Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 475 . mál.


811. Tillaga til þingsályktunar




um fullgildingu samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem gerður var í New York 10. desember 1984 og staðfesta breytingu á samningnum sem gerð var í New York 9. september 1992.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem samþykktur var af 39. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1984 og lagður fram til undirritunar sama dag. Hann er prentaður sem fylgiskjal I með tillögu þessari. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. febrúar 1985 með fyrirvara um fullgildingu. Enn fremur er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á breytingu á samningnum sem samþykkt var af ráðstefnu aðildarríkja að samningnum í New York 9. september 1992. Er hún prentuð sem fylgiskjal II með tillögu þessari.
    Samningurinn gekk í gildi 26. júní 1987 samkvæmt 1. mgr. 27. gr. hans. Hinn 30. janúar 1996 höfðu 93 ríki fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum og þar af höfðu 38 gefið yfirlýsingu um vald nefndar samkvæmt 21. gr. samningsins til að taka á móti og athuga erindi frá aðildarríkjum vegna meintra brota á samningnum og 36 gefið yfirlýsingu um vald nefndar samkvæmt 22. gr. samningsins til að taka á móti og athuga erindi frá einstaklingum vegna meintra brota aðildarríkja á samningnum. 17 aðildarríki höfðu þá staðfest framangreinda breytingu á samningnum, en hún öðlast gildi þegar tveir þriðju hlutar aðildarríkja samningsins hafa staðfest hana, sbr. 2. mgr. 29. gr. samningsins.
    Á undanförnum áratugum hefur margvísleg alþjóðleg samvinna átt sér stað, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins, um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og um varnir gegn pyndingum. Ísland er þegar aðili að ýmsum alþjóðasamningum sem fela í sér skuldbindingu um að menn skuli verndaðir gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einn fyrsti alþjóðasamningurinn, sem Ísland er aðili að, með þessu markmiði er Genfarsamningur frá árinu 1949 um verndun almennra borgara á stríðstímum. Mikilvægustu ákvæði annarra alþjóðasamninga í þessu sambandi eru 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966, 37. gr. samningsins um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 og 3. gr. Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis (mannréttindasáttmála Evrópu) frá 4. nóvember 1950, en mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Loks hefur Ísland gerst aðili að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóvember 1987. Helsta markmið síðastnefnda samningsins er að bæta eftirlitskerfi innan aðildarríkja að samningnum og að auka vernd réttinda samkvæmt áðurnefndri 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sérstök nefnd starfar samkvæmt Evrópusamningnum sem heimsækir aðildarríki og kannar meðal annars aðstæður frjálsræðissviptra manna og hvort vísbendingar finnast um að pyndingar eigi sér stað. Lög nr. 15/1990 voru sett vegna aðildar Íslands að Evrópusamningnum, en þar er m.a. að finna reglur um heimsóknir og störf nefndarinnar hér á landi.
    Samningurinn, sem hér um ræðir, er meðal mikilvægustu alþjóðasamninga um mannréttindi sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Aðdragandann að gerð hans má rekja til yfirlýsingar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 9. desember 1975 um að enginn maður skuli sæta pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í kjölfar þess fól allsherjarþingið mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að semja drög að alþjóðasamningi þar sem fram kæmu helstu meginreglur yfirlýsingarinnar. Á grundvelli samþykktar allsherjarþingsins frá 8. desember 1977 var sérstakur vinnuhópur skipaður í þessu skyni undir stjórn mannréttindanefndarinnar. Starfaði vinnuhópurinn að gerð textans á árunum 1978–1984 og var samningstextinn samþykktur af 39. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1984. Jafnframt áréttaði allsherjarþingið mikilvægi þess að ríkisstjórnir undirrituðu og fullgiltu samninginn og að það skyldi njóta forgangs meðal þeirra.
    Helsta markmið samnings þessa er að aðildarríki hans skuldbindi sig til þess að grípa annars vegar til ráðstafana til að framfylgja fortakslausu banni við pyndingum og hins vegar til ráðstafana til að koma í veg fyrir að pyndingar eigi sér stað. Ekki eru bein efnisákvæði í samningnum um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu heldur er vísað í formála hans til 5. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 þar sem slíkt fortakslaust bann kemur fram. Að þessu leyti svipar samningnum til Evrópusamningsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem nefndur var hér að framan.
    Samningurinn skiptist í þrjá hluta. Í I. hluta, 1.–16. gr., er fjallað um skuldbindingar sem ríki gangast undir með aðild að honum. Í II. hluta, 17.–24. gr., er fjallað um störf sérstakrar nefndar sem starfar samkvæmt samningnum og loks eru ákvæði um aðild, gildistöku o.fl. í III. hluta samningsins, 25.–33. gr.
    Kjarnaákvæði samningsins er 1. gr. þar sem fram kemur ítarleg skilgreining á því hvað felst í hugtakinu pyndingar. Gengur samningurinn að þessu leyti lengra en ákvæði alþjóðasamninga um bann við pyndingum þar sem skort hefur slíka skilgreiningu fram til þessa. Umrædd skilgreining á pyndingarhugtakinu eins og það birtist hér hefur því verið talin mikilvægt framlag til skýringar á ákvæðum annarra alþjóðasamninga.
    Efni annarra ákvæða I. hluta samningins er í stuttu máli eftirfarandi:
    Í 2. gr. er fjallað um virkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu eða réttarvörslu og aðgerðir til að koma í veg fyrir pyndingar.
    Í 3. gr. er fjallað um bann við framsali á manni til annars ríkis ef hætta er á að hann sæti þar pyndingum.
    Í 4. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að gera pyndingar refsiverð brot.
    Í 5. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fella brot samkvæmt 4. gr. undir refsilögsögu sína.
    Í 6. gr. er fjallað um gæslu manna sem sakaðir eru um brot samkvæmt 4. gr.
    Í 7. gr. er fjallað um meðferð refsimála vegna pyndinga.
    Í 8. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að fella brot samkvæmt 4. gr. undir afbrot sem geta varðað framsali milli ríkja.
    Í 9. gr. er fjallað um gagnkvæma aðstoð á milli aðildarríkja í tengslum við refsimál vegna brota samkvæmt 4. gr.
    Í 10. gr. er fjallað um fræðslu um bann við pyndingum sem aðildarríki skulu tryggja að sé liður í þjálfun manna er fást við gæslu, yfirheyrslur eða meðferð manna sem sæta handtöku, varðhaldi eða fangelsun.
    Í 11. gr. er fjallað um kerfisbundið eftirlit með yfirheyrslureglum og fyrirkomulagi gæslu og meðferðar manna sem sæta handtöku, varðhaldi eða fangelsun.
    Í 12. gr. er skylda lögð á aðildarríki að tryggja að lögbær stjórnvöld hlutist til um málsrannsókn ef grunur leikur á að pyndingar hafi átt sér stað.
    Í 13. gr. er aðildarríkjum gert skylt að tryggja að maður, sem heldur fram að hann hafi verið beittur pyndingum, geti borið fram kæru þess efnis til lögbærra stjórnvalda.
    Í 14. gr. er fjallað um bótarétt manna sem hafa sætt pyndingum.
    Í 15. gr. er fjallað um skyldu ríkis til að tryggja að engin yfirlýsing, sem fengin hefur verið með pyndingum, sé notuð sem sönnunargagn í málaferlum.
    Í 16. gr. er sérákvæði sem lýtur að annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Í II. hluta samningsins eru reglur um störf nefndar sem sett er á stofn samkvæmt 17. gr. samningsins. Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með því að aðildarríki ræki skyldur sínar samkvæmt samningnum. Felst starf hennar meðal annars í því að taka til athugunar skýrslur sem aðildarríkjum er skylt að gera samkvæmt 19. gr. um ráðstafanir sem þau hafa gert til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Samkvæmt 21. gr. samningsins getur aðildarríki lýst því yfir hvenær sem er að það viðurkenni vald nefndarinnar til að taka til athugunar erindi þar sem því er haldið fram af hálfu annars aðildarríkis að það fyrrnefnda hafi brotið gegn ákvæðum samningsins. Í 22. gr. kemur fram að aðildarríki getur hvenær sem er lýst því yfir að það viðurkenni vald nefndarinnar til að taka til athugunar erindi frá einstaklingum sem halda því fram að ríkið hafi brotið ákvæði samningsins gagnvart sér. Nánari reglur um málsmeðferð fyrir nefndinni, þegar henni berast erindi samkvæmt 21. og 22. gr., er að finna í ákvæðum II. hluta samningsins. Nefndin sendir viðkomandi aðildarríki og kæranda álit sitt á því hvort brot hefur átt sér stað. Hún hefur hins vegar ekki vald til þess að heimsækja aðildarríki að eigin frumkvæði og kanna hvort vísbendingar finnist um að pyndingar eigi sér stað þar, ólíkt því sem gildir um nefnd sem starfar samkvæmt Evrópusamningnum um varnir gegn pyndingum sem nefndur var að framan.
    Í samningnum var upphaflega gert ráð fyrir því að aðildarríki samningsins skyldu standa straum af kostnaði nefndarmanna vegna starfa þeirra fyrir nefndina og af kostnaði í tengslum við fundahöld ríkjanna og nefndarinnar, sbr. 7. mgr. 17. gr. og 5. mgr. 18. gr. Með breytingu þeirri, sem gerð var 9. september 1992, voru ákvæði þessi felld brott og í stað þeirra bætt við nýrri málsgrein sem verður 4. mgr. 18. gr. Þar er mælt svo fyrir að nefndarmenn skuli fá greidd laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna.
    Rétt þykir að gefin verði yfirlýsing samkvæmt 21. og 22. gr. samningsins varðandi kærurétt ríkja og einstaklinga vegna meintra brota á ákvæðum samningsins. Ísland hefur þegar samþykkt sambærilegar alþjóðlegar kæruleiðir vegna meintra brota á öðrum mannréttindasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í þessu sambandi skal einkum nefnd yfirlýsing sem Ísland hefur gefið samkvæmt 41. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um lögbærni nefndar sem starfar samkvæmt samningnum til að taka á móti erindum frá aðildarríki þess efnis að annað aðildarríki hafi brotið gegn samningnum. Að auki er Ísland aðili að valfrjálsri bókun við sama samning þar sem einstaklingum, sem halda því fram að aðildarríki hafi brotið á sér réttindi samkvæmt samningnum, er opnuð kæruleið til nefndarinnar. Loks má í þessu sambandi nefna að Ísland hefur gefið yfirlýsingu samkvæmt 14. gr. alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis þar sem viðurkennt er vald nefndar sem starfar samkvæmt samningnum til að taka við og athuga kærur frá einstaklingum eða hópum einstaklinga sem halda því fram að aðildarríki hafi brotið gegn réttindum þeirra samkvæmt samningnum.
    Með lögum nr. 142/1995 var ákvæði bætt við 6. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til þess að víkka út refsilögsögu íslenska ríkisins svo hún tæki með vissu til brota og brotamanna sem samningurinn fjallar um. Engra frekari lagabreytinga er þörf til þess að unnt verði að standa við skuldbindingar Íslands verði samningurinn fullgiltur af Íslands hálfu.


Fylgiskjal I.


SAMNINGUR


gegn pyndingum og annarri


grimmilegri, ómannlegri eða


vanvirðandi meðferð eða refsingu.



    Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum,
    sem telja, í samræmi við meginreglur þær er fram koma í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á jöfnum og óafsalanlegum réttindum allra manna sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,

    viðurkenna að réttindi þessi grundvallist á meðfæddri göfgi mannsins,

    hafa í huga skuldbindingar ríkja samkvæmt sáttmálanum, sérstaklega 55. gr., til að efla almenna virðingu fyrir og halda í heiðri mannréttindi og grundvallarfrelsi,
    hafa hliðsjón af 5. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem báðar kveða á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu,
    hafa einnig hliðsjón af yfirlýsingu um vernd allra manna gegn því að sæta pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem samþykkt var á allsherjarþinginu 9. desember 1975 og
    vilja að baráttan gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði árangursríkari um heim allan,
    hafa komið sér saman um eftirfarandi:

I. HLUTI


1. gr.


    1. Í samningi þessum merkir hugtakið „pyndingar“ hvern þann verknað sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu með í því skyni t.d. að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar þeim sársauka eða þjáningu er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem rekja má að öllu leyti til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum.
    2. Grein þessi skerðir ekki gildi neins alþjóðasamnings eða ákvæða í landslögum sem hafa eða kunna að hafa ákvæði sem ganga lengra.

2. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal gera virkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og réttarvörslu eða aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir pyndingar á sérhverju landsvæði í lögsögu þess.
    2. Hvernig sem á stendur má aldrei höfða til sérstakra aðstæðna af nokkru tagi, svo sem ófriðarástands, ófriðarhættu, ótryggs stjórnmálaástands innanlands eða nokkurs annars almenns neyðarástands, til réttlætingar pyndingum.
    3. Ekki má vísa til fyrirmæla yfirboðara eða stjórnvalds til réttlætingar pyndingum.

3. gr.


    1. Ekkert aðildarríki skal vísa úr landi, endursenda (refouler) eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum.
    2. Þegar ákveðið er hvort slíkar ástæður eru fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal, eftir því sem við á, hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.


4. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal tryggja að pyndingar af öllu tagi teljist til afbrota samkvæmt refsilögum þess. Það sama skal gilda um tilraun til pyndinga og verk hvers þess manns sem telst hlutdeildarmaður eða þátttakandi í pyndingum.
    2. Hvert aðildarríki skal leggja hæfilegar refsingar við brotum þessum sem taka tillit til þess hversu alvarleg þau eru.


5. gr.


    1. Í eftirgreindum tilvikum skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fella þau brot sem um ræðir í 4. gr. undir lögsögu sína:
    (a) þegar brotin eru framin á landsvæði í lögsögu þess eða um borð í skipi eða loftfari sem skráð er í því ríki;

    (b) þegar sökunautur er þegn þess ríkis;
    (c) þegar sá sem fyrir broti verður er þegn þess ríkis og það ríki telur rétt að gera svo.
    2. Sömuleiðis skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fella slík brot undir lögsögu þess ef sökunautur er staddur á landsvæði í lögsögu þess og hann er ekki framseldur skv. 8. gr. til einhvers þess ríkis sem 1. mgr. þessarar greinar tekur til.

    3. Samningur þessi skal ekki hindra beitingu neinnar refsilögsögu samkvæmt landslögum.

6. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal, ef maður sem sakaður er um að hafa framið eitthvert þeirra brota sem um ræðir í 4. gr. er staddur innan lögsögu þess, er það hefur athugað þær upplýsingar sem því eru tiltækar og gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, taka hann í gæslu eða gera aðrar ráðstafanir samkvæmt lögum til að tryggja nærveru hans. Um gæslu eða aðrar ráðstafanir samkvæmt lögum skal fara að lögum þess ríkis, en ekki mega ráðstafanir þessar vara lengur en nauðsyn krefur til að unnt sé að höfða refsimál eða hlutast til um framsal.
    2. Viðkomandi ríki skal þegar framkvæma frumrannsókn á málavöxtum.
    3. Manni, sem hafður er í gæslu skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal veitt aðstoð til að hafa þegar í stað samband við næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann er þegn, eða, sé hann ríkisfangslaus, við fulltrúa þess ríkis þar sem hann dvelur að jafnaði.

    4. Þegar ríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar tilkynna þeim ríkjum sem um getur í 1. mgr. 5. gr. að maðurinn sé þar í gæslu og um þær ástæður sem hún er byggð á. Ríki það, sem framkvæmir frumrannsókn þá sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. þessarar greinar, skal þegar í stað tilkynna áðurgreindum ríkjum um það sem fram hefur komið og taka fram hvort það ætli að beita lögsögu sinni.


7. gr.


    1. Nú er á landsvæði í lögsögu aðildarríkis að finna mann sem sakaður er um að hafa framið eitthvert þeirra brota sem um ræðir í 4. gr. og skal það þá, í þeim tilvikum sem um er fjallað í 5. gr., fela málið þar til bærum yfirvöldum sínum til höfðunar refsimáls ef maðurinn er ekki framseldur.
    2. Yfirvöld þessi skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og um hvert annað alvarlegt afbrot væri að ræða samkvæmt lögum þess ríkis. Í tilvikum þeim sem um ræðir í 2. mgr. 5. gr. skulu kröfur um fyrirliggjandi sönnunargögn til höfðunar refsimáls og sakfellingar á engan hátt vera minni en þær sem eiga við í tilvikum þeim sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr.

    3. Hverjum þeim manni, sem refsimál er höfðað gegn vegna brota sem um ræðir í 4. gr., skal tryggð réttlát málsmeðferð á öllum stigum málsins.


8. gr.


    1. Í öllum framsalssamningum sem þegar eru fyrir hendi milli aðildarríkja skal litið svo á að brot þau, sem um ræðir í 4. gr., teljist til afbrota sem geta varðað framsali. Aðildarríki skuldbinda sig til að fella slík brot undir afbrot sem varðað geta framsali í öllum framsalssamningum sem síðar eru gerðir milli þeirra.
    2. Nú berst aðildarríki, sem setur það skilyrði fyrir framsali að milliríkjasamningur sé fyrir hendi, framsalsbeiðni frá öðru ríki sem það hefur ekki gert framsalssamning við og má það þá líta svo á að samningur þessi veiti lagagrundvöll til framsals að því er slík brot varðar. Framsal skal háð öðrum skilyrðum sem lög þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til kveða á um.
    3. Aðildarríki, sem ekki setja það skilyrði fyrir framsali að milliríkjasamingur sé fyrir hendi, skulu sín á milli telja slík brot til afbrota sem varðað geti framsali samkvæmt þeim skilyrðum sem lög þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til kveða á um.
    4. Að því er varðar framsal milli aðildarríkja skal farið með slík brot eins og þau hefðu verið framin ekki aðeins á þeim vettvangi þar sem þau áttu sér stað heldur einnig á landsvæði þeirra ríkja sem fella skulu þau undir lögsögu sína skv. 1. mgr. 5. gr.

9. gr.


    1. Aðildarríki skulu af fremsta megni aðstoða hvert annað í tengslum við meðferð refsimáls vegna sérhvers þess brots sem um ræðir í 4. gr., þar með talið með afhendingu allra sönnunargagna sem þeim eru tiltæk og þörf er á við meðferð málsins.
    2. Aðildarríki skulu rækja skyldur sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar í samræmi við sérhvern þann samning um gagnkvæma réttaraðstoð sem í gildi kann að vera milli þeirra.

10. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal tryggja að kennsla og upplýsingar um bann við pyndingum verði óaðskiljanlegur hluti þjálfunar löggæslumanna á vegum borgaralegra yfirvalda eða hers, starfsfólks í heilsugæslu, opinberra starfsmanna og annarra sem kunna að fást við gæslu, yfirheyrslu eða meðferð hvers þess manns sem sætir handtöku, gæslu eða fangelsun af nokkru tagi.
    2. Hvert aðildarríki skal tilgreina bann þetta í reglum þeim eða fyrirmælum sem sett eru um skyldur og störf allra slíkra starfsmanna.

11. gr.


    Hvert aðildarríki skal hafa kerfisbundið eftirlit með yfirheyrslureglum, fyrirmælum, aðferðum, starfsvenjum og fyrirkomulagi við gæslu og meðferð manna sem sæta handtöku, gæslu eða fangelsun af nokkru tagi á öllum landsvæðum í lögsögu þess, í því skyni að koma í veg fyrir að hvers konar pyndingar eigi sér stað.

12. gr.


    Hvert aðildarríki skal tryggja að þar til bær yfirvöld þess hlutist þegar til um óhlutdræga rannsókn hvenær sem skynsamleg ástæða er til að ætla að pyndingar hafi átt sér stað á einhverju landsvæði innan lögsögu þess.


13. gr.


    Hvert aðildarríki skal tryggja að sérhver einstaklingur, sem heldur því fram að hann hafi verið beittur pyndingum á einhverju landsvæði í lögsögu þess, eigi rétt á að bera fram kæru til þar til bærra yfirvalda þess og að mál hans sæti þegar óhlutdrægri rannsókn af þeirra hálfu. Gera skal ráðstafanir til að tryggja að kærandinn og vitni séu vernduð fyrir illri meðferð eða hótunum sem rekja má til kærunnar eða skýrslna sem gefnar hafa verið.

14. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal í réttarkerfi sínu tryggja að sá sem hefur sætt pyndingum hljóti uppreisn og eigi framkvæmanlegan rétt til sanngjarnra og fullnægjandi bóta, þar með talið fyrir allri þeirri endurhæfingu sem kostur er á. Hljóti maður bana af völdum pyndinga skulu þeir sem hann framfærir eiga rétt á bótum.
    2. Ákvæði þessarar greinar skulu engin áhrif hafa á bótarétt sem þegar er fyrir hendi í landslögum til handa þeim er sætt hefur pyndingum eða öðrum.

15. gr.


    Hvert aðildarríki skal tryggja að engin yfirlýsing, sem reynist hafa verið fengin með pyndingum, sé notuð sem sönnunargagn við meðferð máls, nema gegn þeim sem sakaður er um pyndingar til sönnunar því að yfirlýsingin hafi verið gefin.

16. gr.


    1. Hvert aðildarríki skuldbindur sig til að hindra að á nokkru landsvæði í lögsögu þess séu framin önnur verk er teljast til grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar, en falla þó ekki undir skilgreiningu hugtaksins pynding í 1. gr., þegar slík verk eru framin af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Sérstaklega skulu skuldbindingar þær gilda sem um getur í 10., 11., 12. og 13. gr. þannig að í stað þess að vísað sé til pyndinga sé vísað til annarrar grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar.
    2. Ákvæði samnings þessa skerða ekki gildi ákvæða neinna annarra alþjóðasamninga eða landslaga sem leggja bann við grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða varða framsal eða brottvísun úr landi.


II. HLUTI


17. gr.


    1. Setja skal á stofn nefnd gegn pyndingum (hér eftir kölluð nefndin) er fer með þau verkefni sem segir hér á eftir. Nefndin skal skipuð tíu sérfræðingum sem séu vammlausir og viðurkenndir fyrir hæfni á sviði mannréttinda og skulu þeir starfa sem einstaklingar. Skulu sérfræðingarnir kjörnir af aðildarríkjunum, að teknu tilliti til sanngjarnrar landfræðilegrar dreifingar og gagnsemi þess að sumir nefndarmenn hafi lögfræðilega starfsreynslu.


    2. Nefndarmenn skulu kjörnir leynilegri kosningu af skrá um menn sem aðildarríki hafa tilnefnt. Hvert aðildarríki getur tilnefnt einn mann úr hópi eigin þegna. Skulu aðildarríki hafa í huga gagnsemi þess að tilnefna menn sem einnig eiga sæti í mannréttindanefndinni sem stofnuð var samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og eru reiðubúnir til að sitja í nefndinni gegn pyndingum.

    3. Kosning nefndarmanna skal fara fram á fundum aðildarríkjanna sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallar saman á tveggja ára fresti. Á fundum þessum, sem eru lögmætir ef þeir eru sóttir af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna, skulu þeir taldir kjörnir í nefndina sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkjanna sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.

    4. Fyrsta kosning skal fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir hverja kosningu skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda aðildarríkjunum bréf og bjóða þeim að leggja fram tilnefningar sínar innan þriggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn skal gera skrá í stafrófsröð um alla þá sem þannig eru tilnefndir þar sem getið er þeirra aðildarríkja sem tilnefndu þá og skal leggja hana fyrir aðildarríkin.

    5. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir að nýju. Þó rennur kjörtímabil fimm þeirra nefndarmanna sem kjörnir eru í fyrstu kosningunni út að tveimur árum liðnum og skal fundarstjóri þess fundar sem um ræðir í 3. mgr. þessarar greinar velja nöfn þessara fimm manna með hlutkesti er fyrsta kosningin hefur farið fram.

    6. Nú deyr nefndarmaður eða segir af sér eða getur ekki af öðrum ástæðum rækt nefndarstörf sín og skal þá aðildarríkið sem tilnefndi hann skipa annan sérfræðing úr hópi þegna sinna til setu í nefndinni það sem eftir lifir kjörtímabils hans, enda samþykki meiri hluti aðildarríkja það. Samþykki skal talið veitt nema að minnsta kosti helmingur aðildarríkja svari neitandi innan sex vikna eftir að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur tilkynnt þeim um hina fyrirhuguðu skipun.

    7. Aðildarríki standa straum af kostnaði nefndarmenna vegna starfa þeirra fyrir nefndina.


18. gr.


    1. Nefndin kýs embættismenn sína til tveggja ára í senn. Þá má endurkjósa.

    2. Nefndin setur sér sjálf starfsreglur og skal þar meðal annars koma fram að:

    (a) fundur sé lögmætur ef sex nefndarmenn sitja hann;
    (b) ákvarðanir nefndarinnar skuli teknar með meiri hluta atkvæða viðstaddra nefndarmanna.
    3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal sjá nefndinni fyrir nauðsynlegu starfsliði og aðstöðu til þess að hún geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt samningi þessum.
    4. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman fyrsta fund nefndarinnar. Að honum loknum skal nefndin koma saman á þeim tímum sem ákveðið er í starfsreglum hennar.

    5. Aðildarríki skulu standa straum af kostnaði í tengslum við fundahöld þeirra og nefndarinnar og þar á meðal endurgreiða Sameinuðu þjóðunum öll útgjöld stofnunarinnar samkvæmt ákvæði 3. mgr. þessarar greinar, svo sem kostnað vegna starfsliðs og aðstöðu.



19. gr.


    1. Aðildarríki skulu, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, leggja fyrir nefndina innan eins árs frá því er samningur þessi tekur gildi gagnvart þeim skýrslur um ráðstafanir þær sem þau hafa gert til að framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Skulu aðildarríki síðan afhenda viðbótarskýrslur á fjögurra ára fresti um allar nýjar ráðstafanir sem þau hafa gert og aðrar þær skýrslur sem nefndin kann að fara fram á.


    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum aðildarríkjum skýrslur þessar.

    3. Nefndin skal taka hverja skýrslu til athugunar, gera almennar athugasemdir um hana eftir því sem hún sér ástæðu til og senda hlutaðeigandi aðildarríki þær. Getur aðildarríkið brugðist við með því að senda nefndinni þær athugasemdir sem það kýs.

    4. Ef nefndinni sýnist svo getur hún ákveðið að birta athugasemdir sem hún kann að hafa gert skv. 3. mgr. þessarar greinar ásamt athugasemdum sem borist hafa frá hlutaðeigandi aðildarríki í ársskýrslu sinni sem gerð er skv. 24. gr. Fari hlutaðeigandi aðildarríki fram á það getur nefndin einnig birt skýrsluna sem lögð er fram skv. 1. mgr. þessarar greinar.


20. gr.


    1. Nú berast nefndinni áreiðanlegar upplýsingar sem henni þykja fela í sér traustar vísbendingar um að pyndingar séu stundaðar á kerfisbundinn hátt á landsvæði aðildarríkis og skal hún þá bjóða því aðildarríki að starfa með sér að athugun upplýsinganna og að leggja fram athugasemdir um viðkomandi upplýsingar í því skyni.

    2. Nefndin getur, með hliðsjón af athugasemdum sem viðkomandi aðildarríki kann að hafa lagt fram og öðrum viðeigandi upplýsingum sem henni eru tiltækar og ef henni þykir rétt að gera svo, skipað einn eða fleiri nefndarmenn til að gera rannsókn í trúnaði og gefa nefndinni skýrslu með hraði.


    3. Fari rannsókn fram skv. 2. mgr. þessarar greinar skal nefndin leita samstarfs við viðkomandi aðildarríki. Ef aðildarríkið samþykkir það getur heimsókn til landsvæðis þess orðið þáttur í slíkri rannsókn.

    4. Að lokinni athugun á niðurstöðum nefndarmanns eða -manna, sem fram eru lagðar skv. 2. mgr. þessarar greinar, skal nefndin senda þær viðkomandi aðildarríki ásamt umsögn þeirri eða tillögum sem viðeigandi þykja með hliðsjón af aðstæðum.

    5. Allt starf nefndarinnar, sem fjallað er um í 1.–4. mgr. þessarar greinar, skal fara fram í trúnaði og skal á öllum stigum þess leita samstarfs aðildarríkisins. Að loknu slíku starfi að því er varðar rannsókn sem gerð er skv. 2. mgr. getur nefndin að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðildarríki ákveðið að birta samantekt um niðurstöður starfsins í ársskýrslu sinni sem gerð er skv. 24. gr.





21. gr.


    1. Aðildarríki að samningi þessum getur hvenær sem er lýst því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni að nefndin sé bær til að taka á móti og athuga erindi þar sem aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum samkvæmt samningnum. Slíkum erindum má því aðeins veita viðtöku og taka þau til athugunar samkvæmt málsmeðferðarreglum þessarar greinar að þau komi frá aðildarríki sem hefur lýst því yfir að nefndin sé til þess bær að því er það sjálft varðar. Nefndin skal ekki taka erindi til athugunar samkvæmt þessari grein ef það varðar aðildarríki sem ekki hefur gefið slíka yfirlýsingu. Með erindi sem berast samkvæmt grein þessari skal farið samkvæmt eftirfarandi málsmeðferðarreglum:

    (a) ef aðildarríki telur að annað aðildarríki framfylgi ekki ákvæðum samnings þessa getur það í skriflegu erindi vakið athygli þess á málinu. Innan þriggja mánaða frá móttöku erindisins skal móttökuríkið gefa ríki því sem erindið sendi skýringu eða einhverja aðra skriflega yfirlýsingu til útskýringar á málinu og er rétt að þar sé eftir því sem gerlegt er og við á vísað til málsmeðferðar innanlands og úrræða sem gripið hefur verið til, standa yfir eða tiltæk eru;


    (b) ef málið er ekki útkljáð svo fullnægjandi sé fyrir bæði hlutaðeigandi aðildarríki innan sex mánaða frá því að móttökuríkið tók á móti upphaflega erindinu skal hvoru ríki um sig rétt að vísa málinu til nefndarinnar með tilkynningu til hennar og hins ríkisins;

    (c) nefndin skal aðeins fjalla um mál sem vísað er til hennar samkvæmt þessari grein eftir að hún hefur gengið úr skugga um að í málinu hafi verið reynt að neyta allra úrræða innanlands og þau tæmd, í samræmi við almennt viðurkenndar meginreglur þjóðaréttar. Þetta gildir þó ekki ef beiting úrræðanna dregst óhæfilega á langinn eða er ólíkleg til þess að veita þeim manni sem orðið hefur fyrir broti á samningi þessum fullnægjandi úrbætur;
    (d) nefndin skal halda fundi fyrir luktum dyrum er athugun á erindum samkvæmt þessari grein fer fram;
    (e) nefndin skal, sbr. þó ákvæði c-liðar, veita hlutaðeigandi aðildarríkjum liðsinni sitt með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu byggðri á virðingu fyrir skuldbindingum samnings þessa. Í því skyni getur nefndin skipað sérstaka sáttanefnd þegar það á við;


    (f) í sérhverju máli sem vísað er til nefndarinnar samkvæmt þessari grein getur nefndin beint því til hlutaðeigandi aðildarríkja sem greinir í b-lið að láta í té allar upplýsingar sem máli skipta;
    (g) hlutaðeigandi aðildarríki, sem greinir í b-lið, eiga rétt á málsvara þegar mál er til athugunar hjá nefndinni og að koma að munnlegum og/eða skriflegum athugasemdum;

    (h) innan tólf mánaða frá móttökudegi tilkynningar samkvæmt b-lið skal nefndin leggja fram skýrslu:

         (i) náist lausn samkvæmt ákvæðum e-liðar skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir og lausn þá sem náðst hefur;
         (ii) náist ekki lausn samkvæmt ákvæðum e-liðar skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir málsins. Þau skriflegu gögn sem lögð voru fram af hlutaðeigandi aðildarríkjum, svo og bókun um það sem munnlega kom fram af þeirra hálfu, skulu fylgja skýrslunni.
    Skýrslunni skal ávallt komið á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki.

    2. Ákvæði þessarar greinar öðlast gildi þegar fimm aðildarríki samnings þessa hafa gefið yfirlýsingu skv. 1. mgr. hennar. Yfirlýsingar þessar skulu aðildarríkin afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öðrum aðildarríkjum endurrit þeirra. Yfirlýsingu má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Slík afturköllun skal ekki hafa áhrif á athugun nokkurs máls sem greinir í erindi sem þegar hefur verið komið á framfæri samkvæmt þessari grein. Ekki skal veita viðtöku frekari erindum frá neinu aðildarríki samkvæmt þessari grein eftir að tilkynning um afturköllun yfirlýsingarinnar hefur borist aðalframkvæmdastjóranum, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið nýja yfirlýsingu.



22. gr.


    1. Aðildarríki að samningi þessum getur hvenær sem er lýst því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni að nefndin sé bær til að taka á móti og athuga erindi frá einstaklingum eða fyrir hönd einstaklinga sem falla undir lögsögu þess og halda því fram að aðildarríki hafi brotið ákvæði samningsins gagnvart þeim. Nefndin skal ekki taka á móti neinu erindi varðandi aðildarríki sem ekki hefur gefið slíka yfirlýsingu.

    2. Nefndin skal vísa frá sérhverju því erindi samkvæmt grein þessari sem er nafnlaust eða sem hún telur fela í sér misnotkun á réttinum til að senda slík erindi eða vera ósamrýmanlegt ákvæðum samningsins.

    3. Nefndin skal vekja athygli aðildarríkis að samningi þessum, sem gefið hefur yfirlýsingu skv. 1. mgr. og sakað er um að brjóta gegn ákvæðum hans, á sérhverju erindi sem lagt er fyrir hana samkvæmt þessari grein, sbr. þó 2. mgr. Innan sex mánaða skal móttökuríkið leggja fyrir nefndina skriflegar skýringar eða yfirlýsingar til útskýringar á málinu og um úrræði sem það kann að hafa gripið til.



    4. Nefndin skal taka erindi sem henni berast samkvæmt þessari grein til athugunar í ljósi allra upplýsinga sem henni eru veittar af hlutaðeigandi einstaklingi eða fyrir hans hönd og af hlutaðeigandi aðildarríki.
    5. Nefndin skal ekki taka neitt erindi frá einstaklingi samkvæmt grein þessari til athugunar nema hún hafi fullvissað sig um:
    (a) að sama mál hafi ekki verið og sé ekki til athugunar samkvæmt öðrum alþjóðlegum rannsóknarreglum eða reglum um lausn deilumála;
    (b) að einstaklingurinn hafi tæmt öll tiltæk úrræði innanlands. Þetta gildir þó ekki ef beiting úrræðanna dregst óhæfilega á langinn eða er ólíkleg til þess að veita þeim manni sem orðið hefur fyrir broti á samningi þessum fullnægjandi úrbætur.
    6. Nefndin skal halda fundi fyrir luktum dyrum er athugun á erindum samkvæmt þessari grein fer fram.
    7. Nefndin skal koma sjónarmiðum sínum á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki og einstakling.
    8. Ákvæði þessarar greinar öðlast gildi þegar fimm aðildarríki samnings þessa hafa gefið yfirlýsingu skv. 1. mgr. hennar. Yfirlýsingar þessar skulu aðildarríkin afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öðrum aðildarríkjum endurrit þeirra. Yfirlýsingu má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Slík afturköllun skal ekki hafa áhrif á athugun nokkurs máls sem greinir í erindi er þegar hefur verið komið á framfæri samkvæmt þessari grein. Ekki skal veita viðtöku frekari erindum frá einstaklingi eða fyrir hönd einstaklings samkvæmt þessari grein eftir að tilkynning um afturköllun yfirlýsingarinnar hefur borist aðalframkvæmdastjóranum, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið nýja yfirlýsingu.



23. gr.


    Þeir sem sæti eiga í nefndinni og sérstökum sáttanefndum sem skipaðar kunna að vera skv. e-lið 1. mgr. 21. gr. skulu eiga rétt á aðstöðu, sérréttindum og friðhelgi sérfræðinga í erindagerðum fyrir Sameinuðu þjóðirnar samkvæmt þeim köflum samnings um réttindi og griðhelgi Sameinuðu þjóðanna sem við eiga.


24. gr.


    Nefndin skal árlega leggja skýrslu um störf sín samkvæmt samningi þessum fyrir aðildarríkin og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.


III. HLUTI


25. gr.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir öll ríki.
    2. Samningur þessi er háður fullgildingu. Fullgildingarskjölum skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

26. gr.


    Öllum ríkjum skal heimilt að gerast aðilar að samningi þessum. Aðild öðlast gildi þegar aðildarskjali hefur verið komið í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

27. gr.


    1. Samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir þann dag er tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu er komið í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Gagnvart sérhverju ríki, sem fullgildir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu hefur verið komið í vörslu, öðlast hann gildi á þrítugasta degi eftir þann dag er fullgildingar- eða aðildarskjali þess er komið í vörslu.

28. gr.


    1. Hvert ríki getur, við undirritun eða fullgildingu samnings þessa eða við aðild að honum, lýst því yfir að það viðurkenni ekki bærni nefndarinnar skv. 20. gr.
    2. Hvert það ríki, sem gert hefur fyrirvara skv. 1. mgr. þessarar greinar, getur hvenær sem er fallið frá honum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.


29. gr.


    1. Sérhvert aðildarríki að samningi þessum getur borið fram tillögu um breytingu á honum og fengið hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Skal aðalframkvæmdastjórinn þá senda aðildarríkjunum breytingartillöguna ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu hlynnt því að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til að athuga og greiða atkvæði um tillöguna. Ef, innan fjögurra mánaða frá því að sending breytingartillögunnar er dagsett, eigi minna en þriðjungur aðildarríkjanna er fylgjandi því að slík ráðstefna verði haldin skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Sérhverja breytingartillögu, sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem sækja ráðstefnuna og atkvæði greiða, skal aðalframkvæmdastjórinn leggja fyrir öll aðildarríki til samþykktar.
    2. Breyting sem er samþykkt skv. 1. mgr. þessarar greinar öðlast gildi þegar tveir þriðju hlutar aðildarríkja samnings þessa hafa tilkynnt aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að þau hafi staðfest hana í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.

    3. Þegar breytingar öðlast gildi eru þær bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest þær, en önnur aðildarríki eru áfram bundin af ákvæðum samnings þessa og sérhverri fyrri breytingu sem þau hafa staðfest.


30. gr.


    1. Sérhver deila tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa sem ekki tekst að leysa með samningum skal, að ósk einhvers þeirra, lögð í gerð. Ef aðilar geta ekki komið sér saman um tilhögun gerðarinnar innan sex mánaða frá því að hennar er óskað getur hver þeirra vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með umsókn samkvæmt samþykktum hans.




    2. Hvert ríki getur, við undirritun eða fullgildingu samnings þessa eða við aðild að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. þessarar greinar. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. þessarar greinar gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3. Hvert það ríki, sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. þessarar greinar, getur hvenær sem er fallið frá honum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.


31. gr.


    1. Aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjórinn tekur við tilkynningunni.

    2. Uppsögn leysir ekki aðildarríkið undan skyldum sínum samkvæmt samningi þessum varðandi nokkurn verknað eða athafnaleysi sem á sér stað fyrir gildistökudag uppsagnarinnar og skal heldur ekki hafa nein áhrif á framhald athugunar máls sem var þegar til athugunar hjá nefndinni fyrir gildistökudag uppsagnarinnar.



    3. Eftir þann dag er uppsögn aðildarríkis öðlast gildi skal nefndin ekki hefja athugun á neinu nýju máli sem varðar það ríki.



32. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og öllum ríkjum sem undirritað hafa samning þennan eða gerst aðilar að honum um:
    (a) undirritanir, fullgildingar og aðild skv. 25. og 26. gr.;
    (b) gildistökudag samnings þessa skv. 27. gr. og gildistökudag allra breytinga skv. 29. gr.;

    (c) uppsagnir skv. 31. gr.

33. gr.


    1. Samningur þessi, þar sem arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spænskur texti hans eru jafngildir, skal afhentur aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum ríkjum staðfest endurrit samnings þessa.



Fylgiskjal II.


BREYTING



(i)         7. mgr. 17. gr. og 5. mgr. 18. gr. falli brott;

(ii)    við bætist ný málsgrein sem verði 4. mgr. 18. gr. og hljóði svo:
        „4. Meðlimir nefndar þeirrar, sem stofnuð er samkvæmt samningi þessum, skulu fá greidd laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið ákveður.“; og

(iii)    núverandi 4. mgr. 18. gr. verði tölusett sem 5. mgr.

CONVENTION


against Torture and Other Cruel,


Inhuman or Degrading Treatment


or Punishment



     The States Parties to this Convention,

     Considering that, in accordance with the principles proclaimed in the Charter of the United Nations, recognition of the equal and inalienable rights of all members of the human family is the foundation of freedom, justice and peace in the world,
     Recognizing that those rights derive from the inherent dignity of the human person,
     Considering the obligation of States under the Charter, in particular Article 55, to promote universal respect for, and observance of, human rights and fundamental freedoms,
     Having regard to article 5 of the Universal Declaration of Human Rights and article 7 of the International Covenant on Civil and Political Rights, both of which provide that no one shall be subjected to torture or to cruel, inhuman or degrading treatment or punishment,
     Having regard also to the Declaration on the Protection of All Persons from Being Subjected to Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment, adopted by the General Assembly on 9 December 1975,
     Desiring to make more effective the struggle against torture and other cruel, inhuman or degrading treatment or punishment throughout the world,
     Have agreed as follows:


PART I


Article 1


    1. For the purposes of this Convention, the term “torture” means any act by which severe pain or suffering, whether physical or mental, is intentionally inflicted on a person for such purposes as obtaining from him or a third person information or a confession, punishing him for an act he or a third person has committed or is suspected of having committed, or intimidating or coercing him or a third person, or for any reason based on discrimination of any kind, when such pain or suffering is inflicted by or at the instigation of or with the consent or acquiescence of a public official or other person acting in an official capacity. It does not include pain or suffering arising only from, inherent in or incidental to lawful sanctions.
    2. This article is without prejudice to any international instrument or national legislation which does or may contain provisions of wider application.

Article 2


    1. Each State Party shall take effective legislative, administrative, judicial or other measures to prevent acts of torture in any territory under its jurisdiction.
    2. No exceptional circumstances whatsoever, whether a state of war or a threat or war, internal political instability or any other public emergency, may be invoked as a justification of torture.
    3. An order from a superior officer or a public authority may not be invoked as a justification of torture.

Article 3


    1. No State Party shall expel, return (“ refouler”) or extradite a person to another State where there are substantial grounds for believing that he would be in danger of being subjected to torture.
    2. For the purpose of determining whether there are such grounds, the competent authorities shall take into account all relevant considerations including, where applicable, the existence in the State concerned of a consistent pattern of gross, flagrant or mass violations of human rights.

Article 4


    1. Each State Party shall ensure that all acts of torture are offences under its criminal law. The same shall apply to an attempt to commit torture and to an act by any person which constitutes complicity or participation in torture.

    2. Each State Party shall make these offences punishable by appropriate penalties which take into account their grave nature.


Article 5


    1. Each State Party shall take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences referred to in article 4 in the following cases:
    (a) When the offences are committed in any territory under its jurisdiction or on board a ship or aircraft registered in that State;
    (b) When the alleged offender is a national of that State;
    (c) When the victim is a national of that State if that State considers it appropriate.
    2. Each State Party shall likewise take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over such offences in cases where the alleged offender is present in any territory under its jurisdiction and it does not extradite him pursuant to article 8 to any of the States mentioned in paragraph 1 of this article.
    3. This Convention does not exclude any criminal jurisdiction exercised in accordance with internal law.

Article 6


    1. Upon being satisfied, after an examination of information available to it, that the circumstances so warrant, any State Party in whose territory a person alleged to have committed any offence referred to in article 4 is present, shall take him into custody or take other legal measures to ensure his presence. The custody and other legal measures shall be as provided in the law of that State but may be continued only for such time as is necessary to enable any criminal or extradition proceedings to be instituted.


    2. Such State shall immediately make a preliminary inquiry into the facts.
    3. Any person in custody pursuant to paragraph 1 of this article shall be assisted in communicating immediately with the nearest appropriate representative of the State of which he is a national, or, if he is a stateless person, with the representative of the State where he usually resides.
    4. When a State, pursuant to this article, has taken a person into custody, it shall immediately notify the States referred to in article 5, paragraph 1, of the fact that such person is in custody and of the circumstances which warrant his detention. The State which makes the preliminary inquiry contemplated in paragraph 2 of this article shall promptly report its findings to the said States and shall indicate whether it intends to exercise jurisdiction.

Article 7


    1. The State Party in the territory under whose jurisdiction a person alleged to have committed any offence referred to in article 4 is found shall in the cases contemplated in article 5, if it does not extradite him, submit the case to its competent authorities for the purpose of prosecution.
    2. These authorities shall take their decision in the same manner as in the case of any ordinary offence of a serious nature under the law of that State. In the cases referred to in article 5, paragraph 2, the standards of evidence required for prosecution and conviction shall in no way be less stringent than those which apply in the cases referred to in article 5, paragraph 1.
    3. Any person regarding whom proceedings are brought in connection with any of the offences referred to in article 4 shall be guaranteed fair treatment at all stages of the proceedings.

Article 8


    1. The offences referred to in article 4 shall be deemed to be included as extraditable offences in any extradition treaty existing between States Parties. States Parties undertake to include such offences as extraditable offences in every extradition treaty to be concluded between them.
    2. If a State Party which makes extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for extradition from another State Party with which it has no extradition treaty, it may consider this Convention as the legal basis for extradition in respect of such offenses. Extradition shall be subject to the other conditions provided by the law of the requested State.
    3. States Parties which do not make extradition conditional on the existence of a treaty shall recognize such offences as extraditable offences between themselves subject to the conditions provided by the law of the requested state.

    4. Such offences shall be treated, for the purpose of extradition between States Parties, as if they had been committed not only in the place in which they occurred but also in the territories of the States required to establish their jurisdiction in accordance with article 5, paragraph 1.

Article 9


    1. States Parties shall afford one another the greatest measure of assistance in connection with criminal proceedings brought in respect of any of the offences referred to in article 4, including the supply of all evidence at their disposal necessary for the proceedings.
    2. States Parties shall carry out their obligations under paragraph 1 of this article in conformity with any treaties on mutual judicial assistance that may exist between them.

Article 10


    1. Each State Party shall ensure that education and information regarding the prohibition against torture are fully included in the training of law enforcement personnel, civil or military, medical personnel, public officials and other persons who may be involved in the custody, interrogation or treatment of any individual subjected to any form of arrest, detention or imprisonment.
    2. Each State Party shall include this prohibition in the rules or instructions issued in regard to the duties and functions of any such persons.

Article 11


    Each State Party shall keep under systematic review interrogation rules, instructions, methods and practices as well as arrangements for the custody and treatment of persons subjected to any form of arrest, detention or imprisonment in any territory under its jurisdiction, with a view to preventing any cases of torture.

Article 12


    Each State Party shall ensure that its competent authorities proceed to a prompt and impartial investigation, wherever there is reasonable ground to believe that an act of torture has been committed in any territory under its jurisdiction.

Article 13


    Each State Party shall ensure that any individual who alleges he has been subjected to torture in any territory under its jurisdiction has the right to complain to, and to have his case promptly and impartially examined by, its competent authorities. Steps shall be taken to ensure that the complainant and witnesses are protected against all ill-treatment or intimidation as a consequence of his complaint or any evidence given.

Article 14


    1. Each State Party shall ensure in its legal system that the victim of an act of torture obtains redress and has an enforceable right to fair and adequate compensation, including the means for as full rehabilitation as possible. In the event of the death of the victim as a result of an act of torture, his dependents shall be entitled to compensation.
    2. Nothing in this article shall affect any right of the victim or other persons to compensation which may exist under national law.

Article 15


    Each State Party shall ensure that any statement which is established to have been made as a result of torture shall not be invoked as evidence in any proceedings, except against a person accused of torture as evidence that the statement was made.

Article 16


    1. Each State Party shall undertake to prevent in any territory under its jurisdiction other acts of cruel, inhuman or degrading treatment or punishment which do not amount to torture as defined in article 1, when such acts are committed by or at the instigation of or with the consent or acquiescence of a public official or other person acting in an official capacity. In particular, the obligations contained in articles 10, 11, 12 and 13 shall apply with the substitution for references to torture of references to other forms of cruel, inhuman or degrading treatment or punishment.

    2. The provisions of this Convention are without prejudice to the provisions of any other international instrument or national law which prohibits cruel, inhuman or degrading treatment or punishment or which relates to extradition or expulsion.

PART II


Article 17


    1. There shall be established a Committee against Torture (hereinafter referred to as the Committee) which shall carry out the functions hereinafter provided. The Committee shall consist of 10 experts of high moral standing and recognized competence in the field of human rights, who shall serve in their personal capacity. The experts shall be elected by the States Parties, consideration being given to equitable geographical distribution and to the usefulness of the participation of some persons having legal experience.
    2. The members of the Committee shall be elected by secret ballot from a list of persons nominated by States Parties. Each State Party may nominate one person from among its own nationals. States Parties shall bear in mind the usefulness of nominating persons who are also members of the Human Rights Committee established under the International Covenant on Civil and Political Rights and who are willing to serve on the Committee against Torture.
    3. Elections of the members of the Committee shall be held at biennial meetings of States Parties convened by the Secretary-General of the United Nations. At those meetings, for which two thirds of the States Parties shall constitute a quorum, the persons elected to the Committee shall be those who obtain the largest number of votes and an absolute majority of the votes of the representatives of States Parties present and voting.
    4. The initial election shall be held no later than six months after the date of the entry into force of this Convention. At least four months before the date of each election, the Secretary-General of the United Nations shall address a letter to the States Parties inviting them to submit their nominations within three months. The Secretary-General shall prepare a list in alphabetical order of all persons thus nominated, indicating the States Parties which have nominated them, and shall submit it to the States Parties.
    5. The members of the Committee shall be elected for a term of four years. They shall be eligible for re-election if renominated. However, the term of five of the members elected at the first election shall expire at the end of two years; immediately after the first election the names of these five members shall be chosen by lot by the chairman of the meeting referred to in paragraph 3 of this article.
    6. If a member of the Committee dies or resigns or for any other cause can no longer perform his Committee duties, the State Party which nominated him shall appoint another expert from among its nationals to serve for the remainder of his term, subject to the approval of the majority of the States Parties. The approval shall be considered given unless half or more of the States Parties respond negatively within six weeks after having been informed by the Secretary-General of the United Nations of the proposed appointment.
    7. States Parties shall be responsible for the expenses of the members of the Committee while they are in performance of Committee duties.

Article 18


    1. The Committee shall elect its officers for a term of two years. They may be re-elected.
    2. The Committee shall establish its own rules of procedure, but these rules shall provide, inter alia, that:
    (a) Six members shall constitute a quorum;
    (b) Decisions of the Committee shall be made by a majority vote of the members present.
    3 . The Secretary-General of the United Nations shall provide the necessary staff and facilities for the effective performance of the functions of the Committee under this Convention.
    4. The Secretary-General of the United Nations shall convene the initial meeting of the Committee. After its initial meeting, the Committee shall meet at such times as shall be provided in its rules of procedure.
    5. The State Parties shall be responsible for expenses incurred in connection with the holding of meetings of the States Parties and of the Committee, including reimbursement of the United Nations for any expenses, such as the cost of staff and facilities, incurred by the United Nations pursuant to paragraph 3 of this article.

Article 19


    1. The States Parties shall submit to the Committee, through the Secretary-General of the United Nations, reports on the measures they have taken to give effect to their undertakings under this Convention, within one year after the entry into force of the Convention for the State Party concerned. Thereafter the States Parties shall submit supplementary reports every four years on any new measures taken and such other reports as the Committee may request.
    2. The Secretary-General of the United Nations shall transmit the reports to all States Parties.
    3. Each report shall be considered by the Committee which may make such general comments on the report as it may consider appropriate and shall forward these to the State Party concerned. That State Party may respond with any observations it chooses to the Committee.
    4. The Committee may, at its discretion, decide to include any comments made by it in accordance with paragraph 3 of this article, together with the observations thereon received from the State Party concerned, in its annual report made in accordance with article 24. If so requested by the State Party concerned, the Committee may also include a copy of the report submitted under paragraph 1 of this article.

Article 20


    1. If the Committee receives reliable information which appears to it to contain well-founded indications that torture is being systematically practised in the territory of a State Party, the Committee shall invite that State Party to co-operate in the examination of the information and to this end to submit observations with regard to the information concerned.
    2. Taking into account any observations which may have been submitted by the State Party concerned, as well as any other relevant information available to it, the Committee may, if it decides that this is warranted, designate one or more of its members to make a confidential inquiry and to report to the Committee urgently.
    3. If an inquiry is made in accordance with paragraph 2 of this article, the Committee shall seek the co-operation of the State Party concerned. In agreement with that State Party, such an inquiry may include a visit to its territory.
    4. After examining the findings of its member or members submitted in accordance with paragraph 2 of this article, the Committee shall transmit these findings to the State Party concerned together with any comments or suggestions which seem appropriate in view of the situation.
    5. All the proceedings of the Committee referred to in paragraphs 1 to 4 of this article shall be confidential, and at all stages of the proceedings the co-operation of the State Party shall be sought. After such proceedings have been completed with regard to an inquiry made in accordance with paragraph 2, the Committee may, after consultations with the State Party concerned, decide to include a summary account of the results of the proceedings in its annual report made in accordance with article 24.

Article 21


    1. A State Party to this Convention may at any time declare under this article that it recognizes the competence of the Committee to receive and consider communications to the effect that a State Party claims that another State Party is not fulfilling its obligations under this Convention. Such communications may be received and considered according to the procedures laid down in this article only if submitted by a State Party which has made a declaration recognizing in regard to itself the competence of the Committee. No communication shall be dealt with by the Committee under this article if it concerns a State Party which has not made such a declaration. Communications received under this article shall be dealt with in accordance with the following procedure:
    (a) If a State Party considers that another State Party is not giving effect to the provisions of this Convention, it may, by written communication, bring the matter to the attention of that State Party. Within three months after the receipt of the communication the receiving State shall afford the State which sent the communication an explanation or any other statement in writing clarifying the matter, which should include, to the extent possible and pertinent, reference to domestic procedures and remedies taken, pending, or available in the matter;
    (b) If the matter is not adjusted to the satisfaction of both States Parties concerned within six months after the receipt by the receiving State of the initial communication, either State shall have the right to refer the matter to the Committee, by notice given to the Committee and to the other State;
    (c) The Committee shall deal with a matter referred to it under this article only after it has ascertained that all domestic remedies have been invoked and exhausted in the matter, in conformity with the generally recognized principles of international law. This shall not be the rule where the application of the remedies is unreasonably prolonged or is unlikely to bring effective relief to the person who is the victim of the violation of this Convention;
    (d) The Committee shall hold closed meetings when examining communications under this article;
    (e) Subject to the provisions of subparagraph (c), the Committee shall make available its good offices to the States Parties concerned with a view to a friendly solution of the matter on the basis of respect for the obligations provided for in this Convention. For this purpose, the Committee may, when appropriate, set up an ad hoc conciliation commission;
    (f) In any matter referred to it under this article, the Committee may call upon the States Parties concerned, referred to in subparagraph (b), to supply any relevant information;
    (g) The States Parties concerned, referred to in subparagraph (b), shall have the right to be represented when the matter is being considered by the Committee and to make submissions orally and/or in writing;
    (h) The Committee shall, within 12 months after the date of receipt of notice under subparagraph (b), submit a report:
         (i) If a solution within the terms of subparagraph (e) is reached, the Committee shall confine its report to a brief statement of the facts and of the solution reached;
         (ii) If a solution within the terms of subparagraph (e) is not reached, the Committee shall confine its report to a brief statement of the facts; the written submissions and record of the oral submissions made by the States Parties concerned shall be attached to the report.
    In every matter, the report shall be communicated to the States Parties concerned.
    2. The provisions of this article shall come into force when five States Parties to this Convention have made declarations under paragraph 1 of this article. Such declarations shall be deposited by the States Parties with the Secretary-General of the United Nations, who shall transmit copies thereof to the other States Parties. A declaration may be withdrawn at any time by notification to the Secretary-General. Such a withdrawal shall not prejudice the consideration of any matter which is the subject of a communication already transmitted under this article; no further communication by any State Party shall be received under this article after the notification of withdrawal of the declaration has been received by the Secretary-General, unless the State Party concerned has made a new declaration.

Article 22


    1. A State Party to this Convention may at any time declare under this article that it recognizes the competence of the Committee to receive and consider communications from or on behalf of individuals subject to its jurisdiction who claim to be victims of a violation by a State Party of the provisions of the Convention. No communication shall be received by the Committee if it concerns a State Party which has not made such a declaration.
    2. The Committee shall consider inadmissible any communication under this article which is anonymous or which it considers to be an abuse of the right of submission of such communications or to be incompatible with the provisions of this Convention.
    3. Subject to the provisions of paragraph 2, the Committee shall bring any communications submitted to it under this article to the attention of the State Party to this Convention which has made a declaration under paragraph 1 and is alleged to be violating any provisions of the Convention. Within six months, the receiving State shall submit to the Committee written explanations or statements clarifying the matter and the remedy, if any, that may have been taken by that State.
    4. The Committee shall consider communications received under this article in the light of all information made available to it by or on behalf of the individual and by the State Party concerned.
    5. The Committee shall not consider any communications from an individual under this article unless it has ascertained that:
    (a) The same matter has not been, and is not being, examined under another procedure of international investigation or settlement;
    (b) The individual has exhausted all available domestic remedies; this shall not be the rule where the application of the remedies is unreasonably prolonged or is unlikely to bring effective relief to the person who is the victim of the violation of this Convention.
    6. The Committee shall hold closed meetings when examining communications under this article.
    7. The Committee shall forward its views to the State Party concerned and to the individual.
    8. The provisions of this article shall come into force when five States Parties to this Convention have made declarations under paragraph 1 of this article. Such declarations shall be deposited by the States Parties with the Secretary- General of the United Nations, who shall transmit copies thereof to the other States Parties. A declaration may be withdrawn at any time by notification to the Secretary-General. Such a withdrawal shall not prejudice the consideration of any matter which is the subject of a communication already transmitted under this article; no further communication by or on behalf of an individual shall be received under this article after the notification of withdrawal of the declaration has been received by the Secretary-General, unless the State Party has made a new declaration.

Article 23


    The members of the Committee and of the ad hoc conciliation commissions which may be appointed under article 21, paragraph 1 (e), shall be entitled to the facilities, privileges and immunities of experts on mission for the United Nations as laid down in the relevant sections of the Convention on the Privileges and Immunities of the United Nations.

Article 24


    The Committee shall submit an annual report on its activities under this Convention to the States Parties and to the General Assembly of the United Nations.

PART III


Article 25


    1. This Convention is open for signature by all States.
    2. This Convention is subject to ratification. Instruments of ratification shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

Article 26


    This Convention is open to accession by all States. Accession shall be effected by the deposit of an instrument of accession with the Secretary-General of the United Nations.

Article 27


    1. This Convention shall enter into force on the thirtieth day after the date of the deposit with the Secretary-General of the United Nations of the twentieth instrument of ratification or accession.
    2. For each State ratifying this Convention or acceding to it after the deposit of the twentieth instrument of ratification or accession, the Convention shall enter into force on the thirtieth day after the date of the deposit of its own instrument of ratification or accession.

Article 28


    1. Each State may, at the time of signature or ratification of this Convention or accession thereto, declare that it does not recognize the competence of the Committee provided for in article 20.
    2. Any State Party having made a reservation in accordance with paragraph 1 of this article may, at any time, withdraw this reservation by notification to the Secretary-General of the United Nations.

Article 29


    1. Any State Party to this Convention may propose an amendment and file it with the Secretary-General of the United Nations. The Secretary-General shall thereupon communicate the proposed amendment to the States Parties with a request that they notify him whether they favour a conference of States Parties for the purpose of considering and voting upon the proposal. In the event that within four months from the date of such communication at least one third of the States Parties favours such a conference, the Secretary-General shall convene the conference under the auspices of the United Nations. Any amendment adopted by a majority of the States Parties present and voting at the conference shall be submitted by the Secretary-General to all the States Parties for acceptance.

    2. An amendment adopted in accordance with paragraph 1 of this article shall enter into force when two thirds of the States Parties to this Convention have notified the Secretary-General of the United Nations that they have accepted it in accordance with their respective constitutional processes.
    3. When amendments enter into force, they shall be binding on those States Parties which have accepted them, other States Parties still being bound by the provisions of this Convention and any earlier amendments which they have accepted.

Article 30


    1. Any dispute between two or more States Parties concerning the interpretation or application of this Convention which cannot be settled through negotiation shall, at the request of one of them, be submitted to arbitration. If within six months from the date of the request for arbitration the Parties are unable to agree on the organization of the arbitration, any one of those Parties may refer the dispute to the International Court of Justice by request in conformity with the Statute of the Court.
    2. Each State may, at the time of signature or ratification of this Convention or accession thereto, declare that it does not consider itself bound by paragraph 1 of this article. The other States Parties shall not be bound by paragraph 1 of this article with respect to any State Party having made such a reservation.
    3. Any State Party having made a reservation in accordance with paragraph 2 of this article may at any time withdraw this reservation by notification to the Secretary-General of the United Nations.

Article 31


    1. A State Party may denounce this Convention by written notification to the Secretary-General of the United Nations. Denunciation becomes effective one year after the date of receipt of the notification by the Secretary-General.
    2. Such a denunciation shall not have the effect of releasing the State Party from its obligations under this Convention in regard to any act or omission which occurs prior to the date at which the denunciation becomes effective, nor shall denunciation prejudice in any way the continued consideration of any matter which is already under consideration by the Committee prior to the date at which the denunciation becomes effective.
    3. Following the date at which the denunciation of a State Party becomes effective, the Committee shall not commence consideration of any new matter regarding that State.



Article 32


    The Secretary-General of the United Nations shall inform all States Members of the United Nations and all States which have signed this Convention or acceded to it of the following:
    (a) Signatures, ratifications and accessions under articles 25 and 26;
    (b) The date of entry into force of this Convention under article 27 and the date of the entry into force of any amendments under article 29;
    (c) Denunciations under article 31.

Article 33


    1. This Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

    2. The Secretary-General of the United Nations shall transmit certified copies of this Convention to all States.





AMENDMENT



(i)    Delete paragraph 7 of article 17 and paragraph 5 of article 18;

(ii)    Add a new paragraph, as paragraph 4 of article 18 to read:
        “4. The members of the Committee established under the present Convention shall receive emoluments from United Nations resources on such terms and conditions as the General Assembly shall decide.”; and
    
(iii)    Renumber the existing paragraph 4 of article 18 as paragraph 5.