Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 463 . mál.


798. Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Liðurinn Létt bifhjól í 2. gr. laganna orðast svo:
    Bifhjól sem búið er brunahreyfli sem ekki er yfir 50 rúmsentimetrar að slagrúmmáli eða búið rafhreyfli og er eigi hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.

2. gr.


    Orðin „eða sýsluvegi“ í 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. laganna falla brott.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993:
    Í stað orðsins „vörubifreið“ a-lið 1. mgr. kemur: bifreið, þó ekki hópbifreið.
    Í stað orðanna „a.m.k. 750 kg“ og „er innan við 3.500 kg“ í c-lið 1. mgr. kemur: meira en 750 kg, og: fer ekki yfir 3.500 kg.

4. gr.


    2. mgr. 54. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra getur ákveðið að ökuskírteini útgefin í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, eða í öðru ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, gildi hér á landi, samkvæmt nánari reglum, einnig eftir að skírteinishafi hefur sest hér að.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
    Í stað orðanna „eða til að mega stjórna bifhjóli“ í 3. mgr. kemur: eða til að mega stjórna bifreið eða bifhjóli.
    4. mgr. orðast svo:
                  Enginn má stjórna torfærutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið.

6. gr.


    Í stað orðanna „a.m.k. 750 kg“ í 1. mgr. 63. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, kemur: meira en 750 kg.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
    Orðin „skv. V. kafla vegalaga“ í 1. mgr. falla brott.
    Orðin „eða sýsluveg“ í 2. mgr. falla brott.
    Orðin „sbr. V. kafla vegalaga“ í 3. mgr. falla brott.

8. gr.


    Orðin „og sýsluveg“ í 85. gr. laganna falla brott.

9. gr.


    2. mgr. 113. gr. laganna, sbr. lög nr. 12/1992, orðast svo:
    Aðra fulltrúa í Umferðarráð skipar ráðherra samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.
    

10. gr.


    4. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu sem varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni og vátryggingar. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

11. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á umferðarlögunum. Breytingarnar varða einkum tvö atriði, þ.e. aðlögun að tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini og breytingar er tengjast gildistöku nýrra vegalaga.
    1. Tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/439/EBE um ökuskírteini var tekin inn í reglukerfi EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 21. mars 1994, svo sem fram kom í tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á 117. löggjafarþingi 1993–94 (547. mál, þskj. 841).
    Tilskipunin kveður á um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina sem gefin eru út í aðildarríkjunum, án tillits til búsetu skírteinishafa. Í því sambandi er byggt á samræmdri flokkun ökuréttinda og samræmdum reglum um skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis, svo sem að því er varðar lágmarksaldur, um þekkingu, leikni og hæfni og um líkamlegt og andlegt hæfi. Ákvæði tilskipunarinnar eiga að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjunum 1. júlí 1996. Í sérstökum viðauka við tilskipunina er gert ráð fyrir að tekið verði upp samræmt form á ökuskírteinum, sex blaðsíðna pappírsskírteini. EFTA-ríkin fengu undanþágu frá því að taka þetta skírteinisform upp og var miðað við að sameiginlega EES-nefndin hefði endurskoðað þá ákvörðun fyrir 1. júlí 1994. Þessu hefur síðan verið frestað til 31. desember 1997. Á vegum ESB hefur um nokkurt skeið verið unnið að mótun nýs forms fyrir ökuskírteini. Er þar gert ráð fyrir að skírteinin verði gerð úr plasti, af svipaðri gerð og greiðslukort. Gert hefur verið ráð fyrir að sú gerð ökuskírteina verði viðurkennd innan ESB frá 1. júlí 1996. Hafinn er undirbúningur að því að íslensk ökuskírteini verði í formi plastkorts.
    Af ákvæðum tilskipunarinnar leiðir að breyta þarf skilgreiningu umferðarlaganna á léttu bifhjóli. Þá þarf að kveða á um gildi ökuskírteina útgefinna í EES-löndunum (öðrum en Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð) hér á landi eftir að viðkomandi hefur sest hér að. Að auki eru lagðar til orðalagsbreytingar á 50. og 63. gr. laganna til frekara samræmis við tilskipunina. Að öðru leyti samrýmist tilskipunin ákvæðum umferðarlaganna.
    2. Með vegalögum, nr. 45 6. maí 1994, var skilgreiningu þjóðvega breytt. Jafnframt hefur verið felld niður sú flokkun á þjóðvegum í kaupstöðum og kauptúnum sem var í V. kafla eldri vegalaga. Þá hefur orðið sú breyting að sýsluvegir eru ekki lengur sérstakur flokkur vega. Skv. 7. gr. vegalaga eru þjóðvegir nú „þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegáætlun, safnvegaáætlun og landsvegaskrá“, svo sem nánar greinir í 8. gr. laganna. Í 9. gr. laganna eru almennir vegir og einkavegir skilgreindir. Eru almennir vegir „þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar“. Einkavegir „eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum“. Samkvæmt þessu munu vegir í þéttbýli almennt falla undir hugtakið almennir vegir.
    Af þessu leiðir að breyta þarf ákvæðum umferðarlaga sem víkja að sýsluvegum og þjóðvegum skv. V. kafla eldri vegalaga.
    Auk þess sem hér hefur verið greint er lagt til að gerðar verði nokkrar aðrar breytingar á umferðarlögunum. Eru þær þessar:
    Lagt er til að 3. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að réttindi til að stjórna bifreið feli sjálfkrafa í sér rétt til að stjórna léttu bifhjóli.
    Lagt er til að 4. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að enginn megi stjórna torfærutæki nema hafa gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið. Í þessu felst að lágmarksaldur til að stjórna torfærutæki verður 17 ár í stað 15.
    Lagt er til að 2. mgr. 113. gr. verði breytt þannig að dómsmálaráðherra verði veitt heimild til að ákveða í reglugerð nánari skipun Umferðarráðs.
    Lagt er til að 4. mgr. 114. gr. verði breytt að því er varðar sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa og að ráðherra verði fengið rýmra vald um fjölda nefndarmanna og um skipun og skipulag nefndarinnar að öðru leyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að skilgreiningu létts bifhjóls verði breytt þannig að ökutækjaflokkurinn takmarkist eingöngu af slagrúmmáli og mögulegum hámarkshraða að því er varðar bifhjól með brunahreyfli. Þá er lagt til að skilgreiningin taki einnig til bifhjóla með rafhreyfli með sama mögulegum hámarkshraða. Er þetta til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/ 439/EBE um ökuskírteini. Þá er lagt til að hámarkshraði létts bifhjóls verði 45 km á klst. til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins nr. 92/61/EBE um gerðarviðurkenningu bifhjóla.

Um 2. gr.


    Lagt er til að tilvísun til sýsluvega falli brott, enda er sú flokkun vega ekki lengur til.

Um 3. gr.


    Lagt er til að ökuréttindaflokkur skv. a-lið 1. mgr. 50. gr. miðist við bifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd almennt en takmarkist ekki við vörubifreiðir einar. Þó er gert ráð fyrir að réttindaflokkur hópbifreiða haldist óbreyttur. Jafnframt er lagt til að notað verði orðalagið „meira en 750 kg“ í stað „a.m.k. 750 kg“ og „fer ekki yfir 3.500 kg“ í stað „er innan við 3.500 kg“. Eru breytingar þessar í samræmi við orðanotkun í tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini.

Um 4. gr.


    Tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini kveður á um að ökuskírteini, sem gefin eru út í aðildarríkjunum, skuli viðurkennd gagnkvæmt af þeim ríkjum. Sú viðurkenning skal gilda hvort heldur um er að ræða skemmri dvöl í öðru ríki en því sem gaf ökuskírteinið út eða fasta búsetu þar. Samkvæmt umferðarlögum er dómsmálaráðherra nú eingöngu heimilt að ákveða að ökuskírteini útgefin í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð gildi við þessar aðstæður hér á landi.

Um 5. gr.


    Lagt er til að 3. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að í ökuréttindum til að stjórna bifreið felist jafnframt réttur til að stjórna léttu bifhjóli án þess að til þess þurfi sérstakt próf. Jafnframt er lagt til að 4. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að réttur til að stjórna torfærutæki verði bundinn við þá sem hafa rétt til að stjórna bifreið. Þetta felur í sér að lágmarksaldur til að stjórna torfærutæki færist úr 15 árum í 17. Rökin fyrir þessari tillögu eru þau að torfærutæki, einkum vélsleðar, eru almennt mun aflmeiri en þegar gildandi ákvæði voru sett. Standa ekki rök til þess að ungmenni, sem ekki hafa reynslu af akstri, öðlist réttindi á þessi ökutæki með því einu að öðlast réttindi til að stjórna léttu bifhjóli sem er mun aflminna en torfærutækin. Er ákvæðið í þessu horfi í samræmi við fyrirkomulag réttinda til að stjórna vinnuvél.
    Breyting á 4. mgr. 55. gr. er í samræmi við tillögu í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi.

Um 6. gr.


    Lagt er til að þyngdarviðmiðun eftirvagns breytist í samræmi við breytingar á 50. gr. laganna.

Um 7. gr.


    Lagt er til að tilvísun til V. kafla vegalaga falli brott þar sem sú flokkun þjóðvega, sem þar var, er fallin brott. Sama gildir um tilvísun til sýsluvega.

Um 8. gr.


    Lagt er til að tilvísun til sýsluvega falli brott, enda er sú flokkun vega ekki lengur til.

Um 9. gr.


    Í 2. mgr. 113. gr. laganna er lögfest hvaða stofnanir og samtök eiga rétt á að tilnefna fulltrúa í Umferðarráð. Lagt er til að tilnefningarheimild þessi verði framvegis ekki bundin í lögum heldur verði kveðið á um hana í reglugerð. Reynslan hefur sýnt að breytingar hafa orðið á stofnunum og samtökum sem hafa mátt tilnefna fulltrúa í Umferðarráð. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, verður mun viðurhlutaminna að bregðast við slíkum breytingum en nú er.

Um 10. gr.


    Lagt er til að ákvæði umferðarlaganna um rannsóknarnefnd umferðarslysa verði breytt þannig að ráðherra hafi á valdi sínu hverju sinni hversu marga aðila hann skipar í rannsóknarnefnd. Fulltrúar skulu hins vegar hafa yfir að ráða viðeigandi sérþekkingu. Þá er lagt til að numið verði úr lögum að Umferðarráð skuli hafa eftirlit með störfum nefndarinnar. Rétt er að taka fram að slíkri rannsóknarnefnd er ekki ætlað að yfirtaka lögbundið rannsóknarhlutverk lögreglu samkvæmt réttarfarslögum.

Um 11. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1996 og er þá einkum miðað við að ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 91/439/EBE um ökuskírteini eiga þá að hafa öðlast gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér breytingar á núgildandi lögum sem eru af þrennum toga.
    Í fyrsta lagi er ákvæðum breytt til að laga lögin að tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini. Tilskipunin kveður á um að aðildarríkin viðurkenni ökuskírteini hvert annars án tillits til búsetu. Samkvæmt núgildandi lögum getur dómsmálaráðherra ákveðið að ökuskírteini útgefin í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð gildi hér á landi. Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þessi heimild nái einnig til ríkja sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðið hefur eitt og sér ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs en þess má geta að í sérstökum viðauka við tilskipunina er gert ráð fyrir að tekið verði upp samræmt form á ökuskírteinum og er hafinn undirbúningur að breytingu íslenskra ökuskírteina. Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir.
    Í öðru lagi eru gerðar breytingar er tengjast skilgreiningum í nýjum vegalögum og hafa ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæðum um skipan Umferðarráðs og rannsóknarnefndar umferðarslysa. Í núgildandi lögum er lögfest hvaða stofnanir og samtök eigi rétt á að tilnefna fulltrúa í Umferðarráð en í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að þessi tilnefningarheimild verði framvegis ekki bundin í lög heldur verði kveðið á um hana í reglugerð. Í 10. gr. er lagt til að ákvæði um rannsóknarnefnd umferðarslysa verði breytt á þann veg að ráðherra hafi á valdi sínu hversu marga aðila hann skipar í nefndina en í núgildandi lögum er fjöldi þeirra ákveðinn. Einnig er lagt til að numið verði úr lögum að Umferðarráð skuli hafa eftirlit með störfum nefndarinnar og þess í stað gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um starfsemi hennar. Kostnaðaráhrif þessara ákvæða eru óljós og fara eftir því hvort og þá hversu miklar breytingar verða gerðar á starfsemi og skipan Umferðarráðs og rannsóknarnefndar umferðarslysa.