefið skírteini eða áritun atvinnuflugmanns.
    Í niðurlagsákvæðum þessarar greinar er skólanum heimilað að halda inntökupróf og gera tiltekinn prófárangur að skilyrði til að geta hafið nám. Gert er ráð fyrir að yfirstjórn skólans ákveði fjölda nemenda með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.

Um 4. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að sérstök stjórn sé kosin af hluthöfum á aðalfundi ár hvert til að fara með yfirstjórn skólans. Stjórnina skipa þrír menn. Hún á að hafa hlutverk í samræmi við hlutverk stjórna hlutafélaga, þ.e. að hafa yfirumsjón með allri starfsemi skólans, gera áætlanir og ráða í stöður við skólann. Stjórnin annast alla samningsgerð skólans, t.d. afnot af flugvélum og samstarf við aðra flugskóla. Hún ákveður námsefni, tilhögun kennslu og stundaskrá, inntökuskilyrði, nemendafjölda, gerir fjárhagsáætlanir, ákveður skólagjöld, sér um að skólinn starfi í samræmi við gildandi lög og reglur o.s.frv.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að kostnaður við starfsemi skólans verði greiddur samkvæmt ákvæðum sérstaks samnings sem samgönguráðherra skal beita sér fyrir að verði gerður milli skólans og ríkisins. Jafnframt verði rekstur skólans fjármagnaður með skólagjöldum, en á grundvelli nefnds samnings verði á fjárlögum hvers árs veitt fé að því marki sem skóla- og námsgjöld hrökkva ekki til. Nefndin um málefni flugskóla, sem vitnað er til hér að framan, lagði til að fjárveitingin samsvari því sem greitt er til sérskóla að loknu stúdentsprófi miðað við nemendafjölda. Fjárveitingin verði þó eigi lægri en sem nemur launakostnaði skólastjóra og kennara á hverju námsári, en nánar verður þetta að ráðast af ákvæðum samningsins.

Um 6. gr.


    Þrátt fyrir að hér sé gert ráð fyrir að samgönguráðherra verði veitt heimild til að selja hluti ríkisins í félaginu er því þó slegið föstu að eignaraðild ríkisins verði aldrei minni en 51% og að enginn einn aðli annar en ríkið eigi meira en 20% hlutafjár í félaginu.
    Þá er í greininni heimild til handa samgönguráðherra til að taka þátt í hlutafjáraukningu sem ákveðin kann að verða á grundvelli hlutafélagalaga og kann að reynast nauðsynleg, t.d. af ástæðum sem varða rekstur skólans. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að áskilið er að fjárveitingar í þessu skyni séu tryggðar samkvæmt fjárlagaheimildum.

Um 7. gr.


    Ekki þykir rétt að tímasetja stofnfundardag félagsins í lögum heldur er það lagt í vald ráðherra og þeirra sem hann kveður til samstarfs um stofnun félagsins að ákveða stofnfundardaginn, m.a. með tilliti til þess hvernig undirbúningi miðar áfram.
    Þá mun það ráðast af undirtektum flugrekenda og annarra sem leitað verður til um samstarf hvert hlutafjárframlag ríkisins þarf að verða og er rétt að ætla nokkurn tíma til undirbúnings og öflunar fjárveitingarheimilda í þessu skyni.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um Flugskóla Íslands hf.


    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Flugskóla Íslands og að samgönguráðherra verði heimilt að leggja fram allt að 4 m.kr. fyrir hönd ríkissjóðs. Einnig er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu, þar með talinn flughermir og verði hann metinn til hlutafjár. Áætlað er að verðmæti þessa búnaðar sé um 2 m.kr. og verður því eignarhlutur ríkisins í hinu nýja félagi allt að 6 m.kr.
    Allt frá því að Flugskóli Íslands hóf starfsemi að nýju 1993 hefur hann fengið fast framlag á fjárlögum. Mismun framlagsins og rekstrarkostnaðar hefur skólinn fjármagnað með sértekjum, þar með töldum skólagjöldum. Í fjárlögum ársins 1996 er ráðgert að verja 10,4 m.kr. til reksturs skólans. Ef sá samningur, sem kveðið er á um í 5. gr. frumvarpsins, kveður á um óbreytta stefnu, fast 10,4 m.kr. árlegt ríkisframlag sem taki breytingum til samræmis við uppfærslu verðlags í fjárlögum, þá hefur löggilding frumvarpsins ekki annan kostnaðarauka í för með sér en þann sem felst í bindingu áðurnefnds hlutafjár.