Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 469 . mál.


804. Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Um nýtingu afla um borð í fullvinnsluskipum gilda ákvæði laga um umgengni um auðlindir sjávar.
    Um útreikning á nýtingu aflaheimilda skal farið að reglugerð um nýtingarstuðla fyrir fullvinnsluskip sem ráðherra setur.
    

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Um borð í fullvinnsluskipi skal vera aðstaða til móttöku, geymslu, vinnslu og frágangs aflans þannig að gæði framleiðslunnar verði tryggð.
    Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að um borð í fullvinnsluskipum skuli vera sjálfvirkur tækjabúnaður sem tryggi nákvæma vigtun og skráningu innvegins afla og afurða. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um nauðsynlegan búnað í þessu skyni og önnur atriði varðandi framkvæmd laganna.

3. gr.

    Í stað „Ríkismats sjávarafurða“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: Fiskistofu.

4. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Eftirlitsmaður eða eftirlitsmenn skulu vera um borð í fiskiskipi, sem leyfi hefur til fullvinnslu botnfiskafla um borð, fyrst eftir að leyfi er veitt, svo lengi sem Fiskistofa metur nauðsynlegt með hliðsjón af framkvæmd vinnslunnar. Sama gildir verði það mikil breyting í áhöfn fullvinnsluskips eða útgerðarháttum þess, að ástæða sé til að ætla að það hafi veruleg áhrif á vinnslu um borð í skipinu. Í annan tíma er veiðieftirliti Fiskistofu heimilt að setja eftirlitsmann eða eftirlitsmenn um borð í fullvinnsluskip eftir því sem ástæða er talin til.
    Skal útgerð sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð. Þá skal útgerð greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð.

5. gr.

    Aftan við 6. gr. laganna kemur ný grein er verði 7. gr. og orðast svo:
    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um mál sem rísa út af brotum gegn ákvæðum þessara laga skal farið að hætti opinberra mála.
    Ráðuneytinu er enn fremur heimilt vegna brota á ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa, að svipta skip leyfi til fullvinnslu botnfiskafla.

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða fellur brott.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með bréfi 20. júlí 1990 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til þess að endurskoða lög nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Var nefndinni einnig falið að rannsaka, hvort gildandi reglur tryggi jafnræði með landvinnslu og vinnslu um borð í veiðiskipum.
    Í nefnd þessa voru skipaðir alþingismennirnir Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Stefán Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson og Árni Ragnar Árnason, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.
    Þann 28. febrúar 1996 skilaði nefndin af sér ítarlegri skýrslu til ráðherra og jafnframt drögum að frumvarpi um breytingar á lögum nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Fylgir skýrsla nefndarinnar með frumvarpi þessu sem viðauki.
    Í drögum þeim að frumvarpi um breytingar á lögum nr. 54/1992, sem nefndin skilaði af sér, var gert ráð fyrir því, að þegar yrði skylt að setja um borð í fullvinnsluskip sjálfvirkan tækjabúnað til vigtunar bæði á mótteknu hráefni og afurðum. Í frumvarpi þessu er hins vegar lagt til, að ráðherra sé heimilt að kveða á um slíkan tækjabúnað. Ástæða þessa er sú, að áður en slík ákvörðun verður tekin þarf að fara fram athugun á því, hvaða tækjabúnaður sé fyrir hendi og hvaða búnaður sé heppilegur í þessu skyni. Þá hefur viðurlagaákvæði verið bætt inn í drögin frá nefndinni.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á gildandi lögum:
    Að felld verði úr gildi ákvæði um að skylt skuli að hirða allan afla um borð í fullvinnsluskipum og að ákvæði almennra laga um umgengni um auðlindirnar taki einnig til þessara skipa.
    Að horfið verði frá því að eftirlitsmaður skuli ávallt vera um borð í fullvinnsluskipi fyrstu sex mánuðina eftir að skipið fær leyfi. Verður þörf fyrir veru eftirlitsmanns um borð í fullvinnsluskipi metin hverju sinni.
    Að ráðherra verði heimilt að ákveða að tekin skuli upp sjálfvirk skráning og vigtun afla og afurða um borð í fullvinnsluskipum.
    Er hér vísað til viðauka með frumvarpinu þar sem nánar er gerð grein fyrir hugmyndum nefndarinnar, bæði um breytingar á lögunum og á öðrum atriðum sem lúta að fullvinnslu og nýtingu um borð í fullvinnsluskipum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 2. gr. laganna var kveðið á um það að óheimilt væri fullvinnsluskipum að fleygja fyrir borð fiski, fiskúrgangi eða fiskhlutum. Var þeim gert skylt að koma með að landi allan afla, þar á meðal það sem félli til við vinnsluna, svo sem hryggi, afskurð, hausa, innyfli eða afurðir unnar úr þessum hlutum. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 54/1992, skyldi þessi kvöð taka gildi 1. september 1996 fyrir fullvinnsluskip, sem leyfi höfðu fengið fyrir 22. júní 1992 og fullvinnsluskip, sem samið hafði verið um smíði eða kaup á fyrir sama tíma. Öðrum fullvinnsluskipum bar að hlíta þessari kvöð strax við leyfisveitingu.
    Hér er lagt til að horfið verði frá þeirri skyldu, að fullvinnsluskip nýti allan þann afla sem úr sjó fæst og gildi hið sama um veiðar þeirra og veiðar annarra skipa sbr. 2. mgr. 1. gr.
    Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skuli gefa út reglugerð um nýtingarstuðla um borð í fullvinnsluskipum. Ráðherra hefur gefið út slíka reglugerð með stoð í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða en rétt þykir, að heimildin sé hér.

Um 2. gr.


    1. mgr. þessarar greinar er efnislega samhljóða 3. gr. laganna. Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til þess að ákveða í reglugerð, að um borð í fullvinnsluskipi skuli vera sjálfvirkur búnaður til vigtunar og skráningar á innvegnum afla og afurða. Enn fremur er ráðherra heimilað að setja frekari reglur um framkvæmd laganna.

Um 3. gr.


    Eins og kunnugt er hefur Ríkismat sjávarafurða verið lagt niður. Annast Fiskistofa nú það eftirlit sem Ríkismat sjávarafurða áður sinnti.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 6. gr. laga nr. 54/1992 var það skilyrðislaus skylda, að eftirlitsmaður skyldi vera um borð í fullvinnsluskipi fyrstu sex mánuðina eftir að skipið fékk fullvinnsluleyfi í fyrsta skipti. Í 1. mgr. er lagt til, að slakað verði á þessari skyldu þannig að Fiskistofa meti sjálfstætt hverju sinni, hver þörfin sé á að hafa eftirlitsmann um borð í fullvinnsluskipi. Gildi það bæði þegar skipið fær fullvinnsluleyfi í fyrsta skipti og eins ef slík breyting verður í áhöfn eða á útgerðarháttum skips, að ætla má að það hafi veruleg áhrif á framkvæmd vinnslunnar um borð.

Um 5. gr.


    Viðurlögin eru í samræmi við önnur viðurlög vegna brota á lögum um fiskveiðistjórnun og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 6. gr.


    Í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 54/1992 var fullvinnsluskipum þeim sem hafið höfðu vinnslu fyrir gildistöku laganna veittur frestur til 1. september 1996 til þess að uppfylla ítrustu kröfur laganna og þá fyrst og fremst varðandi fullnýtingu alls afla. Með hliðsjón af þeim breytingum, sem felast í þessu frumvarpi, er lagt til að ákvæði þetta verði fellt úr gildi.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um


breytingar á lögum nr. 54 16. maí 1992,


um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á umræddum lögum sem aðallega felast í því að slakað verði á fyrri kröfum um meðferð afla og veru eftirlitsmanna um borð. Þá er og lagt til að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að sjálfvirkur vigtunarbúnaður verði settur um borð í veiðiskip.
    Framkvæmd laganna verður í umsjá Fiskistofu og verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins hafi aukakostnað fyrir ríkissjóð í för með sér.



Fylgiskjal II.


Fullvinnsluskip.



Skýrsla til sjávarútvegsráðherra frá nefnd um endurskoðun


á lögum nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla


um borð í veiðiskipum.


(Febrúar 1996.)




(25 síður myndaðar.)